Hvað um það, þá var aðalmálið sem ég velti fyrir mér, hvort ég sé feministi. Ég var dálitla stund að velta því fyrir mér hvort ég ætti að svara nei eða já, og fannst í sannleika sagt einkennilegt að fólk virtist svona pottþétt á því. Málið var þó ekki að ég skammist mín fyrir að vera það, heldur einmitt að mér finnst ég ekki vera nógu mikill feministi til að geta státað mig af því. Halló, það er nú bara sjálfsagt að láta fara í taugarnar á sér að enn skuli vera fólk sem finnst að stelpur sem sofa hjá séu druslur en strákar sem gera slíkt hið sama séu folar. Já, það fer líka í taugarnar á mér að McDonalds skuli auglýsa " GEFUM MÖMMU FRÍ - FÖRUM Á MCDONALDS" Af hverju ekki að gefa pabba frí? Að minnsta kosti þeim báðum, hver segir að það sé alltaf mamman sem eldar. Það hlýtur líka hver maður að sjá að það er út í hött að menn skuli ennþá fá hærri laun en konur fyrir sömu vinnu, þegar við erum flest jafnvel menntuð og við jafnar aðstæður. Og menn sem finnst það ógnandi að konur skuli hafa skoðanir og tali upphátt þegar þeim finnst eitthvað í stað þess að halla undir flatt og brosa og vera dúllur eru hvort eð er algjörlega lausir við karakter og hver vill svoleiðis mann. Endalaus misskilningur að feministi sé karlahatari sem neitar að raka sig og sé jafnvel bara lesbísk. Mér er að minnsta kosti sérdeilis vel við karlmenn, og þótt mér sé illa við þá sem reyna vísvitandi að koma illa fram við mann og annan, þá gildir það alveg eins um konur sem gera það. Svo já kanski ætti ég að ganga til liðs við Bríet kynna mér þessi mál til hlýtar og verða alvöru feministi.
Ég varð líka hugsi við ræðu eins vinnufélaga míns, sá vildi meina að það væri með endemum sorglegt hvernig íslenskar stelpur höguðu sér. Hann væri orðin hundleiður á því að sjá hvernig þær létu endalaust plata sig með fögrum orðum fávita í rúmið og ætla svo að vera reiðar þegar þetta var bara bull. Og svo væri bara sama sagan all over again endalaust. Mér fanst þetta nú gera frámuna lítið úr okkur öllum, ég vil allavega ekki meina að ég láti "plata" mig svo auðveldlega í rúmið. Sömuleiðis finnst mér þetta gera lítið úr öllum strákum, að þeir séu allir að ljúga daginn út og daginn inn til að draga einhverjar stelpur í rúmið sem þeir kalla síðan druslur. Það er samt kanski ekki óvitlaust, að því leiti að maður byrjar á því að gera ráð fyrir að allir séu að ljúga. Kaldhæðnin er allsráðandi, sem varnarsystem því maður ætlar nú ekki að vera einhvert kjánaprik sem trúir öllum þeim fagurgala sem vellur uppúr viðkomandi. Nei það er kanski betra að gera ráð fyrir engu og verða þá ekki fyrir vonbrigðum eða eitthvað. Gallinn við þetta system er jú það að maður veit ekkert hvenær þessi einn af þrjátíu sem actually meinar það sem hann er að segja, birtist. Hver veit nema maður hafi blásið á það einsog hvert annað kusk.
Annar náungi hélt því statt og stöðugt fram að fólk í reykjavík væri bilað, eintómir vitleysingar og sérstaklega strákarnir. Annað en á akureyri þar sem hver maður vildi ást og fjölskyldu. Hef litla trú á því, en læt einnig fara í taugarnar á mér að þetta sé aldurinn þar sem einblínt er á þetta. Núna er tímabil sambanda og barneigna að hefjast, og tímabilinu þar sem allir veltu fyrir sér hver svaf hjá hverjum og hversu oft og yfirhöfuð hvort sofið var hjá að líða hjá. Hvað ef maður er bara ekki á því að festa rætur og rækta fjölskyldu og garð. Hvað ef forgangsröðunin er önnur, er ég þá gölluð? Sé fram á að vera boðið í paramatarboð af eintómri vorkunn þar sem allir spyrja varfærnislega hvernig karlamálin mín gangi, lausir við fordóma því ég má nú hlaupa af mér hornin en þó fer að örla á samræðum um hvað sé nú að hjá mér, hvers vegna ég haldi aldrei í mann. Hvort ég ætli nú ekki að fara að koma niður á jörðina og hætta þessari vitleysu og sjá að ljósið felst í fjölskyldunni. Úff, ég er kanski komin nokkur ár fram í tímann með léttum keim af dagbók birgittu jóns. Það má ekki misskilja mig, mér finnst líka frábært að sjá fólk brosa útí annað af vitneskjunni að það sé ýkt skotið og viðkomandi sé skotinn á móti og allt. Það er líka gaman að fylgast með þessum krökkum sem maður man eftir sem vitleysingjum í grunnskóla vera foreldrar og það er nú ekki loku fyrir það skotið að maður sjálfur verði með álímt bros af ástarbríma, en ég neita að láta hengja mig á að það sé einhver nauðsyn eða takmark til að elta á fullu. Það gerist þegar það gerist og allavega ekki ef fólk er á veiðum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home