Hosted by Putfile.com





essen sie?

Matur. Að ferðast snýst oft meira og minna um nýja staði, gott fólk eða nýtt fólk, fallega reynslu og upplifun bæði af ólíkum svæðum, söfnum, búðum og plássum. Hér er nóg af öllu. Ekki síst góðum mat!!!

Smelt eða eitthvað í þeim anda fékk ég ofan á brauð í vínarhæðum með fersku víni. Einskonar fita með blöndu af kryddum og öllu mögulega sem maður smyr ofan á sveitabrauð og smakkast mjög vel. Í kvöld fékk ég líka vínarsnitzel. Alvöru raspkálfasnitles og apfelkartoffelsalat eða hvað sem það hét á ótrúlega huggulegum veitingastað. Best af öllu var þó þegar við settumst á Alt Wien, huggulegan og frægan bar svona í einn lítinn öl. Hungrið svarf að svo við fengum matseðil, eftir nokkrar pælingar í undarlegum réttum bað ég um samloku. Þjónninn krosslagði hendur á hvítri svuntu og tilkynnti mér að einunis væri boðið uppá Gúllas á þessum tíma. Tíminn var hálf tvö á föstudagskvöldi, en mér fannst þetta svo fyndið að ég sagðist endilega vilja smakka. Í huga mínum þótti mér það absúrd, en svei mér þá aldrei hef ég smakkað jafn kryddað og gott gúllas með meiru kjöti, meira segja þó pabbi eldi hið besta gúllas með kartöflustöppu þar sem maður býr til holu og hellir sósunni ofanní.

Í gær fengum við líka alvöru fansí kvöld. Hófum það snemma í að kíkja á fínan stað sem leigusali gerðar sem býr með henni stakk uppá í rauðvínspastaboðinu. Glæsilegur bar á sjöttu hæð við aðaltorgið með ólýsanlegu útsýni yfri stephansplatz og gígantísku gotnesku dómuna þar. Margra metra háir gluggar, rauðir pluss stólar og gluggatjöld, silfurborð og glitrandi ljóskrónur i bland við nýtískuhvítan bar, marmara og látstemmd electróloungetónlist með flottum takti minnti okkur eingöngu á einhver vampíruatriði úr bíómyndum. Fannst við eiga að vera í korseletti og með rauðan varalit.

Í staðinn fórum við í Statsoperuna og sáum Carmen óperuna í einu flottasta óperuhúsi evrópu. Vorum í einum af pínulitlu klefunum sem í eina tíð tilheyrðu einhverri millihástéttarfjölskyldu, reyndar í ódýrustu sætunum þar eða í þriðju röð og sáum milli höfðana á fólkinu fyrir framan okkur. Þó við höfðum hugsað hávöxnu ameríkönunum þegjandi þörfina í fyrsta leikþætti sem blokkuðu alla sýn þá voru þeir yndælir og greinilega fengu samviskubit og gerðu sitt besta til að við myndum sjá. Þvílík litadýrð, búningar, söngur og drama, gæsahúð og hamagangur. Ást og dauði, vonleysi, afbrýði, sígaunar, nautabanar og whut have you allt í stórfenglegum graut. Hreint og beint ólýsanlegt.

Ferskur bjór er góður. Svefn er örugglega betri.

ps. Ég man ennþá eitthvað úr listfræðinni en mikið var gaman að skoða þýsku expressionistana í dag. Fíla Klimt í ræmur, Egon Schiele líka og marga hina líka. Ljósmyndasýning á neðstu hæðinni frá uppreisninni í búdapest var líka ótrúlega áhrifarík.




wunderbar

Stíflað nef. Lítið sem ég vissi hvaða áhrif það hefur í stressi. Ennfremur lítið gerði ég mér grein fyrir hvað það væri lítið gaman að fljúga með stíflað nef. Flugferðir eru svipaðar svosem, þessi var líka stutt og laggóð, en þrýstingurinn í eyrunum þegar maður getur ekki blásið útí eyrun er skelfilegur. Gaurinn hliðiná mér hlítur að hafa haft áhyggjur af gellunni sem kreisti aftur augun, klemmdi saman nefið með fingrunum og rembdist einsog rjúpan við staurinn að láta loftið ná að poppa hljóðhimnunum út. Það er eitthvað disturbing við það þegar flugmennirnir lýsa því yfir fyrir boarding að vegna gríííðarlegs roks þá sé útirlokað að koma matarbílum að vélinni??? svo það yrði bara ekkert matarkyns í boði..

Þó ég hafi næstum misst af fluginu sökum langra raða á kastrup þá var leigubílstjórinn indæll, lagði mér lífsreglurnar furðaði sig á að ég væri á leið í útlönd ef ég væri í námi, velti fyrir sér hvað ég gæti raunverulega unnið að þessu námi loknu, gaf mér karmellubrjóstsykur sem hann geymdi fyrir börnin (en sagði mér með glotti að ég væri samt stórt barn) hlýddi mér yfir um fjölskyldu og ættmennim, óskað mér góðrar ferðar og hélt yfir mér fyrirlestur um að passa mig, fara varlega og ekki eyða og miklu. Síðan hló hann hátt og hélt áfram á sinni mjög bjöguðu dönsku að fyrst foreldrar mínir væru í öðru landi, þá væri hann að vera foreldralegur við mig fyrir þau. Krúttlegur kall.

En Vín. Hvernig byrjar maður á að lýsa vín. Fyrsta daginn var ég hundlasin en þegar það er næstum tuttugu stiga hiti, sólarglæta og gullfallegar götur þá brosir maður. Á einhvern heimilislegan og sveitalegan hátt þá lyktuðu margir partar miðbæarins af hesthúsi, enda laaaangar raðir af hestvögnum með fagurlega skreyttum hestum útum allt. Einsog að hoppa hundrað ár aftur í tímann þar sem leigubílaraðirnar voru hestar...

Síðan götulistamenn, kurteisir austuríkjamenn sem segja stöðugt takk elskan. Ég veit að danke schön og bitte schön er bara orðatiltæki en einhvernveginn hrekk ég stöðugt við og finnst þeir óvenjulega elskulegir útum allt hihi. Í morgun fórum við svo á riiiisa markað. Sérstaklega er þetta vín og matarmarkaður, flæðandi í ostum, fylltum chilli, kjöti og kryddum og sætindum, víni, sturm og öööölllu þar á milli. En á laugardögum er lika flóamarkaður þar sem leyndist ýmislegt. Drasl og fallegir hlutir í bland, gamall karl með stóran grammófón, rauðvínsglas og vindil. Fallegasta rauða bollastell með hvítum blómum sem ég hef séð en tímdi ekki að kaupa, hvítur mjúkur refur sem gerður vildi gjarnan knúsa og vefja um hálsin enda telst það mjög töff, drasl og flóð, plötur og gömul sendibréf, gamlir inniskór, sólgleraugu, listaverk og skartgripir allt í belg og biðu.

Þegar sólin skein ákváðum við að það yrði að grípa daginn áður en kuldinn færðist yfir (einsog spáin sagði) og lögðum í smávægilega langferð með pinkla og poka, osta og álegg. Ferðinni var heitið upp í vínekrurnar í hæðunum yfir vín þar sem vínbóndarnir reka smástaði sem selja sturm (ferskt nýtt vín, ss ekki eins langgerjað, meira einsog djús með aldinkjöti en þó áfengt, ég rétt náði í lok tímabilsins af algjörri heppni) Til að komast þangað tekur maður urban, tram og labbar svo í góóoóóóðan tíma upp snarbrattan veg, slóða, stíg sem reyndi ákaflega á en í undurfallegu umhverfi. Þegar upp er komið, löðursveittur, rauður, þyrstur og að pissa í buxurnar reynast báðir aðalstaðir lokaðir þó engin sjáanlega ástæða finnist.

Við töltum fram og tilbaka, grétum næstum úr ergelsi þorsta og vínlöngun en spurðum loks konu á röltinu sem benti okkur í óvænta átt þar sem við töltum niður hæðina í aðra átt, snarbratt án merkispjalda og mættum fullt af lokuðum hliðum og lööööngu búnar að gefa upp nokkra von duttum við niður á stað. Skærgul lauf, eldrauðir runnar, grænt gras, lítið hús, brött brekka en einskonar verönd með hliði og fullt af borðum þar sem útsýnið var uppí brekkur og yfir dalinn og dóná, allt í stóórkostlegum haustlitum, ódýrt vín, ódýrt brauð með allskonar áleggi og smurostum og fleira á disk. Það fór að dimma og við sátum með sturmið, svo ánægðar með sveittan leiðarenda, útsýnið, ljósin sem byrjuðu að lýsa þegar fór að dimma, að sjaldan hefur verið svo gott móment. Óvænt ánægja er besta ánægjan.

Jájá þó við villtumst aðeins á leiðinni í svartamyrki niður af hæðinni, í ókunnugt þorp, allar leiðir enda í miðbænum svo allt fór vel. Amerískur kokteilbar varð fyrir valinu, góðir barþjonar sem kunna að blanda, ogguponsulítill art deco staður víst... en eftir alla mojitoana lá leiðin á salsacubverskan stað þar sem við sötruðum og dönsuðu svo einsog aldrei fyrr. Salsasjeikin it á stóru dansgólfi, allir svitna allir hrista allir elta taktinn. En klukkan fór að verða seint og enginn gat meir. Við getum hrisst en hversu góðar við erum er aukaatriði. Held ég þurfi að drífa mig í magadans með stelpunum í köben, það er svo kómískur dans, must learn it.

augnlokin lokast. Heils sólarhringstörn af aktivited. Á morgun er dinner og óperan. Hvorug okkar þekkir óperur en Carmen er víst samt stórkostleg og ég hlakka mikið til að sjá þetta í frægu húsi einsog þessu. Síðan er annar staður, frægur fyrir djamm, forna listamenn sem hengu þar og gáfu myndirnr sínar, en á miðnætti baka þeir sætabrauð með vanillueinhverju svo við verðum að tékka á þvi líka...

Núna svefn. Morgun, Margt. Síðar fleira og myndir. Alles bist wunderbar und sehr schön.




tómartöskur

Nærri miðnætti. Nýkomin heim með nefrennsli og flugfreyjutösku í láni. Fötin fæst ofaní töskunni því þau eru blaut á snúru. Þurrkarainneignin nefnilega kláraðist og gallabuxur eiga það til að vera lengur en hálfan dag að þorna. Ætli ég standi klukkan sex með hárblásarann að þurrka fötin?

Það var hráslagalegt í dag. Hálfgerður næðingur og grámyglulegt úti fyrir. Sveitt og skjálfandi undir sænginni. Verkefnið kláraðist ekki sjálfkrafa þó norton sé annars ágætur og uppáþrengjandi nákvæmur við að skoða allt sem hægt er innan í berta og á netsíðum. Rauðvín í glasi til að mýkja hálsinn, skerpa á þreytunni í bland við dauft deyfandi hálsbólgutöflur og bólgueyðandi. Söknuður í maga yfir brottför dagsins og tómlegheitum herbergisins. Þó sem betur fer niðurbældur af tillhlökkun yfir að hitta gebbið og týnast í vín (ég á allavega ekkert kort ennþá einsog auður sagði mér að fá mér...) Ég er þó með niðurskrifuð heimilisföng og lestarstöðvar svo ég komi mér á réttan stað.

Jæja einhver svefn er vist nauðsynlegur þótt hávaðarok og byljandi rigningin á glugganum sé hávaðasamur kór. Minnir soldið á tjaldsvefn...




vírusar og annað ógeð

Það er einhver haustsýkisfaraldur í gangi. Eftir marga daga hatramma baráttu sem innihélt bæði tár svita af óþolinmæði og ergelsisköstum við að reyna að vaka yfir og lækna bertolini sem virtist vera algjörlega á barmi þess að hrynja með vírusa, flækjur og frosti, þá tókst mér/halli að losna við trojuhesta og leysa vandamál með helvítis ipodinn sem ég er farin að álíta tæki frá hinu illa eftir flækjur og vitleysu. Næstum um leið og vírusvörnin var uppsett og komin í fullan gang við að skipta sér af öllu ólukkans uppsetningarklúðri sem virðist vera á innviði berta, þá byrjaði ég sjálf að hnerra, sjúga upp í nefið og drepast í hálsinum.

Það er alltaf hundleiðinlegt að vera veikur. Það er enn fúlla þegar gesturinn eru einmitt að fara og geta þar af leiðandi ekki hitað te, klappað manni eða vorkennt og jafnvel ennþá agalegra þegar tveir dagar eru í ferðalag í stórborgina vín þar sem áætlað var hælaskór, ópera og útað borða í boði atla frænda í ´hvert mál..... Engin virk vírusvörn til á fólk, en á lager af hálsbólgutöflum, verkjatöflum, sólhatt og extra sterku c vítamín, auk þess búin að kynna mér margar seríur af friends svo ég myndi örugglega rústa næstum öllum í friendsspilinu, borða meira af heimsendum pitsum en er sérlega hollt.

Eftir hádegi og kastrupkveðjur á morgun er milliþrif, þvottur og pakka í tösku, snýtubréf í hendi og blásið hár og skella sér til WIENNA á föstudagsmorguninn og vera ógeðslega töff með gebbó dipló.




glamúr og sykursjokk

Nú er sjöttu ferðinni á kastrup í október lokið og ekki nema fjórar eftir.... Búin að skila af mér litlu systur í fljúvél eftir góðan dag og aldeilis góða ferð. Ekki einungis fékk ég afsökun til að versla örlítið, tróð ofaní hana helling af chillí (komin með dollu í ískápin líka svo það er eitthvað ofaná brauð hananú) fórum líka í halloween tívolí með meiru og fórum í rússíbana og fengum okkur risapulsur, flökkuðum um stræti og stíga og skemmtum okkur vel. Hún var eitthvað ósátt við að vera almennt kynnt sem litla systir ástu en svona er þetta hehe. Stóra systir er líka kúl og meira segja á kalaset fékk hún að sjá ofurtöffarana og dönsku rapparana nick og jay.... ó mæ en töff.

Auk þess kom hún akkúrat á kúltúrnatten þar sem rosalegt húllumhæ var skipulagt á vinnustofunni hennar sossu, myndlistarkonu og mömmu bjarkar. Við stelpurnar voru ráðnar í að vera með í að skipuleggja og backstage hjálparar í rosa tískusýningu sem fatahönnuðurinn ásta og skartgripahönnuðurinn halla boga voru með í portinu fyrir framan vinnustofuna. Heppnaðist þvílíkt vel, ljósasjó uppum alla veggina og ég veit ekki hvað og hvað. Litla systir fékk það hlutverk að skenkja hvítvíni í glös sem hún sinnti af mikilli alúð. Allar vorum við greiddar og málaðar í anda tískusýningarinnar með 30´s bylgjur. Hér eru líka einhverjar fleiri myndir frá kvöldinu.

Á einhverjum tímapunkti vorum við ómar að reyna að taka myndir af módelunum í vinnustofunni, það er að segja hann að taka myndir og ég að skipta mér af. Lýsingin var ómöguleg þarna svo það var ekkert í boði nema skapandi hugsun, reif mig úr design glimmerullarpeysinni og reif upp eitt stykki ikealampa og stakk í samband og prófaði að beina honum að þeim til að fá betra ljós, skyndilega lýsist upp fyrir aftan mig hið besta ljós, nema svo lít ég aftur fyrir mig og er þá ekki kastljósmyndatökumaðurinn í gríð og erg að ná þessari senu á filmu. Svo ef þetta klipp kemur í sjónvarpinu þá biðst ég forláts og fullyrði að ég kann betur til verka en lítur út fyrir þarna hahaha.

En Tívolí er eiginlega snilld núna. Grasker á hverju horni, nornir og draugar. Ljós og kústar og markaður. Það er ekkert nema töff að ganga alveg í barndóm með sykrað epli, appelsínugulan risalakkrís, gos og sykursjokk og hrista það svo á alla kannta í rússibönum og drekatækjum jafnvel þó við höfum verið á barmi taugaáfalls í parísarhjólinu af lofthræðslu. Mér er nefnilega verst við tæki þar sem engar festingar halda manni kirfilega niður. Alveg sama þótt út hafi stigið börn og gamalmenni við oddrún veinuðum þegar hjólið stoppaði efst uppi og maður vaggar í vindinum þótt útsýnið yfir kolsvarta köben með ljósum og fagurheitum í tívolí sé ónáttúrulega fallegt.




og meiri heimsók

Ég rakst á dálítið ólýsanlega sniðugt í dag. Magic cube. Bunki af nýrri tegund póst-it í öllum regnbogans litum. (bókstaflega... ss sjö litir, sem annars er ein af ástæðunum fyrir að kandinski fannst sjálfsagt að tengja liti við tónstiga og tónlist því þar eru sjö nótur og með bæði tónum og litum hægt að blanda saman allan skalann af tilfinningum og þarmeð allan heiminn)

En þetta er betra en post it því nú get ég td haft alla minnismiða sem koma skólanum við appelsínugula, allt gestatengt blátt og allt partýtengt grænt og svo framvegis. Ég ætla líka að skrifa öll helvítis nýju pin númerin á svona svo ég týni þeim ekki. Þetta er álag sko, nýtt símakort, aðgangur að nýjum emailum, undervisningsportalen, staðreyndin að loksins þegar ég fékk nýtt pin nr fyrir atla týndi ég því næstum um leið við tiltekt í töskunni. Já það má alltaf bæta skipulagið.

Október er formlega fullbókaður uppá dag af straumi fólks og sjálfrar mín í önnur lönd frá og með morgundeginum þegar litla systir ákvað í skyndiákvörðun að koma til köben yfir helgina þar sem íslenskir menntaskólar hafa víst tekið upp haustfrí líka. Það verður gaman að sýna henni heiminn minn. Ég fíla í botn að vera upptekin en einhverstaðar heyrist ómur af ve röddu djúpt undir niðri sem segir, er þetta mastersnám?

Ég sussa bara á hana og segi henni að þetta komi allt með kalda vatninu að venju og vanda.




draumfarir

Hvað er betra þegar maður er heima að láta sig dreyma, en einmitt að fá sér bara alvöru risadraum?

Takk Hallur, fríhöfnin og freyja.




ef þú skilur það ekki skilurðu ekki neitt, skilurðu það?

"Meaning is a dialouge - always only partially understood, always an unequal exchange."

Ég er með tungumál og merkingarsköpun og skilnings milli fólks á heilanum þessa dagana. Einhver hluti tengist auðvitað staðreyndinni að ég skil ekki hvernig ég get skilið svona vel það sem fer fram í skólanum en hinsvegar ekki komið frá mér almennilega því sem ég skil, til annarra svo þeir skilji líka hvað ég veit. Ennfremur öll þau persónulegu samskipti sem maður reynir að fá fólk til að skilja hvað maður er að meina með því sem maður segir, en veit að það kemst aldrei alveg til skila.

Þarna kemur núna danskan eitthvað málinu við, en svo ef maður hugsar lengra út í það þá kemur tungumál þessu svo ákaflega lítið við. Hvað er það við þankagang fólks úr sömu menningu og sama tungumáli, sem bara getur ekki skilið hvað hinn er að meina? Þó fólk þekki sömu orðin, noti sama slangur og setningarbyggingin sé ekki frábrugðin á neinn hátt þá sjá þeir ekki nálægt því sama hlutinn úr textanum eða umræðunum. Heppilegt þá að bókin sem ég greip til að lesa í kvöld fjallar um þetta. Finn enga betri þýðingu á representation of meaning through language nema birtingarmynd merkingar gegnum tungumálið? Já einhverjir ranghvolfa augunum hérna.

Hinsvegar er ég ekki að tala um orð einsog póstmódernisma eða diffrun eða bestun eða nytjafall sem hvert um sig getur verið tómarúm bakvið stafina eftir því hvaða akademíska vettvang fólk datt inná. Ég er bara að skemmta mér yfir því hvað mér finnst stórfenglegt þegar fólk skilur nokkurnveginn hvort annað. Það getur vel verið að fólk hafi almennt minni þráhyggju en ég yfir að skilja og vera skilinn en ég er allavega gríðarlega ánægð með alla sem ég skil og skilja mig, tala nú ekki um bæði þá erum við að dansa.

Virðist sem nokkrir úr bekknum mínum ætli að skella sér á airwaves. Ef þið sjáið sjónmenningarlega dana þá bið ég að heilsa. Sjálfa langar mig lítið enda ákaflega sátt við þá heimsendingu frá íslandi sem kemur yfir sömu helgi. Skiljanlega.

(stuart hall er fyndinn; í tengslum við ólík form sem geta miðlað merkingu önnur en tungumál kemur skyndilega þetta innskot -Music has been called "the most noise conveying the least information") Ég gæti allavega ekki lifað án hávaðans burtséð frá upplýsingamagninu eða beinum tengslum við raunverulegan heim.




manic monday

Eftir að hafa tekist að forðast það að díla við draslið heima hjá mér fyllist ég eldmóði og orku þegar mánudagsmiðnætti nálgast og ég loksins komin heim síðan snemma í morgun. Veit ekki hvaðan þessi orka kom en tiltekt þrif og pantaður þvottatími í fyrramálið. Syrpur krakkar mínir. Það er málið.

Engin nýjung á ferð að ég hafi stundum gaman af undarlegum uppákomum. Þessvegna skemmtir mér rússneska konan sem er búin að hringja nokkrum sinnum að leita að sömu dariu og fulli norðmaðurinn en þessi skilur ekki orð í ensku né dönsku og þegar ég byrjaði að hækka róminn og heimta að vita hvaða símanúmer hún hafi hringt, skellir hún alltaf á. Sömuleiðis fannst mér með endemum fyndið að brunabjallan skyldi fara í gang á sunnudagsmorguninn, allavega þegar kom í ljós að engin hætta var á ferð heldur einhverstaðar of margir í partý í litlu herbergi. Eða svo vildi nýji nágranni minn meina sem mér fannst skylda að kynna mig fyrir svona linsulaus hálfblind og fáklædd með sigrúnu mér við hlið sem fékk að crasha eftir innflutningpartý hjá vinkonu í næstu götu. Hann grunar eflaust ýmislegt.

Kannski er orkan tilkomin af þeirri skemmtilegu tilviljun að ég er ekki eins mikill bjáni og ég eiginlega hélt og reyndist vera mun skárri í flash þótt þetta hafi verið fyrsti tíminn sem ég mæti í. Það þýðir þó ekki að ég geti neitt af viti, hinsvegar hoppaði ég næstum hæð mína af gleði og skríkti einsog smástelpa þegar mér tókst að gera nokkrar senur og ramma með fínum breytanlegum tökkum og tókst að láta boltann og textann skoppa líka. Já það þarf lítið til að skemmta manni.

Þó er undarlegasta uppákoman og sú súrrealískasta tengd innflutningspartýinu hjá brynhildi. Mér til varnar þá ætla ég að troða því inn, að fyrir langt um löngu hafði verið áætlað stórt þemapartý hjá okkur stelpunum sama kvöld svo ég hafði sagst myndi koma við þarna í fyrri kantinum áður en ég færi yfir í það partý. Okkar partýi var svo slaufað með litlum fyrirvara og ákveðið að skella sér allar í housewarming stuðið. Fyrir algjöra tilviljun komum við björk við hjá brynhildi rétt áður en stemmingin átti að byrja til að sækja verðmæta hluti sem átti að geyma hjá mér. Á móti okkur tekur maður í beinagrindabúning og brjálað meiköpp og allar fjórar hæðirnar voru klæddar í svarta ruslapoka ásamt drungalegum skreytingum, veitingum og kertaljósum. Í hverju horni mættum við dimmum verum og snarlega rifjast upp fyrir mér formlega flotta boðskortið sem ég hafði fengið sent í emaili nokkrum vikum áður þar sem tilkynnt var after dark þema og búningaskylda.....

Hvað gera fjórar ungar dömur í kollegiherbergi þar sem lítið finnst af aukadóti? Improvise ofcourse. Rauðu laki sem átti hvort eð er ekkert eftir að nota snarlega breytt í skykkju með kraga úr pappa, klippt beint á mig standandi, heftað saman og límt með dobbleteipi. Ein kom með slatta af svörtum fötum (lítið um þau í mínum fórum....) hárið túberað og spreyað í allar áttir, hvítpúðrað, ólýsanlegt meiköppmagn og málaðir blóðtaumar með varalitablýant. Tæplega tveimur tímum síðar klikkklökkuðu þrjár vampírur og drottning þeirra inn í drungalega húsið sem var yfirfullt af þeirra líkum. Vatnspípa á efstu hæð. Matarhlaðborð og heil hljómsveit á annarri, bar, fótbolti og slegist um singstar á neðstu. Gerviblóð og hárkollur, nornahattar og draugar. Óvæntasta og stærsta þemapartý sem ég hef nokkru sinni séð. Húrra til bofællesskapsins á landskronegade.

Plís SAS, hættiði þessu rugli með verkföllin. Nýjustu fregnir herma að þeir ætli að fresta verkfalli rétt yfir efterårsferien til að græða soldið á flakkandi dönum og henda sér svo í þetta. Hver á að sjálfsögðu miða frá kastrup í þeirri viku sem verkfallið er áætlað? Ég. Svindl.

By the way. Hefur einhver séð haustrútínuna? Ef einhver rekst á hana þá er ég að leita mér að slíkri. Bara litlum skammti jafnvel....




bissí bissí

I need a hero....nanana til the end of the night... hes gotta be strong trallalla í dynjandi júrópop útgáfu bergmálar um blauta götuna mína frá fredagsbarnum á fimmtu hæð. Ég get hinsvegar dregið fyrir gluggana nýju gardínurnar sem tókst að setja upp með síðustu orkunni af batterílausum bor og heimsendum handyman frá íslandi. Fíni fíkusinn í gula vasanum bakvið rauðu gardínurnar gera útslagið að heimilisblærinn sé minn. Að koma heim til einhvers er líka yndælis tilfinning. Vika getur liðið svo hratt að það er rannsóknarefni hvert tíminn fór en þó er listinn yfir atburði endalaus. Þó jazzhljómsveit í bátsferð á einum af síðustu heitu haustdögunum sé hátt á lista fá sushi og dimsummatarboð, mánudagskaríókí og ölsötur á uppáhaldsstöðunum með góðu fólki, rölt og rólegheit í bland við óvænt smádjamm, grenjandi rigningardembu og hálfógnvekjandi huggulegs þrumuveðurs auk allra litlu hlutanna líka toppeinkunn.

Ég er orðin mjög heimavön á kastrup þó helmingurinn af heimsóknum þangað séu leiðinlegri en hinar. Október verður næsta manískur í því enda mun ég ná sex skiptum þar... Eitt af þeim skiptum þar sem ég skrepp yfir til Vínarborgar að heimsækja diplómatann.

Ég velti fyrir mér hvort það sé satt að österbro sé ekki laus við snert af snobbblæ þegar eini klósettpappírinn sem fæst í nettó er lúxusmjúkur, þriggja laga pappír með þrykktum fiðrildamyndum. Minnir mig bara á diplómatann.

Síðan úrval af tilhlökkunarefnum í mismunandi tímafjarlægð og feikinóg af innri ánægju til að deila út. Það verður vel nýtt í indlandsreisunni þar sem ég fæ hlutverk professional knúsara með hinum sem kenna eða lækna.

Ég hef ótrúlega mikinn áhuga á slýi og munstri. Fagurgrænt og fyndið. Þetta yndisfagra slý&salt munstur er að finna á tröppunum undir nýja risastóra óperuhúsinu í köben í boði maersk milljónamæringsins. Eiginlega mun fallegra en húsið sjálft....

Og jú ég er líka í skólanum....








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com