Hosted by Putfile.com





wintertime

Dramatísk tónlist er svo viðeigandi í vondu veðri. Einsog kakó. Mér finnst alveg sérstaklega þægilegt að hafa klassíska tónlist, helst með miklum bassa og fiðlum í góðum heyrnatólum sem bæði hylja eyrun og hlýja þeim og einangra mann frá snjóbylnum. Sitja svo með rennandi nef í strætó og horfa á allt blása með dynjandi undirtón. Astor Piazzolla fyrir valinu í dag.

Það getur vel verið að þetta sé bara smá hrat á íslenskan mælikvarða, en allavega mesti "snjóbylur" sem ég hef séð hérna síðan ég flutti. Tja og jafnvel í hin skiptin líka, ég áttaði mig á því að ég hef oftast eytt tíma í kaupmannahöfn í febrúar/mars sem einmitt eru vetrarmánuðir borgarinnar. En það er ekkert skelfilegt frost svo með innpökkun í peysur og trefla var þetta alls ekki svo skelfilegt, meira pirrandi snjóflyksur fyrir augnhárunum en annað.

Kannski var ég bara svona ógurlega ánægð með mig eftir að hafa druslast út í tíma klukkan hálf átta, sjálfviljug og að eigin frumkvæði þar sem ég ákvað að kúrsinn væri bara of spennandi til að eiga nokkra vorkunn skilið að mæta þá fjóra daga í viku snemma. Og að koma sér af stað líka þó það væri snjóbylur og líka þó ég hafi verið á tónleikum í gærkvöldi sem var skolað niður með stökum bjór eða svo. Og ljósrita nokkur hundruð blaðsíður til að bæta upp fyrir þá tíma sem eru búnir og hefta og merkja. Og elda eitthvað gómsætt gums úr því allra síðasta í ískápnum, hrísgrjónum, hálfspíruðum kartöflum, eggi, lauk og tveimur skinkusneiðum með fullt af pipar og sweet chilli. Svei mér þá bara hinn besti hádegismatur.

Ég tala kannski oft um mat. En ekki bara finnst mér mjög gaman að borða og elda þá er alveg merkilegt hvað það er hægt að sakna mikið möguleikans að skreppa heim til foreldranna í mat. Og ekki síst sakna ég þess að týna hluti úr ískáp eða búrskáp sem sennilega verður ekki notað hvort sem er og afganga frá kvöldmatnum. "Pabbi.... ætlarðu að borða þennan makríl?" Ég sé skyndilega agalega eftir dósamatnum sem ég skildi eftir á eiríksgötunni.

Margt lærir maður. Eðlilega liggur allt þar sem ég lagði það, en ég glotti þó við heimkomu í dag þegar ég sá skyndilega yndisfrítt munstur af hinum mörgu marglitum klútum og treflum sem ég týni af mér og legg á næsta horn,hillu,borð,stól. Einu sinni hótaði pabbi að henda dótinu mínu öllu á haugana ef ég tæki ekki til og mamma leysti þetta síðast með bastkörfu í þvottahúsinu þar sem reynt var að samla mér saman. En núna má ég skilja allt þar sem ég vil og enginn pirrar sig á því. Allavega í tíu daga í viðbót.

Jiiii það var gaman í gær. Röð út að hliði í kristjaníu og sardínustemming inni á loppen. Þau voru alveg frábær á sviði og héldu uppi mikilli stemmingu. Okkur þótti dálítið fyndið að syngja allt á ensku en spjalla svo á frönsku inn á milli en hey... Agalega töff. Dálítið svekkjandi að ná ekki Ratatat í kvöld en leiter bara. Nú er lærilær. Og fótbolti. Haldið ykkur. Spennan er í hámarki, Liverpool&Barcelona. Ég held með barcelona ef þeir eru í gulu búningunum. Einsog sólargeislar...

2 Comments:

Blogger Ásta & allir said...

Ég tek allt til baka um smávægilegheit snjóstormsins. Hann blæs bara og blæs hvítu og kulda inn um allar rifur. Virkar sko alveg á íslenskan mælikvarða. Brrrr.

4:09 e.h.  
Blogger hallurth said...

Og í tilefni dags og tímasetningar, núsins: 10100

11:04 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com