Hosted by Putfile.com





Í þokkabót að ég sé bara hreinlega löt að blogga þá hefur netið legið niðri hjá okkur í nokkra daga. Setti bara samt sunndagsfærsluna inn svona mér og kannski einhverjum til skemmtunar. Er að læra sem þýðir að ég drekk kaffi heima í flíspeysu af sigrúnu með yfirstrikunarpenna í munninum og heftið og orðabókina, með súkkulaði nálægt og sígarettur innan seilingar og fer svo og spila á flautuna í smá stund og svo á netið. Fyrsta munnlega prófið í fyrramálið og ég hlakka ekki til en hlakka hræðilega til þegar það verður búið. Alveg komin tími á þetta, HALLÓ ég er búin að vera hérna í sjö mánuði..... Sendiði mig í munn úlfsins... In bocca al lupo.... og ég svara drepist hann... eða crepi. Stundum er ekki auðvelt að skilja hugmyndina bak við svona orðatiltæki. Svo sem ekki verra en að óska fólki fótbrots..... break a leg.... en veit ekki betur en við segjum bara á ástkæra ylhýra; Gangi þér vel. Engin orðaleikur þar.

Nebb, ekkert fyllerí í meira en viku, neibb ekkert hössl í gangi, neibb heldur engir peningar til að styðja fyrrnefna hugmynd. En góðu fréttirnar eru þær að þegar ég verð búin með næsta próf... 2,apríl verður lánið mitt komið og allt í góðum gír í svona rúma viku. Já, og ekki bara péningar koma inn á reikningin heldur líka einsog eitt stykki kærasti mættur á svæðið. Jah, leitt að svekkja ykkur en ekki minn kærasti heldur kærasti sambýliskonu minnar. Eins gott að ég haldi mig á mottunni sem viðhaldið í þá tíu daga..... he he he. Annars er þetta viðtekið hlutverk hjá mér og held að ég sé búin að fá minn skerf fyrir lífstíð að hitta kærasta viðhaldanna, spurning um að breyta til og fá mér kærasta og hitta viðhöldin hans eða hann hitti viðhöldin mín. Ekki hljómar það nú betra. Kannski er til maður í heiminum sem er hinn eini rétti og við getum öll vafrað um í rósrauði skýi af ástarbríma til eilífðar. En kannski er það bíómynd. Get þá allavega notið ástarbíma annarra og vona að þau vafri um götur bologna í fyrrnefndu skýi og ég get klipið þau í kinnarnar. Einnig erum við búnar að skipuleggja matarboð með norska parinu og þá get ég notið þess í ystu æsar að sjá ástina í lífinu og vera fullkomið eintak af fimmta hjólinu. Nema ég fari út og finni mér stefnumót fyrir þessar samverustundir og klípi hann í kinnarnar..... Kaldhæðnislega skemmtileg tilhugsun, en þó hlakka ég nú samt til enda frábært fólk allt saman þótt það sé ástfangið.... ;)

Við höfum átt frábær kvöld með norsku krökkunum enda eru þau á okkar bylgjulengd og ekkert nema gaman að sötra með þeim rauðvín og rommíkók og eiga tilveruspekilegar umræður. Einsog stundum vill þá duttu umræðurnar í afhverju ég væri einhleyp ung kona og vildi Gunnar hinn norski endilega setja sig inní stöðu mín í deitheiminum á ítalíu og hafði ýmis góð ráð í pokahorninu. Svona eftir á að hyggja finnst mér mjög kómískt að hann sé að ráðleggja mér í ástarmálum og greina framkomu mína í hinum ýmsu stöðum, allt meint á besta veg og hafði ég þó nokkuð gagn af þessum umræðum en þó fer maður að velta fyrir sér hvort það sé svona slæmt að vera ekki með í kærastakapphlaupinu. Stundum er langtíma parafólk mjög annt um að maður nái sér í félaga, sennilega vorkennir það einhleypingnum sem ekki hefur fundið týnda tvíburann sinn ég veit það ekki. Samfélagið gerir kannski bara ráð fyrir þessari paraþróun og ýtir undir spurningar af taginu; já en afhverju áttu ekki annan helming? Ekki að mér líði mjög illa af hinum ósýnilega samfélagsþrýstingi, það er bara hugleiðing. Er maður virkilega hálfur? Ef mér finnst ég ekki vera heill eða rúmlega þá hefur það meira að gera með vonbrigði á eigin frammistöðu með sjálfa mig en að ég tengi það við skort á karlmannshelming. Ég er ekki að segja að mér finnst það alger ónauðsyn enda nytsamir til ýmsa hluta og svo skemmtilegir líka, heldur meina ég að ég byggi ekki mitt eigin identity á því. Tel það stóran miskilning og galla að skilgreina sig útfrá hinum meinta öðrum helming.

Til að taka af allan vafa og ergelsi frá parafólki, þá er ég heldur ekki að halda því fram að fólk í sambandi sé alltaf svona, eða skorti eigin sjálfsmynd, ég er að segja að það geti gerst.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com