Hosted by Putfile.com





Under construction

Já síðan mín er hrunin. Hefði víst átt að gerast fyrir löngu þar sem dúddinn sem á síðuna þar sem ég geymdi myndir og fyrirsagnir lagði upp laupana eða henti allavega út öllum óborgandi aumingjum.

Verður fínt á ný einhverntímann þegar ég hef tíma og orku í það.




Under construction

Já síðan mín er hrunin. Hefði víst átt að gerast fyrir löngu þar sem dúddinn sem á síðuna þar sem ég geymdi myndir og fyrirsagnir lagði upp laupana eða henti allavega út öllum óborgandi aumingjum.

Verður fínt á ný einhverntímann þegar ég hef tíma og orku í það.




eitlar og leiðindi

Eitlabarátta. Bólgin og beinverkir en samt ekki í hitamóki eða óráði. Við kvöldmatarborð í sjálfsvorkunn heima hjá foreldrunum milli slagsmála um hvítlauksgeirann til að klína ofan á ristaðbrauð undir smjörið, systkynajags og hefbundinna rifrilda, spakk og hakkedí í matinn, söngæfinga yngsta bróðursins (aðallega queen ennþá, en hann segist vera working on it að næla í kærustuna) og því að mér tókst að klemma mig til blóðs á stólnum kom það í ljós við æfingu að eiginlega allir í fjölskyldunni ná uppí nef með tungunni nema ég. Systirin og yngsti bróðirinn geta nánast sleikt á sér nasirnar en ég get bara hreyft eina augabrún í einu á móti. Ætli þetta þýði að öll fjölskyldan sé skáld nema ég? Ég get hinsvegar líka hreyft eyrun og blakað nasavængjunum sem nýlega hefur verið bent á að sé ekki á allra færi. Einsog sjálfsvorkunarsamri ófullorðinstúlku sæmir þá hennti ég mér í sófann gladdi mig við val föður míns að skella á madagaskar fyrir okkur og poppa og gefa mér kaffi.

Jenny Lewis er sniðug. Your are what you love. Þetta lag er hressilegt og hratt þó textinn sé smá drama. En einn dag sem þetta spilaðist í eyrunum á mér á göngutúr fór ég næstum að skríkja úr hlátri yfir textabrotum sem mér fannst viðeigandi. Það er svo gaman að finna óvænt tengsl í textum. Ég var meira segja í notuðum fötum í speglaveröldinni þar sem ekkert ekki einu sinni þúsund bjórar gætu nokkurn tímann bjargað eða breytt því að maður sé einn innan um allt þetta fólk.

This is no great illusion When I'm with you I'm looking for a ghost Or invisible reasons To fall out of love and run screaming from our home Because we live in a house of mirrors We see our fears and everything Our songs, faces, and second hand clothes But more and more we're suffering N ot nobody, not a thousand beers Will keep us from feeling so all alone But you are what you love And not what loves you back




can you smell that?

En skyldi lyktarskynið eflast í snjókomu? Er betri lyktarleiðni í lofti sem er fullt af blautum snjóflyksum? Var ég bara svöng og fann þessvegna meiri lykt? Hafði dramalagið með under byen lyktarkvetjandi áhrif á mig?

Að minnsta kosti fann ég óvenjulega margar lyktir á labbinu heim úr vinnu í dag. Til dæmis eftirfarandi ekki endilega í þessari röð ; reykelsi, ristað brauð sem gleymdist í brauðristinni en samt er ekki farið að brenna, amaretto, gömul reykingarlykt einsog ekki hafi verið loftað út eftir partý, blaut graslykt, kjötréttur eða kannski einhverskonar gúllas.

merkilega þarf stundum lítið til að koma manni aðeins úr jafnvægi. Óvænt andlit á óvæntum stað og manni bregður næstum við. Samt hægt að glotta út í annað yfir því enda er það makalaust hvað eitthvað í ætt við tilfinningar eða viðbragð hefur næstum líkamleg áhrif. Hressilegra en ef maður hefði engin viðbrögð sökum doða.




ársfjöldapóstafmælið

Merkilegt nokk þá hef ég núna póstað nákvæmlega 365 póstum í blogglífinu. Einsog daglega í eitt ár eða öðru hverju í þrjú og hálft. Eiginlega jafn lengi og háskólanámið varði. Bloggmagnið undanfarið stafar að sjálfsögðu af meiri frítíma en venjulega en hvorki merkilegra lífi eða fleiri hugsunum. En um leið og ég lokaði glugganum áðan blöstu við mér þessi lokaorð úr pistil dansks stráks sem fór í starfsþjálfun sem kokkur á ítalíu; Og lad mig slutte med noget poesi som vores stolte H.C. Andersen engang sagde: ”At rejse er at leve”. Hananú og hafðu það efasemdarpúki.




efin og það

Everything looks perfect from such great hights.

Af hverju skyldi allt líta betur út í fjarlægð? Fjarlægir staðir áhugaverðari en staðurinn sem maður er á. Aðrar aðstæður meira spennandi en núverandi?

Af hverju getur maður ekki haft allt í einu. Er ekki undarlegt að sakna þess sem maður vill fara frá áður en maður fer? Eins mikið og ég þykist engu bundin er ég samt bundin í fullt af skóm án þess að það heiti skýrum nöfnum. Ef ég fer í mörg ár þá missi ég óneitanlega af mörgu þó ég fái margt í staðinn. Stundum er hægt að velta fyrir sér hvort það sé einhver leið sem sé réttari en önnur og hvort það sé möguleiki að velja vitlaust eða bara ólíkt.

Mér er mjög illa við bíóhús sem selja of marga miða í litla sali svo tvær aumar persónur geta ekki fengið sæti nema í sitthvorum enda salarins og láta sig þarmeð hafa það að fara frekar á velluna í hinum stærsta salnum sem inniheldur bara fáar hræður. Vellan stóð að minnsta kosti undir nafni sem vella og fullkomnaði ímynd mína um bíómyndir sem eru búnar til innan í fornri formúlu. Með ömurlegri persónusköpun tekst sætu stúlkunni þó að umbreyta gaurnum án mikillar áreynslu og þau sigla saman í sólarlagið en ekki fyrr en gaurinn er búinn að klappa höfrung útí sjó sem sagði honum á höfrungamáli að hann væri nú í sambandi og ástfanginn og þarmeð í sátt við náttúruna og hann þyrfti ekki að bíta hann.

áhugaverðasta við ferðina voru stelpurnar sem hlógu svo mikið að þær köfnuðu næstum á poppinu því þeim fannst myndin svo smellin. Velti fyrir mér hvort þær hefði kannski aldrei séð rómantíska gamanmynd á ævinni og þessvegna væri þetta allt nýtt fyrir þeim.

they will see us waving from such greatheights, "come down now," they'll say but everything looks perfect from far away,"come down now," but we'll stay...

Ef eru til að losna við þau. Ef tilheyra fortíð en ekki framtíð því ef þau væri framtíðin þá væru þau ekki ef. Sumt hlýtur maður að mega líta á sem einhverskonar tákn og ef það að einhver komi óvænt og vilji gefa manni peningastyrk til að gera það sem mann langar, er ekki tákn þá veit ég ekki hvað er það.




innilokaðar tær og yfirþyrmandi frelsi

Undarlegt. Vegna kuldahrolls lagðist ég til svefns í gær í nokkuð þykkum sokkum. Ekki í fyrsta skipti sem tærnar eru að frjósa. Hins vegar vaknaði ég í andköfum um miðja nóttum sökum innilokunarkenndar á tánum.

Reif mig úr sokkunum í snarhasti og þurfti alveg móment til að jafna mig.

Flytja út núna eða seinna eða bæði eða hvorugt? Bæði í einu eða eitt í einu eða hvar á ég að byrja. Þetta einfalda mál virðist vinda uppá sig í vandamálum. Valkvíðafólki af verstu gerð sem þó hafa ánægju af möguleikum er mikill óleikur gerður með alhliða vali og engum kvöðum. Ég má sem sagt gera eiginlega allt sem ég vil með þennan styrk innan marka evrópusambandsins nema vinna fyrir íslensk fyrirtæki og sendiráð. Hvert ó hvað ó hvenær ó hvernig.

Loving it.




innisumar

Nú er sumar gleðjist gumar gaman er í dag. Hver þarf útivist þegar hann hefur svona stórfín blóm vafin utan um líkamann uppí rúmi og bölvar því að hafa farið út eftir vinnulok um miðnættið og kvatt veturinn og kvatt gestina sem bjuggu hjá okkur, norðmanninn og chilebúann sem giftu sig hér, grænmetisætan og brúðurinn fór offörum í hrútspungum og hangikjöti og snarveiktist auðvitað eftir veisluna og uppáhalds nýhippinn sem ég þekki norðmaðurinn sem seldi allar eigur sínar of fór til indónesíu strax eftir tsunami og stofnaði þar lítið hjálparfélag og dvaldi mánuðum saman. Enda einsog heima fyrir honum eftir að hafa ferðast um allt. Einu sinni hitti ég hann yfir öl á sirkús fyrir mörgum árum, minnir að ég hafi verið að útskrifast sem stúdent og hann spyr hvað ég ætli nú að gera.

Ég vissi ekki mikið um hann og held ég hafi ætlað að snúa útur og sagði æi veistu mig langar bara mest til indónesíu að læra köfun eða eitthvað. Í staðinn fyrir að segja aha o en spennó, skrifaði hann niður fyrir mig nafnið á eyjunni þar sem hann hafði búið í strákofa í níu mánuði og kennt köfun. Þetta hljómar eflaust einsog klisja, en það getur ekki verið annað en yndislegt að búa á strönd og dunda sér við að svamla um í bláu tæru hafi með fiskum. Eflaust hægt að gera eitthvað að gagni líka.

Það er aldrei góð hugmynd að fá sér í hægri tánna og jafnvel líka þá vinstri svona seint, sem þýðir að það endist lengi, svefninn er stuttur og vinnan sem er að hefjast ekki tilhlökkunarefni. Hvað um það.

Lenti í óþægilegri uppákomu í gær en það þarf einhver að dreifa þeim boðskap betur að maður á ekki að reyna við samstarfsfólk. Aumingja þjónaneminn gæti séð eftir dramanu og langar ekki að koma að vinna þegar ég er. Verst að ég er svo meðvirk að mér finnst vandræðalegt að hann hafi reynt við mig og líður illa fyrir hann að ég hafi ekki áhuga.

Hinsvegar er ég með fiðring í maganum yfir öðru. Get ekki látið neitt uppi þar sem ég skil ekki enn alveg hvað það þyðir en virðist hafa fengið níu vikna styrk til einhverskonar vinnu í evrópu. Veit ekki hvar, hvernig, hvað eða hvenær. Kemst að því á morgun. Spennó.Flókið óvænt skrítið og undarlegt.




lof á ljóðin og lovísu

Ég get bara ekki orða bundist. Reyndar er ég heldur ekki góð í að tala í bundnu máli en það er allt önnur saga. Sem snýr einmitt að ljóðstíl sem við fengum að upplifa í litríkri fjölbreytni í kvöld. Virkilega vel heppnað kvöld á rósenberg og óska ég þeim til hamingju með uppákomuna. Það getur vel verið að ég sé örlítið hlutdræg en mér fannst lokaatriðið samt best ;) Ofsalega bleikir skór, hálsbrot við hrap úr stjörnundansi og ljóðskáldastimpill af orðamykju á blöðum ásamt mörgu fleira eflaust dýpra og betur sagt. Þumalputta upp fyrir halli.

Sömuleiðis verður tónlistaratriði kvöldsins Lay low að fá það hrós sem hún á skilið. Góður dagur hjá stúlkunni, skólavist samningar og allt á blússandi ferð. Ég efast ekki um að það mun heyrast mikið í henni á næstunni og allavega hlakka ég til að heyra miklu meira. Ótrúlega gott innslag og greip alla með sér með rámum þó ljúfum söng, góðum textum og skemmtilegum takti.

Mér finnst alltaf svo gaman að sjá fólk sem er virkilega að gera eitthvað sem það hefur ánægju, ástríðu og ákefð fyrir. (datt engin fleiri -á orð í hug rétt í þessu) Og drifkraft til að gera eitthvað úr því sem kemur innan úr þeim. Taka mér þetta til fyrirmyndar.

Einn bjór eða svo var líka góður og nú er lofræðunni lokið í bili. Ég þarf að finna drifkarft á morgun til að sækja um skóla. Fyndið að senda frá sér litla hluti út í heiminn sem manni þykir vænt um þó þau séu bara verk og láta ókunnugt fólk dæma á þeim hvort maður teljist þess verðugur að vinna meira undir þeirra stofnun.




um lauk og ljóð

Hver elskar ekki hvítlauk? Það mætti hinsvegar halda að einhver hjá sælgætisgerð freyju hafi horn í síðu mína og hvítlauksástinni ef merkja má málsháttinn sem fylgdi fagra rísegginu með fagurrauðum páfagauk og sólblómi.

Eitt epli á dag bægir lækninum frá en einn laukur á dag bægir öllum frá.

Hverskonar rugl málsháttur er þetta? ég fékk nú einu sinni verðlaun í íslensku og voru þau bókasett um íslensk orðtök og málshætti og ég er fullviss um að þetta finnst ekki þar. Að minnsta kosti ekki svona samsett. Reyndar vorum við gebba mun svekktari þegar við sátum í fullkomnu iðjuleysi og yndislegheitum um miðjan dag í kaffipásu. Hún frá hugmyndum um lærdóm, ég frá atvinnuleysi-leit eða hverslags uppáfinningum. Dró elskan ekki fram eitt númer tvö sem leyndist í fórum hennar og ætlunin að gæða sér á smá lúxussúkkali með kaffinu. Málshátturinn var eftirfarandi : Iðjuleysi er rót alls ills.

Hann hangir nú á ískápnum með súru teiknimyndasögunum og er jafn mikið aðhlátursefni.

Annars vil ég benda á að ég fer sjaldan yfir strikið með hvítlauknum, nema kannski um daginn þegar við elduðum laxinn hjá auði fyrir partý og ég sá um sósugerð og kreisti þrjú eða fjögur sérlega væn rif útí eina dollu af sýrðum. Við ropuðum hvítlauksilm allt kvöldið með bjórnum. Ég hef hins vegar ekkert samviskubit, því ég hef hvort eð er ekkert að gera við mann sem ekki borðar hvítlauk.

Ljóðaupplestur og kúlness á rósenberg annað kvöld (sem sagt í kvöld, 18.apríl) klukkan níu. Vera þar eða vera ferhyrningur.




háskalegir páskar

Gleðilega páska. Eða gleðikona í háska einsog ása skrifaði á ískápinn. Sérlega ópáskalegir páskar en þeir voru víst samt hérna. Nema ég las í mogganum að í eþíópíu eru páskarnir ekki fyrr en næstu helgi. Auk þess að þar er árið 1998 núna.

Þeir eru víst temmilega liðnir núna samt miðað við lókal tímatal. Hurfu í kraðaki af svöngum útlendingum og kökuæstum íslendingum. Fyrsti klukkutíminn var dauður í morgun og fussuðum við yfir tómum degi. Okkur hefndist sannarlega fyrir það og næstu tólf tímana var ekki tími til að anda enda fámennt á vaktinni, það er að segja vorum tvær auk lánaðs þjónanema yfir hárushið.

Merkilegasta við þennan páskadag hlýtur að teljast rússneski mafíósinn sem fyrst dásamaði yndisfegurð mína og okkar (þvoglumæltur og geðslegur) en hótaði mér síðan ofsóknum útsendara mafíunnar þegar ég ei vildi þýðast hann og gerðist síðan svo kræf að biðja hann og íslenskan rónafélaga í bláum jogging með gulum röndum um að borga bjórana sína. "you my friend, no? you know who am i? Im the russian mafia, all ok, ok? you beautifullest eyes, yes, my friend? what you want, you no mess with me ok, og horfði glansandi tómum augum á mig sem reyndi að gera honum ljóst að ég myndi afturkalla lögregluna sem ég var búin a hringja í, ef hann bara myndi borga þessa smáupphæð sem hann skuldaði. Íslendingurinn í röndóttu buxunum tosaði sífellt í ermina á honum og barði í borðið af ótta við lögguna. NEI ENGA HELVÍTIS LÖGGU eftir að hafa öskrað og hreytt versta ósóma í samstarfsstúlku mína sem ei er af íslensku bergi brotin en talar þó mun skiljanlegri íslensku en hann.

Sennilega myndi það teljast áhugavert smáatriði að þetta var klukkan hálf tvö í hádeginu og fjarri djammsenunni. Heppilega var einn eigandinn á staðnum sem er stærri en ég og virkar betur í ógnunum. Þarf að drífa mig í einhverjar bardagaíþróttir svo ég geti tekið svona dúdda og snúið þá í gólfið án þess a blása úr nös. Tala nú ekki um þegar ég er komin með rússneska mafíu á hælana. Stúlka verður að hugsa um sig.

Já ísland í dag. Hins vegar leið dagurinn óneitanlega hratt þegar maður hleypur hratt um, auk þess að túristar eru svo sérlega kurteisir og almennt ánægðir að maður getur ekki annað en brosað til þeirra þó maður fái hvorki að pissa né borða sjálfur.

PS. plís ef einhver tók upp seinni þættina tvo af the triangle láta mig vita. Ógjó spennandi. Afgangar af páskalambi vel þegnir sömuleiðis, jafnvel biti af páskaeggi. Get haldið mína eigin páska næstu helgi.

pps. Ætli ég væri bara sautján í eþíópíu? Gæti þurrkað út nokkur ár og byrjað unglingsárin uppá nýtt. Fullorðin hvað.




hvar er þessi bjössaróló?

Einhverstaðar í handakrikanum á snæfellsnesi ekki mjög langt frá vegamótum er lítill miniútgáfa af skógi í boði einhvers skógræktarfélags. Wolfswagenbílaleigufólkið ákvað að halda hádegispikknikkpásu í bílnum fyrir utan skóginn vegna sérstaklega óhenntugs pikknikkveðurfars. Það er að segja snjóbylurinn fyrir utan sem hafði aukist í sífellu og gaf ekki mikla möguleika til að sitja úti að smyrja brauð. Hópurinn lét þó ekki veðrið hamla för og tók hressandi göngu í litla skóginum sem hafði einn göngustíg sem gekk í hring. Við styttum okkur óvart leið í gegnum smá ógöngur en fagurgrænan mosa, skærgræn jólatré og trékurl undir snjólaginu. Birtist þá ekki fagursmíðaður bekkur í litlu rjóðri. Hliðina á bekknum var stálkeðja sem boltuð var í risastórt grjót sem þar stóð. Spánverjinn taldi að það mætti sem sagt ekki taka bekkinn með sér. Ég tölti nær og tók þar upp tréplötu með ágreiptri stálhlið með löngu ljóði á. Það var sem sagt ljóðið sem var fest með grófri stálkeðju við stein einhverstaðar í miðjunni á engu. Það er hugsað fyrir menningunni hjá íslenskum umhverfisskipuleggjendum.

Það er að vissu leiti áhugavert að eini dagurinn sem ég var í fríi og boðið með í road trip þá skyldi hellast á með brjáluðum byl, skilti sýndu meira segja 26 metra á sekúndu á heiðinni þarna svo við vorum ekkert að halda áfram þar sem útsýnisferðir án skyggnis eru ansi hálfar. Daginn áður og daginn eftir er síðan bara sól og blíða. Kannski er bara blíða í reykjavík. Spænski maðurinn var hins vegar himinlifandi yfir ísjökunum sem við sáum á einhverri á og við meira segja stoppuðm og fórum að pota í þá. Undarlegt nokk þá var lítill dauður fiskur í miðri fjörunni um það bil tíu til fimmtán metra frá vatnsborðinu en hliðina á nokkuð stórum jaka. Skemmtilegar vangaveltur spunnustu um hvernig hann hafi komist þangað greyið. Sömuleiðis gladdi pulsan sem vinur okkar fékk í troðinni hyrnu. (mér skilst á auði að hann elski pylsur næstum óeðlilega mikið og hafi smakkað þær á öllum helstu sjoppustöðum landsins auk þess að hafa fengið tækifæri til að elda svoleiðis sjálfur heima. (Í hyrnunni földu sig allir, ekki einn einasti bíll sást á götum borgarnesbæjar en í hyrnunni var allt að gerast) Lýsum eftir Bjóssaróló. Fylgdum öllum skiltum en bjössaróló fannst hvergi.




where r u from?

Vegna vinsamlegra tilmæla finnst mér einhvernvegin ástæða til að árétta nokkra ómerkilega hluti. Í fyrsta lagi geri ég mér fulla grein fyrir því að karlmenn búi yfir tilfinningum og jafnvel oft ástæðum fyrir gjörðum sínum þó það sé jafn oft hinsvegin, sem sagt tilfinningalaust og algjörlega ástæðulaust með öllu sem þeir finna sig í. Í öðru lagi þá hvarflaði að mér að það séu of margir sem vita hvar ég vinn, og þar af leiðandi mun stílfæring mín um pelsa og pjátur skemma fyrir ímynd og stemmingu þess staðar er ég vinn á sem annars er temmilega huggulegur og eiginlega engan veginn fansí ef frá eru taldar kristalsljósakrónur og smá leðursófar. Kosturinn við að vinnar þarna er einmitt að það er afslöppuð stemming bæði hjá þjónum og kúnnum.

Eftir þessa nettu PR stemmingu og fyrirbyggingu móðganna, þá vil ég minna á að hittingar með fullt af ókunnu misskrýtnu fólki eru ávallt skemmtileg á penthásinu. Alþjóðleg blanda oft á tíðum, en óvænt í kvöld með kokteilaívafi eftir tófúið með hnetusósu og massachillí (björk og sigrún þið veeeeerðið að senda okkur alvöru chillíið þetta gengur ekki) í hrærigraut af kokteilum, bjór, hvítvíni og slummu af stelum með ábót af nokkrum hressum strákum þá varð þetta hið fínasta kvöld.

Ég er kannski svört á tungunni í dag eftir að ég kom mér undan að vinna í fyrramálið. Ætli þetta hafi áhrif á góðmennskustig mín í alheiminum? En fyrst það er aðalega maður sjálfur sem stjórnar því hvað verður eða hvernig fer þá hlýtur þetta að falla undir multitasking abilities. Kannski ég bæti þessu við á ferilskránna.




ég sagði deit ekki diet

Þreeeeeeyyttttt. Hvað er að öllum þessu ríku íslendingum að hópast út að borða á mánudögum? Hins vegar lang besta hugmynd dagsins að troða tónlistarsmekk mínum af mp3 uppá gesti og gangandi og bjarga þeim þannig í stundarkorn frá celine dion og öllum þeim væmna viðbjóði sem playlistinn í forntölvunni með ónýta geisladrifið inniheldur. Það er kúl að láta pelsklætt fólk og aðra hlusta á blond redhead, black heart procession, sia, mazzy star, cat power, belle&sebasian og margt margt fleira sem þar leyndist. Fór þó ekki offörum svo fólki myndi ei svelgjast á rauðvíninu og hélt mig við slagara í rólegri kantinum.

Önnur góð hugmynd frá miðnætursnarli okkar gerðar síðan í gærkvöldi er að taka upp nýja kúr. Svokallaðan deit kúr. Ekki diet kúr nei, heldur deit kúr. Í slíkum kúr máttu bara borða það sem þér er boðið uppá (á deiti helst auðvitað) Það segir sig sjálft að slíkt hlýtur að vera win-win situation. Annaðhvort keppistu við einsog þú eigir lífið að leysa við að deita og hugsanlega við þá iðju fundið sálufélaga eða annað þvíumlíkt, en ef ekki og þú finnur engin deit þá hlýturðu að grennast ógurlega.

Svo fólk fari ekki að örvænta um heilsu okkar sem hvorug hefur staðið sig sérlega vel í að verða okkur útum menn til slíks brúks, þá telst líka með matur sem þú færð gefins a) í vinnunni b) í foreldrahúsum. Sömuleiðis er tíð fyrir fermingarveislur, ég þóttist bara himin höndum hafa tekið þegar mér var boðið í eina slíka á sunnudag og fékk margra rétta mat auk fjölskyldustemmingar. Svo er náttúrulega möguleiki að fara að crasha slíkar veislur sem haldnar eru í hverjum sal borgarinnar í kringum páska.

Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort mikið af fólki ætlar út að fá sér steik á föstudaginn langa og páskadag. Fyrir alla litlu túristana þá er opið alla dagana sem er bara alltílagi mín vegna, slepp við súkkulaðiflökurleika og fæ í staðinn tvo daga á verði eins þegar það er 90% álag. Atli frændi er nefnilega alveg að beila á mér. Enda samband okkar ósanngjarnt, hann gefur og gefur og gefur en ég gaf bara ekki baun í bala til baka. Hann verður víst að sýna smá hörku við svona misnotkun. En ég bæti honum þetta samt alltaf upp á endanum.

Annar endalaus dagur í vændum og svefngalsinn að ganga af mér dauðri. Í bælið með þig.




I never told you about the diamonds in your eyes

Ef maður væri ekki svona vanþakklátur fyrir það sem maður hefur vegna eigingirni og tilætlunarsemi að maður gæti haft meira af einhverju tagi, þá væri maður kannski betri manneskja.

Þó kuldinn nýsti í gegnum öll bein vegna þess að maður gleymdi húfunni heima þá getur maður þakkað fyrir rauðvínsglösin sem hlýjuðu að innan. Svo ekki sé minnst á að sambó eldi oní mann glæsilegan hnetuchillispínathvítlaukskjúkling og gleymum ekki stúlkukindunum sem voru geim í rauðvín og spjall þó þær eigi fleiri skyldum að gegna en ég einsog morgunvinnur og verkefnayfirferðir í kennslunni. Sömuleiðis föstudagsfrí, havana í kók og kb. Frænka með en missti af afríkufaranum, skot og skóvandamál. Lét það þó eigi stytta kvöldið um of þó annar hællinn skyldi brotna af ástfólgnu hælastígvélunum mínum sem reyndar voru farin að láta á sjá. Það er tækni við að tölta um á einum hæl og nota bara tánna sko. Sást hvort eð er ekkert í lappirnar þarna inni. (Gerður hefur nú fullkomnar þessa tækni, hvað er það fjórum sinnum sem hún hefur misst hæl)

Það er þetta með að vera mannþekkjari eður ei. Fólk virðist ávallt takast að koma mér á óvart, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt og ég velti fyrir mér hvort mannþekkjaragáfur séu ekki bara ofmetnar. Kannski nægir að þekkja sjálfan sig og gera ráð fyrir að fólk sé aldrei einsog þú heldur.

Þetta sat í mér undir gríðarlegri lofræðu um fegurð augna minna (öruggasta, einfaldasta og oft ófrumlegasta hrósræða sem hægt er að finna uppá) nema hvað að viðkomandi skildi ekkert í að hann gæti samt ekki lesið mig, taldi sig venjulega hinn mesta mannþekkjara og þótti ég vera óræð. (Það væri kannski besta hrós sem hann hefði getað fundið upp að svo stöddu enda stundum þreytt á að vera svona opin bók, þó velti ég fyrir mér hvort leyndist sannleikskorn í ræðunni, að mökkölvaður maður skildi virkilega halda að hann gæti lesið eitthvað úr mér með mannþekkjaragáfum sínum)

Ég er ekki alltaf eins einföld og ég hljóma, auðvitað var þetta allt liður í að láta mig halda að hann hefði raunverulega ógurlega mikinn áhuga að vita hver ég væri innst inni og ekki síst hvað hann sjálfur væri ofsalega mikill pælari og í leiðinni innvafið í væmni um dýpt fegurðarinnar og hvaðeina. Það var næstum því spennandi að velta fyrir sér dýpt plottsins.

Mér hefur oft verið sagt að stelpur eigi það til að klína allt of mikið af meiningum á athafnir karlmanna, þeir séu nefnilega svo einfaldar verur. Þeir eru allavega ekki einfaldir rétt á meðan þeir plotta einsog um hernaðaraðgerð sé að ræða. Annars vegar vinna í að heilla en hins vegar að losna. Fornar klisjur um rökhugsun karla eru þó einkennilega fjarri þegar kemur að því en misstök leyfast ekki. Guð forði þeim frá því að segja sannleikann. Jeremías. Þeir sem síðan nenna ekki svona plotti er bara einfaldlega alveg sama, ypta bara öxlum með tóman svip, ...this is non of my buisness... og vappa burt í tilviljanakennda átt án þess einu sinni að taka eftir hvar þeir voru.

Ég sónaði út undir lofræðunni og fór að velta fyrir mér hvað það væri eiginlega sem hann ætlaði sér að lesa úr mér. Hvað sést um hver ég er utan á mér? Ef frá er talið týpuflokkun eftir fötum eða háralit sem er alveg eins til þess fallið að fela hver maður er, á hverju ætlar fólk að byggja innsæi sitt? Ég held að í flestum tilvikum sé upplifun fólks af manni gríðarfjarri því sem maður sjálfur myndi telja sig vera. Ályktanir fólks á persónuleika manns eða skoðnum örugglega oft út í bláinn. Auk þess getur vel verið að klisjur um að augun spegli einhvern sannleika sé bara rugl, enda virðist fólk engu síðra að ljúga með augunum einsog á annan hátt. Þá rann það auðvitað upp fyrir mér í einfaldleika sínum.

Maður les bara það sem maður vill lesa úr fólki. Eðlilega veldur það sífelldum vonbrigðum þegar fólk er ekki einsog þú ákvaðst út í bláinn að það væri. Að vera góður mannþekkjari er þá bara að vera góður í að álykta um fólk og tengja sögurnar. Útskýrir líka að maðurinn átti erfitt með að lesa mig, þar sem drukkinn hugur átti erfitt með að mynda sér skýra ályktun byggða á útlitinu.

Ætli hann hafi getað lesið úr augunum á mér að ég trúði honum tæplega. Það er dáldið múdbreiker að vera kaldhæðinn. Eflaust átti hann von á blíðlegri viðtökum á væmninni.

Þó ég hafi næstum sofið yfir mig í vinnuna í kvöld (jájá ég veit að ég mætti klukkan fimm) þá reyndist þetta vera ágætis dagur, það er nefnilega kúl að eyða þreytu, myglu og pirring í að vera á launum í staðinn fyrir að eyða frítíma í það.




andaðu mér

Breathe me.

Help, I have done it again

i have been here many times before

hurt, myself again today

and the worst part is there´s no one else to blame

Já hún Sia fyrrverandi söngkona í zero7 hefur fengið þann heiður að vera ein af dellunum mínum síðustu vikur frá því ég kóperaði diskinn hjá björk um daginn. Leitaði þó dyrum og dyngjum að henni í plötubúðum í köbenferðinni í fyrra þegar ég heyrði diskinn fyrst en án árangurs.Einsog ég er með stappaða tölvu af nýrri tónlist þá virkar það stundum þannig að hugurinn tekur ástfóstri við eitt lag, eða eina plötu í smá tíma og fær bara ekki nóg af því. Heppilega skiptist reglulega út samt. Þetta lag skemmtir mér samt mikið í melankólíustemmingu sinni enda gæti ég hafa samið það sjálf í um það bið þrjú hundruð þúsund skipti á ævinni. Eða að minnsta kosti gæti átt við mig í svo mörg skipti. Hvað um það, það getur aldrei neitt verra en maður lætur það vera. Viðhorfaklisjan virkar nefnilega.

Athyglisvert með tónlist og minnið hvernig það límist saman. Ekki síst þegar maður tekur svona dellur, sem leiðir til þess að stundum skellir maður einhverju gömlu á fóninn (eða þannig) og það er einsog fyrir galdra kveikt á gömlum tilfinningum eða skapi eða stað eða stemmingu. (Ég veit þetta eru engin ný fræði, það er bara alltaffyndið að lenda í þessu) Hins vegar er verra þegar góð tónlist er eyðilögð með tengingum við eitthvað slæmt. Er einmitt að vinna í að fyrirgefa Cat Power fyrir pirring sem er alls ekki henni að kenna. Það hlýtur að verahægt að slíta svona tengsl með þvi að búa til ný.

Hvað er annars að liðunum í líkamanum að stirðna svona fljótt? Smá tími af kyrrsetu og maður á bara í mestu vandræðum meðað leggja hausinn að hnjánum og faðma tærnar. Nasista balance kennarar fá mann til troða sér í hinar skemmtilegust stellingar sem einu sinni voru pís of keik en svo láta mjaðmaliðir bara ei að stjórn og neita að beygjast meira. Afleiðing af því að þykjst geta allt einsog áður eru harðsperrur á einkennilegum stöðum. En það er skemmtilega kaldhæðið að ég er góð í jafnvægisæfingum. Hugsanlega er ég betri í að einbeita mér og vera í jafnvægi en ég hélt?




takk heimur

Nú verð ég formlega að hætta öllu kvarti. Ekki að ég sé alltaf að kvarta, en þegar alheimsöflin sýna að þau séu á mínu bandi hlýtur maður að vera þakklátur. Ef þetta heldur svona áfram þá hlýtur allt sem ég vil að ganga upp.

Símafinnarinn gerði sér nefnilega lítið fyrir og fletti upp á mamma gsm í símanum mínum og spjallaði við hana um símann sem hann fann í bílnum og kannaðist ekkert við né eigandann. Get ímyndað mér að það hafi verið einkennilegt samtal. Hann að ræða við móður einhvers ókunnugs og mamma eflaust velt fyrir sér hvurn fjárann ég var að gera í bíl hjá einhverjum sem ekki kannaðist við að þekkja mig. Stundum til lítils að útskýra heimatilbúna leigubíla í reykjavík á frostkvöldum með súperlöngum leigubílaröðum fyrir foreldrum sínum.

Ég er sem sagt heppin í óheppni og velti fyrir mér hvort kvöldið sem ég steig í hundaskít í bologna sé enn að virka fyrir mig. Þar úti fékk ég einmitt veskið mitt tilbaka í tvö skipti af þremur. Ég er samt ekki utan við mig sko. Eða gaurinn sem hringdi á allar háskólastofnanir borgarinnar til að hafa uppá aumingja útlendingnum sem átti veskið sem hann rambaði á úti á götu. (einhver stal veskinu, hirti evrurnar og henti þ ví svo) Elska svona fólk sem vill öðrum vel og hefur fyrir því að skila dóti eða annað óeigingjarnt. Þá finnst manni einsog heimurinn sé ekki alveg glataður í eiginhagsmunaseggsskap.

Arfleifð köben er á einkennilegan hátt ást á chilli. Heimatilbúin chillihvítlauksolía er góð ofan á allt. Meira að segja hrökkbrauð með kæfu, tómat og parmesan. Þvílíkur herramannsmatur. Það fór hinsvegar lítið fyrir detox meðferð eftir marineringuna og önnur arfleifð frísins er að við vinnuskipulag velti ég alltaf ómeðvitað fyrir mér hvar verði laus tími til að kíkja út líka. Og áhyggjur virðast hrökkva af mér einsog vatn af gæs. Hvað ætli ég endist lengi áður en lífsgæðakapphlaupið eða eitthvað þvíumlíkt nær tökum á mér?




og aftur

Þetta var allt misskilningur. Það er ekki vor á íslandi. Allavega ekki rétt meðan jólasnjórinn flýtur um allt og heimurinn hverfur í flygsum sem virðast jafnvel fjúka upp á við líka því það er næstum því logn.

Það er kannski líka misskilningur að maður venjist öllu. Kannski venst maður einmitt engu, og þess vegna kemur það manni sífellt á óvart að það sé snjór á íslandi á vorin. Það eru ekki einu sinni komnir páskar, muniði þegar það snjóaði svo mikið í júní að það þurfti að grafa upp heilu kindastóðin.

Ég venst því heldur aldrei að týna símanum mínum þó það hafi nú gerst alloft. Ég vil meina að ég sé óheppin frekar en klaufi og alheimurinn sé í samsæri gegn því að ég hafi slíkan grip í minni umsjá. Hins vegar hef ég líka nokkrum sinnum heppilega fundið símana aftur eftir undarlegum leiðum (ok td. fannst dauður í bjórglasi, fannst á sirkus, lítil stelpa fann hann fyrir utan blokk, einhver fór með síma í viðgerð ári eftir að hann týndist og viðgerðastofan rakti hann til mín, gleymdist í bílnum hjá eddu eða heima hjá einhverjum og svo framvegis) Síminn hringir ennþá svo krossleggjum fingur um að hann skili sér vegna góðmennsku alheimssamsærisins sem veit að ég má ekki við þessu núna.

Þetta kemur sér takmarkað vel þegar maður er ekki með heimasíma og vinnur sem stendur í útkallavinnu en er líka að bíða eftir svörum frá fimmtán stöðum sem væntanlega þyrftu að hringja í mig til að bjóða mér viðtal. Talandi um áskapað atvinnuleysi.

Svo ekki móðgast þó ég svari ekki sms-um né hringingum. Vísa á msn eða lukkuna til að rekast á mig.




vanalegt

Ég vildi eiginlega óska að ég gæti sagt að það hefði verið ofsalega skrítið að mæta í vinnuna í gær. Hinsvegar tók það ekki nema sjö mínútur að átta sig á öllu sem var breytt (komnir nýjir hliðardiskar, hætt að brjóta servíettur í kertalíki, kominn nýr árgangur af candidato rauðvíni ogsvfr.) en síðan gengur allt sinn vanagang. Má bjóða þér meira vatn? Hvernig smakkaðist, get ég fært þér annað hvítvínsglas? Viltu pipar? (í huganum, ég er svöng, ég er þreytt, mér leiðist, má ég fara í pásu, hvenær verður klukkan nógu margt)

Sem rifjar upp vangaveltur um vana. Það er næstum því óhuggulegt hvað flest kemst fljótt upp í vana. Bara það sem er í kringum mann þá og þegar verður venjulegt um leið. Maður venst því að hafa fólk í kringum sig sem skiptir máli, en venst því líka að það sé ekki þar. Þó maður sakni þeirra ógurlega þá bara venst maður því að sakna einhvers.

Vitandi að ég er einsog amaba og get aðlagast fljótt, þá veit ég ekki alveg hvaða vana ég er snúin aftur til heima eftir útlandafríið. Minn vani er að vera í skóla á þessum árstíma, hins vegar eru mánuðirnir af einveru og skriftum BArna ekki vaninn, né langar vaktir, né er mánaðarhuggulegheit í kaupmannahöfn venjulegt norm. Vanalaus í apríl. Tími til að venjast einhverju nýju.

Hins vegar er ágætt að vera heima, með kattarhárum og allt. Vorið í reykjavík er upplífgandi þó það sé skítakuldi, bjartari kvöld og sól eftir kvöldmat rugla tímaskynið, minnka þreytuþörf og hreyfa við löngun til að gera eitthvað. Það er ákveðinn sjarmi yfir frosnu nefi í yndisfögru fölsku gluggaveðri.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com