Hosted by Putfile.com





Sólarkaffi í rigningunni

Það er svo gaman þegar maður nær að afreka mikið á einum degi, vakna snemma sem er ekki venjan, hlaupa og fara í hádeigiskaffi til elsku langömmu sem er búin að vera svo lasin, kíkja á kaffihús, fara á þrjár listasýningar, mæta í bráðskemmtilegt sólarkaffiboð með pönnsum hjá júdith og semja gríðarlega ódýrt kveðna trílógíu ljóðbálk í gestabókina með tilheyrandi hlátrarsköllum, ætla elda fisk í ofni í kvöldmat og mæta svo í idolgláp og hitta kannski siggu í miðnæturkaffistund.

Fúff góður dagur. Læra smæra, ég hef lífið til þess og auk þess í gríðarlegri lægð á trú minni á eigin hæfileika og möguleika til að komast inn í listaskóla á næstunni. Sat svitnandi fram á nótt við að lesa inntökuskilyrði, próf og viðtöl og tungumála skilyrði. Kannski mikla ég þetta fyrir mér en þetta er engin smávegis vinna. Kannski ætti ég bara að taka mér hlé, vinna í eigin verkum og ferðast um og eyða peningum sem ég á ekki, það hljómar svo miklu betra og ábyrgðarlausara í bili.

Jæja fiskurinn bíður eftir að ég galdri fram glæsilega kvöldmáltið úr honum svo ekki tjáir að hangsa. Alla prossima...




upp og niður og útumallt

Já einhverntímann hélt ég því fram við ónefnda vinkonu mína að það væri betra að vera flækja en þráður. Með því átti ég við að það sé betra að lifa lífinu í flækjum og uppum og niðrum tilfinningalega heldur en í beinni línu jafnvægisins. Enda er eina leiðin til að vera í stöðugu jafnvægi að afneita því algjörlega að hlutir hafi áhrif á þig. Jæja ég rifja þetta upp reglulega eða í hvert skipti sem ég bölva því í huganum að eitthvað sé of erfitt eða hatast við flækjur og vandamál.

Ég hef lítinn einbeitingarkraft þessa dagana og get bara einbeitt mér að einu lífstílsbreytandi atriði í einu. Of mörg loforð um prógrömm og morgunvakningar virkar ekki hjá mér en þó hef ég verið mjög spræk í labbi og sundi og morgunjóga eða sem gerir mér mjög gott andlega. Tími með sjálfum sér er gefandi stundum. Taka alveg innri íhugun í gegn. Maður getur ekki verið hnútur þótt maður sé flækja, svo nauðsynlegt að finna lausnir á einhverjum snuðrum á þræðinum áður en þær verða verri. Skólaleiði greip mig krampataki og ég get varla hugsað mér að opna bók, enda á ég engar ennþá og að vakna snemma fyrir tíma er fjarri mínum þankagangi. Ég sé glitta í endalokin á þessu en samt of langt í burtu. Eins athyglisskert og ég get verið þá er ég komin strax yfir þennan lokasprett og í næsta verkefni og myndi gefa aleiguna fyrir að þurfa ekki að skrifa einhverja helv. BA ritgerð í sumar.

En gáfumannagenið sem skilaði sér til sín með móðurmjólkinn ásamt sæmilegum skammti af praktískum gildum sér að það er fáránlegra en orð geta lýst að vera á þriðja ári og hætta áður en maður gerir ritgerð. Veit ekkert hvað ég á að gera. Best að fara í sund á eftir og íhuga þetta meðan ég svamla fram og tilbaka....fram og tilbaka.... auðvelt að fara í sund, engar ákvarðanatökur þar.




Gott er að vera glaður

Milli jóla og nýárs var ég að kvarta fyrirfram yfirþví að janúar væri erfiður og leiðinlegur mánuður. Þá væri svo dimmt og þungt og blankt og rómantíkin búin og allir farnir og skóli og ekkert að gera. Vá hvað ég hafði rangt fyrir mér!! Það hefur bara sjaldan verið eins mikið prógramm í félgaslífinu, allar helgarnar bara bókaðar hjá góðu fólki í ólíkum tilefnum, það eru ennþá jólaljós þökk sé reykjavíkurborg og þeir sem fóru koma flestir aftur....fyrr eða síðar! Þótt blankheitin séu til staðar þá færðu þau mér þá hugljómun að það er hressandi að labba í klukkutíma á milli staða, og rómantíkin blómstrar bara í manni sjálfum burtséð frá öðrum aðilum. Besti Janúar í mörg ár held ég barasta. Ofurjákvæðnin gæti haft eitthvað með föstudagsfríið og morgunjógað og þá staðreynd að í dag er listasýningarrölt en í kvöld er bjor með argentísku þema. Góðir tímar ;)




Labbilingur

Já það er hressandi labbi syndróm sem fylgir blankeitum námsmanna án námslána sökum skorti á einkunnarskilum kennara og eiga ekki fyrir strætó... Ég komst að því að það er ekkert svooo langt að labba í listaháskólann frá hlíðunum. Það er alls ekkert svo langt frá alþjóðaskrifstofunni í sundhöllina og svo uppí hlíðar. Rassinn frýs kannski næstum af manni en það er ákjósanleg hugmynd, kannski kala lærapokarnir bara af og hverfa hehe.

Alþjóðaskrifstofan er með hundrað möppur og bæklinga og sniðugheit um nám erlendis. Þegar maður er ekki með niðurnjörvaða hugmynd um hvert maður ætlar og hvað maður ætlar þá er það meira einsog að hræra upp öllum möguleikunum í graut með slaufu. Ég er sem sagt ekki mikið nær um framhaldið eða hvert ég ætla eftir þetta tveggja tíma session. En spennt fyrir öllu mögulegu. Helst á því að sækja um í listaháskólann í köben, ég meina það sakar ekki. Versta sem gæti gerst er að ég fái nei. Finnst London líka spennandi en mér finnst þó skólagjöldin sem því fylgja ekki eins spennandi. Gæti líka endað aftur á Ítalíu, nú eða bara Hollandi hver veit.

Sjarmi sundhallarinnar er gífurlegur. Fékk þó augngotur þegar ég tróð mér með rjóðar kinnar í bubblupottinn á milli sex stykki manna á sjötugsaldri í vinnumála umræðum. Sjarmi yfir því að sitja úfinn og rauður og hlusta á þjóðmálin skeggrædd í myrkrinu og gufan stígur upp af heita vatninu í frostinu. Haha svo lærir maður allaf eitthvað nýtt. Einn kallinn var að tala um rafmagnsbilanir og ég komst að því að allsherjarrafmagnsleysið sem skall á úti á Ítalíu í vor gerðist vegna þess að það féll risa tré á raflínur í Sviss. Ég kunni ekki við að koma með reynslusögur úr blackoutinu sjálfu til kallanna en glotti yfir því að hafa verið þar. Einkennilega stolt af því að ég eigi reynslu um þetta. Það er svo gaman að eiga reynslur. Og sögur.




ónákvæmar tilfinningar

Það er alltaf óvænt ánægja þegar manni finnst að einhver skilji mann. Þá sérstaklega þegar ég fæ oft að heyra að það sé ekki hægt að skilja hvað ég er að tala um þegar ég tala í hringi. Fólk er svo ólíkt uppbyggt að það henntar einfaldlega ekki öllum að hugsa eða velta sér uppúr hlutum sem eru nauðsynlega án svara. Mér finnst bara ekki að maður þurfi niðurstöðu til þess að eiga góðar umræður. Svo þegar ég finn fólk sem er sammála og finnst gaman af slíkum vangaveltum er ég komin í feitt. Ég á ekki orð yfir þeim tilfinningaskala sem er að spilast í sjálfri mér þessa dagana af ástæðu sem mér er nánast hulin. Hvernig getur svona gerst, svona hratt, svona órökrétt og svona undarlega? Ég er farin að trúa á hluti sem ég hef aldrei aldrei trúað á. Er þetta tilviljun?

Þrátt fyrir alla mínar pælingar í orðum og skorti þeirra á raunverulegri meiningu og hæfni til að segja það sem maður er að hugsa, hvernig manni líður og hvernig maður upplifir hlutina, þá er ég í námi sem gengur eimitt út á það. Setja í orð tilfinningar fyrir listaverkum, stefnum og öðrum óhlutbundnum hugmyndum sem er bara ekki auðvelt. Mér finnst þetta bil á milli orða og tilfinninga sérlega spennandi og þessvegna hafði ég mjög gaman af því að rembast við að koma frá mér skoðunum og reyna að miðla því sem mér finnst. Aftur á móti hef ég takmarkaðan áhuga á fræðimennsku og nákvæmnisvinnu og læt fara gríðarlega í taugarnar á mér þegar ég var dregin rosalega niður fyrir það á verkefnum. Ég geri mér grein fyrir að háskólanám gengur út á akademísk vinnubrögð en ekki tilfinningalegt innsæi og hæfni í orðum en það er samt eitthvað óþolandi við umsagnir í þeim anda að maður hafi greinilega mikið innsæi og skilning og flott framsettar skoðanir en tilvísanirnar séu crap og þar með verkefnið allt. Eða þannig, ekki beint þessi orð en hugsunin eflaust.

Ég fékk alveg ógeð enda virðist umsagnir sem þessar loða við mig. Á öllum mínum stigsprófum í þverflautuleik var mér hrósað sérstaklega fyrir að spila með mikilli tilfinningu, hafa góðan skilning á blæbrigðum og hæfileika en að tæknileg atriði og tónstigar skorti nokkuð. Myndlistakennarar sögðu mér að mig skorti nákvæmnisteikningu þótt ég hefði góðan skilning á myndbyggingu og sérlega góð í litanotkun. Ég er góð í að læra tungumál og tileinka mér málfar en ekki eins góð í málfræði. Ég er greinilega bara ekki nákvæm og það fer passlega í taugarnar á mér, en samt finnst mér það aldrei vera aðalatriði svo ég veit á mig sökina. Mig klæjar í fingurnar til að fara út í geira þar sem ég get sjálf ákveðið hvort nákvæmni sé aðalatriði eða ekki og þar sem ég er að vinna með mín eigin point en ekki bara greina skoðanir annarra.




Og fleiri ár

Gleðilegt ár á línuna. Það er gleðilegt þótt við rembumst stundum við að kalla okkur gömul og fá taugatrekkjandi magakippi yfir öllu því sem við erum ekki ennþá, eða viljum verða eða gætum orðið eða ætluðum að vera. Ég er að lenda í nýjum krossgötum og finn fyrir nettum fiðring yfir ábyrgðinni sem fylgir því að taka ákvörðun. Loka einni götu og velja aðra án þess að vita hvort það sé rétti áfangastaðurinn sem ég er að stefna að. Það er jákvæður fiðringur, það er spennandi að velja úr möguleikum og ég er endalaust þakklát fyrir að hafa þessa möguleika.

Fólk er gott, ég fékk tækifæri til að taka munnlega ítölsku prófið sem ég "gleymdi" fyrir jól og þar með náði þeim áfanga með ágætiseinkunn. Ég er mjög þakklát kennaranum að redda mér. Búin að hafa það ótrúlega gott um jólin einsog ég tjáði mig um hér seinast, og er ennþá glöð þótt rómantíkin sem ég tjáði mig um hafi skroppið saman fyrr en ég gerði ráð fyrir. Það er ekki alltaf fyrirséð hvort svona skot springi út eða lognist út af. Ég gæti sagt að það hefði nú haft áhrif að viðkomandi væri hvort eð er á leið úr landi og ástæðulaust að svekkja sig á því, ég gæti sagt að það væru bara ekki réttar aðstæður og umhverfið stjórnaði því alltaf hvernig svona þróaðist. Ef bara ekki ég hefði síðan hitt aðra manneskju sem náði svo ótrúlega til mín á einum degi að ég bara hef sjaldan vitað annað eins. Það er fyndið, fær mig allavega til að glotta útí annað með stelpunum yfir því hvað ég er kannski rugluð. En það er samt einsog uppljómun að finna eitthvað í sjálfum sér sem maður vissi ekki að væri svona sterkt. Mitt í allri kaldhæðninni og afneituninni dúkkaði alltí einu upp einhver nett væmin og vanrækt taug. Kannski er maður svona í lögum, þegar maður er einu sinni búin að vinna í því að opna sig meira fyrir því sem gerist þá allt í einu er maður berskjaldaður. Já það er sennilega satt að ef ég hefði snert af rökhugsun myndi ég gera mér grein fyrir að ef ég tala ensku við einhvern eru meira en helmings líkur að hann sé ekki búsettur hér á landi. Akkúrat núna er mér alveg sama, það er snilld að finna týnda hluti í sjálfum sér auk bjartsýni og draumóra. Þar að auki eru mánuðir minna eftir því sem maður er eldri og möguleikar eru alltaf enda er heimurinn minni en maður gerir ráð fyrir. Og er það ekki skemmtilegt að trúa því með bros á vör að það geti allt gerst og jafnvel gengið upp. Hvort sem það gerist eða ekki þá er það góð tilfinning. Gengur lífið hvort eð er ekki út á upplifanir? Svo það má alveg eins vera mikilvæg upplifun þótt hún vari stutt. Ef það væri hundrað prósent öryggi sem ég leitaði að þá sneri heimurinn sennilega öðruvísi fyrir mér en í bili er það bara ekki í fyrsta sæti.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com