Hosted by Putfile.com





E l´incubo continua!!! Ancora sta nevicando..... Svo hljóðuðu fyrirsagnir dagblaða og fréttaskota á laugardaginn. Á ástkæra ylhýra myndi það útleggjast sem; Og martröðin heldur áfram, ennþá snjóar.

Við komumst ekki hjá því að kíma örlítið, en þó ekki mikið því ég er komin í fullan vorfíling og bíð eftir hitanum. Á föstudaginn var nokkuð ljúft veður með sól og þurru og engum snjó. Þegar ég vaknaði á laugardagsmorgun var allt orðið hvítt og þessi líka ekta jólasnjór í fullum gangi. Fólk var útí glugga alveg gáttað yfir þessum ósköpum og þegar hélt áfram að snjóa svakalega allan daginn varð þvílíkt neyðarástand í öllu Emilia-Romagna héraði. Fréttirnar lýstu stórslysaástandi á hraðbrautum og allt lokaðist í marga klukkutíma. Tíu kílómetra raðir mynduðust og fólk var fast um allar trissur. Ítalirnir sem við búum með voru í þunglyndi því þetta var einmitt partýdagurinn mikli og nú myndi enginn koma. Allir gjörsamlega terrified við allan þennan snjó og hættu sér ekki út úr húsi. Meira segja vínbúðinni var LOKAÐ vegna snjókomu.

Ég ætlaði nú ekki að láta segja mér það að fresta yrði grímuballi vegna rúmlega metra snjó!! En fréttir bárust frá ýmsum sem ekki sáu sér fært að mæta vegna veðurs. HALLÓ!! Þó þú þurfir að rölta úti í smá snjókomu er það nú ekki endirinn á heiminum. Við tókum þetta heldur betur ekki í mál og bökuðum bara pönnukökur og smurðum á það nutella til að hressa liðið við. Fullviss um að allavega okkar nánustu vinir og allir útlendingar sem við þekkjum myndu mæta og reyndum að plata þau með pollyönnu aðferðinni að allavega yrði meira áfengi á hvern mann ef fáir kæmu.....

Að sjálfsögðu klæddum við okkur upp sem hinir glæsilegustu kúreki og indíáni og túberuðum og spreyjuðum hárið af miklum móð. Strákarnir voru enn takmarkað hressir og ekki alveg á því að klæða sig upp, ennþá fullir örvæntingu um að ekkert myndi gerast skemmtilegt en eftir nokkur væn romm í kók fór brúnin að lyftast og þeir sáu hversu ógeðslega gaman það er að fara í furðuföt og djamma. Okkur tókst að koma marco Mirante ( það var víst misskilningur hjá mér að hann héti miranda..... hann var ofsalega sár yfir að við kölluðum hann það) í geimverubúning. Mála hann grænan í framan og vefja hann inní álpakkir. Hress drengur. Rauðhærði fór að venju í konuföt og líkaði mjög vel, hann var voða glaður þegar ég sagði honum að það væri ekki endilega það sama að vera samkynhneigður og fíla að vera í dragi, og aldrei að vita nema hann eigi feril fyrir sér í þeim efnum..... he he he Marco friður var líka í fíling í kvennmannsfötum en aðalega því honum fannst gott að klípa í sín eigin blöðrubrjóst. Við hlógum mikið þegar hann lét þessi orð falla eftir nokkra drykkju. Meira segja giancarlo sem er stóri bróðir friðarins og maður nokkuð rólegur tókst okkur að spreyja hárið á honum rautt og setja hann í eldrauðar stuttar taybuxur af mér og mála á hann kinnar. Já ég segi ekki annað en ég var fullkomlega sátt við okkar framtak.

Annars heppnaðist þetta framar vonum og staðan varð einmitt sú að allir útlendingarnir mættu og þeir ítalir sem vissu að við myndum afhausa þá ef þeir beittu snjó fyrir sig sem afsökun á fjarveru. Nóg var af veigum, bollu að íslenskum sið, nokkrir 5 lítra dunkar af rauðvíni og tequila sem vakti mikla lukku. Það þarf ekki að tvíunda að fólk varð ansi skrautlegt og sá maður nýjar hliðar á öllum. Ég var greinilega of upptekin til að sinna myndatöku hlutverki og lét strákunum eftir myndavélina, ekki góður leikur því þær eru flestar flash lausar og þar ef leiðandi svartar en ég setti hinar þó inn bara svona rétt til að gefa ykkur hugmynd um vitleysuna. Video cameran var líka á lofti, sigga einsog ég of upptekin við að sinna fólki eða drekka og lét Mirante eftir vélina. Sumt tókst þeim jólasveinum sæmilega upp en sumt var agalegt. Til dæmis fimm mínutna senan af gólfi og fótum því hann gleymdi að slökkva á henni og bar hana útum allt...... Frábært var líka að heyra í ásu minni sem hringdi í mig snemma um kvöldið, ávallt gaman að heyra raddir að heiman og ekki oft sem maður leyfir sér að hringja í gamla og góða vini.

Ja það verður ekki af okkur skafið af heppnin eltir okkur á röndum. Ég ætti kannski að þakka atvikinu þegar ég steig í skít hérna fyrir jól sem átti á boða mikla lukku. Eða öfugt. Mesti snjór sem hefur sést í tugi ára í héraðinu byrjar einmitt daginn sem við erum búin að bjóða fimmtíu manns í partý. Eina góða við þetta er að hérna er ekki frost svo snjórinn var nánast farinn eftir sólarhring. Erum enn að hlægja að skiltunum og vegatálmum sem settir voru upp, -Bannað að ganga hér um, HÆTTA snjór getur fallið af þökunum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com