Hosted by Putfile.com





Ég lagði upp með þá hugmynd í kollinum að tónlist og myndlist væru frekar aðgreind listform, en vissi þó um einn listamann sem þekktur var fyrir að byggja margt i kenningum sínum á tónlist. Ég þekkti til til Kandinsky, þó bara svona yfirborðslegar staðreyndir um feril hans og var alltaf mjög hrifin af myndum hans. Fann á mér að maðurinn sem stæði á bak við ljóðræna abstrakt væri eitthvað fyrir mig. Svo ég hellti mér út í að skrifa ritgerð um eins vítt hugtak og “tengsl tónlistar og myndlistar” er. Ætlaði mér þó að taka mið af Kandinsky í þessum pælingum. Víðáttu brjálæði náði tökum á mér á bókasafninu, ég rakst á endalausa titla sem fjölluðu um áhugaverða hluti í tengslum við efnið mitt. Og eftir því sem ég gróf dýpra rakst ég á meira og meira um Kandinsky. Kenningar hans og rannsóknir ná yfir mjög fjölbreytt efni, og hann hefur haft áhrif á ótrúlega marga. Hann kom aldeilis víða við á ferli sínum, þrátt fyrir að hafa ekki elt köllun sína til málunar fyrr en eftir þrítugt. Það sem heillar mig mest er hvað hann hafði mikla sannfæringu. Hann fór ótroðnar slóðir, en viðurkenndi fúslega að hann einsog allir listamenn taka það sem hefur verið unnið og þróa það áfram og gera það þannig að sínu eigin. Hann er fyrirmynd margra með skrifum sínum um myndlistina og afstöðu sína til heimsins. Þannig komst hugmynd hans bak við verkin til skila og varðveitist, og það er sú hugmynd sem átti eftir að hafa mest áhrif þrátt fyrir að verkin standi fyrir sínu. Mér þykir vænst um þá kenninginu að listin verði að tengja við eitthvað í sál okkar og að kraftur tónlistarinnar geti á sama hátt náð til okkar gegnum aðra miðla. Í nútímanum er miðillinn einungis aukaatriði. Aðalatriðið er að hafa skapandi hugsun og í raun að finna fyrir þessari “innri þörf” sem Kandinsky talar um. Listin á að hreyfa við okkur að mínu mati. Til þess verður að snúa listinni inn á við. Það er mín skoðun að andleg þróun sé það sem er mikilvægast í okkar lífi. Sjálfsþekking, og sjálfskönnun án forskriftar. Ég tel að leiðin til sjálfsþekkingar og um leið þekkingu á öðrum sé í gegnum sköpun. Við verðum að ná sambandi við innri kjarna okkar, gera okkur grein fyrir hvað liggur á bak við persónuleika okkar, til þess að geta skapað. Sömuleiðis hef ég trú á að ef við þekkjum okkar innri veröld vel, getum við betur skilið aðra og með því fáum við meira jafnvægi í heiminn. Hann talar um að efnishyggjan sé að kæfa listina, þá í byrjun seinustu aldar. Hann hafði áhyggjur af því að fólk hugsaði eingöngu um hið ytra, en ekki það sem skipti mestu máli, það sem er innra með okkur. Áhyggjur hans eiga kanski jafnvel við í nútimanum þegar alvarlegir brestir eru komnir í heimsmynd okkar, og mannskepnan er að tapa sér í lífsgæðakapphlaupi sem engan enda tekur. Fólk fer að hætta að trúa á umhverfið og vonandi að snúa sér til síns innri manns. Kanski veitir ekki af að hrista fram kenningar hans og reyna að læra eitthvað af þeim varanlega í þetta sinn. Alveg með ólíkindum hvað mannkynið er fljótt að gleyma, kenningar Nietzsche um endurkomuna miklu er alls ekki fjarri lagi því sagan fer í hringi. Ekkert er nýtt undir sólinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com