Hosted by Putfile.com





sybbin

Í byrjun tólftímavaktar eftir tveggja tíma svefn eftir smá bjór og eina íbúfen er óralangt í rúmið. Örlitið rauðeygður og augun fyllast af tárum við hvert geisp en hinsvegar fékk ég gefins saltlakkrís frá gesti sem meikaði ekki svona salt nammi. Lakkrís og kaffi er undarlegt saman.

Rigningin er mætt á svæðið. Ánægð með það bara þá skín ekki í augun á mér. Augnlokin þyngjast einsog það séu hengd lóð á þau. Kyrrðin er einsog fjandmaður og það liggur við að mig vanti einhver átök. Samt nenni ég ómögulega að díla við það þegar kerfið eða móðurstöð hrynur og allt er lokað eða frosið. Einsog að sprikla um og stjórna handalaus að missa tölvukerfi og net úr þjónustunni. Einsgott að ég fékk heimsent nokkrar flöskur af magic í vinnuna sem ég get sturtað í mig í stórum gúlsopa áður en ég krem dósina og hnykla nýfengna vöðvana með eldmóð og krafti. Eða hugsa um það meðan ég geispa stóran og hringa mig í óþægilegum rússustól og langar að kúra mig niður undir sæng.

Hvernig segir maður nei þú misstir af rútunni væni, hún kom víst í morgun þó þú hafir verið að bíða. Viltu aðra ferð seinna í dag?, hey nei ég reddaði þessu hún er að koma, hinkraðu bara þolinmóður og vonum það besta, á rússnesku? Þar mættu finnarnir ofjörlum sínum. Smám saman einfaldaði ég enskuna niður í að segja YOU, BUS, NOW, WAIT og sína fimm mínútur með einni hendi og benda og pota útí loftið til að leika að þau biða úti og rútan kemur. Þau skildu mig samt ekki. Frústreruð labba í hring í lobbínu og ég anda léttar, þau hafi þá skilið eitthvað. En taka sig svo til og fara í jakkana og tölta niðurlút í burtu. Í miðri afgreiðslu við aðra sé ég þau fjarlægjast og ætla sko ekki að láta rútuna koma aftur fíluferð og hleyp á fullri ferð upp klapparstíginn (þau skildu auðvitað ekki, excuse me, wait, sorry, just a moment eða neitt annað, svo pota í öxlina varð fyrir valinu) agndofa yfir reittri stúlku sem babblar og bendir og tosa í ermina á þeim noooo. you. now, bus!!! og bendi örvæntingarfull til baka. Örlítil ljósapera virðist kvikna eða þau allavega þora ekki annað en hlýða mér og tölta tilbaka og sitja þæg á stól þar til hin fræga rúta lét sjá sig.

Ef ég er orðin permanent rauðeygð af ofnotkun á linsum þá er það bara í stíl við hárið.




þar er svo undarlegt....

Svo hringir síminn á hótelinu. Ekki óvenjulegt. Á línunni er ameríkani að hringja frá bandaríkjunum. Ekki óvenjulegt. Hann spyr hvort ég tali ensku. Ekki óvenjulegt. Svo spyr hann hvort asta sé við. Það er óvenjulegt. Ég segist vera ég. Sem er eðlilegt. Hann kynnir sig sem ljósmyndarann og vill fá upplysingar hvert hann eigi að senda myndirnar. Ég hlæ. Gef samt emailið mitt og samþykki jafnvel að hann sendi myndirnar lika í pósti. Full mikil vinna fyrir myndir þar sem ég er nákvæmlega jafn sybbin og mig minnti.

öll mínusstig vikunnar fara til priksins. Afspyrnuléleg þjónusta og vont&kalt kaffi og hálfflatur bjór.




náttúruleg þögn og náttúruhljóð

Sandhverfa á sægrasbeði með þurrkuðum þarakransi og aspasfroðu. Andarbringa á salatbeði með eplamauki og sósu, snjókrabbi með limegrashlaupi og mangó, laxatartar með chillimango. Kókosís og panna cotta með mantófroðu. hvítt og rautt í straumum, kaffi og konfekt og líkjörar. Ég mæli hiklaust með silfrinu. Namm. Þetta var rooooosalega gott þó ég fari örugglega mjög rangt með einhverjar af matarlýsingunum. Mikið er gaman að fá gefins mat og verða léttur á mánudagskvöldi með hressum stúlkum úr vinnunni.

Reykjavík varð svo rómantísk um daginn að mig langaði næstum að setjast á bekkinn í þögninni og soga inn í skilningarvitin fegurðina fyrst ég mundi ekki frekar en venjulega eftir að vera með myndavélina mína. Rétt þar sem ég staldra við í logninu og horfi á spegilslétta grængörótta tjörnina undir bleikgylltum himni en samt farið að rökkva og útum alla tjörn voru litlar þúfur af öndum sem flutu um sofandi með höfuð undir væng eða Ein og ein sem sneri bara rassfjöðrunum upp við að grípa eitthvað úr tjörninni sem er fyndin stelling, stökk fram ungur náungi með myndavél svo einhver náði þessu andartaki allavega á filmu. Loftið var einhvernveginn þykkt af sumarlykt, blóm og gras og kannski úldnu slýi úr tjörninni fögru, samt nógu stillt til að manni finnst maður þurfa að leggja við hlustir. Einsog þurfi að sussa á sjálfan sig til að heyra eitthvað í veröldinni sem hún hvíslar bara.

Silfrið sér manni líka fyrir náttúruhljóðum á salerninu. Við fyrsta spræn velti ég fyrir mér hvort það væri ímyndun að ég heyrði látstemmdan fuglasöng. En þá færðist það í aukanna og fossniður og páfagaukager hóf upp raust sýna. Tropical spræniferð. Mig langar líka í frumskóg. Helst sæmilega pöddulausan.




um hlátur og gleymsku í draumi

Það er ekki hægt að vera í vondu skapi eftir að vakna við sjálfan sig hlæjandi. Vera í hláturskasti en hálfsofandi og hlæja svo enn meira því þú manst ekki af hverju þú ert að hlæja og það eina sem þú manst inniheldur gulrætur, mörgæsir og teiknimynd sem þó er einhverskonar útskýring í draumnum.

Stundum hittir heimurinn naglann á höfuðið þegar skellur saman af tilviljunakenndu offorsi heill frídag OG sól. Flakkað og borðað úti þó ég hafi á endanum snúið baki við mestu sólinni enda minnug bruna. Sólarvörn, bjór og jazz úti á austurvelli njótandi einsog allir hinir sem þöktu hvern krók og kima. Kannski eru þessir dagar betri því þeir eru fáir. Nýtur maður betur þess sem er lítið af? Maður verður allavega ekki leiður á því á meðan maður fær ekki nóg. Það er ennþá sól og ég treysti á að hún verði þarna alla helgina. Hláturinn er velkominn líka bæði í svefni og vöku.

Gott er að vita eftirfarandi þegar við fjármálagúrúarnir bröskum með allar krónurnar mínar, í heimabankanum mínum er tekið fram að; ,,Greiðslur yfir 10 milljónum króna á reikninga í öðrum bönkum eða sparisjóðum, sem framkvæmdar eru fyrir kl. 9:00 og eftir kl. 17:00, eru afgreiddar næsta virka bankadag." Vá hvað allir eru ríkir hjá glitni. Where´s my share?




verkefnalistinn #1009

Mér hlýnaði um hjartaræturnar við að hitta nöfnu mína í dag. Rétti henni hlut sem var merktur asta og gerði henni ljóst með fingramáli og látbragði að ég væri líka ásta. Á milli okkar var hjartnæmur skilningur orðleysisins og brosað eins blítt og hægt er og hún sagði mörg orð við mig á finnsku og var óskaplega feimin yfir að ég skildi vera að bulla þetta á ensku.

Ég er búin að ákveða að einhverntímann ætla ég að uppræta þennan bitra misskilning um að finnar séu agalegir. Besta leiðin er að horfast í augu við óttann. Takast á við fordómana með upplýsingu. Þessvegna hlýt ég að fara til finnlands bráðum, eða allavega einhverntímann. Ef biturleikinn situr enn í mér fer ég á hótel og mæti of snemma í morgunmat og tek út karmað mitt. Mér hefur samt tekist að yfirvinna nokkra, sem sýna tilfinningar sýnar og brosa breitt en tekst með herkjum að segja herbergisnúmerið sitt. Hinsvegar finnst mér þeir frekar sætir svona mállausir, feimnir og stífir. Einsog önnur tegund. Kannski blanda af íslending og rússa. Eingöngu í hópum verða þeir að martröð.

Hver þarf ræktina þegar hann hefur þrjárhæðir og þunga kassa. Tveir bílfarmar en samt sést ekkert á yfirborðinu því allar hirslur og geymslur voru fullar af ég veit ekki hverju. Búin að fylla andyrið í foreldrahúsum og farin að óttast hvernig mér á að takast að fela þetta fyrir þeim sem koma heim á morgun. Þó karlinn byggi við bílskúrinn til að koma jeppalingnum inn þegar hann bilar einsog gríðaroft þá held ég hann fái aðsvif þegar ég yfirtek það með hillum og kössum til geymslu í óákveðin fjölda af árum. Kannski sæki ég þetta á þrítugsafmælinu mínu.




syrpur

Nöfn breiðast út og eru til í hinum ýmsu tungumálum. Ásta er samt ekki mjög algengt að ég hélt, nema kannski í norðurlandamálu einsog dönsku þar sem það er nafn sem prýðir eingöngu konur á þeim aldrei sem búa á elliheimilum. Ljósmyndarinn tilkynnti mér að hann ætti góða litháenska vinkonu sem héti líka ásta og það væri þjóðlegt nafn. Í miðjum fimmtiumanna hóp af óenskumælandi en feimnislega brosandi finnum leyndist lítil kona með krullur sem heitir það líka. Skrítið.

Ég geri allt á einum degi og svo ekkert hinn. Syrpur eru munstrið mitt. (syrpa er líka finnskt nafn) Klikkklakka týnd í býkó á breiddina og drösla heim kössum. Drösla kössum niður af þriðju hæð á hælaskóm og uppsker breið glott frá körlunum sem stóðu með kerrur og ungabörn í spjalli úti á gangstétt. Fer ekki í ræktina en svitna við að skúra OG straujaði skirtuna mína. Ég hef aldrei áður straujað skirtu af sjálfri mér. Er ég fulllærð í að vera virðuleg?

það liggur við að í maníunni fari ég að prenta út excel skjal með plani næstu vikna. Sem ég fer auðvitað ekki eftir en líður betur í blekkingu minni að það hjálpi.




what is your name? ...ðoöögglll?

Stórmerkur atburður átti sér stað. Ég mætti til vinnu klukkan átta að morgni í en það ku vera í fyrsta skipti í áraraðir sem það hefur gerst. Í dag hressleikinn var bara hinn besti. Brosti út að eyrum framan í kúnna og samvinnufólk og fannst bara hressandi að horfa á himnana bresta yfir miðbæinn og rigninguna hlussast niður.

Þetta fer allt í hringi svo sem, en upp fyrir mér rann að í ljósi viðraða kenninga um sjö ára tímamót, þá hef ég smám saman á síðustu sjö árum farið frá morgunmanneskju yfir í næturmanneskju þar til hringnum er náð og ég gæti verið titluð sem morgunmanneskja á ný. Allavega í hlutastarfi.

Sú var tíðin að ég mætti í skólann átta, svo aldrei klukkan átta, svo myndlistin þar sem ég komst upp með að mæta alltaf níu eða síðar. Háskólinn gaf mér stundarskrá sem byrjaði aldrei fyrr en hádegi. Ítalski skólinn ætlaðist enn síður til þess að heimspekilega sinnaðir nemendur mættu fyrri part dags svo skólinn var oftast á bili eitt til átta. Þjónar eru aðallega notaðir á kvöldin og allavega ekki fyrr en hádegi en lokapunktur hringsins svo auðvitað að vaka allar nætur á launum.

Þetta er kannski eina sem ég hef getað sett undir blessaða kenninguna, en kannski er það því við þurfum almennt að endurskilgreina tímamót í lífi einhvers. Það er nýtilkomin blekking að tímamót tengist skólalokum eða húsnæðisskiptum og öðru í þeim flokki.

Rauðhærður ljósmyndari á hótelinu spyr mig allra mögulegra og ómögulegra spurninga. Hann uppskar bakföll af hlátri þegar hann spurði dolfallinn hvort það væru í alvöru fleiri rauðhærðir á íslandi. Ég er búin að kenna honum orðsifjafræði og framburð í framhjáhlaupi en hann er áhugamaður um íslensk sérkennilegheit. Ég á nú ákaflega frambærilegt nafn til að láta útlendinga bera fram bæði þonn, ö og ll hliðarhljóð.

Ljósmyndarinn heimtar svo að fá að taka mynd af mér og þrátt fyrir miklar mótbárur krumpaðrar og nett sveittrar stúlku sem svaf yfir sig, fékk engan morgunmat né sturtu og gat ekki lagað lekandi uppþvottavél, þá var mér plantað í stól og smellt af. Hann hefur greinilega gaman af því að ferðast og taka myndir af random fólki.




hanging in there

Ég er hérna ennþá. Eða einhverstaðar allavega þar sem tíminn virðist skyndilega hafa skroppið saman einsog gömul teygja eða ég einsog hundur í óðönn við að elta skottið á mér. En einsog hvolpi finnst mér bara hreint ekki leiðinlegt að hlaupa í hringi og kemst vel af án þess að ná að skúra inni hjá mér, hitta alveg alla sem hringja í mig né krossa við neitt á verkefnalista sumarsins. Það gerist allt sem þarf að gerast á endanum þó það sé ekki á tímaplani og svo fær maður sér einn og einn bjór inná milli til kælingar.

Greinilega er veitingabransinn í kröppum dansi í sumar þegar hringt er mörgum sinnum á dag auk sms frá einhverjum að þeim sem ég lofaði að vinna hjá á frídögum, sem síðan eru svo fáir... ehem að ég hef ekki tíma. (skotum á það að stundum vinni ég bara um fjögurra tíma vinnudaga er beint annað) Gott að vita að manns er saknað en fyrr má nú aldeilis fyrr vera.

Héremeð er þeirri staðreynd kastað fram í veröldina að ég á afmæli eftir um tuttugu daga og verð þá tuttuguogfimmára um verslunarmannahelgina. Svo þeir sem síðan þekkja mig og eru ekki útilegupakk geta búist við því að vera skyldugir til að mæta einhvert og fagna einhvernveginn með mér.

Nýjar upplýsingar í líkindabankann. Ég er víst ákaflega lík listakonu frá filipseyjum, það er að segja sérstaklega prófillinn. Litlu sætu þernurnar mínar sem ná mér uppað olboga og eru hörkuduglegar og skemmtilegar tilkynntu mér það flissandi í dag. Mér finnst það áhugavert með mitt litarhátt en ég meina. Allt til.

Beinverkir og hálsbólgubömmer. Fljótandi sólhattur. Miðsumarflensa?

Hundrað bls leigusamningar með morðfjárhárri skrifstofuþóknun og þriggja mánaða fyrirframleigu OG þriggjamánaðaleigu depositum auk almennrar leigu gerir drauma mína um góðmennsku dana við námsmenn að engu. Fjárhagssumarið mikla er líka orðið álíka götótt og alvöru gaudaostur eða jafnvel einsog einhverskonar hvítlaukspressa þar sem þrátt fyrir mótstöðu þá virðast aurarnir samt kreistast út um götin. Aurarnir liggja svo í valnum á gulum bankabréfum sem hóta skömmum. Meira segja þótt ég hafi týnt báðum kortunum mínum í sumar þá hægir ekki á hvarfinu. Þeir hverfa jafnvel hraðar en tíminn.

Hugsa sér allt sem ég hlýt að vera að fá í staðinn bæði í tímanum sem líður og fyrir þessa peninga sem komu eða fóru. Það er sko ekki leiðinlegt að vera til.




bankadúddar

neeeeeiii. Hún rósa mín hefur bara hætt störfum hjá íslandsbanka án þess að láta mig vita. Eftir þrjú ár var ég vön bankaviðskiptum í gegnum email þar sem nóg var að segja hey elskan, nennirruu að framlengja... og fá svör já elskan allt fyrir þig...

nú þurfti ég að rökræða ástæður þess að hafa helv yfirdrátt sem er mjög óhagstæður og dúddinn skyldi ekkert í mér að hafa hann ofan á aðrar skuldir. Hann sýndi undarlegum rökum mínum lítinn skilning og mig grunar að hann hafi klæjað í fingurnar að senda mig á fjármálanámskeið. Vextir og kostnaður eru bara fylgikvillar hversdagslífsins í minum augum.

Rósa hefur örugglega hneykslast einsog ég á nafnabreytingunum, alltíeinu var ég í viðskiptum við glitni en ekki isb. En mér er svo sem sama hvaða nafn reikningarnir mínir bera. Mér finnst rauður líka fallegri en blár ef út í það er farið.

það er kannski af sem áður var að bankafulltrúar leggji sig í líma við að vera kammó eldri frænkur viðskiptavina sinna og passa uppá þá einsog lömbin sín. Nú var þetta bara einhver nýútskrifaður viðskiptafræðingur með bindi, í lakkskóm og gel í hárinu og metnað í að hemja kjánaskapinn.




i just look like me

Lítill heimur.

Lítill miðaldra indverji fer mikið að tjá sig um austuríska fegurð mína og almennan yndælishátt. Hann furðar sig á því að ég sé óíslenskuleg sem ég hinsvegar kannast ekkert við. (gebba-gerðu vettvangskönnun, er einhver sem líkist mér í þessu landi?)

Litli miðalda indverjinn sinnir síðan verkefnum sínum á íslandi og ráðstefnum. Þar afgreiðir hann yndisfríð brúnetta sem honum finnst engli líkust. Hún reynist vera frænka lobbígellunnar. Honum finnst ísland lítið og fólkið ólíkt.

Ég skil stundum ei samhengið. Hverjum lík og ekki og engin er sammála síðasta ræðumanni. Ég er alveg einsog pabbi, en samt alveg einsog mamma, en samt ekkert lík hvorugu. Ein íslensk segir að ég sé óskaplega ítölsk. Ein ítölsk er harðósammála og segir að ég sé íslenskari en allt með straumlínulaga andlitsfalli sem allir íslendingar búi yfir(henni finnst við lin-andlituð en fílarða samt). Eða írsk fyrir hárið og nýjast austurísk. Svo líkist ég einhverjum barnungum söngkonum og leikkonum. hvaðan kemur þessi árátta fólks til að senda mér skilaboð á myspace um hverjum ég líkist. Af listanum dreg ég þessar ályktanir;

Ég virðist yngri en ég er á myndum og fólki finnst allir rauðhærðir líkir? Er þetta einsog með vesturlandabúa sem finnst asíubúar keimlíkir? Hvar er líkt með mér og lindsay lohan eða charlotte church eða cate winslet annað en eitthvað hár á einni mynd. Já en maður á víst mörg andlit og sýnir þau við misjöfn tækifæri.

Kvöld en ekki nætur. Þær breytingar sem mögulegar voru að svo stöddu og bjarga mér að einhverju leiti frá næturviðsnúning. Hálf dagvakt og hálf næturvakt og svefn í eigin rúmi. Á skjön við eðlilega vinnutíma en kannski er ég bara ekkert eðlileg. Allt er fínt enda er ég amaba og aðlagast öllu.




ein út og önnur inn

Einu sinni voru öll föllin saman í strætó, á einni stöðinni stökk brjálæðingur inn og öskraði yfir hópinn "upp með hendur eða ég diffra ykkur öll" þá skoppaði e í exta(já veldinu x) á fætur og sagði na na na na na na ég er e í exta þú getur ekki diffrað mig.....

Ertu þá farin, ertu þá farin frá mér hvar ertu núna? ...... Gerður og kötturinn eru flutt út. Ekki bara flutt út heldur flutt úr landi. Vín vín vín er borgin hennar gebbu, gebba töff ójá hún býr þar. Hún lofaði mér að endurlífga bloggið sitt svo stay tuned for austeriche sagen gelesen. Eftir árs prógramm af kaffisamsæti og yndislegri samveru við iðjuleysi, lærdóm og kaffibarinn þá munum við ekki hittast svo mánuðum skiptir. Mætti annars kisunni hennar/okkar uppi í grafarvogi þar sem hún skreið milli trjárunna í húsi foreldra minna sem er einmitt beint á móti húsi foreldra hennar. (gerðar ekki kattarins) En kötturinn vildi ekkert við mig kannast og horfði á mig tortryggnum augum einsog ég hlyti að ætla að skerða frelsi hennar og troða henni í box og í bíl eða í band.

Einsog ég hef gefið henni skretsí og ómælda athygli þá held ég að hún sakni mín bara ekkert. Ósanngjarnt.

Gerður farin og söknuður hvílir á eiríksgötunni. Pétur grætur krókódílatárum á háaloftinu og bölvar því að hafa aldrei kynnt sig betur. En tómleikann varð að fylla og í herbergið innaf eldhúsinu er mætt ný stúlka til leiks. Lítil breyting fyrir heimilishald síðustu vikna nema nú á Silja frænka sitt eigið rúm þarna í stað þess að samnýta mitt, borgar leigu og með því fylgja almenn partýréttindi og eignarhald. Silja er einmitt íðilfagur verkfræðingur sem deilir með mér genum í bæði gáfum, góðmennsku og glæsileik en ekki erum við víst sérlega líkar né styðjum við sama pólitíska aflið. Hún kenndi mér bæði stærðfræðibrandara og tískuráð og hreinskilin og er því fullkomin blanda af innri nördaskap sem ég kann svo vel að meta og svo er hún jafn ógeðslega töff og við. ...... hvað er kátasta ennið? -----nú n í kátta (n í veldinu k)




show me the money

Ég skrifa. Hið skrifaða hverfur. Veit ekki meir.

Ég er búin að vingast við hvali utan við strendur íslands nánar tiltekið fjóra minke whale og nokkra höfrunga. (af hverju heita minke whale hrefnur? eru höfrungar við ísland hnýsur?) Sömuleiðis hef ég talað ítölsku við vinkonu uppí hallgrímskirkju og hlegið að því að taka lyftuna (engar fimmhundruð tröppur einsog í turninum í bologna) og að henni fannst stolt okkar og prýði hallgrímskirkja minna meira á verksmiðju en guðshús og minimalískur stíllinn af hvítum auðum veggjum, skrautleysi og ekki einu sinni steindum gluggum ákaflega einkennilegur jafnvel meinlætalegur. Ég komst líka að því sökum sjóveikihræðslu eftir hrakfarasögur gesta af ælandi fólki á hverju strái, að sjóveikitöflur eru víst slævandi og í sól og meðalveltingnum vorum við litli bróðir ákaflega afslöppuð. Geispaði allt kvöldið og rúmið mitt hélt áfram að vagga í hausnum. Mér finnst öldur skemmtilegar.

vældi út frí í vinnunni með tilþrifum og mætti í eitt svæsnasta partý sem ég hef verið í lengi og dæmist það aðallega af ákafa allra til að kenna ítölunum óla grís drykkjuleikinn með vodkadrykkju. Hver hefur aldrei? Bætti við reynslubankann. Mígreninu var drekkt og undarlegar uppákomur á hverju strái. Búlluborgari er góður. Sé fram á ákaflega þreytta nótt. Er heimurinn að grínast með að það sé 1.júlí í dag? mér finnst það alllélegur brandari að sumarið sé hálfnað. Mér finnst að tíminn ætti bara að líða þegar ég er í fríi. Eða að ég ætti alltaf að vera í fríi og peningatré í garðinum mínum. Vonbrigðin við útborgun er ólýsanleg, mér finnst tími minn margfalt meira virði.

Fékk áminningu um að nú stendur hróarskelda yfir og sendi ég ósegjanlega græna öfundarstrauma (grænari en kápan mín) yfir hafið en óska þessum heppnispésum góðrar skemmtunar og tónlistalegrar uppljómunar.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com