Hosted by Putfile.com





I never told you about the diamonds in your eyes

Ef maður væri ekki svona vanþakklátur fyrir það sem maður hefur vegna eigingirni og tilætlunarsemi að maður gæti haft meira af einhverju tagi, þá væri maður kannski betri manneskja.

Þó kuldinn nýsti í gegnum öll bein vegna þess að maður gleymdi húfunni heima þá getur maður þakkað fyrir rauðvínsglösin sem hlýjuðu að innan. Svo ekki sé minnst á að sambó eldi oní mann glæsilegan hnetuchillispínathvítlaukskjúkling og gleymum ekki stúlkukindunum sem voru geim í rauðvín og spjall þó þær eigi fleiri skyldum að gegna en ég einsog morgunvinnur og verkefnayfirferðir í kennslunni. Sömuleiðis föstudagsfrí, havana í kók og kb. Frænka með en missti af afríkufaranum, skot og skóvandamál. Lét það þó eigi stytta kvöldið um of þó annar hællinn skyldi brotna af ástfólgnu hælastígvélunum mínum sem reyndar voru farin að láta á sjá. Það er tækni við að tölta um á einum hæl og nota bara tánna sko. Sást hvort eð er ekkert í lappirnar þarna inni. (Gerður hefur nú fullkomnar þessa tækni, hvað er það fjórum sinnum sem hún hefur misst hæl)

Það er þetta með að vera mannþekkjari eður ei. Fólk virðist ávallt takast að koma mér á óvart, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt og ég velti fyrir mér hvort mannþekkjaragáfur séu ekki bara ofmetnar. Kannski nægir að þekkja sjálfan sig og gera ráð fyrir að fólk sé aldrei einsog þú heldur.

Þetta sat í mér undir gríðarlegri lofræðu um fegurð augna minna (öruggasta, einfaldasta og oft ófrumlegasta hrósræða sem hægt er að finna uppá) nema hvað að viðkomandi skildi ekkert í að hann gæti samt ekki lesið mig, taldi sig venjulega hinn mesta mannþekkjara og þótti ég vera óræð. (Það væri kannski besta hrós sem hann hefði getað fundið upp að svo stöddu enda stundum þreytt á að vera svona opin bók, þó velti ég fyrir mér hvort leyndist sannleikskorn í ræðunni, að mökkölvaður maður skildi virkilega halda að hann gæti lesið eitthvað úr mér með mannþekkjaragáfum sínum)

Ég er ekki alltaf eins einföld og ég hljóma, auðvitað var þetta allt liður í að láta mig halda að hann hefði raunverulega ógurlega mikinn áhuga að vita hver ég væri innst inni og ekki síst hvað hann sjálfur væri ofsalega mikill pælari og í leiðinni innvafið í væmni um dýpt fegurðarinnar og hvaðeina. Það var næstum því spennandi að velta fyrir sér dýpt plottsins.

Mér hefur oft verið sagt að stelpur eigi það til að klína allt of mikið af meiningum á athafnir karlmanna, þeir séu nefnilega svo einfaldar verur. Þeir eru allavega ekki einfaldir rétt á meðan þeir plotta einsog um hernaðaraðgerð sé að ræða. Annars vegar vinna í að heilla en hins vegar að losna. Fornar klisjur um rökhugsun karla eru þó einkennilega fjarri þegar kemur að því en misstök leyfast ekki. Guð forði þeim frá því að segja sannleikann. Jeremías. Þeir sem síðan nenna ekki svona plotti er bara einfaldlega alveg sama, ypta bara öxlum með tóman svip, ...this is non of my buisness... og vappa burt í tilviljanakennda átt án þess einu sinni að taka eftir hvar þeir voru.

Ég sónaði út undir lofræðunni og fór að velta fyrir mér hvað það væri eiginlega sem hann ætlaði sér að lesa úr mér. Hvað sést um hver ég er utan á mér? Ef frá er talið týpuflokkun eftir fötum eða háralit sem er alveg eins til þess fallið að fela hver maður er, á hverju ætlar fólk að byggja innsæi sitt? Ég held að í flestum tilvikum sé upplifun fólks af manni gríðarfjarri því sem maður sjálfur myndi telja sig vera. Ályktanir fólks á persónuleika manns eða skoðnum örugglega oft út í bláinn. Auk þess getur vel verið að klisjur um að augun spegli einhvern sannleika sé bara rugl, enda virðist fólk engu síðra að ljúga með augunum einsog á annan hátt. Þá rann það auðvitað upp fyrir mér í einfaldleika sínum.

Maður les bara það sem maður vill lesa úr fólki. Eðlilega veldur það sífelldum vonbrigðum þegar fólk er ekki einsog þú ákvaðst út í bláinn að það væri. Að vera góður mannþekkjari er þá bara að vera góður í að álykta um fólk og tengja sögurnar. Útskýrir líka að maðurinn átti erfitt með að lesa mig, þar sem drukkinn hugur átti erfitt með að mynda sér skýra ályktun byggða á útlitinu.

Ætli hann hafi getað lesið úr augunum á mér að ég trúði honum tæplega. Það er dáldið múdbreiker að vera kaldhæðinn. Eflaust átti hann von á blíðlegri viðtökum á væmninni.

Þó ég hafi næstum sofið yfir mig í vinnuna í kvöld (jájá ég veit að ég mætti klukkan fimm) þá reyndist þetta vera ágætis dagur, það er nefnilega kúl að eyða þreytu, myglu og pirring í að vera á launum í staðinn fyrir að eyða frítíma í það.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Maður kemur alls ekki nógu oft hingað inn... alltaf jafn hressandi að lesa þig, eða vefdagbók þína öllu heldur því þú virðist ei auðlesin.

5:35 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

algjörlega... að vera góður mannþekkjari er asskoti erfitt! í mínu tilfelli til dæmis, þá lifi ég oftar en ekki í Pollýönnu-heimi þar sem allir eru góðir, hreinskilnir og heiðarlegir - þar til annað kemur í ljós. Og vá hvað ég er búnað brenna mig oft á því - langar helst bara til að setja á shut down í viku og kúpla mig út úr lífinu...

9:02 e.h.  
Blogger mandarina said...

Já fólk sér oftast annað fólk í gegnum sitt litaða gler. Ég held reyndar að það sé erfitt að ljúga með augunum. En ég held að maður horfi ekki alltaf á augun því maður er svo fastur í að hlusta á orðin. Ég held að það sé alltaf hægt að ljúga með orðum. Í dag er það auðveldara þar sem þú sendir sms,segir eitthvað í síma þar sem augun sjást ekki(oft hægt að lesa eitthvað út úr tón í röddinni) eða að hafa samskipti í gegnum tölvu. Öll þess tækni hjálpar til við að láta okkur hætta að þekkja viðbrögð hvors annars. Best held ég að hægt sé að lesa út úr fólki líkamstjáningu,augu og göngulag. Ég á allavega sjálf erfitt með að ljúga með líkamanum. En þeir sem hafa til dæmis lært ´sálfræði eða bara stúderað þetta, vita ýmsar aðferðir við að láta einhvern halda að það sé að hlusta. Þetta er til dæmis eitthvað sem er sérstaklega kennt í sálfræði! En ég persónulega reyni alltaf að lesa frekar í líkamstjáningu...

5:57 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com