Hosted by Putfile.com





Aumingja Ítalía er úti. Þvílíkur sársauki skók landið hérna í gærkvöldi og strákarnir hérna heima eyðilagðir, við reyndum eitthvað að grínast um að þetta væri nú bara fótbolti og ekki gráta en það var sko langt frá því pláss fyrir slíkan húmor. Blöðin hafa lýst því yfir að ekki leiki vafi á því að skandinavísku löndin hafi komið sér saman um vinalegt jafntefli 2-2 til að koma ítalíu út. Reyndar voru flöggin sem áhorfendur veifuðu með skriftum um að koma svo jafna á þennan hátt og senda spagettíin heim.....

Hvað um það ég er ekki svo djúpt sokkin að þetta stuðli að andlegri vanlíðan hjá mér enda margt annað að gera í júlí en að horfa á evrópukeppnina en fyrir hinum er þetta búið að eyðileggja sumarið. Af vanþekkingu minni þá finnst mér samt fyndið að danmörk og svíþjóð hafi komist áfram en ekki spánn né ítalía sem leggja milljón sinnum meira í boltann og þetta snýst um þjóðarstolt. Kannski segir þetta þeim að eitthvað sé ekki í lagi.

Fór í annað próf í dag sem gekk sæmilega, fékk ágæta einkunn en lenti í frekar vandræðalegu mómenti þar sem ég var að reyna að bjarga mér við að tala um bók sem á endanum þurfti að viðurkenna að ég hafði bara ekki lesið.....ekki gott.... en þar sem ég kunni sæmilega vel um hinar þrjár slapp ég fyrir horn. Það sjúka við þetta er að ég fékk bara einum minna en í gær í prófi sem ég var búin að læra virkilega mikið fyrir en aðstoðarkennarinn neitaði bara að skilja mig og leyfði mér varla að koma neinu sem ég vissi frá mér. Fannst hann hreinlega leiðinlegur við mig og tók ekki minnsta tillit til að þótt ég tali sæmilega ítölsku þá hef ég ekki endalausan orðaforða til að tala um listir og stíla og isma og var bara fúll við mig ef ég sagði eitthvað vitlaust, en sem betur fer var ég áður búin að taka einn þriðja af prófinu í námskeiði og fékk háa einkunn þar. Kvarta því ekki með 24 og 25 í einkunnir. Nú er heil vika í fríi, næstsíðasta prófið 30.júní!!!

Mamma,pabbi&gríslingarnir þrír mæta á svæðið næsta þriðjudag fyrir tveggja vikna frí á ítalíu, byrja hérna í Bologna en svo er förinni heitið í hús á mörkum Toscana og Umbria. Auðvitað með dótturina með í för og ljóshærða tökubarnið Siggu eins lengi og hún þolir við, Þar sem hún er nú búin að vera heimalingur hjá mér síðan við kynntust sem eru heil 12ár þá verður það ekkert nýtt..... Eftir fjölskyldufríið tekur svo við að redda öllu sem redda þarf sem er alltof mikið og auðvitað reyna að njóta lífsins smá í leiðinni. Erum víst ennþá búnar að lofa okkur í þessa málningarsenu, get ekki annað en hlegið að því í huganum að við munum skilja eftir okkur málverk þar sem við sitjum og borðum kjöt af prikum. Jæja þeir munu þá ekki gleyma okkur í pescara þegar málverk af okkur öllum hangir uppá vegg. Nema náttla að við seljumst fyrir morðfjár, hver veit.




Það var liðið alltof langt síðan ég synti síðast í söltum sjó. Þvílíkt yndi að fljóta um í öldunum og flatmaga í sólinni. Auðvitað er ég orðin svört strax eftir tveggja daga sólbað...... ja svona næstum því, freknurnar hafa allavega fjölgað sér aðeins. “Sumarhúsið hans Mauri reyndist vera huggulegt raðhús á tveimur hæðum með garði með grilli og rólu og þægilegustu sólbekkjum sem ég hef prófað, Tré sem var sérstaklega plantað fyrir hengirúmið, sem mér til mikillar raunar fannst ekki meðan við vorum þar...... frá húsinu að sjónum voru tæpir hundrað metrar svo við skelltum okkur iðulega líka í sjóinn á nóttunni eftir djammið. Öllum til gleði þá var eitthvað að vatnskerfinu svo það var ekkert í boði nema köld sturta, minnti sérdeilis mikið á kakkalakkabælið í torremolinos hérna um árið og þá sérstaklega ópin frá guðjóni þegar hann lét bununa demba á bakinu...... komumst þó að því að það var bara hressandi að skella sér í kalda sturtu í garðinum á milli gróðursins.

Aumingja aumingja rauðhærði Gianluca lenti í því að hitarinn heima hjá honum sprakk í andlitið á honum og þess vegna hafði hann verið á spítala, pabbi hans hafði fært til í bílskúrnum og því tókst honum i flýti að ruglast á bensínflösku og díselflösku og kveikti í handleggnum á sér og upp að andliti. Til allra hamingju þá hafði hann gengið frá flöskunni og fékk “bara” fyrsta stigs bruna á höndum og með sviðna skeggrót,hár,augabrúnir. Þarf að smyrja sig í sólarvörn nr.100 og má ekki vera úti í sól í allt sumar, þegar maður býr í smábæ þar sem aðalmálið er að fara á ströndina er það ekki hressandi dómur. Hann og Vincenso tóku þó að sér að vera leiðsögumenn og fóru með okkur útum allar trissur, kynntu okkur fyrir foreldrum (mamma hans er fjörug, varaði okkur við þessum stráklingum sem væru konuætur og ótreystandi,..... minnti okkur á að rauðhærðum væri ekki treystandi og gerði allt til að láta þá fara hjá sér) og vinnufélögum og drógu okkur á djammið á aðaltorginu í Pianella sem er oggulítill bær fyrir utan pescara. Torgið reyndist vera meira einsog breið gata með tveimur litlum börum en sjarmerandi var það. Fórum líka út að borða á stað sem átti að vera með besta arrosticini í Abruzzo sem er lambakjöt í bitum sem er saltað sérstaklega og grillað, virkilega gott og tókum við okkur vel út með olíuna útá kinnar og fljótandi í rauðvíni. Vantar ekki að við höfum borðað á okkur gat í þessu fríi....

Að sjálfsögðu misstum við ekki af leiknum á föstudaginn, Ítalía-Svíþjóð og vorum við aftur að gera út af við strákana með að fagna svíþjóð, voru ennþá í sárum eftir að leikinn við danmörk þar sem við og norsararnir studdum frændur okkar dani með krafti. Heyrði allar bestu afsakanir fyrir útkomunni en sú besta var þó ; Já, en verður að taka með í reikninginn að ítölunum er svo heitt þarna í portugal........ og; þeir fá ekki að hafa kærusturnar hjá sér kvöldið fyrir leik einsog hin liðin...... Allt fundið til. Núna eru allir að spekúlera um að danir og svíar geri með sér samning til að koma ítalíu út, samsæri skandinavíu.... Við vorum samt í hálfgerðum vanda þar sem við höldum líka með ítalíu og viljum ekki að þeir fari út þótt þeir séu ekki búnir að standa sig sérstaklega vel, og Totti hafi komið fram einsog fáviti. (Hann er uppnefndur lamadýrið í fréttum þar sem sú tegund á víst að spíta þegar hún er angruð) búnar að eiga aldeilils fín kvöld með strákunum með endalaust af bjór og grill og snakki. Sit einmitt núna að horfa á strákana syngja ítalska þjóðsönginn, próf í fyrramálið klukkan níu en maður lætur ekki svona fram hjá sér fara. Auðvitað er sýnt hérna ítalía-búlgaría en ekki svíþjóð-danmörk. Hver hefði trúað því að ég sæti og æpti yfir fótbolta með gæsahúð.

Yfir og út, verð að einbeita mér að leiknum. Já alveg rétt tókum próf í dag, náðum báðar!! Á morgun verður að festa tvöfalt!!




Hef tjáð mig um það áður að ekki gengur alltaf allt eftir plönum hérna í háskólanum en þessi mánuður hefur verið versti hingað til. Nenni ekki að tala um það en prófasenan fór í steik í seinustu viku, of mörg próf á sama tíma of mikið stress of mikið rembingur og allt fór í steik. Ætti að taka þrjú próf næsta þriðjudag og miðvikudag. Sem ég á eftir að lesa fyrir og á morgun förum við til Pescara að fagna afmælinu hennar Mariku og fara á ströndina. Löng saga en við áttum að gista hjá rauðhærða manninum og vini hans því faðir vinarins ætlar að mála okkur. Hmmm erfitt að ímynda sér en jebb svo virðist sem hann ætli að gera okkur ódauðlegar á þriggja metra málverki. Eigum að koma og borða ( hann hefur þær kenningar að fólk sé eðlilegast þegar það borðar) alvöru lambasteik frá Abruzzo enda er lambið og kindur yfirhöfuð einkenni héraðsins.... bara einsog heima ha... Búið að standa til í marga mánuði beðið eftir sól og prófum ogsvoframvegis en núna var allt planað, áttum að leggja í hann í dag um hádegið en þegar ég sendi honum skilaboð um hvenær hann ætti að sækja okkur þá hringdi hann í mig frekar aumingjalegur þar sem hann var á spítala. Tókst einhvernveginn að slasa sig á handlegg og því verður að fresta málunarsenunni.

Úps, gistingalausar í pescara varð vandamál en ein hurð lokast og önnur opnast og kom í ljós að fjölskylda Maurizio á sumarhús í pescara og við megum vera þar fram á helgi. Strandarhús, sól og sjór og fullt af mat og drykk, getur ekki verið annað en skemmtilegt og sé ekki að ég muni opna bók þar..... Ætlum að reyna að finna andlitsliti og mála íslenska fánann á alla!! Hæ hó jibbí jei og jibbí jei Góða skemmtun allir heima




Ég get verið þrjósk einsog múlasni og þannig haldið áfram að elda pasta með helling af hvítlauk og chili þótt það sé vel yfir þrjátíu stiga hiti. Það er augljóst að þar sem maður er viðstöðulaust þvalur og sveittur hvort sem maður er kjur eða á hreifingu í sól eða skugga þar sem rakinn breytir loftinu í gufubaðsfíling, að þegar maður skellir í sig smá chili i heitum mat að það gæti perlað meira á enninu á manni. Allavega fannst sambýlingum okkar matarvenjurnar fullþungar fyrir aðstæður.

Svo sem ekki í fyrsta skipti á ævinni sem við upplifum hitabylgju en það er þó gríðarlegur munur á því að vera í fríi eða reyna að framfylgja eðlilegu lífi og vera að kafna allan tímann.....læra þegar maður er hálf lamaður er mjög pointless. Vaknaði eftir djammið í gær og leið einsog ég væri í ullargalla undir dúnsæng og það hefði ekki verið opnaður gluggi í húsinu í nokkur ár. Fyrsta hugsunin var að rífa mig úr öllu og rífa upp gluggana og anda að mér fersku lofti, komst ekki langt með það þar sem ég get ekki rifið mig úr skinninu og ef ég opna gluggana þá svifur inn helmingi heitara loft með vélgufum frá götunni. Ferskleiki er kannski ekki orðið sem mér flaug í hug. Þó ekki hægt að segja annað en að það sé sjarmi yfir því að rölta úti í hitanum og sólinni svo lengi sem maður þarf ekki að vera neins staðar á vissum tíma, eða á leið heim úr búð með tólf lítra af vatni í fanginu. Verður bara að segjast einsog er, við erum bara ekki vanar að svitna svona, fólk er ekkert að kippa sér upp við það hérna þótt það sé blautt af svita. Vaninn sigrar allt. Eftir prófið á mánudaginn ætlum við að reyna að komast á ströndina, í Perscara hjá Rauðhærða Ítalanum og vinum hans, uppáhaldsumræðuefni allra stúdenta að komast í sjóinn til að kæla sig og ferskan sjávarandvara. Ég reyndi að stinga uppá að hægt væri að fara í eina af mörgum sundlaugum í borginni, en það finnst þeim bara sorglegt, skítugt og ósjarmerandi. Héldu ræðu um hvað það væri agalegt að fólk væri ekki alltaf með sundhettu og það væru hár útum allt og klórlyktin sem dræpi mann, ljótt sterílt umhverfi og hávaði. Höfum ekki enn orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá slíka laug, en er viss um að þær standast ekki beint samlíkingu við laugarnar heima.... enda okkar strandir fyrir utan gervistöndina í nauthólsvík.

Allt hægt að gera annað en að læra, hiti hefur heilaslökkvandi áhrif, sólin krefst útiveru og freknusöfnun, margir í kringum okkur eru í fríi og aginn og krafturinn er að yfirgefa mig. Brotnaði á fimmtudaginn þegar prófið frestaðist fram á mánudag og fórum út á lífið með nokkrum sambýlingum og norsku vinum okkar, í föstudagskvölið sat ég með bækurnar í fanginu og horfi á keppni í sjónvarpinu fyrir nýjar danspíur í skemmtiþáttinn og Camp Jim á Mtv þar sem dramatískur og amerískur Jim tekur nokkuð vonlaust fólk sem hefur dreymt um það allt sitt líf að vera klappstýrur og á tveim vikur gerir úr þeim eðal hvetjendur. Áhugavert í hörmuleika sínum og við sigga erum að skilja innri anda klappstýruíþróttarinnar, að sjálfsögðu er þetta rosaleg reynsla fyrir alla og þeir verða breyttar manneskjur. Þetta er djúp íþrótt og mjög andleg, alls ekki bara pæjur að hrista sig. Jahá, svona lærir maður líka milli þess að kynna sér listasögu, heimspeki og bókmenntir...... Jammsa, maður lærir meðan maður lifir.....

Þennan sunnudag hefur að vísu rignt viðstöðulaust sem er gott og frísklegt þótt það hafi ekki smitast á okkur sem erum búnar að flatmaga með bækur í náttfötum og var að panta pizzu. Laugardagskvöld með Ljósmyndasögu fór út um þúfur þegar Rauðhærði og vinur komu óvænt í heimsókn rétt fyrir miðnætti og þar sem einbeitingin var búin þurfti ekki miklar fortölur til að við skelltum okkur út í bjór. Enduðum á nýjuð stað sem heitir Villa Serena, aðeins fyrir utan miðbæinn en ég mun syrgja það ávallt að hafa ekki drifið mig þangað fyr. Risastór grasbali með stórum trjám plantað í kring og á milli þeirra hengirúm. Já hengirúm!!! Útibarir og borð og bekki og fólk allstaðar og sat á grasinu í spjalli. Inni er dansgólf og var spiluð aldeilils hressileg rokktónlist. Ja mar gæti sagt 11 í yfirstærð með garði.... Núna á sumrin er opið alla daga vikunnar svo við munum eflaust ná að kíkja þangað aftur. Komumst heim á lífi þótt bílstjórinn okkar hafi verið búin að fá sér full mikið í hægri tánna, höfðum vægast sagt ekki mikið traust á rathæfileikum hans né athygli en þar sem hvorug okkar hefði gert betur var valinn sá valmöguleiki að loka augunum og klemma rasskinnarnar og vona að við myndum skilast á réttan stað. Ábyrgðartilfinning er ekki að sliga marga hérna og ekki okkur heldur virðist vera.




Heimurinn er hættulegur staður. Allt að gerast á Ítalíu, fangarnir þrír sem lifðu af fangelsun í Írak var bjargað í gær. Sá fjórði var drepinn fyrir framan myndavél fyrir tveimur mánuðum sem staðfesting á alvöru þeirra og með fylgdu skilaboð til Berlusconi að ef hann kallaði ekki heim allt ítalskt herlið í Írak yrðu hinir drepnir líka. Svo virtist sem ekkert væri gert í málinu og það nánast þaggað niður, sem sagt hætt að fjalla um það í fréttunum ( næstum allar sjónvarpstöðvarnar eru í eigu fyrirtækis Berlusconi) en loks í gær var þeim bjargað og eru komnir heim. Allar stöðvar fullar af fréttum um þá og hvernig ítalska stjórnin hefði unnið að þessu hörðum höndum. Auðvitað veit ég ekkert meira um þetta, en af video upptökunum sem sýndar voru úr íranska sjónvarpinu þá fullyrtu fangarnir að það hefði verið farið vel með þá og fengið nóg að borða, reyndar var kommentað á að þeir virtust hafa bætt aðeins á sig í fangavistinni svo kannski var þeim bara sleppt. Vonandi verður skýrari umfjöllun í fréttunum á næstunni.

Svo var sprengja á Piazza Maggiore í Bologna. Aðaltorgið í miðbænum sem við löbbum yfir oft á dag og sitjum oft þar líka, þetta var víst ekki mjög alvarleg sprengja Marco Mirante kom heim í gær mjög æstur yfir þessu og sex særðust. Sem betur fer engin dauðsföll, en eftir paranoiuna sem byggðist upp um alla Ítalíu í sambandi við sprengjuna í Madrid þá á maður alveg eins von á að þetta land gæti verið næst. Kannski frekar Róm eða Mílano en samt skrítið að hlutirnir séu að gerast í nálægð við mann, geri mér stundum ekki grein fyrir hvað maður er alltaf “einangraður” á Íslandi og í raun finnst svona hlutir ekki snerta mann mjög.

Allar stórslysabíómyndir eru útí í heiminum og manni finnst næstum einsog íslendingar hefði lifað af geimveruheimsóknir og farsóttir þar sem engin kæmist þangað....eða væri sama.... Nema hvað, í fyrradag vorum við í frekar þunnu ástandi og ákváðum að fara í bíó. Hvað betra en heimsendamynd með litlum kröfum um að hugsa og völdum The day after tomorrow sem er sýnd í götunni okkar. Jæja, það er svo sem pæling með þetta veður sem sífellt breytist og ef náttúran ákveður að breytast þá hefur mannkynið enga von um að stjórna því neitt. Kannski góður tími núna fyrir svona mynd þar sem miklar umræður um gróðurhúsaáhrif, seinasta sumar var fólk að deyja í evrópu vegna hita, í seinustu viku var klaka haglél og þrumuveður á ítalíu sem passar ekki beint við árstímann.... Það sem okkur fannst hálf sjokkerandi en samt næstum því fyndið að öll þessi ósköp hefjast í norðuratlandshafinu undir grænlandi og svo Íslandi svo við hefðum öll verið frosin til dauða áður en nokkur annar í heiminum hefði gerst sér grein fyrir hvað væri í gangi. Talandi um að Ísland sé öruggt land ha.

Myndin var samt örugglega þó skárri á ítölsku þar sem maður heyrði frasana bergmála í gegn og gat skemmt sér yfir klisjuhættinum og hentiseminni ( new york er orðin að frosnum feneyjum en þegar þig vantar mat og lyf þá er einmitt rússneskt skip sem strandaði fyrir utan hjá þér) Þegar hitastig í heiminum fer nógu langt undir núllið til að frysta bensín og hvers konar rafmagnsvirkni þá er nú gott að þau gátu lokað hurðinni á það. Allir deyja í norður ameríku, meira segja forsetaflugvélin hrinur því þeir er of seinir, en veðurfræðingurinn fer fótgangandi alla leið til new york og bjargar syni sínum og öllum hans samfylgdarmönnum. Enda sagði hann við hann ; Non ti preoccupare, ti vengo a prendere!! Með áherslu og innlifun sem útleggðist sem Dont worry (þó heimurinn sé að fara í næstu ísöld ) I´ll come and get you!! Svo við fáum næstum happy ending þar sem þeir sem lifðu af í evrópu og ameríku fóru til afríku og suðurameríku. Nema auðvitað íslendingar dæmdir til að deyja fyrstir.

Fréttir af tvöfalda lífi mínu; Ég tók mig til og tók bréfið sem var stílað á Ástu Giorgini, fannst ég nokkur þjófapési af stela þessu bréfi en það var búið að stara á mig í marga daga frá pósthillunni. Jæja, rýk upp og opna bréfið spennt að komast að einhverju ofsalegu slúðri. Þéttskrifað vélritið bréf á ítölsku. Neeeeiii!! Kosningaáróður. Kæri viðtakandi, kannski þekkirðu nú þegar til pólitísks ferils míns blableblable en ef þú vilt Bologna vel þá kýstu blablable. Kær kveðja Luigi Tanzi.

Það var nú allt. Þvílik vonbrigði. En ennþá stendur spurningin; hvernig datt einhverjum flokki í hug að senda bréf í þessa blokk stílað á Asta?

Það er meira ógeð en ég ímyndaði mér að reyna að læra í þrjátíu stiga hita. Ég er sveitt á bakinu og langar ekkert meira en að fara einhvert út og fá mér ís eða bjór bara. Ekki sitja yfir bókahlassi sem ég mun aldrei ná að klára fyrir föstudaginn. Svo er bara próf í hverri viku fram til 8.júlí. Vorum að spá í að skella okkur í bikiní og láta renna kalt vatn í baðið og breiða handklæði á stofugólfið, þannig gæti maður skellt sér í baðkarið þegar manni er of heitt. Strandarstemming í stofunni.




Veðrið getur hreinlega tekið mann á taugum stundum. Rétt eftir að við stauluðumst upp stigann heima með 9 lítra af vatni og nokkrar flöskur af rauðvíni og alla ostana sem ég féll fyrir í búðinni, eftir að hafa rölt um nágrennið í mildum hita og logni og rólegu andrúmslofti dregur ský fyrir sólu. Kolsvört ský og allt í einu byrjar að blása vindur og allir gluggar og hurðir skellast til og frá, allir út á svölum að ná að taka inn föt á snúrum áður en óveðrið skellur á. Á fimmtán mínutum umturnast umhverfið frá sól og blíðu og fuglasöng í snarvitlaust veður þar sem trén bogna og vindurinn rífur næstum niður gluggahlera, rigningin er svo kraftmikil og stórir dropar að út um glugga lítur þetta út einsog brjálaður snjóbylur í janúar. Bíð eftir að gluggarnir hrynji inná við af þessum vindi og rigningu, þegar þrumurnar skekja loftið til að auka á hávaðann eykst krafturinn og maður fer næstum að halda fyrir eyrun. Þá gerist undrið. Rigningin breyttist í haglél. Já, risaklaka köggla á stærð við meðal grjóthnullunga sem dynja á gluggum og þökum og breyta hávaðanum í heimsendadramatík. Einn af gluggunum hjá okkur er brotinn, en undir þakskeggi og tókum aldrei eftir því, við þetta tækifæri þá varð til stöðuvatn á gólfinu hjá okkur og þegar maður labbaði framhjá varð maður niðurskotinn af klakadropunum. Eftir rúmlega klukkutíma dramatík þá stillir smám saman til og sólin skín og heimurinn lætur sem ekkert hafi gerst. Seinast þegar svona skall á vorum við sigga voða glaðar og vildum leika í rigningunni, vorum á leið heim úr matvörubúð með marco og danielu sem búa með okkur og þau kölluðu okkur snargeðveikar og áttu von á að þurfa að sækja okkur á hælið eftir á. Fyrstu mínúturnar var það voða sniðugt, rigndi þrjátíu sinnum kraftmeira en sturta og hoppuðum rennandi blautar um í pollum útá götu ( allir bílar horfnir) Nánast strax varð veðrið samt svo vitlaust að það varð erfitt að fóta sig og rokið reif í mann og droparnir svo stórir og harðir að maður meiddi sig þó nokkuð af þeim og flúðum inn eftir í mesta lagi fimmtán mínutur þar sem krakkarnir heima hlógu bara að þessum kjánaskap en við þó með smá adrealín hláturkast yfir þessum ósköpum.

Hef lúmskt gaman af svona veðri sem springur einsog eldfjall og heldur svo bara áfram að tralla og flauta í afslöppuðum fíling. Þetta veður er samt eitthvað sem á að gerast í ágúst, september eftir hitakastið á sumrin, í þriðja skiptið á tveim mánuðum sem svona hellist á í maí og fólk furðar sig ekki lítið á því. Undarlegt veður, þveröfugt við hitann seinasta ár sem var að kæfa fólk lifandi. Ef einhver hefur svör við þessu eða kenningu um gróðurhúsaáhrif heimsins þá væri það áhugavert.

Verst að við höfðum skipulagt að fara út á lífið í kvöld, en sjáum ekki fram á að ná að plata neinn út núna. Fólk hættir ekki á að lenda í svona og kannski betra að vera bara heima til öryggis. Iss. Smá bleyta stoppar ekki valkyrjur i útþrá.

Í kvöld munum við skála fyrir GEBBU OKKAR sem í dag á afmæli, merkur áfangi það heil tuttuguogþrjú ár, njótum við þess að í tvo mánuði er ég yngri en hún he he og sigga alveg fram í október. Viðurkennum að hún sé eldri og vitrari og tökum hennar ráðum aðeins á þessu tímabili..... Jebb dúllan mín þú ert konan og kóngurinn i þessu samsæti..... he he mér til lukku þá kem ég heim um svipað leyti og ég á afmæli svo þú færð lítil að nýta tækifærið til að stjórna mér..... TANTI AUGURI PICCOLA, ti pensiamo tanto e spero che abbia una giornata bellisima, Baci&braci

Ps. Leyndardómsfulla bréfið stílað á ástu með ítalskt eftirnafn birtist aftur á póstkassanum í dag. Verð að stela því og opna með gufu til að komst að því hver þetta er..... lifi ég tvöföldu lífi og veit það ekki? Á ég mann að eftirnafninu Giorgini? Þjáist ég af minnisleysi og er í alvörunni þrítug og gift? Fylgist með næsta þætti af ítalskri sápuóperu.




Jæja lömbin mín. Greip gæsina glóðvolga þegar Sigga tók sig til og framkallaði "báðar" filmurnar sem hún hefur tekið eftir jól og fékk að setja myndirnar á geisladiska og skellti þeim hérna inn a .Myndasíðan mína!!!<> ">Skellið ykkur endilega þangað og sjáið blöndu og brot af því besta síðustu mánuðina þótt það sé lítilli upplausn.... Langar sjálfa aftur til Flórens og Langar aftur til Feneyja helst í sól allavega ekki eins mikilli helli dembu og þarna um páskana. Best að snúa mér aftur að rauðvínsdrykkjunni með siggu. Sæmilega afkastamikill dagur, hengdum upp auglýsingar um alla borg til að finna einhvern í herbergið okkar þegar við förum. Einkennleg tilfinning að ég hafi verið að borga seinustu leiguna mína í dag. Á ég í alvöru að fara að pakka niður bókum og dóti og flytja útúr herberginu mínu eftir mánuð? Hvernig á ég að komast heim með allt þetta dót og vera á flakki í mánuð? Hvert á ég að flytja þegar ég á ekki herbergi heima lengur? engin peningatré heldur til að kaupa mér hús eða leigja..... Svo margar spurningar og engin svör að best að hafa bara ekki áhyggjur af neinu. Þetta reddast allt.

Spurning dagsins; Hvert fór þetta ár? Hvernig getur tíminn liðið svona hratt? Endilega semjiði lítið ljóð í tilefni þessara spurninga og við getum komið saman í lok sumars og haldið ljóðaupplestur um nostalgíu. Á morgun verð ég níræð, ef ég lifi svo lengi




agalegt

Ég verð að hryggja alla sem biðu spenntir eftir framhaldi á sögunni um leyndardómsfulla bréfið með að ég er engu nær. Skyldi bréfið eftir á póstkassanum og horfði á það forvitnum augum í hvert skipti sem ég fór út eða inn. Ætlaði að taka það einn daginn þegar ég kæmi heim og þá var það HORFIÐ. Kom inn sveitt og móð og æst og sagði danielu að það væri horfið, og enginn veit neitt. Hún tekur samt þátt í æsingnum og stökk á stelpuna sem býr fyrir ofan til að spyrja hvort einhver að nafni ásta byggi í þeirra íbúð og enginn kannaðist við það. Þar sem í einni íbúð býr dóttir eigandans sem þau þekkja og hinu megin hjón um nírætt þá lítur ekki út fyrir að neinn hafi átt þetta bréf.... og svo hvarf það bara sporlaust og ég fæ aldrei að vita hvort íslensk ásta gift ítala búi hérna..... dularfullt...

Svo fæ ég komment á seinasta póst hvort sögurnar séu sannar og ég sé að ganga út.... ég kannast ekkert við að hafa sagt orð um mín karlamál af þeirri einföldu ástæðu að þau eru ekki til. En ég er forvitin að vita hvaða sögur ganga um rækjuveiðar mínar milli vina á íslandi, gott að ég get skemmt einhverjum með ímynduðum hösslum. Ég skal bara ímynda mér með ykkur að ég sé gengin út og á leið að stofna fjölskyldu á suðurítalíu og elda pasta og eignast fullt af litlum dökkeygðum börnum....

Fer að setja inn pasta uppskriftir og prjónauppskriftir af barnafötum á næstunni í stað djammsagna....








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com