Hosted by Putfile.com





ups

Ég hef ákaflega gaman af öllu í súpermörkuðum sem ég veit varla hvað er. Sniðugar sósur og pestó, sesamkex og grænmetisþykkni í fínum umbúðum. Chilimarkríll í lönsboxið. Sumt er alls ekki gott. Einsog rólojógúrtið sem ég keypti í summerfield. (áður en mér fannst ökólógískt vinna skærlitar umbúðir) Það var eiginlega alveg rooosalega vont. En miklu oftar hef ég smakkað ágæta hluti.

Í síðustu nettóferð féll ég í framhjáhlaupi fyrir agalega fínum rauðum djúsfernum með skrúfloki. Æðislegt í lönsboxið í mastersnáminu. Eplaperubananadjús. Nammm. Mér til mikillar hamingju þá opnaði ég einn heima í spenningi. Því ég datt næstum af stólnum þegar ég fékk mér sopa og uppgötvaði að þetta var ekki djús. Heldur barnamatur. Barnamauk nánar tiltekið. Það er rosalega væmið og vont en örugglega ekki verra en grænnabaunamaukið sem ég er ennþá með tremma yfir að hafa smakkað við að mata litlu systur mina fyrir allmörgum árum.

Ég þekki þó ekki nein börn svo ég veit ekki hvað ég á að gera við þetta. Örugglega fullt af næringu.. kannski er þetta hið fullkomna millimáltíðasnakk.

Köbenhallur eldaði frábæra kjötsúpu. Svei mér þá bara einsog heima. Fékk lánaðan risapott á næsta kaffihúsi og mallaði fyrir þá sem komu og hirtu smáhluti og húsgögn. Ég fékk sigti og bolla og hnífapör og pott og nestisbox. Það er nefnilega í uppsiglingu enn meiri flæking á íverustað Hallanna. Köbenhallur er að yfirgefa okkur hérna og flytja til íslands undarlegt nokk í sama mánuði og Hallur flytur til Köben.




gledigledi i baunalandi

Thad munar ekki um thad. Ekki nema thrju prosent dana sem ekki telja sig hamingjusama og lukkunar pamfila. Hvad voru their eiginlega spurdir um..? Jæja thad er vonandi ad oll thessi streymandi hamingja rubbes of a okkur odani sem lifum herna inn a milli theirra.




monday

Mér líkar vel við félaga mína á pítsustaðnum við hliðiná innganginum mínum. Mér finnst líka skemmtilegt að þeir selji líka snitzel, grískt salat og lasagna og fleira undarlegt á matseðlinum. Svona á sunnudegi þegar maður nennir ekki að elda en langar ekki í pítsu... Ég verð ekki vör við nein sérstök læti hérna í nágrenninu, en var þó frekar hissa þegar ég kom heim á föstudagskvöldið/morguninn með sigrúnu í eftirdragi því fyrst ég endaði á löngu kvöldi með þeim þá þverneitaði ég að vera ein þunn daginn eftir. En ég var hinsvegar ekki hissa þynnkunni enda átti ég það skilið, en óvænt var að glerið á útidyrahurðinni var mölbrotið og glerbrot flæddu um allan stigaganginn. Enginn var þó sjáanlegur svo við klifruðum bara yfir brotin og upp í íbúð. Strax í dag var svo skellt nýju í en ég er ennþá forvitin að vita hvað gerðist.

Ég fékk nýja nettóupplifun í dag. Það kom mér á óvart að sjá hjólaherdeildina fyrir utan þar sem ég hélt að ég slyppi við raðir og fólksmergð svona um miðjan mánudag. En þá er auðvitað uppfyllingardagur svo ég skríkti af gleði við sýnina af troðnum grænmetis og ávaxtabásum.

Útundan mér heyri ég talað á íslensku sem ég kippti mér nú ekki mikið upp við fyrr en ég kom að kassanum og var á eftir þeim. Aðallega þar sem ég vissi auðvitað hver stúlkan var, sem er úr sama hverfi og ég í reykjavík án þess að ég þekki hana eitthvað sérstaklega, en merkilegt nokk þá var ég líka á eftir henni í röð í Ikea í september þar sem við keyptum báðar hálfa búslóð eða svo. Hverjar eru líkurnar á því að hún versli einmitt í sömu nettó og ég?

Svo meðan ég tróð vörum í helling af pokum og risabakpoka sem ég varla gat borið heim og upp stigana, velti ég því fyrir mér hvað heimurinn er fyndinn. Fólk sem er búið að vafra um heiminn á nákvæmlega sömu stöðum og ég en þó aldrei rekist á að kynnast. Og hvað upplifun af veröldinni getur samt verið gjörsamlega ólík þó svo að maður haldi til á sömu stöðum. Skrítið.

Mér var boðið í kjötsúpu í kvöld. Það vinnur sko þvott og lestur án mikilla erfiðleika.




skal fyrir ykkur þarna heima

Stór helgi á fróni. Eina sem ég hef til að hafa ekki heimþrá og löngun til að vera partur af helginni heima eru snjóskaflarnir og slabbið í köben....

En til hamingju elsku Hallur með afmælið í dag. Um það bil sexþúsund&áttahundruð mínútur í afmæliskoss er ekkert sérlega mikið svona miðað við tilveru heimsins. Bráðum bráðum.

Og hjartanlega til hamingju ásulingur með útskriftina úr listfræðinni í gær. Stórkostlegur dagur. Agalega leitt að missa af að taka þátt í matarveislunni miklu með atriðum og alles.

Ég keypti mér helling af möppum og plastvösum um daginn og leið eiginlega mun betur við að sortera pappírana mína sem áður flæddu um öll gólf. Það er byrjun. Á einhverju allavega.




wintertime

Dramatísk tónlist er svo viðeigandi í vondu veðri. Einsog kakó. Mér finnst alveg sérstaklega þægilegt að hafa klassíska tónlist, helst með miklum bassa og fiðlum í góðum heyrnatólum sem bæði hylja eyrun og hlýja þeim og einangra mann frá snjóbylnum. Sitja svo með rennandi nef í strætó og horfa á allt blása með dynjandi undirtón. Astor Piazzolla fyrir valinu í dag.

Það getur vel verið að þetta sé bara smá hrat á íslenskan mælikvarða, en allavega mesti "snjóbylur" sem ég hef séð hérna síðan ég flutti. Tja og jafnvel í hin skiptin líka, ég áttaði mig á því að ég hef oftast eytt tíma í kaupmannahöfn í febrúar/mars sem einmitt eru vetrarmánuðir borgarinnar. En það er ekkert skelfilegt frost svo með innpökkun í peysur og trefla var þetta alls ekki svo skelfilegt, meira pirrandi snjóflyksur fyrir augnhárunum en annað.

Kannski var ég bara svona ógurlega ánægð með mig eftir að hafa druslast út í tíma klukkan hálf átta, sjálfviljug og að eigin frumkvæði þar sem ég ákvað að kúrsinn væri bara of spennandi til að eiga nokkra vorkunn skilið að mæta þá fjóra daga í viku snemma. Og að koma sér af stað líka þó það væri snjóbylur og líka þó ég hafi verið á tónleikum í gærkvöldi sem var skolað niður með stökum bjór eða svo. Og ljósrita nokkur hundruð blaðsíður til að bæta upp fyrir þá tíma sem eru búnir og hefta og merkja. Og elda eitthvað gómsætt gums úr því allra síðasta í ískápnum, hrísgrjónum, hálfspíruðum kartöflum, eggi, lauk og tveimur skinkusneiðum með fullt af pipar og sweet chilli. Svei mér þá bara hinn besti hádegismatur.

Ég tala kannski oft um mat. En ekki bara finnst mér mjög gaman að borða og elda þá er alveg merkilegt hvað það er hægt að sakna mikið möguleikans að skreppa heim til foreldranna í mat. Og ekki síst sakna ég þess að týna hluti úr ískáp eða búrskáp sem sennilega verður ekki notað hvort sem er og afganga frá kvöldmatnum. "Pabbi.... ætlarðu að borða þennan makríl?" Ég sé skyndilega agalega eftir dósamatnum sem ég skildi eftir á eiríksgötunni.

Margt lærir maður. Eðlilega liggur allt þar sem ég lagði það, en ég glotti þó við heimkomu í dag þegar ég sá skyndilega yndisfrítt munstur af hinum mörgu marglitum klútum og treflum sem ég týni af mér og legg á næsta horn,hillu,borð,stól. Einu sinni hótaði pabbi að henda dótinu mínu öllu á haugana ef ég tæki ekki til og mamma leysti þetta síðast með bastkörfu í þvottahúsinu þar sem reynt var að samla mér saman. En núna má ég skilja allt þar sem ég vil og enginn pirrar sig á því. Allavega í tíu daga í viðbót.

Jiiii það var gaman í gær. Röð út að hliði í kristjaníu og sardínustemming inni á loppen. Þau voru alveg frábær á sviði og héldu uppi mikilli stemmingu. Okkur þótti dálítið fyndið að syngja allt á ensku en spjalla svo á frönsku inn á milli en hey... Agalega töff. Dálítið svekkjandi að ná ekki Ratatat í kvöld en leiter bara. Nú er lærilær. Og fótbolti. Haldið ykkur. Spennan er í hámarki, Liverpool&Barcelona. Ég held með barcelona ef þeir eru í gulu búningunum. Einsog sólargeislar...




bjartsynin

Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Þrátt fyrir augnabliks panik stundum þá tekst mér að rifja upp jákvæða hluti.

Ég var næstum búin að gleyma hvernig það er að vera með svo miklar harðsperrur í maganum að það sé átak að setjast upp. Ég var líka næstum búin að gleyma hvað tröppuleikfimi er kjánaleg. Hinsvegar hið hressilegasta að koma heim fyrir hádegi og búin að borða, sprikla, svitna og skola af sér í kröftugri sturtu.

Í fátæktinni eftir tilkynningu um meiri mínus en ég hélt er ég búin að læra að sjónvarpsdagskráin er ömurleg um helgar svo ég hafði ekkert fyrir því að slökkva á því, kveikja á kertum og tónlist og læra smá. Hvort eð er skemmtilegra að djamma á virkum dögum svo sjálfsvorkunn yfir laugardagskvöldum í hangsi er engin. Ég er líka búin að skemmta mér við að elda undarlega hluti eingöngu úr því sem finnst í ískápnum, og dem Im good at it. Núna er reyndar farið að tæmast allverulega en þó tókst mér að elda snilldarbragðgóða og þykka súpu úr basil,hvítlauk og sætum kartöflum, chilli og kókosmjólk sem entist í þrjár máltíðir.

Blankheit hafa sum sé ákaflega jákvæð áhrif bæði í sparnaði (ekkert til að eyða svo engu er eytt..) og hollustu átaki (elda úr afgöngum og borða minna...) Sömuleiðis námslega, þar sem útstrikun á útihangsi er námshvetjandi.

Svo eru tíu og hálfur dagur ekkert mikið. Þá verð ég bæði komin með sambýling og búin að fá lánin. Og á leið til gautaborgar í ammlisheimsókn til ellans. Jibbí.

Ég var þó löngu búin að kaupa miða á nouvelle vague svo ég hlakka þvílíkt til að sjá þau á loppen á morgun. Jafnvel nurla saman klinki úr sparibauknum og skála í bjórsopa. Því var ég búin að lofa á gjafabréfinu upp á yndislega kvöldstund sem ég og sigrún gáfum björk í ammlisgjöf með tónlistinni þeirra ásamt miðum á tónleikana. Ó hvað það er gaman að hlakka til.




kiwikvöldmatur

mmmmmmmmmmmmm

Ég var að uppgötva kiwi aftur eftir langan tíma. Veit ekki af hverju en ég hætti að kaupa kíví einsog loðna húðin væri klíjuleg. Samt finnst mér ferskjurnar með mjúku húðinni bestar og borða þær af áfergju. Ekki orðin svo góð að borða kiwi með húð og hári samt, heldur bara með skeið.

nammm

Ammliboð tvö í gærkvöldi. Snikkerskaka og glæsileg marenshnallþóra og kampavín. Öl og Trivjal í stórum hópi og sharade leikarataktar. Varð mikill æsingur í hópnum og okkur tókst að giska á ótrúlegustu bíómyndir og bækur. Glæsilegt kvöld.




ammlisboð

Af hverju skildi það vera að maður er yfirleitt alltaf meðvitaður um hluti í retróspektive en ekki á líðandi stund?

Einsog að ég hafi fyrst vitað að sniðuga verkið hans Piero Manzoni, Socle du monde sé staðsett í Herning löngu eftir að ég flutti þaðan. Eða að ég hafi labbað hundrað sinnum framhjá kirkjunni þar sem frægasta verk Giotti í Flórens er, án þess að fara inn. Og svo framvegis. Eða öllu heldur að hlutirnir eru fyrir framan mann á einum tíma öðlast ekki neina merkingu fyrr en miklu seinna.

Ég á mér ólíka uppáhalds fræðimenn eftir tímabilum. Allir eiga þeir þó sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt á óhefðbundinn hátt um list og fræði. Í gær las ég skemmtilega grein eftir lucy lippard og vorkenndi mér yfir að vera ekki flækt í ruglingslega hringiðu spennandi listforma og listamanna, einsog nútíminn sé steríll og þreyttur og æsingurinn sé yfirstaðinn. Hinsvegar er fyndið að lesa grein einsog þessa þar sem hún talar um félaga sína og jafnvel sambýlendur sem voru allir að dunda við eitt og annað og mörgum árum seinna urðu frægir. Það er spennandi að vita hvernig landslagið verður eftir tuttugu ár.

Bókunum verður nú hent til hliðar og sprottið á fætur og sjænað sig og stormað til elsku bjarkarlings sem í dag fagnar tuttuguogfimm ára afmæli sínu. Til hamingju með daginn elskan!!!




nagrannar

Mér verður oft hugsaði til smásagnasafns sem ég keypti á ítalíu og allar fjölluðu um menningarmun, ólík örlög og upplifanir indverja sem flytjast til bandaríkjanna. Nafnafötlun og staðreyndin að 90% af bókunum mínum er á íslandi varnar því að höfundur fylgi sögunni.

Brotið sem rifjast alltaf reglulega upp fyrir mér er kona sem er að farast úr einmannaleika. Hún lýsir því fjálglega hvernig lífið í stórborginni heima á indlandi er í litum og lyktum og hávaða og stöðugum samskiptum við nágrannana út um glugga, í portum og götunni. Hún skilur ekki tómleika blokkarinnar, með teppi á ganginum sem ókunnugur kemur að ryksuga einu sinni í viku, lokuðum hurðum og lokuðum gluggum. Í mesta lagi nikk ef nágrönnum er mætt á ganginum. Í lyftunni er fullkomið hunds, rétt einsog í strætó og lestum þar sem allir eru meðvitað uppteknir við að horfa ekkert í ólíkar áttir, loka sig af með tónlist á eyrunum eða breiða dagblað yfir andlitið. Ekki einu sinni matarlykt neinstaðar. Það finnst henni verst.

Ég skáldaði örugglega eitthvað inní þetta úr eigin heimi, en grunnhugmyndin er sú sama. Hinsvegar er munurinn sá að ég er vön þessum heimi og er sjálf í eiign tónlistarheimi í strætó og þjáðist eiginlega mjög þegar ég þurfti stöðugt að interakta við fólk í lestum á ítalíu og sat svo uppi með að tala við það í sjö klukkutíma á leiðinni. Þetta var samt eiginleiki sem ég þoli ekki og vildi óska að ég gæti hrist af mér snarlega. Mig langar nefnilega alveg endilega að kynnast allskonar fólki og jafnvel úti á götu eða í búð. Af hverju finnst manni stundum einsog maður hafi ekki tíma fyrir nýtt fólk? Undarlegt.

Jæja þetta kom annars aftur upp í hugann þegar ég heyrði í nágrönnunum uppi sem ég hef aldrei séð, sem greinilega eru með gesti. Ég fyrirgaf þeim snarlega öll næturhljóð sem mann langar ekki að heyra og meira segja rifrildið þegar hún hennti manninum út eftir öskrið. Þau spiluðu nefnilega jazz og hlógu svo það er stuð hjá þeim í augnablikinu. Örugglega matarboð sem alltíeinu gerði þau helmingi meiri manneskjur en allt hitt.

Mig langar til indlands eða einhvers lands þar sem menningin og lífið getur ekki annað en breytt mínu venjulega hegðunarmunstri. Mig langar líka að hafa matarboð. Sat hálfan dag um daginn og gleypti í mig uppskriftir á einhverju sniðugu bloggi sem ég er búin að gleyma hvað var. (þetta með nöfnin aftur..) Gæti eldað indverskt og haft opna glugga og fram á gang með bollywood tónlist á fullu.




fönni

Ég reyndi að vara Hall við þvi að það skilar litlum árangri að reyna að skrifa Þ í nafnið sitt hérna, eftir fíaskóið með skólaskírteinið og ástu Pöll. Hann vildi þó frekar nota þonnið en að heita Thor í folkeregistrer. Sem leiddi til þess að allur póstur sem hingað veltur inn til hans er stílaður á HALLUR PAR. Það finnst mér óhemjulega fyndið og hlæ dátt í hvert skipti.

Stundum þarf lítið til að skemmta manni. Strætóferð í grenjandi rigningu fyrir klukkan níu á morgnanna var jafnvel ekki einu sinni leiðinleg. Ég smurði mér líka madpakke í dag, rúgbrauð með kæfu (klassík) og rúgbrauð með pestó og mozzarella og vafði inn í gráan ruslapoka og festi með einni grænni og einni svartri hárteygju og skellti í skólatöskuna. Stórfenglegt skref í sparnaði og námsmannalegri hegðun. Tók nefnilega ákvörðun í gær að ef ég ætlaði að lifa af þrjú ár hérna án þess að fara á hausinn þá þarf eitthvað að endurskoða löxörílífernið. Bara svona í og með.... ekki sushi nema einu sinni í mánuði.

Eitthvað bros sem er límt innan á andlitið á mér náði ekki einu sinni að þurrkast af þegar ég þurfti að bíða í tæpan hálftíma með möppu í fanginu meðan dónaleg stelpa ljósritaði að minnsta kosti 700 síður á undan mér. Kannski var hún ekkert ill, en þegar við vorum fimm í röð eftir að geta ljósritað fannst mér að almennilegt hefði verið geyma eitthvað. Kannski er ég bara of meðvirk með öðru fólki, og ljósritaði bara nauðsynlegasta fyrir næsta tíma svo hinir þyrftu ekki að bíða svona lengi.

Ljósritun er ekki endilega mikilvægasta málið. Hvar eru eðlilegu mörkin milli þess að vera virkilega sjálfselskur og taka ekki minnsta tilllit til annarra og þess að vera ekki nógu sjálfselskur og taka of mikið tillit til annarra? Við hin brostum þó hið breiðasta til hvers annars og bonduðum á námslegan hátt sem fólk í kúrsum þar sem ekki er gert hefti sem maður getur einfaldlega keypt, né er námsefnið bók, heldur eru bara umþb 1500 síður af greinum í masterkopi í ljósritunarherbergi up for grabs. Mikið á mann lagt....

Ég sat í tíma í dag. Ákaflega einbeitt að hlusta umræður um performativitet og fleira þegar ég skellti næstum uppúr á því augnabliki sem ég sá litina á bókunum og litina á mér. Í eldrauðum bol og skærgulri peysu utanyfir var með endemum kjánalegt að sitja með tvö risahefti í fanginu, annað skærgult og hitt eldrautt. Soldið einsog ég hafi reynt að klæða mig í stíl. Ó M G, þvílíkt color coordination.

Það er óhemju grá dagur. Þá er ágætt að vera flissandi.




hlaupandi

Það er mánudagur. Ekki til mæðu en meira til mögulegra vangaveltna. Stundum finnst mér einsog ég komi ekki nema um það bil einu prósenti af því sem ég vil í verk. Svo þá get ég velt því fyrir mér hvort ég sé einfaldlega löt eða hvort að það sé fullkomlega eðlilegt að inn á milli komi tími sem er bara takmarkað öflugur.

Mér til mikillar hamingju þá hef ég í mörg skipti bryddað uppá umræðum um það við ólíkt fólk og þekki engann sem ekki vildi óska að hann gerði meira og hefði áorkað meiru á einhvern hátt, en eiga samt daga þar sem þeir horfa á einum lélegum sjónvarpsþætti of mikið og borðuðu frekar rúgbrauð með kæfu en að elda. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé kvíðasamvisku syndróm hóps sem horfir í forundran á dagatalið og þarf að grípa um hjartað við tilhugsunina um að næsta sumar séu fimm ár frá því það var árið 2002. Snýst ekki um einhverja fullkomnun, bara venjuleg óþægindi og aukaverkanir þess að lífið sé alltíeinu einsog hlaupabretti þar sem hraðinn var aukinn án þess að spyrja okkur og kílómetrar og dagar hverfi hraðar en áður. Samt án góðra aukaverkanna hlaupa einsog megrun eða aukið þol. Ég er þó furðulega ánægð með núverandi ástand. Ég er ekki með nein alvarleg streytueinkenni í augnablikinu því ég er ekki að hlaupa neitt sérstakt. Mætti alveg fá betra þol samt. Og vildi að maður lærði hraðar á sama tíma og tíminn líði hraðar.

Laugardagsmanían var mikil. Eftir húsmóðurlega heimilistakta með þvotti, þrifum, tiltekt og dósaferð í nettó fór ég í könnunarleiðangur upp á loft sem er hið draugalegasta sem ég hef nokkru sinni séð. Bakvið eina hurð er rými fullt af kóngulóarvef, ryki, gömlu hjóli, dýnum og speglabrotum. Tréhurðir inn í oggulítil depotrum með hengilásum. Innst var stórt autt pláss og á miðju gólfi stór vínrauður pluss stóll, úr rifum í þakinu skinu strengir af sólarljósi og lýst upp rykskýin. Ég stóð í augnablik frosin og horfði á stólinn en mitt góða ímyndunarafl var fullvíst um að þarna sæti einhver. Hann sýndi sig allavega ekki, og ég hélt áfram skoðunarleiðangi. Mjór og visinn tréstigi leiddi upp á enn minna og dimmara pláss þar sem ég fann tréhurð með mínu númeri. Ég lofaði sjálfri mér að fara með myndavél þangað einhverntímann. Og að fara aldrei nokkurntíma þarna upp í myrkri.

Partý partý. Afmæli og allt mögulegt á salonen. Komst að því að rétt við endann á götunni minni er hinn ágætasti kokteilastaður. Siðmenningin er á nörrebro. Fékk harðsperrur í kálfana af því að standa í hálftíma á tánum við steinbarinn í örvæntingarfullri tilraun til að vera stærri og fá athygli. Spurning um að draga fram hælana á ný...

Arcade fire. Trans Am. Novelle Vague. Damien Rice. Jason Moran. Músíkmánuðir framundan.




salonen og sekkjapipur

Ég er heilluð af búð sem er hér í nágrenninu. Super Iran store. (Ækte iranske madvarer og dvd) Í oggulítilli holu í kjallara eru hinar ýmsu írönsku delikatesser til sölu ásamt litlu en eflaust gæðum gæddu úrvali af íranskum bíómyndum og örugglega tónlist. Plönuðum að halda íransk matarboð einhverntímann og fara þangað og biðja um uppáhalds vörurnar þeirra. Og jafnvel dinnertónlist í leiðinni.

Velti því mikið fyrir mér á leiðinni heim áðan hvort það sé ekki óhenntugt að hafa stjórn á síðum búrkum í roki. Á undan mér tölti eldri kona í skósíðri búrku úr fljótandi efni sem rokið reif stöðugt í. Ekki að pils séu eitthvað mikið öðruvísi, bara spurning um meira efni til að hafa stjórn á. Ég hef líka skoðað mikið undanfarið hvernig þær næla fíngerðu klútunum um höfuðið, það er svo nákvæmt og fínt.

Dagurinn varð eitthvað framtaksminni en til stóð, en við nánari umhugsun fékk ég nefnilega efasemdir um að kúrs um röddina í menningunni ætti mikið við verkefnagerð í sjónmenningu. Gerður benti mér nú á að í þverfaglegasta námi í veröldinni gæti ég tekið hvað sem er en mér datt í hug að það að taka námskeið í annarri deild um hluti sem mér koma ekkert við sé kannski ekki að gera mér lífið auðveldara þó það sé áhugavert. Ætla snúa mér að einhverju einfaldara, einsog danskri konseptlist. Eitthvað er undarlegt við að útskrifast úr námi í danmörku og vita ekkert um danska list.

Skemmtilegasta augnablik dagsins var þó vafalaust þar sem við sitjum í rólegheitum á kaffihúsinu okkar yfir quality samloku og spjalli (sem í sjálfu sér var alveg nóg..) og skyndilega upphefst sekkjapípuspil hinu megin á bak við vegg. Stúlkurnar á barnum lækkuðu bara í tónlistinni og gaurinn sem var þarna með vinum sínum spilaði heilt lag með tilþrifum. Við Sigrún horfðum bara hvor á aðra í forundran en svo var bara klappað og kveikt á tónlistinni og kaffihúsið hélt áfram einsog ekkert hefði í skorist.




ogedskvef

Attsjú. Rauðbólgin og stífluð. Svíður í nefið og illt í beinunum. Veit ekki hvort mér finnst það agalegt að þurfa endilega að vera veik þegar ég er með langþráða heimsókn eða hvort mér finnst alveg hreint ágætt að það sé einhver hérna til að vorkenna mér smá, rétta mér snýtubréf og vatn, athuga hvort ég sé ennþá með hita og finna eitthvað að horfa á. Slæm tímasetning hvað sem öðru líður, skólinn að byrja og allt að gerast.

Ég hef örugglega nælt mér í þessa pest í Ikea, enda skilst mér að það sé þekkt staðreynd að þar er ýmis óværðin. Slapp þó við lúsafaraldur þó við höfum mátað rúmin. Þá má ekki sleppa því að minnast á hversu ólýsanlega orkusogandi það er að koma sér í þetta gígantíska gímald úti í gentofte með strætó, hálftínast í flúarljósum og kaupæði í bland. Fundum eitt og annað svona smálegt, diska til að borða af og grind til að setja þá í og eitt stykki rúm. Mér er skapi næst að kaupa bara þessa íbúð og flytja aldrei aftur eftir hamaganginn að koma því inn ákaflega lítinn ganginn. Flytjimaðurinn frá Ikea tilkynnti fyrst að þetta væri ómögulegt en vorkenndi okkur svo og tók sig til og reif útidyrahurðina af hjörunum og tróð rúminu á yfirnáttúruleganhátt inn.

Smá nefrennsli stóð þó ekki í vegi fyrir að mætt var í yndislegt matarboð á laugardaginn með ótrúlegum löxörímat, grænmetislasagna, hvítlauksmozzarellabrauð, ekta franskri köku og súkkulaðimús og íslensku trivjal. Sem var aðallega áhugavert þar sem einugis minnihluti leikmanna voru íslenskir. Spurningarnar voru þýddar eftir bestu getu en þó lentum við í smá bobba þegar ameríkaninn sem býr í svíþjóð og frakkinn sem býr í danmörku höfðu ekki hugmynd um íslenska landafræði.... Kvenhelmingur boðsins sigraði og var ákaflega lukkulegur með það.

Mér til lukku, gagns og gamans ákvað Hallur að mæta bara ekkert í flugið sitt í byrjun vikunnar og fara frekar í annað í lok vikunnar svo við náðum aðeins að viðra okkur eftir veikindahangsið. Samkvæmt opinberum skrám og skýrslum er hann þó formlega búsettur hér en ekki þar svo hann er bara að fara til íslands í heimsókn í nokkrar vikur. Lærilærilærilærilærilærilærilærilærilærilærilæri. Kannski virkar það sem dáleiðandi mantra á sjálfa mig komandi vikur.

Ég er yfir mig hrifin af ljónanafninu Ruska. Við veltum þessu mikið fyrir okkur yfir öl um daginn og komumst fyrst að þeirri niðurstöðu að ljónið hlyti að vera strákur fyrst það er með svona mikinn makka. Þau mótrök voru þó til staðar að ég væri ljón, með makka en samt stelpa. En lokasvarið var samt það að Ruska kemur upprunalega frá Bangladesh einsog hálsmenið hans segir og getur þar af leiðandi auðveldlega heitið Ruska þó hann sé strákur.




Litla gæludýrið mitt. Situr uppá sjónvarpinu venjulega með sitt risastóra bros framaní heiminn og maður getur ekki annað en brosað á móti. Little rascal. Mig vantar samt nafn á hann. Datt í hug að kalla hann eftir mér, en mér skildist á stelpunum að ef ég væri hundur þá hefði ég örugglega heitið Lubbi. Væri lítil og soldið reittur hundur sem væri þó krúttlegur og með löng eyru sem hann væri alltaf að stíga ofaná og flækjast í sjálfum sér. En ég hef aldrei ætlað mér að skýra hvorki gæludýr né börn eftir sjálfri mér svo það er spurning hvort það gangi upp. Einhverjar betri tillögur á ljónið?.

(Stelpurnar fengu hinsvegar líka hunda alter ego í ferðinni það er ekki bara ég sem er tík. Gerður er snögghærð og glansandi tík með háar fætur og ber sig mjög tignarlega. Hún er vön að pósa fyrir myndavélina enda alltaf á sýningum sem eðalhundur. Ása fann á hana nafnið sally því henni fannst það lýsandi fyrir virðuleikann. Ása er einhver tegund sem ég man ekki hvað heitir, en meðalstór og svört og með mjúkan fagran feld. Dáldið æstur hundur sem gleðst svo óskaplega þegar það kemur nýtt fólk að hann spólar á parketinu og þegar hann þeytist fyrir horn. Snýst í kringum fólk á hundrað með tunguna lafandi út svo það komi að leika eitthvað skemmtilegt. Hún heitir örugglega Dinó. Mikil orka þar )




hasta quando...

Á kobmagergade stendur maður með gítar og syngur af innlifun á spænsku. Rétt þegar við göngum fram hjá honum hefur hann upp raust sína í viðlaginu.... tralllaaallaaa Asta quando.. (ok hasta en há er hljóðlaust) Það fór ekkert á milli mála að hann var að syngja til mín. ÓÓ ásta hvenær. Ég get svarað því samt. Á morgun. Í hádeginu nánar tiltekið. Mér fannst sniðugt hjá halli að senda spænskann mann út á strik að syngja til mín. ;)

Það væri hægt að tapa vitinu í öllum tónleikunum sem mig langar að fara á. Illa skipulagt samt að novuelle vague, ratatat og au revoir simone séu allt sömu helgina í lok febrúar. Missti af miðum Arcade Fire. Eina sem ég veit núna er að ég mun fara á damien rice og Trans am í mars. Þetta verður að bæta úr, hvað sem sparnaði líður.

Strætó númer 5A er merkilegt samfélag í kaupmannahöfn. Þó ég hafi reynt að vara stelpurnar við að hann væri alltaf troðinn þá kom þeim samt á óvart að það þyrfti að troða sér inn með valdi og læra fljótt að fylgja með straumnum gegnum vagninn, ávallt að troðast eins langt aftur og hægt er án þess að vera troðið út. Stökkva á sæti ef einhver nálægt þér dinglar og fer að fikra sig í átt að hurð. Mörg tungumál og margir húðlitir og umfram allt ekki í boði að vera stressaður því ferðin tekur bara jafn langan tíma og hún tekur en ekki ákveðið margar mínútur. Best samt þegar við stóðum allar í röð að komast inn og bílstjórinn skellur svo aftur hurðinni þegar er að komast að mér, sorry komast ekki fleiri með og skelfingar svipur kom á stúlkurnar sem stóðu aðeins innar og sáu vagninn keyra burt frá mér sem vinkaði. Ég vissi svo sem að þegar vagninn er seinn þá er annar að koma rétt á eftir og bara mun meira pláss þar, en sem betur fer týndust þær ekki og fengu hjálp frá góðum manni sem hafði heyrt þær babbla "haggalabaggala norreport" alla ferðina og svo myndast við að fara út áður en að þeim stað kom. Hallaði sér að þeim og tilkynnti að þær væru greinilega á leið á nörreport og mættu þess vegna ekki fara út strax.

Almenningsvagnar og óskrifaðar reglur eru merkilegt fyrirbæri. Á ítalíu máttu einmitt bara fara inn fremst eða aftast og svo áttu að troða þér smám saman í átt að miðjunni og út þar. Mikið ergelsi spinnst af þeim sem troða sér í vitlausar áttir. Ég hef reyndar meira segja lent í því að komast bara ekkert út á mínu stoppi því ég var of fjarri hurðinni. Samt sakna ég eiginlega S-toget. Mest langar mig í hjól núna og geta farið allra minna ferða óháð tímatöflum.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com