Hosted by Putfile.com





mánudagsglápið

Ok ég nennekki læra í bili. Það eru slagsmál um athygli kattarins meðan annað augað er á msn og hitt á survivor guatemala. Ég skýt á að þetta sörvævor sautján og sá fyrsti sem ég hef nokkurntíman horft á. Þökk sé gerði og sjónvarpinu hennar.

Kötturinn er í hvumpnu skapi og vill lítið við okkur tala þótt við reynum að heilla hana. Gerður syngur hátíðnisöng því það vekur alltaf áhuga kattarins á hljóðmengun og hún kemur og treður rassinum í andlitið á henni, mín kenning er að það sé til að þagga niður í henni. Ég státa af sokkum sem voru blautir ofaní skóm frá klukkan ellefu í morgun og kötturinn eeeeelskar táfýlu. Erfið barátta.

Súkkulaðihúðaðar hnetur er hægt að éta í kílóavís. Ótrúlegt en satt hefur gerður líka tamið mig í að horfa stundum á the oc. Fyrir ekki mjög löngu fussaði ég og sveiaði og taldi mig andlega hafna yfir slíkan viðbjóð. Sennilega rifjaðist upp fyrir mér að ég er mjög andlega ómerkileg og þarmeð ekkert of góð fyrir sápuóperur. En þó skal ég segja að ég fylltist ekki spenning eða tárvotri samkennd með persónum sem eru með hvert öðru á víxl og dramað keyrt í botn jafnvel flakkað á milli kynja. Í staðinn kom biturleiki og hneykslun á því hvað þetta er ólýsanlega fjarri raunveruleikanum, vitandi að það er væntalega takmarkið.

Sérstaklega athyglisvert í ljósi heimaprófs sem fjallaði meðal annars um sambandið milli frístunda og hversdagslífs. Ekki fáir sem hafa velt því fyrir sér hvaða firring það sé í hversdagslífinu okkar sem býr til svona mikla þörf fyrir flótta í formi afþreyinga. Franskir situasjónistar vildu ekki síst meina að það sé kapítalísku þjóðfélagi að kenna að samskipti séu orðin yfirborðsleg og fölsk í flótta, niðurbælingu og blekkingarleik hversdagsins.

Þegar við erum í fríi vill maður gleyma raunveruleikanum og gráum hversdagsleikanum og sökkva í aðra heima. Má ekki vera að þessu þvaðri. Bæði CSI og Sex and the city er að byrja.




takk

Það er eitthvað við það að sitja þreyttur á hlöðunni og vera blautur í lappirnar sem minnir mig á leikskóla. Hvar er hvíldarherbergið og þurrkskápurinn?

Heimaprófið er bara næstum fullgert. Merkilegt hvað er hægt að afkasta á einni helgi án nokkurskonar djamms....

Sigurrós stóð fyrir sínu í gær. Ekki hægt að segja annað en gæsahúðin var svo sannarlega til staðar. Ný batterí sérstaklega. Ég furðaði mig þó á því hversu lítil ég er. Að minnsta kosti upplifði ég mig einsog dverg því allir fyrir framan mig voru stórir. Það brást ekki að eftir að ég smokraði mér framfyrir einn strák sem var um einnognítíu var annar þar fyrir framan svo ég sá bara herðablöð. Þar til ég slakaði bara á því að sjá lítið og einbeitti mér að njóta glimpsanna á milli hársins og axlarinnar á næsta manni. Besta ljósamyndin var þegar ljósakúlur byrjuðu að þeytast um risaskjáinnfyrir aftan þá og smám saman útum allt loftið í höllinni hraðar og hraða og fleiri og fleiri. Einsog fiðrildi í ofurham. Geðveikt.

Einhver misskilningur virtist vera hjá krökkum undir sextán sem voru á djamminu í laugardagshöll. Vægast sagt ekki stemming til að vera drukkinn fremst og hrynja fram og tilbaka og æla.

Ekki síst sannaðist fyrrnefnd kenning að reykjavík á það til að vera of lítil og einkennilegasta fólk sem þú þarft ekkert að hitta en endar á að standa fyrir aftan á fimmþúsundmanna tónleikum. Ekkert náði samt að skyggja á stemminguna.

ps. shit, tölvugreyið var að tilkynna mér að hún væri haldin trojuhesti og norton lýsir yfir vanmætti í þeirri baráttu. Hvað gera bændur þá? Það væri nú hressandi ef allt tæki upp á að hrynja í miðjum lokaritgerðarskrifum og ekkert backup til af neinum skjölum.




eta..það sem þeir geta. Vinna..já eitthvað minna

Sko. Það er ekki manni bjóðandi að sofa í fjóra tíma og læra svo frá tíu til sjö og ætla svo að halda áfram eftir mat. Getiggi. Sem er ástæðan fyrir að ég hætti bara og er að fara offörum úr gleði að komast í tónlistarsafnið hennar auðar, eftir margra daga heimaveru með tölvuna í fanginu var ég farin að hata allt á playlistanum mínum og því ný tónlist gulls ígildi. Síðan tek ég bara klukkdótinu frá hlíbbinu til mín persónulega og dunda mér við að svara þessum tilgangslausu atriðum.

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

-Heimsreisan mun verða. Sennilega með asíuáherslum. Var að fatta að á næsta ári kemur að því að ég dett út úr aldursflokknum 18-25 ára afslættinum. Hugga mig þó við það að sem upprennandi eilífðarnemandi þá hef ég alveg þó nokkur ár á námsmannaafsláttum og síðan fullt af árum auðvitað afsláttarlaust.

-Verða ástfangin yfir haus og svífa á rósrauðu skýi og láta það endast. Ef ekki einu sinni að eilífu þá oftar.

-Halda sýningu á verkunum mínum og eða gefa út eitthvað sem ég skrifa í einhverju formi

-Verða nógu þroskuð til að eignast barn einhverntímann vonandi, eða eignast barn og þroskast.

-læra fleiri tungumál (ofarlega á lista -franska,arabíska,hindi,rússneska)

Sjö hlutir sem ég get gert:

-talað ekkert mjög góða ítölsku auk venjulegra tungumála

-spilað vel á þverflautu og illa á víólu

-talað rosalega mikið/ þagað rosalega mikið eftir skapi og aðstæðum.

-bæði selt þvottavél og sett í þvottavél

-lifað mig inní bíómyndir og bækur og grátið yfir því

-drukkið allmikið án þess nokkurntímann að sofna eða deyja

-hlegið hrossahlátri

Sjö hlutir sem ég get ekki gert:

-borðað gellur og lifur

-sleppt mér algjörlega

-hætt að hugsa um hluti þegar ég þarf þess

-verið reið lengi í einu

-hætt að trúa á að allir séu yfirleitt góðir og annað sé alltaf af ástæðu

-kýlt sannfærandi í combat, óþolandi aumingjaleg

-klárað eitt verkefni án þess að vera komin í að skipuleggja næsta

Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:

svo sem asnalegt að njörva það niður þar sem yfirleitt fellur maður fyrir ólíkum hlutum.

-húmor

-brennandi áhugi á einhverju

-hreinskilni

-einhverskonar kraftur sennilega í formi ákveðni

-augu sem kunna bæði að glotta og segja mikilvæga hluti

-óvæntir eiginleikar

-ólýsanlega mikið aðdráttarafl sem hefur engar röklegar skýringar

Sjö staðir sem mig langar á:

náttla endalaust en akkúrat í augnablikinu dettur mér í hug;

-indland

-ítalía aftur

-marokkó

-íran

-indónesía

-austurevrópa almennilega

-Tyrkland

Sjö orð eða setningar sem ég segi oft:

-jedúdda

-það er sko ekki luxury/sexaparty/pleasurable

-everything is happening

-nei það er ekkert að frétta, er bara að læra

-hvað eigum við að borða í kvöld/morgun/eftir

-en kannski er það ekki þannig, einsog ég hélt að það væri, áður en ég fattaði að það væri öðruvísi. Hvað finnst þér? Sérstaklega ef maður tekur tillit til að ekkert er einsog það virðist í fyrstu.

-Merkilegt samt hvernig..........virkar. (hægt að bæta flestu sem viðkemur heiminum þarna inná milli, flest getur komið á óvart einhvervegin)

Sjö hlutir sem ég sé núna:

-Fullt af ókunnri nýrri tónlist i annarra manna itunes. Loforð um nýja tónlistartíma í vændum.

-Appelsínusítrónugulrótarsafa í glasi,

-cappocinodrykk í plastflösku,

-heimaprófið mitt í glugga sem ég forðast að opna,

-krullaðan lukkubambus í fishermans friend flösku,

-grænu kápuna, grænu loðpeysuna og græna trefilinn í hrúgu. Allt ólíkir grænir samt.

-flækjur af garni og snúrum á gólfinu.

-örugglega tvö kíló af grænum vínberjum sem eiga eftir að klárast bráðum




kanilkaffið

Valkvíðinn er allstaðar. En valkvíðinn getur leitt af sér athyglisverða hluti samt. Einsog í kvöld þegar ég gat ekki einu sinni ákveðið hvort ég ætti að fá mér kaffi eða kanil/negulte og endaði með því að hella uppá kaffi með teinu. Þetta bragðast einstaklega vel saman.

Af einhverjum ástæðum gekk mér vel í heimaprófinu, að minnsta kosti sýndi úrlausnin að ég hefði náð að koma til skila 81% skilningi sem verður að teljast nokkuð gott miðað við panikið sem ég fór í útaf því. Adam var ekki lengi í paradís því á sömu stundu var afhennt síðara heimaprófið sem ég fæ að liggja yfir næstu vikuna.

Ég held að skápaeldamennska síðustu daga hafi náð glæstu hámarki/lágmarki í kvöld. Sökum rigningar og ofurþreytu nennti ég ekki útá grös þar sem ég hef annars unnið til þess eins að borða. Peningaleysi veldur þvi að maður fer að nota allt sem leynist í skápunum, þó mjög þarft athæfi á stundum. Þótt ég segi sjálf frá þá hefur mér oft tekist að elda luxurious máltíðir úr því sem leynist, en í kvöld var öldin önnur. Pakkanúðlur með túnfiskdollu, babycorn dollu og basilsósu fær ekki mörg stig í kladdann. Þrátt fyrir mjög örvæntingarfullar tilraunir með sesamolíu og chilli. Þarf að fara í aðra verslunarferði í grafarvoginn. Litli bróðir minn greip mig um daginn með plastpoka og nefið inní skáp að næla í jógúrt og núðlur og spurði mig í forundran hvað ég væri að gera. En svaraði sér síðan sjálfur. Jaaaaaá ertu að versla, klagaði svo í mömmu og sagði að hún ætti bara að fara heim til mín og gramsa í skápunum. Ekki það mamma leyfir mér að borða það sem ég vil úr skápunum og gaf mér meira segja gamlar makríldollur og haframjöl í poka. Hvað þarf maður meira?

VinnuJólahlaðborð á hótel sögu. Mér tilkynnt að makar séu velkomnir og ég hafi sem stendur um það bil tvær vikur til stefnu að finna hann. Eitthvað segir mér að það sé ekki að fara að gerast, ekki síst í ljósi þess að það leynast engir karlmenn innan um bækurnar né er hægt að panta þá á netinu en annarstaðar má ég ekki vera sökum lærdóms. (eða hvað, gerður var nú eitthvað að segja mér frá mailorder-escorts um daginn)

Tilbreyting í pokahorninu, stökk í heita pottinn í morgun mér til óvæntrar ánægju og fastsetti þar með dagsetningu á útferð eftir útskrift. Að vísu er engin heimferð ákveðin svo kannski kemst ég bara ekkert heim. Hressleiki í hjarta við ákvörðunina að sækja um vissa akademíu eða fleiri. Það yrði nú gríðarlegt stökk í þroska ef mér tekst að festa mig í nám í fjögur ár samfleitt (ef svo ólíklega vildi til að ég kæmist inn), hingað til hefur ekkert verið ákveðið lengur en eitt ár. Og ef einhver viðrar hugmyndir um ópraktískleika þess að vera um 29 ára með tvö BA próf og enga vinnu þá dangla ég í hann og minni á að síðan get ég farið Master, jafnvel tvisvar líka bara. Einn listamaster og einn fræðilegan master. Síðan get ég ferið fertug og gríðarlega vitur og blönk.

Bablið er búið. Bókin er farin að öskra á mig um athygli, djöfull er hún frek.




Voodoo girl og tilviljanir

Her skin is white cloth,/ And she's all sewn apart/ And she has many colored pins/ Sticking out of her heart./

She has a beautiful set/ Of hypno-disk eyes,/ The ones that she uses/ To hypnotize guys./

She has many different zombies/ Who are deeply in her trance./ She even has a zombie/ Who was originally from France./

But she knows she has curse on her/ A curse she cannot win./ For if someone gets/ Too close to her,/

The pins stick farther in./

Tim Burton in The Melancholy Death of Oyster Boy & Other Stories, 1997

Ég stóðst ekki freistingu að setja þetta ljóð hérna inn, Björk vinkona benti mér á þessa síðu nýlega og það er svo flott.

Ég elska tilviljanir. Seinast þegar ég sýndi element fyrirmyndarnemanda og bæði mætti á bókhlöðuna til að lesa fyrir tíma og mætti sömuleiðis í tíma gerðist skondinn hlutur. Í möppu á fjórðu hæð eru allskonar ljósrit sem við eigum að lesa fyrir námskeiðið, þar sem þetta var í fyrst sinn sem ég fór í möppuna greip ég bara eitthvað og byrjaði að lesa. Ein greinin vakti sérstakann áhuga hjá mér en hún var einmitt um Jaques Lacan og kenningar hans um sálgreiningu. Eftir lesturinn fór ég að spá í hvenær hún hefði verið kennd og komst að því að hún er alls ekkert á námsáætlun námskeiðisins, ss. var greinin í vitlausri möppu. Eftir leit á gegni fann ég bók eftir sama höfund sem mun nýtast mér frábærlega í ritgerðinni. Það er því ekki satt sem ég sagði um bókhlöðuna, hún er með tilviljunum að hjálpa mér í skriftunum. Takk Þjóðó.




lesa lesa lesa

Já var það ekki. Í sömu ferð og ég skilaði bókahlassinu datt ég í gríðarlega spennandi bækur um identity, self-perception og psychoanalysis í samtíma menningu. Kemur BArninu kannski ekki beint við en ég á eftir að draga þennan vinkil inn bara sökum áhuga. Á titilsíðunni stendur eftirfarandi tilvitnun sem ég hló að í ljósi færslu frá um daginn. Af hverju er maður að skrifa yfirhöfuð þegar það er búið að hugsa allt áður og setja það í miklu betri orð en maður sjálfur finnur. Það er kannski léttir samt að það sé til fleira fólk sem hugsar of mikið um það sem flækir málin á endanum áður en það einfaldar nokkuð.

All I can do is tell the truth. No, that isn´t so - I have missed it. There is no truth that, in passing through awareness, does not lie. But one runs after it all the same. - Lacan, The Four fundamental Concepts of Psychoanalysis.




bókhlöðuhatur

Þjóðarbókhlaðan hatar mig. Ég hélt alltaf að bókhlaða stæði fyrir hjálpsemi við stúdenta, þar gætu þeir átt athvarf sitt og fengju lánaða vitneskju sem yrði svo þeirra. Tölvur, bókasafnsfræðingar, tímarit og hvaðeina liggur þar frammi til að hjálpa öllum litlu námslingunum að standa sig vel. Þetta er hinn mesti misskilningur einsog ég komst að í dag. Fyrst lenti ég í þeirri andlegu raun að fá sent hótunarbréf frá þeim. -Undir haus Þjóðabókhlöðunnar var mér hótað lögfræðingum og intrum ofsókna ef ekki ég gengi frá mínum málum hið snarasta. Það braust út sviti og ég sá hvernig nám síðastliða þriggja ára væri unnið fyrir gýg á einu bretti þar sem námslánin færu í lögmannskostnað og rigerðin yrði aldrei gerð þar sem ég sæti á litla hrauni eftir gjaldþrotið.

Ég vil gjarnan klára svo ég brunaði niður á hlöðu vopnuð fögru brosi og blikkandi augum og með bévítans bókahlaðann með mér. (Skal þó viðurkennast að ég hafði í fyrsta maníukasti annarinnar í byrjun september tekið um ca. tíu bækur sem hafa legið heima í gegnum letiköst og seinni maníur) Ok, eftir smá umræður og yndisfríðum sjarma endaði með að afgreiðslumaðurinn bauðst til að gefa mér 50% afslátt á hinni gígantísku skuld sem safnaðist hafði. ( Vissuði að það er ekki lengur heildarhámarksskuld sem gildir heldur er hámarksskuld PER BÓK) Reglunum var sennilega breytt mér til höfuðs.

Ég og atli komumst lifandi frá þessum hremmingum, en ekki tók við betra. Sökum hungurs neyddist ég til að fá mér að borða í matsölunni. Eftir smá viðræður sættist atli á gefa mér súpu sem annars smakkaðist ágætlega. En síðan hefur ekki til hans atla mins spurst. Ég er búin að hringja og saka starfsmenn um hið augljósa að þeir skiluðu mér aldrei kortinu (ef maður labbar burt með disk í hvorri hendi, ekki með tösku né vasa er það augljóst) en starfsfólkið vill ekkert við þetta kannast. Nema afgreiðslustrákurinn hafi hirt atlakredit til eigin eigu. Gott a hann því ég er búin að loka því svo það gagnast honum ekki nema til að horfa á eldgamla mynd af mér.

Hvernig get ég komist aftur innundir hjá bókhlöðunni? Það er ekki vænlegt að eiga í stríði við hana svona rétt á meðan stendur á lokaritgerðarskrifum. Hjálp.




útlendingur allstaðar

....If they were a bit different, a bit special, if they did not play the game, if they were like foreigners from within. Or should one recognize that one becomes a foreigner in another country because one is already a foreigner from within.

Er það hugarfar að vera útlendingur? Getur maður þá verið útlendingur inní sér þótt maður sé af og lifi í eigin landi? Það er kannski bara almennasta tilfinning í veröldinni að finnast maður ekki tilheyra alveg þar sem maður er, en hún er skemmtileg greinin Stranger to ourselves eftir Juliu Kristevu.

..there are to kinds of foreigners, and this separates uprooted people of all countries, occupations, social standing, sexes .. into two irreconcilable categories. On the other hand there are those who waste away in an agonizing struggle between what no longer is and what will never be – the followers of neutrality, the advocates of emptiness; they are not necessarily defeatists, they often become the best of ironists...

on the other hand, there are those who trancend; living neither before nor now but beyond, they are bent with passion that, although tenacious, will remain forever unsatisfied. It is a passion for another land, always a promised one, that of an occupation, a love, a child, a glory. They are belivers, and they sometimes ripen into sceptics.

Hehe, jæja maður hefur sem sagt val um að enda sem tvennt - kaldhæðni eða efasemdir. Ekki vænlegt það draumórapésum.

Being alienated from myself, as painful as that may be, provides me with that exquisite distance within which perverse pleasure begisn as well as the possibility of my imagining and thinking, the impetus of my culture. Split identity, kaleidoscope of identities: can we be a saga for ourselves without being considered mad of fake.




strútselmentið

Í fyrsta lagi þá var ég að komast að þeirri staðreynd að í rannsókn á 200.000 strútum í yfir 80 ár hefur ekki einn stungið hausnum í sand. Þannig að strútasyndrómið er bara í mönnum en ekki strútum. Menn kjósa að kenna öðrum um þegar þeir flýja vandamálin með því að látast ekki sjá þau. (í boði vísindavef HÍ)

Rann upp fyrir mér staðreynd í gærkvöldi. Sossum ekki merkileg en samt fanst mér hún lýsa upp eitthvað. Nú er ég stundum að tala um hreinskilni, og finnst að maður eigi að segja það sem manni finnst. Einsog það er erfitt stundum þá ætti maður samt að taka af sér grímuna og segja sannleikann. Allir hljóta að koma rétt útúr því. Það sem rann upp fyrir mér er að ég held kannski alltaf að ég sé að segja sannleikann, nema stundum veit ég ekki sjálf hvað mér finnst fyrr en síðar og þar að auki er kannski ekki til nein sannleikur um upplifanir né samskipti. En ef það sem maður segir er ekki endilega satt þegar frá líður, og ef maður segir eitthvað sem maður gerir sér síðar grein fyrir að var ekki einsog maður hélt þá er nú fokið í flest skjól. Hvernig er hægt að stigskipta mikilvægi þess sem maður segir og koma fólki í skilning um hvað er efst í mikilvægisröðinni því það sé útpælt meðan annað bara datt út úr manni.

Af hverju er ég að velta þessu fyrir mér? Hvar breytist það sem maður segir í að skilgreina mann sem persónu, og hvar er munurinn á því sem maður segir, því maður gerir og síðan ennfremar því sem manni finnst innst inni? Þegar maður rekst á ósamræmi þarna hlýtur fólk að spyrja sig hvar sé eitthvað klúður. Nema náttúrulega að það hafi áttað sig á að ofhugsun bætir sjaldan lífið, en ég virðist ekki læra neitt af því þótt ég viti það.

Það þýðir ekki að tapa sér í skilgreiningum á sjálfum sér né öðrum, en örugglega betra að hugsa um það einhverntímann til að fyrirbyggja að verða eitthvað sem maður vill ekki verða. Kannski er sú leið að útskýra hluti áður en þú skilur þá allavega dæmd til að mistakast. Kannski er þessháttar "hreinskilni" ekkert annað en flækjur á útsölu. Fólk með dramaelement þarf bara að læra að veita því annað og fá útrás fyrir það með öðrum hætti en öllum samskiptum sínum við annað fólk. Ef allt bregst getur mar stungið hausnum í sand einsog strútar gera víst ekki og slakað á.




fjölskyldupartý

Fjölskyldan mín föðurmegin er öll úr grindavík og keflavík. Þau eru bæði mörg, brjálæðislega hávær, hyper og flest rauðhærð eða gráhærð (eftir aldursskeiði) Við skulum athuga að í minni ætt telst ég vera bæði róleg og lágvær ef ekki hreinlega hlédræg. Allir keppast við að tala hærra en næsti maður, hlægja hærra og grípa frammí og kaldhæðin stríðni í fyrirrúmi. Í gær var mér boðið í fertugsafmæli bróður hans pabba og var ég næstum á því að nenna ekki fyrst. Þegar ég var mætt á staðinn mundi ég að það er vægast sagt stemming í kring um þau. Bjór, bolla og gítarpartý í öllum formum, söngur og ræður og fíflaskapur var sérlega skemmtilegur. Pabbi hellti í mig bjór og flestir kepptust við að skála við mann eða klappa á hausinn og muna eftir hvað maður var lítill áður en maður varð ung kona í kjól og hælastígvélum. Þegar foreldrarnir ætluðu að leggja af stað í reykjavíkina var mér meinuð útganga, lára frænka hélt nú ekki og rétti mér nýjan bjór og gólaði "auðvitað verðurðu hér og djammar í kebló, þú hefur gott af því" kannski í voninni um að ég finni mér nú almennilegan keflvískan dreng og kaupi mér hús þar og eignist fullt af börnum. Það taldist allavega ótækt að vera bara í 101 og hafa aldrei séð heiminn á hafnargötunni. Ólikt mörgum fjölskyldum hef ég þó löngu fengið stimpil sem skrítna frænkan sem er alltaf að þvælast í útlöndum, læra eitthvað sem engin man hvað er og því fólk hætt að gera ráð fyrir að ég festi ráð mitt strax þótt ég sé komin á þennan aldur. Eftir brjálað partý var mér og litlu frænkum mínum skipað að kíkja í bæinn en þau héldu áfram til sex í ammlinu. Einhverra hluta vegna þá small ég betur með þeim en eldri frænkunum sem eru bæði giftar og með lítil börn. Keflavík er borg óttans og á stuttum tíma var bæði sjúkrabíll því ung stúlka féll í gólfið, rokkbúllunni lokað því einhver var stunginn og brjálað sessjón á traffic þar sem einhverjir brutust út í slagsmál. Crazy i tell you.

Fjölskyldumeðlimum hafði verið dreift um bæjinn á alla sófa og aukaherbergi og var það sérlega almenn þynnka með treo og kaffibolla hjá ömmu. Mun skrautlegra og skemmtilegra en kaffibarsdjamm enda er hann orðinn sveittur og þreyttur.




S -in mörgu

*Eitt stykki Sigurrósartónleikar á Íslandi í lok nóvember.

*Eitt stykki Sirkustónleikar með ástu rauðhærðu í kvöld. Ekki mér heldur ástu ljóshærðu sem hefur nú hefur tímabundið hugsanlega stigið yfir í minn rauðhærða heim. Langar að sjá hana syngja enda finnst mér ég alltaf eiga í henni eitthvað bein þótt það sé öld síðan við vorum saman í fb.

*Eitt stykki Skróp( í dag það er að segja að minnsta kosti tvö stykki skróp fyrir vikuna, eða það er að segja í báða tímana sem ég átti að mæta í)

´*Eitt stykki Syfjað Sjálf

*Eitt stykki Sprikl á leiðinni enda Sjálfsvarnaríþróttir í bland við eróbikk af hinu góða. Spark í allar áttir og kýla loftið hlýtur að vera spennandi.

*Eitt stykki Súpervirkni í bloggheimi til að spæna upp tíma og láta mér líða sem ég sé að skrifa eitthvað allavega.

*Eitt stykki Sæt kartafla er allt sem ég á í ískápnum og því er betra að borða bara úti.

*eitt stykki Seinni partur án kaffidrykkju. En hef heyrt að járnblanda sé málið til að auka blóðmagnið og ekki síst ætla ég að kaupa mér dagbók.

*kaupa eitt stykki Stóra dagbók þar sem ég þykist ætla taka massívt SKIPULAG á næstu vikum til að sporna við eigin hugmyndum um að ég sé í stanslausu luxury party með kaffipásum og lesrólegheitum.




næturleikfimi barnlausra

Sá, sem hlustar, leggur sömu merkingu í orðin, og þegar hann heyrir, hvað sá sem talar segir, skynjar hann heildarmerkinguna í setniningunum og samhengið en til þess að þessir tveir menn geti skilið hvor annan, þarf meira til. Nauðsynlegt skilyrði fyrir skilningi er, að báðir hafi sömu tengslahugtök eða hugtök um venzl.

Þetta litla brot úr fræðilegum texta um hvernig skilningur skapast með orðum er sérlega viðeigandi. Það er endalaust oft sem maður talar og telur sig vera að útskýra eitthvað en sá sem maður talar við skilur eitthvað allt annað en það sem maður upprunalega meinti. Þarmeð er komin eilífur misskilningur byggður á því að fólk meira segja af manns eigin þjóðerni, með álíka bakgrunn og menningarlega mótun leggur annan skilning í hugtök eða hegðun en maður sjálfur. Stundum held ég að maður sé gjörsamlega vonlaus í því að ætla sér nokkurn tíman að skilja aðra né að aðrir skilji mann.

Burtséð frá því, þá datt mér þetta meira í hug núna eftir sérlega skondið samtal á msn fyrr í kvöld þar sem gömul vinkona sem ég hef ekki hitt lengi var farið að gruna að ég væri með barni eða jafnvel búin að eignast barn. Ástæða þess misskilnings er að sjálfsögðu að ég er búin að heita ýmsum nöfnum á msn einsog "BArnið á ný" "BArnapælingar á fullu" "ekki MAmma enn" og fleira í þeim dúr. Ef ekki maður er inni í þeim hugtakabrandara að BArn sé ekki barn heldur ritgerð og MAmma sé ekki mamma heldur mastersnemi þá liggur maður í því. Svo ég vil hér með árétta ef einhver er í vafa að ég á ekki von á barni, en aftur á móti á ég von á ritgerð. Að minnsta kosti ekki að mér vitandi, og ætti ég nú komin á tuttugastaogfjórða aldursár að kunna einhver skil á eigin líkama. Þó hafa nú flakkað margar sögur þess efnis að konur hafi ekki vitað af því fyrr en á fæðingardeildinni og gróusögur um lækna sem senda þær burt og segja þeim að eina sem sé að þeim sé ristilvandamál, sem mér finnst allt hið undarlegasta mál. En allavega þá skal ég samt éta hattinn minn ef annað kemur í ljós.

Það er ógeðslega ósanngjarnt þegar maður er búin að stilla vekjaraklukkuna á hálf átta og ætlar þvílíkt að massa morgunræktina enda er sprækleikinn búinn að vera öflugur, að vakna upp klukkan þrjú og vera síðan eldhress og glaðvakandi ennþá þegar klukkan er að verða hálf fimm. Djöfs að baðhúsið sé ekki opið á nóttunni því ég gæti alveg skellt mér í combat núna. Síðan veit ég að uppúr sjö sofna ég og enda með að sofa hálfan daginn og skrópa síðan í tíma. Verð að hætta að þamba rótsterkt kaffi á kvöldin svo ég dansa stríðsdans og slæst við gerði um síðustu pizzusneiðina og get ekki setið kjurr.




efniviður í reynslubankann

Framúr öllum vonum barasta. Hálfblint franskt dobble semideit á vegamótum afstaðið. Reyndist hin besta skemmtun að kjafta um kosti og galla íslands, frakklands og heimsins yfir mat og drykk og meira segja fékk gerður að tala um ketti í tæpan hálftíma. Annar fransmaðurinn var álíka hrifin af köttum og hún og sagði hressandi sögur af franska flækingskettinum og dúfunum á þakinu, reyndar meðan hinn sofnaði næstum úr leiðindum á meðan hahaha. Það vantaði bara alpahúfurnar á franskleikann en þeir voru bæði klárir og fyndnir svo við skemmtum okkur bara vel. Ótrúlega kómískt samt allt saman frá upphafi til enda. Við vorum að sjálfsögðu of seinar einsog okkar er venja, en það er víst kafli um það í guidebókinni sem útskýrir að íslendingar séu aldrei stundvísir svo þeir voru undirbúnir. Reynslubankinn viðar að sér efni við hvert tækifæri svo núna hef ég hitt ferðalanga sem ég kynntist á netinu. Netvæðingin er í allsgleymingi. En súrrealísk móment eru hressandi krydd í hversdagsleikanum.

Við gerðum stólpagrín að þeim fyrir útivistarúlpur sem er athyglisvert í ljósi þess að ég er ein mesta kuldaskræfa landsins, en einhvernvegin leyfist útlendingum ekki að vera kalt hérna, þá dettur maður í að berja sér á brjóst og lýsiR yfir víkingaelementum. Eitt vodkaskot og málinu reddað. Þeir þóttust síðan hinir mestu töffarar og ætluðu bara að labba heim á hótel sem væri ekki mjög langt. Við urðum næstum úti við að rölta uppað rassinum á hallgrímskirkju meðan þeir löbbuðu einhvert lengst uppi ármúla. Greyin.




semiblinthálfdeit og margar BArna móðir en ekki MAmma

Merkilegur andskoti. Fundur tvö með leiðbeinandanum í morgun. Sérlega tímanlega hinn 7.nóvember. Þóttist nú hafa sent henni þó nokkuð skoriort erindi og inngang í BArnið þar sem lýst var hugmyndum þeim er eiga að koma þar fyrir og hvernig hugmyndin væri að byggja það upp. Virtist nú leiðbeinandanum að þetta væru sérdeilis skemmtilegar hugmyndir, en fjarri því að vera eitt BArn heldur meira í átt við fimmbura. Það getur hver ímyndað sér hversu mikið álag það er að burðast um með fimmbura í sér, svo nú skal íhuga hvort ekki sé bara feikinóg að vinna bara í einu í einu.

Verst þykir mér þó að þær hugmyndir sem ég er æstust og upprifnust yfir finnst henni henta mun betur sem MAmmu verkefni í framtíð, svo leiðsagnarfundurinn snerist uppí vangaveltur um hvert skyldi haldið í framhaldsnám. Mikið er það ágætt að ég er ekki ein um að geta ekki fest athyglina við núverandi verkefni. Sorbonneháskóli er víst málið, eða skotland. Eða írland, eða ítalía eða eitthvað annað. Hef að minnsta kosti fram á vor að finna út úr því.

Yfirlýsingagleði er ekki endilega af hinu góða. Því meira sem er búið að segja því minna er pláss fyrir að skipta um skoðun. Fyrir utan að sú staðreynd að vera þversögn við sjálfan sig er strax búið að strika út möguleika á einhverskonar skilningi. Hvað um það. Það er alltaf upplifun að rekast á eigin tilfinningar sem haga sér alls ekki í samræmi við það sem hausinn heldur fram. Óþekktarpésar sem láta ekki að stjórn.

Jæja burtséð frá öllum óstýrilátum innri pésum þá stendur til að fara á hálfblint franskt semideit. Allt hressandi í skammdeginu. Neita staðfastlega að láta undan eigin neikvæðni á heiminn og fyrst aðrir geta verið blússandi hamingjusamir þá hlýt ég að eiga möguleika. Það er að minnsta kosti æfing í að hætta að vera efasemdarpési og telja víst að ef ég klúðra því ekki persónulega þá klúðrast það sjálfkrafa.




guggíborg

Fyrir fólk með netta gæjuþörf í annarra manna líf eru gluggar alveg sérlega skemmtilegir. Þegar maður situr uppá borði við eldhúsgluggann og horfir út þá blasir við heil röð af gluggum á móti. Á milli húsanna er bara garður svo manni finnst einsog maður sé einn í heiminum þótt myrkur og kveikt ljós breyti hverri íbúð í leiksvið. Þarna hef ég óvart orðið vitni að ýmsu. Berrassaður krakki hoppaði og dansaði útí glugga. Maður ber að ofan pússar gluggakarma. Kertaljós í röðum og fólk með kaffibolla, nýmálaðir veggir og falleg málverk, kona fékk kannski góðar fréttir og dansaði um gólfin í joggínbuxum. Ég bíð ekki í hvað fólk hefur séð í okkar íbúð, enda er það líka útstæðir þakgluggar og ennþá meira áberandi fyrir vikið.

Ég átti sérlega skemmtilegt samtal um daginn um minningar. Kannski eru minningar það eina sem maður á og það skemmtilega við þær er ekki síst hvað þær eru hálfur sannleikur. Hver er raunveruleikinn í því sem maður man um eigin reynslu? Stundum finnst mér einsog aðrir hafi ekki upplifað hlutina einsog ég man þá, en það er allt í lagi því minningarnar á maður einn.

Matarboðið heppnaðist vonum framar og allt small, bæði kúskús og korma og eplapæið með kanil,súkkulaði og marsipan með ís og heitri súkkulaðisósu. Sérstaklega með tilliti til þessa ég gat ekki staðið upp fyrr en um sexleitið í gær, sökum elldjamms með vodka og fishermans og dansipartý miklu á ellefu, subbuborgurum og öllu tilheyrandi, þá er magnað að við þrjár náðum að massa þetta allt fyrir átta. Bjór eða berjakokteilar, ostasnittur og nanbrauð, eplakaka með heilsumúslí, kólumbíubúi og skrítinn breti, lítill strákur í stórri bumbu sem á ekki að fæðast fyrr en sjöunda des, skrækir og skellihlátur, trjáfræði með sérgrein í tree surgery, já það er ekki sama hvenær tré eru skorin upp sjáðu til, þynnka og drykkjuleikir, ég hef aldrei á alla kanta með hinum ýmsu uppgvötunum þótt við vitum eiginlega allt um alla, trúbadorar á celtic og detta inná mitt röskvudjamm, eldri systur sem kasta upp og eru gripnar af yngri systurinni (ekki ég sko samt) aðrir fóru á ofurbúlluna ólíver og hristu sýna fögru skanka, húsfreyjan sjálf lét undan þrálátum geispa og skreið heim óvenjusnemma miðað við aldur og fyrri störf. Hálffjögur og hefur rúmið sjaldan verið eins langþráð. Sunnudagar sem eru ekki þunnudagar eru alveg sérlega fallegir. Takk allir fyrir hresst kvöld.




eþnískur heiðarleiki borgar sig

Það fer alls ekkert endilega saman að vera athyglissjúkur og að njóta þess að fá athygli. Að minnsta kosti viðurkenni ég að vera örlítið gjörn á athygli en samt finnst mér ekki neitt gaman að standa á sviði. Framsöguhópverkefnið mikla hafðist að lokum og er ég því enn á ný laus úr viðjum "óþarfa" verkefna og get snúið mér að BArninu. Það er að sjálfsögðu hamingjusamt enda athyglissjúkt einsog ég.

Að vísu fær það ekki mikinn tíma því nú ætla ég að sinna ellanum í kvöld og jafnvel djamma í hælum auk þess sem við erum með matarboð á morgun sem upphófst á því að mér datt í hug að bjóða nágrannanum í mat á þarþarsíðasta djammi, bara svona til að kynnast betur og veit að þegar maður er útlendingur er alltaf gaman að vera boðið í mat. Jæja nú er svo komið að matarboðið þandist út og breyttist í matarpartý með eþnísku þema þar sem eldað verður eitthvað af uppáhaldinu mínu kúskús,kormasteikt grænmeti, nanbrauð og avakadó salat auk leyndó forréttar sem ásan sér um. Ekki bara það heldur kemst elli ekki, svo nú er það yfir tíu skrækjandi og skemmtilegar stelpur -og jorge. Hann verður annaðhvort alsæll eða skelfingu lostinn. Vonandi skemmtir hann sér samt hvernig sem það fer. Já elskurnar ykkur er öllum boðið ef ég á eftir að hringja í ykkur, en svo var ég að gera mér grein fyrir að við eigum ekki svona marga stóla. Það er bara lika í eþnísku þema að sitja bara á gólfinu eða uppá einhverju.

Síðast en ekki síst þá borgar sig að vera heiðarlegur. Fór og heimsótti í gær hina heimilislegu slash eldgömlu sundhöll sem er handan við hornið hjá mér. Nú er heilsa 2005 komin í gírinn svo það er sjálfsagt að eiga sundkort einsog leikfimiskort. Konan sagði mér að borga bara eftir sundferðina því posinn var ekki í sambandi. Eftir sundsprettinn og hárblásið (enga heilahimnubólgu) kom ég og brosti mínu blíðasta og bað um að fá að borga. Hún var svo upprifin yfir heiðarleikanum að hún gaf mér ferðina ókeypis. Hananú, þarna græddi ég fullt. Segiði svo að ég spari ekki.




tímaskekkjur

Alveg er þetta magnað. Ég rak stelpurnar út af vegamótum með harðri hendi svo ég kæmist í tíma sem byrjaði tuttugumínúturíþrjú. Fékk panik þegar einhver hafði lagt fyrir aftan erlu og hljóp á eftir eddu og lét hana skutla mér. Hljóp upp stigana og hentist inní stofuna. Búin að hlakka til að heyra umfjöllun um Simone de Beauvoir aftur. Við mér blasir pervisinn maður og fimm ókunnir nemendur sem stara á mig undrunar augum, ég úfin með hár útum allt og æst. Ég fór yfir í huganum að það væri örugglega þriðjudagur, efaðist mjög samt. Á ég ekki örugglega að vera í tímum á þriðjudögum? Sökum of mikils skróps var ég ekki viss. Komst að því í tölvuherberginu að ég er búin að vaða í villu og svíma hálfa önnina. Ég á að mæta fjögur á þriðjudögum en hálf þrjú á fimmtudögum. Þá hef ég aftur á móti mætt klukkan fjögur. Er það skrítið að ég sé úti að aka í þessum tímum. En ég bætti um betur og keypti leshefti fyrir annan kúrs í dag. Ekki seinna vænna fyrst það er komin nóvember....

Maður skal varast aðgleyma því að ísland er lítið. Það eru eyru allstaðar og auðvelt að lenda í að tala um einhvern sem einhver þekkir og sagan fari á flug.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com