Hosted by Putfile.com





FÓLK UM LÖND OG STRÖND!! NEIBB þetta er ekki aprílgabb, þetta er pjúra hamingja.

Það hafðist!!! ég er búin með fyrsta munnlega prófið mitt á ítalíu loksins eftir of margra mánaða kvíðakast. Gekk vel miðað við aðstæður og er ég mjög sátt. Mætti á svæðið klukkan hálf tíu þar sem kennarinn las upp alla á blaðinu sem hafði hangið uppá vegg í mánuð. Þeir sem ekki svöruðu nafnakalli fengu ss. ekki að taka prófið þann dag. Ég var auðvitað á seinustu stundu því ég vissi ekki hvar prófið væri og var búin að ráfa um nokkra ganga og örvænta að ég fyndi ekki rétta staðinn, þegar ég storma að er hann akkúrat að lesa upp eftirnöfn með G, ég svitnaði og vonaði að hann væri ekki búin að lesa mig upp; heyri hann svo stama einhverju út í líkingu við Gulfiannorir ....auste og ég sem stóð aftast í þvögunni hoppaði um og veifaði höndum Sono qui!! Sono qui!! af gleði að ég skyldi hafa náð uppkallinu svo fattaði ég skyndilega að ég væri einsog skopparakringla með sólheimaglott og veifandi hendur innan um hina og snögglega endurheimti kúlið mitt. Held ég.

Ég var númer 13 á listanum og átti því ekki von á of mikilli bið, kæmist allavega að fyrir hádegi. Sitja með bók í hendinni og hnút í maganum í marga klukkutíma og bíða eftir að fá að tjá sig um hástemmd málefni er ekki skemmtilegt. eftir tvo tíma var ég farin að vafra í kringum stofuna ásamt öðrum og allir álíka hamingjusamir, einsog að bíða eftir að aftökusveitin kalli þig inn. Farin að örvænta um eitt leitið og þegar komið var að strák sem var númer 17. Halló!!! Hvað með mig!!? Það voru tveir í vinnu við yfirheyrslunar, prófessorinn sjálfur og aðstoðarkona hans og ég þurfti að bíða eftir prófessornum. Það var talað um mig sem æi já erasmusinn, látum hann bíða aðeins, ok erasmus kondu þá núna. Þannig að ég komst að rétt fyrir tvö eftir tæpra fimm tíma bið fyrir utan. Setti mig í stellingar og reyndi að stilla litla hjartað sem hoppaði um og næstum útum eyrun á mér. Koma svo sjarmi, koma svo gáfur, nú skal ég heilla manninn uppúr skónum með ummælum um gagnrýna fyrirbærafræði og skilgreiningu listanna og fleira á minni góðu ítölsku. Hann var nú samt góður við mig, og spjallaði fyrst um venjulega hluti. Þegar hann fór að spyrja mig útúr, tókst mér nokkuð vel að svara þótt kæmi dálítið stam hér og þar. En þótt ég gæti alveg spjallað smá þá er meira en að segja það að halda einhverjar einræður og stoppaði ég yfirleitt eftir nokkrar setningar. Svitnaði einu sinni all svakalega þegar hann krafðist skýringar á einhverjum hugtökum sem ég skyldi ekki einu sinni og kannaðist ekkert við að hafa lesið um, og á endanum lak uppúr mér að ég vissi það ekki. Hann byrsti sig bara og sagði ; víst veistu það þú fattar bara ekki hvað ég er að biðja um.... koma svo... og á endanum tókst mér að segja eitthvað sem var víst rétt. Jæja, góður kall með glott í augunum og brosviprur þrátt fyrir alvarleikann og hafði held ég lúmskt gaman að þessum litla rauðhærða útlending sem rembist af öllum lífs og sálar kröftum við eitthvað sem var augljóslega ekki í orðaforðanum. Eftir um hálftíma yfirheyrslu þegar ég var alveg bara búin, þá sagði hann jæja góða mín, ég gef þér einkunn sem í raun er hærri en þú átt skilið miðað við það sem þú sagðir mér en ég tel mig finna að þú hefðir getað sagt miklu meira ef þú hefðir orðin eða tjáðir þig á þínu máli, ég hef séð að þú hefur mætt í tíma og augljóslega lært nokkuð vel svo þú færði 28/30. Sem var satt því ég var búin að læra hellings helling fyrir þetta próf þótt ég kæmi ekki öllu útúr mér. Gat ekki hamið hamingjuna og lá við að ég faðmaði hann í klessu en staðreyndin að hann var hinu megin við borðið og fullt af fólki að horfa á stoppaði mig. Valhoppaði út og krakkarnir fyrir framan hálf hlógu að þessari augljósu gleði sem heltekið hafði útlendinginn sem áður var nokkuð niðurlútur. Í smá móment vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja upphátt eða bara gráta af gleði, langaði mest að stökkva á næsta mann og kreista hann og hoppa í hringi.

Allavega, versta prófinu í bili lokið og með hærri einkunn en ég hefði nokkurn tíma þorað að ímynda mér. Kom heim og þurfti náttla strax að byrja að læra fyrir næsta próf. Þar sem ég keypti aldrei bókina fyrir það þá er ég að lesa greinar á netinu á ensku um þessa málvisinda heimspekinga og reyna að fá einhverja hugmynd um hvað þetta snýst fyrir prófið í fyrramálið. Þar sem það er skriflegt þá hef ég ekkert svo miklar áhyggjur, allt annar pakki að mæta og rembast við blaðið heldur en að rembast upphátt framan í prófessorinn með áhorfendur.

Gleði gleði gleði og meiri gleði

Svo er líka fyrsti apríl í dag. Verð að finna einhvern til að plata. Passar engan vegin við ánægjuna að sitja ein heima meðan sólin skín og lesa um kenningar quine og davidson um merkingu tungumáls, sannleikann og reynslu. Vildi að ég gæti platað kennarann minn til að halda að ég vissi rosalega mikið um þetta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com