Hosted by Putfile.com





Fuss og sveiattan. Ég hef enn ekki fundið velþóknun á Kant. Skilyrðislausa skylduboðið fer í taugarnar á mér. Siðfræði hreinnar skynsemi er eitthvað of puritanskt til að ég geti tengt við hana. Jú það er rétt að oft þarf að gera það sem skyldan bíður manni, og jú heimurinn væri örugglega oft betri ef fólk gerði skyldu sína. En skylda er bara svo leiðinlegt orð. Ég er greinilega of mikið með einstaklingshyggju inni núna, tilveruspeki höfðar einhvernvegin meira til mín. Mig langar ekki til þess að heimurinn gangi út á hreina skynsemi og skilji ekki eftir rúm fyrir tilfinningar og langanir. Þær eru að minnsta kosti ofar í mínu gildismati núna. Kanski er það minn galli, en það skiptir ekki máli maður ræður ekki öllu sem manni finst. Einhvernvegin sé ég það sem hræðileg örlög ef maður þyrfti alltaf að segja, já mig langar þetta en nei það er skylda mín að gera hitt. Skylda smylda. En svo segir hann að maður eigi að íhuga allar athafnir-langanir og hugsa sér hvort þær séu réttar. Því maðurinn er svo snillingur í að réttlæta fyrir sjálfum sér það sem hann vill, eigi maður að ímynda sér að athöfnin væri þá gild sem lög um allt mannkynið. Má maður segja ósatt til að bjarga sér frá vandræðum sem steðja að þér NÚNA. -Þá á maður jú að hugsa lengra og hvort maður sé þá að koma sér í meiri vandræði í framtíðinni- en maður væri í þá stundina. En aðalatriðið er þá, mega allir ljúga til að bjarga sér frá vandræðum. Því það er kanski réttlætanlegt í vissri aðstöðu miðað við viss skilyrði- teljum við að minnsta kosti- en Kant segir þvert nei. Þetta getur ekki gilt um alla, þetta er rangt, reglan drepur sjálfa sig jú. Það er augljóst að ef allir ljúga til að bjarga sér úr vandræðum, trúir aldrei neinn neinu sem neinn segir. Hah? undarleg setning hjá mér. Hann hefur jú nokkuð til síns máls helvískur. En samt þráast ég við og finnst hann í heildina stífur og þver. Þetta er maður sem bjó allt sitt líf í sama bæ í þýskalandi, fór ALDREI út fyrir bæarmörkin. Uppalinn af puritanskri fjölskyldu og sögur ganga um það að konurnar gátu stillt úrin sín eftir gönguferðunum sem hann fór í á hverjum degi á sama tíma sömu leið. Annars er þetta dót um að ímynda sér hvort það geti gilt um alla líka hjá Sartre. Þótt hann hafi þannig séð neitað siðferði sem slíku, því maðurinn er jú einn í þessum heimi. En þá ber maðurinn fulla ábyrgð á sjálfum sér og öllu sem hann gerir og öllu sem hann gerir ekki. Og í leiðinni ber hann fulla ábyrgð á öllum hinum, því með hverri athöfn sem hann velur að gera er hann að segja að hún sé "RÉTT" Fyrst hann velur að gera hana hlýtur hún að vera réttlætanleg og líka fyrir alla aðra. Þetta gerir það að valið sem við stöndum frammi fyrir er ennþá erfiðara. Það fer alveg að perla á okkur þegar við þurfum að taka ákvörðun og finnum fyrir þessari þungu ábyrgð á baki okkar. Ábyrgð á valinu, sjálfum okkur og bara mannkyninu...... Og það getur engin hjálpað þér að velja. Þú stendur einn frammi fyrir að segja já eða nei eða gera eða gera ekki. Angistin sem fylgir því að vera maður. Dramatískt ha? Já það finnst mér og mér fannst það líka æði þegar ég las þetta fyrst. Ég var líka alveg uppnumin af sumu sem Simone de Beauvoir skrifaði, við getum annað hvort fylgt eftir....flotið með í lífinu án þess að taka almennilega á því, án þess í raun að finnast neitt, elt aðra og hlýtt þeirra skoðunum. Eða tekið ábyrgð og skapað þá persónu sem þú ert. Þú ert það sem þú gerir ekki það sem þú ímyndar þér. Hún var jú ein fyrsta kvenréttindakonan, skrifaði Hitt kynið kring um 1950 minnir mig. Þar sem hún segir heilan helling, en meðal annars að konan hafi gert mikið af því að fylgja bara eftir og hlýða. Það sé á hennar ábyrgð að skapa sjálfa sig og vera eitthvað. Það er líka merkilegt það sem hún segir að Konan sé skilgreind sem Hitt kynið. Maðurinn er skilgreindur sem Hinn eini og við sem hinir. Gegnum gangandi í sögunni er þessi tilhneiging, Hvítir - hinir svartir, Gyðingahatur hinn sanni kynstofn og svo gyðingar eru hinir. En það undarlega er að þetta gildir um minnihlutahópa, en konur er aldeilis ekki minnihlutahópur, heldur helmingur mannkyns jafnvel rúmlega það. Það er kanski fyrir okkur, að meðan minnihlutahóparnir þjappa sér saman undan kúgun, þá eru konur jú í öllum hópum. Og hafa aldrei staðið saman sem slíkar. Hvítar konur fylgja hvítum mönnum, og svartar konur fylgja svörtum mönnum. Það kemur á undan að fylgja kynþættinum, en að fylgja kyninu. Er það satt sem hún segir, að konur byrji á því að skilgreina - ég er maður, en ég er kona. En menn segja bara ég er maður. Hefur þetta í raunveruleikanum einhverja þýðingu fyrir okkur? Svo segir hún líka, við erum ekki konur- við verðum konur. Neitar því algjörlega að það sé eitthvað meðfætt eðli sem segi hvernig við högum okkur. Eru ekki svona bækur einsog konur eru frá venus en karlar frá mars algjörlega niðurlægjandi fyrir bæði kynin? Einhverjar staðlaðar ímyndir á því hvernig við eigum að vera samkvæmt samfélaginu? Konur vilja fast og stöðugt samband - Alltaf- og karla vilja bara ríða - Alltaf. Konur keyra illa, en menn geta aldrei gert tvennt í einu. Karlar eru kaldlyndir og konur eru tilfinningaverur. Er ekki bara til allar gerðir af fólki, félagsleg mótun hefur auðvitað mest að segja, en eru svona steríotýpu fyrirmyndir ekki bara að gera illt verra. Hvað er málið með það að það voru reglur í þinginu (franska eða breska) að konur máttu ekki vera þingmenn því þær væru svo miklar tilfinningaverur að það truflaði skynsemishugsun og rökvitið. Fáránlegt. Einsog karlar séu ekki eins fylgjandi sínum persónulegu "löngunum" og konur. Einsog konur séu svo brenglaðar af eigin tilfinningalífi að þær geti ekki hugsað heila setningu sem vit er í. Held frekar að karlarnir hafi verið hræddir við þær. Ef það er einhver truflun, þá væri það heldur ekki af kvennanna hálfu, heldur að karlarnir dyttu í það að sýna sig fyrir þeim sem þeim langaði í, og misst þar af leiðandi einbeitingu. Veit það ekki, Þoli bara ekki tilbúna staðla af samfélaginu sem allir eiga að fylgja eftir og vera góðir. Þoli ekki reglur sem ekki má spurja um en af hverju. Svo skilyrðislaust skylduboð er úti í mínum hugleiðingum

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com