Hosted by Putfile.com





Freknusöfnunin er hafin. Öðrum orðum er komið sumar hérna hjá okkur, undanfarna daga hefur verið milli 22-28 stiga hiti og sól sem er yndisleg tilbreyting frá grámanum. Reyndar er það alveg feikinóg fyrir mig, get varla imyndað mér tíu til fimmtán stig í viðbót og raka svona þegar maður er í tímum í skólanum og að reyna að læra. Því miður er ekki einsog maður liggi á sundlaugarbakka eða á ströndinni...... inni í miðri steinsteyptri borg. Fórum á laugardaginn í stóra garðinn sem er dáldin spotta heiman frá okkur og lágum þar á teppi og reyndum að læra. Yndislegt, og versnaði ekki þegar Maurizio kom með bjór og við spiluðum og borðuðum ís. Ég vann alltaf í Asna, enda passar ágætlega við mig að vera heppin í spilum og óheppin í ástum. Góður dagur þótt ég yrði engu nær um menningarlegu mannfræðina sem ég er að fara í próf í á föstudaginn, samt er ég númer 184 á listanum yfir munnlega prófið svo ekki ólíklegt að ég fái helgina til að lesa betur en ekki hægt að treysta á það.

Um kvöldið elduðum við mexikanskan mat með Mirante, vini hans frá flórens og Danielu sem býr með okkur. Jah, við köllum þetta allavega mexikanskan mat en vinurinn var nú ekki á því enda búið í Mexico og leist ekkert á þetta hráefni. Loksins loksins fékk ég ítalskt gítarpartý því tvær vinkonur okkar komu líka og mættu með gítarinn og var sungið hástöfum. Því miður kunni hún ekki Bubba né Jet Black Joe en aftur á móti var hún hörkuklár í meðal annars Pink floyd, radiohead og smashing pumpins svo henni var allt fyrirgefið. Gauluðum jafnvel með ítölskum slögurum sem voru alls ekki fjarri bubba góða í lagasmíð og textainnihaldi.

Tókum smá sveiflu á kúbönskum stað og seinna á mexikönskum stað með frosinni margarítu og öllu tilheyrandi. Eftir allt rauðvínið og kokteilanna var ég ekki beint í þörf fyrir tequila en þar sem dómgreind var horfin með vitinu þá dettur manni ekki í hug að sleppa því að drekka. Þar að auki var skylda að kaupa drykk á mann sem inngangseyrir.... Skemmti mér þó vel þrátt fyrir að hafa flækt mig fastar í eitthvað rugl sem betra hefði verið að sleppa, alltaf betra að vera vitur eftirá. Þó kom ég mér líka út úr öðru rugli þetta sama kvöld svo kannski kem ég út á sléttu núna.

Mér er vel við; garða með grasi, trjám og fólki sem spilar á trommur, gítara og gerir allt annað en það ÞYRFTI að gera, torg fyrir framan kirkjur með sól og gítarspili og bjór, mat sem er búin til úr öðru en hveiti, gott fólk, próf sem eru yfirstaðin, djamm án hausverk andlegt eða líkamlegt, bækur á mínu eigin máli þótt ég hafi ekki lesið slíka í marga marga mánuði, fá pakka að heiman með mynd af kærum vini, bréfi og siríussúkkulaði, að geta auðveldað mér lífið og gera ekki stórmál þótt ég skilji ekki afhverju fólk segir eða gerir þetta eða hitt. Mér er illa við; fólk sem á kærustur/kærasta sem þó blandar mér inní án þess að ég viti hvaða hlutverk það er, menn sem nota pikkup línuna – Hæ stelpur finnst ykkur bumba falleg og flettir skirtunni uppá höku og þenur út bumbuna, próf sem nálgast óðfluga án þess að ég kunni námsefnið, bækur á hástemmdu máli á ítölsku sem krefst gríðarlegrar einbeitingar að lesa, augnablikið þar sem nál er stungið í gegnum nasavæng og pinna skellt í sárið, rispað augu eftir að sofa með linsur svo ég var í nokkra daga með eina linsu og þurfi því að loka einu auga til að sjá það sem var langt í burtu, föt sem skreppa saman í fataskápnum vegna raka...., að eiga ekki peninga til að gera það sem mig langar. Að ítalskir menn á djamminu haldi að vegna þess að maður er ljósari á húð eða hörund sé maður líka fáviti og þeir geti leyft sér allt. Kannski hefur það að gera með að ég skil almennilega hvað þeir segja, kannski því ég skil líka kaldhæðnina, kannski því ég skil líka að þeir myndu aldrei leyfa sér að haga sér svona gagnvart ítölskum stelpum, kannski því mér finnst að eftir þennan tíma í landi ætti eitthvað að breytast,

Öðrum orðum, gengur lífið upp og niður og heildarsumman er góð.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com