Svo er ekki hægt að segja annað en að sigrún bætir ekki stöðuna, drifum okkur út í dag til að ná í einn kaffibolla á uppáhaldskaffihúsinu fyrir fimmtímann, og enduðum auðvitað á að sitja þar til sjö. Það er stundum absúrd hvað hægt er að tala mikið við sömu manneskjuna, hún sefur í næsta rúmi, við þekkjum sama fólkið og djömmum þar af leiðandi alltaf saman og samt komumst við ekki í tíma því við þurftum svo mikið að "spjalla". Já það verður ekki af því skafið að ég mun minnast minna háskólaára með henni sem einnar langarar kaffihúsaferðar og taugaáfalli í kringum próf. Auðvitað læddist mórallinn aftan að mér þegar ég kom heim og því tók við maraþon lærdómur uppí rúmi undir sæng og með vettlinga því mér var svo kalt á puttunum við að halda á bókinni, fram til núna um eitt eftir miðnætti þegar ég hoppa um af gleði eftir að hafa náð að klára eina af hundrað bókunum mínum. Heilinn er hálfdofinn eftir að stúdera eitthvað sem myndi sennilega þýðast sem "Hin nýja gagnrýna fyrirbærafræði listanna..... og neo idealistico del spiritualismo sem ég hef ekki grænan guðmund um hvernig á að þýða. Leyni ekki óstjórnlegri gleði minni og tilhlökkun til að mæta í munnlega prófið og gera grein fyrir minni kenningu um þessi efni í samhengi við alheiminn.....
Ég er komin með dellu af nýrri hljómsveit, fékk lánaðan disk hjá danielu sem býr með mér og hljómsveitin heitir ; Giardino di Míró og diskurinn Punk, not diet. Mæli eindregið með því að fólk kynni sér þau ef hægt er að komast yfir eintak af þessum disk á fróni. Þar sem ég er enginn tónlistarséni þá hef ég ekki hugmynd um hvort þetta sé þekkt hljómsveit eða ekki. Ja það væri nú ekki loku fyrir það skotið að ég myndi bara búa til disk og senda á áhugasama. Ótrúlegt hvað ég er mikið næturdýr, eftir að hafa rölt um í þreytuvímu í allan dag þá er ég alveg eiturspræk núna um miðja nótt. Auðvitað á ég að fara í tíma í fyrramálið og get ekki samvisku minnar vegna sleppt honum. Fimm vikna kúrs og ég er búin að mæta í tvo af átta tímum. Hjálpi mér allir heilagir ef ég ætla að ná þessum prófum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home