Hosted by Putfile.com





Mín braut odd af oflæti sínu og hringdi í neyðarlínuna í byrjun vikunnar. Sá fram á ill augu sambýlismanna ef símanum yrði lokað vegna mín, ja eða verra að lokað yrði fyrir gasið!! Kann ég móður minni neyðarhjálp mikla þökk fyrir snögg viðbrögð að bjarga dótturinni frá vanþóknun félaga sinna hérna úti. Samt mjög ópraktískt að senda reikninga í lok mánaðarins sem þá þegar voru komnir yfir gjalddaga. Núna er allt í sæmilega góðum málum, datt það snilldarráð í hug þar sem fáir taka kreddara hérna að fara í stóra matvöruverlsun og kaupa allt sem vantaði og sigga borgaði mér svo í peningum. Þannig náði ég að eiga fyrir lestarfarinu til Feneyja. Snillingum mér tókst að henda pin númerinu heima án þess að leggja það á minnið svo helv. Kortið er ónothæft til að taka út peninga.

Feneyjar eru æði. Ég átti ekki von á öðru en að falla fyrir þessari borg en gamli barþjónninn vinur okkar hafði fullkomlega rétt fyrir sér að það er engu líkt að sjá hana í eigin persónu. Að rölta um þessara þröngu götur í krókaleiðum og allstaðar sýki og allar stærðir af brúum yfir. Við hafnirnar eru bátastæði fyrir leigu”báta” TAXI, strætóbátar ganga líka ákveðnar leiðir, sáum meira segja löggubát með ljósum..... Það var einsog annar heimur að rölta þarna um og mæta fólki í búningum frá viktoríutímanum með allskonar grímur og inná milli vel drukkið fólk í allskins furðufötum. Á piazza San Marco sem er aðaltorgið var stórt svið þar sem var tónlist og fullt af fólki á röltinu, básar sem seldu heitt vín með kryddi sem er nokkuð svipað og jólaglögg og rann vel niður í kuldanum. Við vorum svo heppnar að í ár er einn kaldasti febrúar í langan tíma og miklu færri en venjulega á ferðinni, stoppuðum á litlum bar til að fá okkur að borða og fengum þar þá dýrustu og viðbjóðslegust pizzu sem ég hef smakkað á ítalíu. Ímyndið ykkur örbylgupizzu sem skellt er smá skinka ofaná og sett í hitara svo hún var næstum brennd ofaná en hrá undir. Ojjj, en hungraður maður étur allt. Eftir göngutúra í endalausa krókaleiðir fundum við piazza san margherita þar sem var allt að gerast. Ég þakka nú fyrir að Maurizio var með okkur því það er örugglega auðvelt að týnast í völundargöngum miðbæjarins. Við gerðum einmitt grín að því að þegar við spurðum til vegar nokkra stráka þá sögðu þeir okkur að fara til hægri og beint áfram þangað til við kæmum á torgið. Lengsti beini kaflinn var sennilega þrír metrar.

Á þessu torgi var múgur og margmenni, risastórt svið með hljómsveit og innámilli bjórtjöld. Eldgleypar og eldkastarar, bongótrommuspil og allt mögulegt. Maurizio dró upp rauðvínsflösku og upptakara og við drukkum af stút. Stemmingin minnti örlítið á miðbæjarstemminguna hérna í gamla daga þegar allt lokaði klukkan þrjú, munurinn var að heima sér maður fólk með vodkapela..... en hérna eru allir með rauðvíns eða hvítvínsflöskur í pokahorninu..... Þarna kenndi ýmissa grasa, maðurinn með ljáinn, djöflar og englar, strákar í konufötum og álfkonur, sveppir og allt sem manni dettur í hug. Mestan áhuga okkar vöktu fimm manns í hvítum samfestingum með spreyjaðan haus appelsínugulan og máluð eins í framan. Vorum búin að velta mikið fyrir okkur hvað þau væru; mauri hélt því fram að þau væru fangar en sigga var fullviss um að þau væru brjóst. Sú kenning vakti mikla lukku okkar, þó hann væri ekki sammála því þau hefðu ekki rétt form..... Á endanum fór sigga og spurði þau en þá reyndust þau vera eldspýtur.

Óheppni okkar var líka sú að það fór ein lest á miðnætti og engin önnur fyrr en klukkan sex um morguninn. Djammið var ekki nema til ca. Þrjú og þá tækju við nokkra klukkutíma bið í nýstandi kuldanum, svo ákváðum að taka miðnæturlestina. Misreiknuðum aðeins fjarlægðina svo þrátt fyrir mikla æfingu í að labba hratt á milli staða enduðum við með að fleygja frá okkur bjórunum og spretta á lestarstöðina. Eftir áfengisþamb og át og margra tíma útiveru var þolið ekki uppá sitt besta og nagandi hræðsla um að horfa á eftir lestinni hjálpaði ekki til. Þegar við hlupum másandi inná lestastöðina var búið að flauta til brottfarar og rétt náðum við að stökkva uppí endann á lestinni sem var svefnvagnar en þeir leyfðu okkur að komast í gegn. Þurftum að borga meira þar sem við höfðum ekki náð að kaupa miða en í ánægjuvímu að hafa náð lestinni var öllum sama um það.

Nú er spennan í hámarki fyrir grímupartýið okkar á laugardaginn og við á fullu að plana, erum búnar að finna búninga. Hlakka mest af öllu til að sjá mauri sem ætlar að vera múmía einsog í fyrra og vefja sig allan inní klósettpappír!! Fengum þá ánægju að sjá rauðhærða og friðinn í kvennmannsfötum þegar við komum heim frá feneyjum. Rauðhærði hefur alveg sérstaka ánægju af því að klæða sig upp og var hann mjög glæsilegur í pilsi af mér, gulllituðum sokkabuxum og skærbláum bol og bikiníbrjóstahaldaranum hennar siggu með svarta hárkollu. Það var samt ennþá meira absúrd að sjá hinn nýverið alvarlega marco í netasokkabuxum, þröngum bol og bláu minipilsi báðir með stórar blöðrur fyrir brjóst.

Það var víst mikil dilemma hjá honum í fyrra því þá var rauðhærði með stærri brjóst og allir klipu í hann en engin reyndi við marco á djamminu. Hann var mjög sár og ætlaði sko ekki að láta það koma fyrir aftur. Við sigga erum búnar að skemmta okkur frábærlega við að plana þetta, enda fátt eins skemmtilegt og þemapartý!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com