Og fleiri ár
Fólk er gott, ég fékk tækifæri til að taka munnlega ítölsku prófið sem ég "gleymdi" fyrir jól og þar með náði þeim áfanga með ágætiseinkunn. Ég er mjög þakklát kennaranum að redda mér. Búin að hafa það ótrúlega gott um jólin einsog ég tjáði mig um hér seinast, og er ennþá glöð þótt rómantíkin sem ég tjáði mig um hafi skroppið saman fyrr en ég gerði ráð fyrir. Það er ekki alltaf fyrirséð hvort svona skot springi út eða lognist út af. Ég gæti sagt að það hefði nú haft áhrif að viðkomandi væri hvort eð er á leið úr landi og ástæðulaust að svekkja sig á því, ég gæti sagt að það væru bara ekki réttar aðstæður og umhverfið stjórnaði því alltaf hvernig svona þróaðist. Ef bara ekki ég hefði síðan hitt aðra manneskju sem náði svo ótrúlega til mín á einum degi að ég bara hef sjaldan vitað annað eins. Það er fyndið, fær mig allavega til að glotta útí annað með stelpunum yfir því hvað ég er kannski rugluð. En það er samt einsog uppljómun að finna eitthvað í sjálfum sér sem maður vissi ekki að væri svona sterkt. Mitt í allri kaldhæðninni og afneituninni dúkkaði alltí einu upp einhver nett væmin og vanrækt taug. Kannski er maður svona í lögum, þegar maður er einu sinni búin að vinna í því að opna sig meira fyrir því sem gerist þá allt í einu er maður berskjaldaður. Já það er sennilega satt að ef ég hefði snert af rökhugsun myndi ég gera mér grein fyrir að ef ég tala ensku við einhvern eru meira en helmings líkur að hann sé ekki búsettur hér á landi. Akkúrat núna er mér alveg sama, það er snilld að finna týnda hluti í sjálfum sér auk bjartsýni og draumóra. Þar að auki eru mánuðir minna eftir því sem maður er eldri og möguleikar eru alltaf enda er heimurinn minni en maður gerir ráð fyrir. Og er það ekki skemmtilegt að trúa því með bros á vör að það geti allt gerst og jafnvel gengið upp. Hvort sem það gerist eða ekki þá er það góð tilfinning. Gengur lífið hvort eð er ekki út á upplifanir? Svo það má alveg eins vera mikilvæg upplifun þótt hún vari stutt. Ef það væri hundrað prósent öryggi sem ég leitaði að þá sneri heimurinn sennilega öðruvísi fyrir mér en í bili er það bara ekki í fyrsta sæti.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home