Hosted by Putfile.com





Í þokkabót að ég sé bara hreinlega löt að blogga þá hefur netið legið niðri hjá okkur í nokkra daga. Setti bara samt sunndagsfærsluna inn svona mér og kannski einhverjum til skemmtunar. Er að læra sem þýðir að ég drekk kaffi heima í flíspeysu af sigrúnu með yfirstrikunarpenna í munninum og heftið og orðabókina, með súkkulaði nálægt og sígarettur innan seilingar og fer svo og spila á flautuna í smá stund og svo á netið. Fyrsta munnlega prófið í fyrramálið og ég hlakka ekki til en hlakka hræðilega til þegar það verður búið. Alveg komin tími á þetta, HALLÓ ég er búin að vera hérna í sjö mánuði..... Sendiði mig í munn úlfsins... In bocca al lupo.... og ég svara drepist hann... eða crepi. Stundum er ekki auðvelt að skilja hugmyndina bak við svona orðatiltæki. Svo sem ekki verra en að óska fólki fótbrots..... break a leg.... en veit ekki betur en við segjum bara á ástkæra ylhýra; Gangi þér vel. Engin orðaleikur þar.

Nebb, ekkert fyllerí í meira en viku, neibb ekkert hössl í gangi, neibb heldur engir peningar til að styðja fyrrnefna hugmynd. En góðu fréttirnar eru þær að þegar ég verð búin með næsta próf... 2,apríl verður lánið mitt komið og allt í góðum gír í svona rúma viku. Já, og ekki bara péningar koma inn á reikningin heldur líka einsog eitt stykki kærasti mættur á svæðið. Jah, leitt að svekkja ykkur en ekki minn kærasti heldur kærasti sambýliskonu minnar. Eins gott að ég haldi mig á mottunni sem viðhaldið í þá tíu daga..... he he he. Annars er þetta viðtekið hlutverk hjá mér og held að ég sé búin að fá minn skerf fyrir lífstíð að hitta kærasta viðhaldanna, spurning um að breyta til og fá mér kærasta og hitta viðhöldin hans eða hann hitti viðhöldin mín. Ekki hljómar það nú betra. Kannski er til maður í heiminum sem er hinn eini rétti og við getum öll vafrað um í rósrauði skýi af ástarbríma til eilífðar. En kannski er það bíómynd. Get þá allavega notið ástarbíma annarra og vona að þau vafri um götur bologna í fyrrnefndu skýi og ég get klipið þau í kinnarnar. Einnig erum við búnar að skipuleggja matarboð með norska parinu og þá get ég notið þess í ystu æsar að sjá ástina í lífinu og vera fullkomið eintak af fimmta hjólinu. Nema ég fari út og finni mér stefnumót fyrir þessar samverustundir og klípi hann í kinnarnar..... Kaldhæðnislega skemmtileg tilhugsun, en þó hlakka ég nú samt til enda frábært fólk allt saman þótt það sé ástfangið.... ;)

Við höfum átt frábær kvöld með norsku krökkunum enda eru þau á okkar bylgjulengd og ekkert nema gaman að sötra með þeim rauðvín og rommíkók og eiga tilveruspekilegar umræður. Einsog stundum vill þá duttu umræðurnar í afhverju ég væri einhleyp ung kona og vildi Gunnar hinn norski endilega setja sig inní stöðu mín í deitheiminum á ítalíu og hafði ýmis góð ráð í pokahorninu. Svona eftir á að hyggja finnst mér mjög kómískt að hann sé að ráðleggja mér í ástarmálum og greina framkomu mína í hinum ýmsu stöðum, allt meint á besta veg og hafði ég þó nokkuð gagn af þessum umræðum en þó fer maður að velta fyrir sér hvort það sé svona slæmt að vera ekki með í kærastakapphlaupinu. Stundum er langtíma parafólk mjög annt um að maður nái sér í félaga, sennilega vorkennir það einhleypingnum sem ekki hefur fundið týnda tvíburann sinn ég veit það ekki. Samfélagið gerir kannski bara ráð fyrir þessari paraþróun og ýtir undir spurningar af taginu; já en afhverju áttu ekki annan helming? Ekki að mér líði mjög illa af hinum ósýnilega samfélagsþrýstingi, það er bara hugleiðing. Er maður virkilega hálfur? Ef mér finnst ég ekki vera heill eða rúmlega þá hefur það meira að gera með vonbrigði á eigin frammistöðu með sjálfa mig en að ég tengi það við skort á karlmannshelming. Ég er ekki að segja að mér finnst það alger ónauðsyn enda nytsamir til ýmsa hluta og svo skemmtilegir líka, heldur meina ég að ég byggi ekki mitt eigin identity á því. Tel það stóran miskilning og galla að skilgreina sig útfrá hinum meinta öðrum helming.

Til að taka af allan vafa og ergelsi frá parafólki, þá er ég heldur ekki að halda því fram að fólk í sambandi sé alltaf svona, eða skorti eigin sjálfsmynd, ég er að segja að það geti gerst.




SUNNUDAGUR 28.MARS

Í nótt breyttist tíminn í sumartíma. Sem þýðir að klukkan tvö varð hún þrjú, ég hef oft áður verið í útlöndum þegar þetta gerist en ég venst því einhvernvegin seint. Tekur mig marga daga að vera viss um hvað klukkan er..... gleymi kannski að stilla klukkuna i símanum, eða þá að einhver klukka á heimilinu eða í miðbænum er á öðrum tíma og er ég því alveg laus við að vita hvað klukkan er Í ALVÖRUNNI. Einsog núna veit ég ekki hvort klukkan er sjö eða sex, svo sem flækir ekki lif mitt mikið á sunnudegi en samt ef hún er sjö ætti ég að fara að huga að kvöldmat bráðum.... En svona er gott að búa sjálfur ég borða bara þegar ég verð svöng.

Veit ég hef ekki sinnt neinni tilkynningaskyldu undanfarnar vikur og er ástæðan saman í hnút leti og taugaáfallið yfir netreikningnum. Svo hef ég líka verið duglegri en nokkur sinni (hérna úti allavega) að lesa fyrir próf og einsog venjulega naga ég mig í handabökin yfir að hafa ekki dembt mér í þetta af meiri alvöru fyrir löngu síðan. Er alveg sokkin ofan í bók um Cromofobiu, lithræðslu nútímans í ýmsum formum og fleiri bækur um liti í listum og bókmenntum. Á milli þess er ég að velta mér uppúr gagnrýnni fyrirbærafræði lista, rannsóknir Wittgenstein á merkingu tungumálsins og reyna að setja saman nokkuð heilsteypta kenningu í hausnum á mér að sjálfsögðu á ítölsku til að flytja fyrir prófessorinn og viðstadda áhorfendur á miðvikudaginn.

Sjúkdómurinn minn sem ég kýs að nefna “á morgun er nýr dagur” hefur þó ekki yfirgefið mig og tel ég líklegt að engin lækning finnist meðan ég lifi. Einkenni hans voru þau að við sigga fórum bara í búð og keyptum sítrónuostaköku og súkkulaði og tókum dvd myndir til að eyða laugardagskvöldinu heima. Þannig komum við okkur undan samviskubiti því við vorum ekki að djamma og eyddum sama og engum péningum. Svo er svo gott að eiga fyrirfram borgað videokort sem maður borgar bara 1,5€ fyrir mynd. Tókum session með The Human stain með Nicole Kidman og Anthony Hopkins og Dogville e. Lars von Trier einmitt lika með Nicole Kidman. Komu báðar á óvart og fröken nicole fékk ennþá fleiri plúsa í bókina. Mér finnst hún allavega vera virkilega sannfærandi í öllum þeim hlutverkum sem ég hef séð hana í.

Föstudagskvöldið var þó kómískara þar sem sigrún var búin að sannfæra mig um að taka að mér það hlutverk að plokka upp hárið á henni í hettu til að lita rótina. Fyrir fáfróða þá er það gúmíhetta sem er troðið á hausinn á fólki með milljón götum og svo eru plokkaðir upp lokkar á víð og dreif með heklunál. Uppplokkaða hárið er svo litað og út koma strípur. Eða í hennar tilviki laga gamlar strípur. Ég vissi nú ekki í hvað ég var að koma mér og bjóst við svona tuttugu mínútna vinnu, en þeir sem þekkja siggu gera sér kannski grein fyrir að hún er með mjög mikið af hári. Þykkt ljóst hár niður á mitt bak og þar af leiðandi varð þessi skemmtun að rúmum einum og hálfum klukkutíma. Hún hafði einhvernvegin náð að sannfæra mig í búðinni að ég þyrfti nú eiginlega líka að lita á mér hárið.... þótt ég hafi verið með minn eigin lit í nokkur ár og þóttist bara sátt. Jæja fundum lit sem var aðeins rauðari en minn en mjög eðlilegur og hún notaði sín hárgreiðslugen í að þetta myndi lífga upp á litinn og gefa fallegan glans. Ég er svo auðveld viðureignar að mér leist vel á og því fékk hún að klína í mig lit líka með hettuna og plastpoka utanum. Þegar ljóst var að hvorug okkar var að læra opnuðum við bara rauðvínsflösku sem daniela hafði skilið eftir og sátum í ágætis yfirlæti með plastpoka á hausnum, sígarettu og rauðvín í eldhúsinu. Voða ánægð að allir strákarnir væru ekki heima. Eftir rauðvínið rákum við augun í opna rommflösku og pepsí í ískápnum og blönduðum okkur í glas, út um annað munnvikið ..... ekki meira kók.... .réttu mér kveikjarann....

Skyndilega okkur til ofsalegrar skelfingar heyri ég hurð opnast og einhvern ganga um.... kræst er einhver heima? Við með tónlistina á fullu, rommíkók og plastpoka á hausnum inni í eldúsi þegar fyrr höfðum tjáð öllum að nú væri sko pása á öllu því við þyrftum að LÆRA. Sigga hendist til og felur rommflöskuna og rétt nær að hlamma sér í stólinn þegar friðurinn mætir framhjá með krumpuð augu og úfið hár... rekur upp stór augu þegar hann sér útlitið á okkur en heldur þó áfram á klósettið. Shitt..... sigga hafði gleymt hettunni í vaskinum þar sem hún þornaði í sakleysi sínu. Við dóum næstum úr hlátri þegar við heyrðum undrunarröflið í manninum, á dauða sínum átti hann von fyrr en að finna gúmmíhettu með götum í vaskinum þegar hann í sakleysi fer að spræna.

Engin skaði skeður, enda öllum sama hvort við séum að læra eða ekki og samviskubitið er því algjörlega fyrir okkar eigin hönd. Aumingja marco hafði ekki einu sinni hugrekki í að spyrja hvað þetta væri, kannski er hann mikið inní tækni í háralitun eða var hræddur við að vita til hvers þetta væri.




Eg er a lífi. Simskeytastill er malid i bili. Fekk simareikning daudans fyrir netnotkun fra januar og februar. Er grati næst þar sem fjárráðin voru í hönk áður. Lífið er ekki slæmt, stundum sól og allt í gúddí. Þrjú próf í næstu viku og keypti bækurnar loksins á kredda í gær. Reddast allt einsog venjulega. Áhyggjur af sumarfataleysi og sokkaleysi er alvarlegasta af öðrum áhyggjum. Over and out. Kossar á línuna.




Ég hef löngum vitað að stundum vanti uppá skipulag hjá mér enn í dag þá fann ég meira fyrir því en venjulega. Byrjaði auðvitað á því að ég stillti vekjaraklukkuna mína í gærkvöldi á korter í níu næsta morgun. Hugsaði mér gott til glóðarinnar að ég næði meira segja að fara í sturtu áður en ég færi í tímann klukkan tíu. Aldeilis að taka daginn með lærdómstrompi og fleiru, sérstaklega þar sem þriðjudagskvöldið fór í bjór eftir tímann klukkan sjö og svo bíóferð með norsku krökkunum (Big Fish eftir Tim Burton, mér fannst hún bara þó nokkuð fyndin) og auðvitað meiri bjór eftir það með norsku pari ogírsk/þýsku pari. Tók mig vel út sem fimmta hjólið og líkaði bara vel.

Hljómar ekki flókið, en þar sem ég enn einu sinni gleymdi að taka símann minn af silent, þá hringdi vekjaraklukkan ekkert og ég svaf vært til rúmlega ellevu án nokkurra áhyggja. Hélt ég hefði bara vaknað á undan klukkunni og var hissa á því. Jæja, þýðir ekki að svekkja sig of mikið, þar sem ég hef ekki mætt seinustu tvær vikur í morgun tímana þá veit ég ekki af hverju ég er að missa. Allavega, mín bara róleg heima og býr sér til cappucino , spjallar við samleigjendur , skolar af sér I sturtu og röltir svo í mestu makindum í þrjú tímann. Mikil ósköp er fallegt að vera til þegar sólin skín örlítið undan gráum skýjunum og lýsir upp torgin og turnana og á torginu eru stúdentamótmæli gegn stríðinu með röndóttum PACE fánum á hverju strái auk þess að kynntar eru kosningarnar í háskólanum sem eru á næstu vikum. Mikið finnst mér vanta þennan stúdenta fíling í reykjavík. Jæja tíminn er frábær og ég finn mér sífellt nýjan starfsvettfang í huganum, af hverju er ekki til námsbraut sem leyfir mér að læra heimspeki, mannfræði, listfræði og tungumál í einum pakka? Mæti svo í næsta tíma, undarlegt að það er ekki pakkað á göngunum sem venjulega eru reykmettaðir þar sem allir reykja þar fyrir neðan -bannað að reykja- skiltin. Í stofunni þar sem fólk venjulega á í hópslagsmálum um að ná í sæti og þurfa ekki að sitja á gólfinu voru bara nokkrar hræður og tók meira segja eftir því að einn eða tveir horfðu einkennilega á mig. Jæja, ég stimplaði það bara á að ég líti kannski út fyrir að vera útlendingur og kippti mér ekkert upp við það. Kennarinn mætir loksins og ég finn mig svitna örlítið. Því hún var lítil og dökkhærð seinast þegar ég vissi en ekki þybbin og gráhærð með fangið fullt af ljósritum sem átti að deila á alla. Fokk, hef ég ruglast á stofu..... en ég er búin að vera í þessum kúrsi í þrjár vikur og hann á að vera hérna alla dagana....á þessum tíma..... skyndilega roðna ég í kinnunum því ég mundi að hann er alls ekkert klukkan fimm a miðvikudögum, heldur klukkan eitt. Þar sem ég mætti ekki í seinustu viku mundi ég það bara engan veginn. *Fyrsti möguleiki er að play kúúl og þykjast alltaf hafa verið þarna eða standa upp og valsa út einsog alvöru útlendingur sem veit ekki hvar hann á að vera. Jæja þar sem hið síðara er satt ákvað ég bara að hegða mér samkvæmt því. Helvítis, þar fóru góðu plönin og ég komst bara í einn tíma í dag.

Hið alvarlegasta af klúðrunum mínum í dag er hins vegar líka skammarlegast af öllu. Sem sagt seinasta föstudag fórum við sigga í myglu dauðans að taka dvd myndir. Hérna í götunni er týpa af sjálfsala og til að eiga kort verðuru að vera skráður á heimili. Sem við erum auðvitað ekki og notum alltaf kortið hans marco friðar. Af snilld okkar tókst okkur að taka myndirnar heim og gleyma kortinu í vélinni. Sem þýðir að þú getur ekki skilað myndunum, en borgar fyrir hvern sólarhring og klukkutíma sem þú hefur þær og skuldin safnast upp að eilfífu. Shit. Þar að auki er friðurinn ekki þekktur fyrir að vera friðsamlegur við svona hluti og þorðum við því ekki að segja honum frá þessu. Síðan eru liðnir margir dagar, héldum að það væri lokað, héldum að bara marco gæti sótt kortið, sigga fór til frakklands, og ég mundi ekkert eftir þessum bévítans spólum. Loksins í dag dreif ég mig á staðinn með von um að brosa fallega og tala með hreim og allt væri gleymt. Nei, feiti sveitti vörðurinn var ekkert glaður að ég væri mætt, gaf mér þó kortið en tilkynnti að ég gæti ekki skilað fyrr en búið væri að borga upp skuldina. Eðlilegt peningaplott, en ég átti ekki von á að sektin væri slík að ég þyrfti að borga yfir þrjátíu evrur fyrir myndirnar. Ætlaði meira segja að bíta í það súra epli og fór í hraðbanka en fékk ekki réttan seðil fyrir vélina og allar búðir lokaðar. Svo helvítis myndirnar eru hérna heima með mér og safna ennþá frekari skuldum. Mér finnst næstum einsog það heyrist tikk takk í þeim...... Sjúklega absúrd að labba lengst til að fara í ódýrustu búðina og kaupa lélegri en sparsamari mat til að treina krónurnar og eyða svo matarpeningum heillar viku í svona rugl.




Konudagurinn. Festa delle donne, 8.mars. Götusalar á hverju horni sem selja litla gula blómvendi í tilefni dagsins. Fólk segir til hamingju með daginn því þú ert kona. Það er bara gaman að vera kvenkyns á svona dögum jafnvel þótt ég hafi ekki fengið blóm og eigi ekki mann sem ætti að muna eftir mér. Það er kannski ágætt því þá getur hann ekki gleymt mér.... he hehe. Ég spurði svo Mirante hvort ekki væri líka til festa degli uomini eða karladagur, en hann sagði mér að þannig séð væri þetta líka hátíðardagur karlanna því einmitt á þessu kvöldi eru allskonar uppákomur og stelpur flykkjast út saman að djamma. Hlutur sem ekki gerist endilega mikið að ítalskar stelpur fari einar út og fái sér í hægri tánna, svo þeir fá stjörnur í augun yfir væntanlegri bráð á hverju horni. Reyndar held ég að þetta sé einmitt misskilningur, því stelpurnar fari út saman án karla til að djamma saman án þeirra en ekki til að veiða eða vera veiddar. Nóg framboð af slíku á venjulegum kvöldum, en eitthvað verða þeir að hafa greyin sem eiga engan dag. Nema pabbadaginn.

Sigga skrapp til suður frakklands á sunnudaginn í heljarþynnku eftir djammið kvöldið áður. En þar sem hún var búin að lofa vinkonum sínum að koma skreið hún út úr húsi með ólgandi maga og dúnk í höfði og náði lest klukkan tvö. Þvílík ánægja hlítur að hafa verið að sitja í ruggandi lest í 10 klukkutíma. Svo kerlan ég er ein í kotinu, ja eða þannig með hinum fimm. Einsog venjulega spurning um þessa blessuðu peninga sem vaxa ekki á trjánum hér frekar en annarstaðar. Reyndar er mikið svekkelsi í gangi að hér vex bara ekkert á trjánum ennþá, komið fram í marz og ennþá snjóklessur hér og þar. Fuss og sveiattan bara. Sá samt fyndnasta hlut í heimi í gærkvöldi, á einu af torgunum var grafa að vinna við að fjarlægja snjóinn og moka honum upp í vörubíl. Þvílíkt hatur á snjó! moka honum útúr borginni og búa til snjóhól fyrir utan svo við borgarbúar þurfum ekki að horfa uppá þetta þegar við göngum um..... og fólk á launum við snjóeyðslu.... sæi það í anda á íslandi. Eyða peningum skattborgara í eitthvað sem gerist sjálfkrafa þegar hlýnar.... Þó get ég þakkað fyrir að gera notað hina morðfjárdýru kápu sem ég fjárfesti í og alla fimm treflana sem ég á. Er eitthvað absúrd við það að vera með marga trefla og vettlinga en engar stuttbuxur? Sést á fataskápnum mínum að ég kem úr köldu loftslagi.

Jæja kerlingin fékk svo upphringingu i gær frá stelpu sem ég kynntist í seinustu viku, sem bauð mér að koma út með henni og vinkonum hennar í tilefni dagsins. Leist mér bráðvel á það enda eru þær hressar og skemmtilegar og skemmtum við okkur bráðvel, ein er frá feneyjum og þar af leiðandi með einn skemmtilegasta ítalska hreim sem til er. Hin er frá Napoli og hefur ýmis einkenni suður ítalíu fólks, hress með afbrygðum og sífellt brosandi og talandi. Ótrúlegt hvað sumt fólk er algjörlega laust við allt sem heitir feimni og talar við allt og alla og án minnstu vandræða. Fórum að byrja með á stað þar sem var afmæli hjá vini þeirra og var ég litli múmínálfurinn á svæðinu, hin hvíta rauðhærða ég bara féll ekki beint inn einsog flís við rass. Þó hið besta mál, allt mjög lifandi og opið fólk svo ég skemmti mér. Allir forvitnir hvaðan maður sé og þegar ég svara því fékk ég svör allt frá; hvar er ísland hef aldrei heyrt á það minnst - til óhhh hefur alltaf verið draumurinn minn að fara þangað. En yfirleitt alltaf; hvað í ósköpunum ertu að gera hérna? á stað sem þessi grúppa hangir nánanast eingöngu á, nýpönkarar með dreddahanakamba, spreyað hár, jónu í einni og hundsól í hinni. Allir eiga hunda, það er næstum partur af outfittinu. Best er ef þú nærð að líta út einsog þú hafir sofið úti í mánuð og aldrei farið í sturtu. Kannski einn af hverjum tuttugu er virkilega í þeirri stöðu en flestir er bara í tísku. Þegar ég hef séð suma vera að spila á eitthvað og betla smáaura, allir með nýlitað hár og hundrað piercing á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum, þá á ég erfitt með að ímynda mér að fólk sé raunverlega blankt. Taybuxurnar mínar vöktu einni athygli því hann hafði aldrei séð gular og vildi vita hvar ég hefði fengið þær. Glotti þó við tönn þegar ég upplýsti að ísland væri málið.

Stelpan frá napolí skammaði mig þó fyrir að tala of lítið, af hverju ég væri svona þögul? Þurfti aðeins að hugsa mig um, því það er ekki á hverjum degi sem fólk segir mér að ég tali of lítið. Þótt ég telji mig ekki vera sérstaklega feimna þá á ég alveg mín móment sem silent bob. Svo er það líka spurning um tungumál, þótt ég telji mig færa í flestan sjó með ítölskuna - að minnsta kosti gera mig skiljanlega og skilja þá hugsa ég yfirleitt á íslensku og þegar venjulega maður bablar um hluti sem maður er að velta fyrir sér sem skipta engu máli þá finnst manni ekki taka því að þýða það yfir þegar er um ómerkilega hluti að ræða. En ég öfunda fólk sem er svona opið, áhyggjulaust og fljótfært. Kemst sífellt betur að því að miðað við fólk frá suðri er ég hreinlega stíf og feimin. Þau grínast bara og klappa manni á öxlina og segja já en þú ert líka frá norðri þar eru allir stífir, nákvæmir og akkúrat og enga vitleysu. Sem furðar mig mikið því þessi lýsingarorð finnst mér ekki hafa neitt með mig að gera. Það finnst mér vera lýsing á þjóðverja.... sjáiði bara steriotýpusjúkdóminn sem hrjáir okkur öll. Svo ég velti fyrir mér hvort það sé bara misskilningur hjá mér..... ég sé í rauninni mjög skipulögð, lokuð og skynsöm eða hvort þau hafi bara hreinlega ekki skilið hvernig persóna ég sé. Málið er auðvitað að allt er relatívt. Hvað er relativo á íslensku? Skilyrt..... Afstætt.... Fer eftir því við hvað er miðað.

Þessum stelpum á ég samt eftir að kynnast betur, klikkum bara vel saman og fílum meira segja svipaða tónlist. Hún er meira segja búin að plana kareoki kvöld heima hjá sér sem ætti að verða hressandi uppákoma. Merkilegt nokk að ég komst að þvi að ástæðan fyrir því að hún fer yfirleitt seint út er að kærastinn hennar lenti í einhverskonar vandræðum með lögin og má ekki vera úti milli ellefu á kvöldið og átta á morgnanna. Þannig að hún eyðir tíma með honum til ellevu og þá fer hún út með vinum sínum. Deilir því auðvitað ekkert með honum, afbrýðisemi er ekki af skornum skammti hérna og því auðveldara að segjast bara vera að fara heim. Henni líkar þó staðan vel því hún fær bæði sem hún vill, kærastann til fjögurra ára sem er búin að ræða við pabba hennar um giftingu. (hvað meinarðu? ræða við pabba.....fornöld) Og frelsi þar sem hún djammar með þeim sem henni henntar. Þessi heimur....




Í dag er laugardagur í mínu lífi. Ég ákvað að stressa mig ekkert á því þótt ég hefði skrópað í alla tímana mína í dag og breyta bara um vikudag til að sleppa við móral. Eftir mörg ár sem ég hef ekki þurft að vakna snemma á morgnanna þá virðist mér algjörlega fyrirmunað að reisa líkamann í lárétta stöðu fyrir klukkan átta á morgnanna. Meira segja síðasta árið mitt í FB þegar ég var bara í myndlist þá mætti ég yfirleitt aldrei fyrr en að verða níu eða seinna. Fyrsta árið mitt í háskólanum mætti ég yfirleitt aldrei fyrr en á hádegi og jafnvel þá tókst mér milljón sinnum að sofa yfir mig. Núna í haust mætti ég oftast ekki fyrr en þrjú eða fimm svo þið sjáið hvert þessi þróun leiðir. Ég þarf að finna mér næturskóla.

Svo er ekki hægt að segja annað en að sigrún bætir ekki stöðuna, drifum okkur út í dag til að ná í einn kaffibolla á uppáhaldskaffihúsinu fyrir fimmtímann, og enduðum auðvitað á að sitja þar til sjö. Það er stundum absúrd hvað hægt er að tala mikið við sömu manneskjuna, hún sefur í næsta rúmi, við þekkjum sama fólkið og djömmum þar af leiðandi alltaf saman og samt komumst við ekki í tíma því við þurftum svo mikið að "spjalla". Já það verður ekki af því skafið að ég mun minnast minna háskólaára með henni sem einnar langarar kaffihúsaferðar og taugaáfalli í kringum próf. Auðvitað læddist mórallinn aftan að mér þegar ég kom heim og því tók við maraþon lærdómur uppí rúmi undir sæng og með vettlinga því mér var svo kalt á puttunum við að halda á bókinni, fram til núna um eitt eftir miðnætti þegar ég hoppa um af gleði eftir að hafa náð að klára eina af hundrað bókunum mínum. Heilinn er hálfdofinn eftir að stúdera eitthvað sem myndi sennilega þýðast sem "Hin nýja gagnrýna fyrirbærafræði listanna..... og neo idealistico del spiritualismo sem ég hef ekki grænan guðmund um hvernig á að þýða. Leyni ekki óstjórnlegri gleði minni og tilhlökkun til að mæta í munnlega prófið og gera grein fyrir minni kenningu um þessi efni í samhengi við alheiminn.....

Ég er komin með dellu af nýrri hljómsveit, fékk lánaðan disk hjá danielu sem býr með mér og hljómsveitin heitir ; Giardino di Míró og diskurinn Punk, not diet. Mæli eindregið með því að fólk kynni sér þau ef hægt er að komast yfir eintak af þessum disk á fróni. Þar sem ég er enginn tónlistarséni þá hef ég ekki hugmynd um hvort þetta sé þekkt hljómsveit eða ekki. Ja það væri nú ekki loku fyrir það skotið að ég myndi bara búa til disk og senda á áhugasama. Ótrúlegt hvað ég er mikið næturdýr, eftir að hafa rölt um í þreytuvímu í allan dag þá er ég alveg eiturspræk núna um miðja nótt. Auðvitað á ég að fara í tíma í fyrramálið og get ekki samvisku minnar vegna sleppt honum. Fimm vikna kúrs og ég er búin að mæta í tvo af átta tímum. Hjálpi mér allir heilagir ef ég ætla að ná þessum prófum.




E l´incubo continua!!! Ancora sta nevicando..... Svo hljóðuðu fyrirsagnir dagblaða og fréttaskota á laugardaginn. Á ástkæra ylhýra myndi það útleggjast sem; Og martröðin heldur áfram, ennþá snjóar.

Við komumst ekki hjá því að kíma örlítið, en þó ekki mikið því ég er komin í fullan vorfíling og bíð eftir hitanum. Á föstudaginn var nokkuð ljúft veður með sól og þurru og engum snjó. Þegar ég vaknaði á laugardagsmorgun var allt orðið hvítt og þessi líka ekta jólasnjór í fullum gangi. Fólk var útí glugga alveg gáttað yfir þessum ósköpum og þegar hélt áfram að snjóa svakalega allan daginn varð þvílíkt neyðarástand í öllu Emilia-Romagna héraði. Fréttirnar lýstu stórslysaástandi á hraðbrautum og allt lokaðist í marga klukkutíma. Tíu kílómetra raðir mynduðust og fólk var fast um allar trissur. Ítalirnir sem við búum með voru í þunglyndi því þetta var einmitt partýdagurinn mikli og nú myndi enginn koma. Allir gjörsamlega terrified við allan þennan snjó og hættu sér ekki út úr húsi. Meira segja vínbúðinni var LOKAÐ vegna snjókomu.

Ég ætlaði nú ekki að láta segja mér það að fresta yrði grímuballi vegna rúmlega metra snjó!! En fréttir bárust frá ýmsum sem ekki sáu sér fært að mæta vegna veðurs. HALLÓ!! Þó þú þurfir að rölta úti í smá snjókomu er það nú ekki endirinn á heiminum. Við tókum þetta heldur betur ekki í mál og bökuðum bara pönnukökur og smurðum á það nutella til að hressa liðið við. Fullviss um að allavega okkar nánustu vinir og allir útlendingar sem við þekkjum myndu mæta og reyndum að plata þau með pollyönnu aðferðinni að allavega yrði meira áfengi á hvern mann ef fáir kæmu.....

Að sjálfsögðu klæddum við okkur upp sem hinir glæsilegustu kúreki og indíáni og túberuðum og spreyjuðum hárið af miklum móð. Strákarnir voru enn takmarkað hressir og ekki alveg á því að klæða sig upp, ennþá fullir örvæntingu um að ekkert myndi gerast skemmtilegt en eftir nokkur væn romm í kók fór brúnin að lyftast og þeir sáu hversu ógeðslega gaman það er að fara í furðuföt og djamma. Okkur tókst að koma marco Mirante ( það var víst misskilningur hjá mér að hann héti miranda..... hann var ofsalega sár yfir að við kölluðum hann það) í geimverubúning. Mála hann grænan í framan og vefja hann inní álpakkir. Hress drengur. Rauðhærði fór að venju í konuföt og líkaði mjög vel, hann var voða glaður þegar ég sagði honum að það væri ekki endilega það sama að vera samkynhneigður og fíla að vera í dragi, og aldrei að vita nema hann eigi feril fyrir sér í þeim efnum..... he he he Marco friður var líka í fíling í kvennmannsfötum en aðalega því honum fannst gott að klípa í sín eigin blöðrubrjóst. Við hlógum mikið þegar hann lét þessi orð falla eftir nokkra drykkju. Meira segja giancarlo sem er stóri bróðir friðarins og maður nokkuð rólegur tókst okkur að spreyja hárið á honum rautt og setja hann í eldrauðar stuttar taybuxur af mér og mála á hann kinnar. Já ég segi ekki annað en ég var fullkomlega sátt við okkar framtak.

Annars heppnaðist þetta framar vonum og staðan varð einmitt sú að allir útlendingarnir mættu og þeir ítalir sem vissu að við myndum afhausa þá ef þeir beittu snjó fyrir sig sem afsökun á fjarveru. Nóg var af veigum, bollu að íslenskum sið, nokkrir 5 lítra dunkar af rauðvíni og tequila sem vakti mikla lukku. Það þarf ekki að tvíunda að fólk varð ansi skrautlegt og sá maður nýjar hliðar á öllum. Ég var greinilega of upptekin til að sinna myndatöku hlutverki og lét strákunum eftir myndavélina, ekki góður leikur því þær eru flestar flash lausar og þar ef leiðandi svartar en ég setti hinar þó inn bara svona rétt til að gefa ykkur hugmynd um vitleysuna. Video cameran var líka á lofti, sigga einsog ég of upptekin við að sinna fólki eða drekka og lét Mirante eftir vélina. Sumt tókst þeim jólasveinum sæmilega upp en sumt var agalegt. Til dæmis fimm mínutna senan af gólfi og fótum því hann gleymdi að slökkva á henni og bar hana útum allt...... Frábært var líka að heyra í ásu minni sem hringdi í mig snemma um kvöldið, ávallt gaman að heyra raddir að heiman og ekki oft sem maður leyfir sér að hringja í gamla og góða vini.

Ja það verður ekki af okkur skafið af heppnin eltir okkur á röndum. Ég ætti kannski að þakka atvikinu þegar ég steig í skít hérna fyrir jól sem átti á boða mikla lukku. Eða öfugt. Mesti snjór sem hefur sést í tugi ára í héraðinu byrjar einmitt daginn sem við erum búin að bjóða fimmtíu manns í partý. Eina góða við þetta er að hérna er ekki frost svo snjórinn var nánast farinn eftir sólarhring. Erum enn að hlægja að skiltunum og vegatálmum sem settir voru upp, -Bannað að ganga hér um, HÆTTA snjór getur fallið af þökunum.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com