Allt við sama heygarðshornið, mæti í tíma og gengur ágætlega. Nú er einn kúrsinn minn búinn og ein tvær vikur eftir af hinum. Skyndilega fór ég að stressa mig á því hvenær ÉG ætti að mæta í munnlegt próf af öllum þessum tvöhundruð nemendum. Ekki gefa þeir bara upp einn dag og einn tíma og maður komi á hverjum degi og vonist til að komast að? Jæja ég veit ekki einu sinni hver þessi eini dagur, því kerfið hérna virðist frekar miðað við að halda upplýsingum frá nemendum og varna því að þeir geti mætt í prófin. Það er kannski rökrétt því þá sparar það prófessorunum vinnu..... Spjallaði svo við stúlkuna sem býr með mér til að spyrja hvernig þetta væri venjulega og hún sagði mér að í annarri hvorri deildinni heimspeki eða listfræðinni væri “listi” uppá vegg þar sem ég ætti að skrifa nafnið mitt. Þá væri ég númer eitthvað og yrði kölluð inní prófið samkvæmt því. Takk fyrir kærlega þá hafði ég rétt fyrir mér að maður verður bara að mæta og dunda sér fyrir utan í von um að komast að...... þar sem ómögulegt er að segja hvað fólk er lengi í prófinu. Getur verið allt frá tuttugu mínútum uppí fjörtíu. Ekki get ég sagt að ég hlakki til.
Annars erum við búnar að grínast með það að nú sé kominn tími á að finna sér yngra crowd. Þessir strákahópur er alveg frábær og hafa skemmt okkur gríðarlega, en alltíeinu finn ég muninn á því að vera á okkar aldri í fyrsta sinn í Bologna og þeim sem hafa allnokkur ár framyfir okkur og skyndilega komnir með viðbjóð á að læra aldrei og eru búnir að búa hérna flestir í sex, sjö ár svo væntanlega er ekkert nýtt á sólinni né í borginni fyrir þeim. Nostalgía þeirra fyrir hinu áhyggjulausa lífi fyrir nokkrum árum var líka farið að verða þreytandi. Enda þreyttust þeir ekki á að segja okkur ruglsögur og hversu brjálaðislega skemmtilegt hafi verið með þeim þá en núna verði þeir að einbeita sér. Kannski er þetta óumflýjanlegur ókostur þess að verða eldri og finna fyrir pressunni af að taka ábyrgð á lífinu og gera það þó með minningu um þegar þeir gáfu skít í alvöruna og skemmtu sér fram í hið eilífa.
Það er samt ágætt að þeir eru ekki með partý hérna á hverju kvöldi því ég er greinilega gömul líka og þar að auki hræðilega fátæk og hefði bara ekki efni á því og myndi ekki hafa tíma til að hafa nægar áhyggjur af prófunum til að finna þegar færi að loga undir rassinum á mér og ég yrði að byrja að læra.
Langt því frá að ég sé búin að mynda mér heimspekilega kenningu um spurninguna um listina og sé tilbúin að flytja hana fyrir hundrað manns og kennarann. Hann ýtrekaði það við okkur að hann hefði engan áhuga á að heyra hvað hann hefði sagt eða einhverjar beinar upplýsingar úr bókunum sem við eigum að lesa. Þetta vissi hann allt sjálfur, heldur vildi hann sjá að við hefðum lesið allar þessar MJÖG svo ólíku kenningar, skilið þær nógu vel til að mynda okkur heilstæða eigin skoðun á þessu máli með rökum og málstuðningi. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart í heimspekikúrsi, hef alveg gert slíkt áður, en aldrei áður hef ég þurft að mynda mér kenningu úr bókum sem ég skil varla og koma þeim frá mér á máli sem ég hef ekki fullt vald á. Viðurkenni að finna fyrir kaldri pressu á mér og hvernig ég er næstum heft því ég hef ekki öll orðin mín með mér. Ég hef komist í gegnum allt mitt bóklega nám á þessum orðum og finnst ég vera hálfber án þeirra. Nú þarf ég að styðjast við barnslegan orðaforða til að útskýra og setja í samhengi hástemmd hugtök sem báðar hlunka orðabækurnar mínar neita að gera.
Held samt fast í drauminn um líf erasmus nemandans. Læra ítölsku á djamminu og mæta svo í próf og sjarmera kennarann og ná. Þrátt fyrir þrefaldan veskisstuld í upphafi dvalarinnar þá er ég samt fullviss um að ég sé heppin.
Aldrei á ævinni hef ég verið eins glöð að fá fisk í matinn og á föstudaginn. Fórum í matarboð til norska parsins og tóku þau þjóðerni okkar allra til huga og elduðu frábæran fisk og kartöfustöppu og ég veit ekki hvað og hvað. Með forrétt og eftirrétt og hvítvíni rauðvíni kaffi og romm í kók var þetta hin besta skemmtun. Mér finnst stundum frábær tilbreyting að tala ensku það er svo margfalt auðveldara, en yfirleitt tölum við samt ítölsku enda er gunnar að reyna að bæta sig í henni. Hann er að skrifa master ritgerð svo hann eyðir mestum sínum tíma með tölvunni sinni og hefur ekki mikil tækifæri til að læra tungumálið.
Fórum svo á via pratello sem er lítil gata með milljón litlum vínbörum og ölstofum, þar hittum við svo aðra norska og þjóðverja. Þegar það fólk var svo búið á því hittum við sambýlendur og fleiri og tókum rúnt á diskópöbbnum sodapops og einhverju stóru diskói fyrir utan miðbæinn. Enduðum að vanda á kúrekabúllunni þar sem ég reyndi að hrista rykið af línudanskunnáttunni sem þeir kenndu mér fyrir nokkru síðan. Jah, ég var betri í minningunni þar sem við júdith tókum brjálaða linudanstakta með þeim uppá borði. Á leiðinni heim kom ég svo við í búðinni fyrir neðan hjá mér og keypti mér brauð og salat og salami. Sami maður afgreiddi mig sem hafði selt okkur sigrúnu vínflöskur umþb. tólf tímum fyrr þegar við vorum á leiðinni í matarboðið. Honum fannst örugglega athyglisverður munur á mér frá því að vera nýuppstríluð á leiðinni út og klukkan sjö morguninn eftir þegar ég var að kaupa mér morgunmat á leiðinni heim.
Kuldinn er farinn að setjast að í borginni. Í dag snjóaði meira segja, litlum fíngerðum snjókornum og aldrei sást hvítt á jörðinni en samt. Alvöru snjókorn. Þegar þú blandar saman frosti og raka þá býr það til jöfnu þar sem lærdómsfólk og kyrrsetumenn eru undir báðum sængunum sínum í ullarsokkum og með sjal um axlirnar að rembast við að lesa með frosna fingur og kalt nef. Með reglulegu millibili fer lærdómsmaðurinn svo í eldhúsið og hitar sér te og hlýjar frosnu fingurna á bollanum. Þar að auki er sunnudagur og allt lokað og lærdómsmaðurinn var alltof þunnir í gær til að fara út nema til að sækja dvd myndir og þar af leiðandi er ekkert ætt til í húsinu. Sem þýðir að panta verður pizzu í þriðja skiptið í þessari viku. Lærdómsmaðurinn reynir síðan af öllu hjarta að einbeita sér að listasögu heimsins og getur sett sig vel í spor hinna fátæku listamanna sem sultu heilu hungri og rembdust við að finna innblástur og hlýja sér með hinum listræna anda.
Lærdómsmaðurinn hugsar með hlýju til mömmu sinnar sem myndi gefa honum kaffi og jafnvel súkkulaðimola og meira segja elda handa honum. Á gamla heimili lærdómsmannsins var líka vel upphitað svo við honum blasti aldrei kuldahrollur þótt leiðinda gæti líka gætt þegar frosið nefið er grafið í bókum. Lærdómsmaðurinn veit að eftir fáa mánuði mun hann hugsa með söknuði til kuldans þegar hitinn fer að baka hann og prófalestur í júlí í gufubaðshitanum í þessari borg mun íþyngja honum jafnvel meira. Ég ætti að hugga mig við að það er auðveldara að klæða sig í meiri föt en að sitja nakinn og svitastrokinn og óska sér úr skinninu. Já það er ýmist í ökkla eða eyra og sjaldan hægt að gera manni til geðs. Lærdómsmaðurinn er glaður að hann eigi lítinn tölva sem hann getur spjallað við svona rétt til að lyfta nefinu úr bók.
Þessi lærdómsmaður er kannski líka fulldramatískur sem hann verður að vera því hann fær ekki að vera til nema svona tvo daga í viku, hina dagana er hann undirokaður af skemmtanastjóranum sem heimtar útiveru og félagsskap. Lærdómsmaðurinn biður að heilsa öllum öðrum lærdómsfélögum um heima og geima. CON FORZA TUTTO SARÁ POSSIBILE!! Buono studio a tutti
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home