Hosted by Putfile.com





Páfinn er rokkstjarna!!!

Ég er ennþá að hlæja að lýsingum Gunnars hins norska á því þegar hann og hans betri helmingur Jóhanna urðu fyrir þeirri ótrúlegu lukku að hitta á ræðu páfans í Róm helgina fyrir páska. Þar tóku þau nokkra daga ekta túristaferð með viðkomu á öllum helstu stöðum sem maður þarf að sjá þar, einsog flestir var þetta lýjandi ferð þar sem skósólar slitnuðu og harðsperrur urðu til en andinn upplífgaðist við að upplifa þessa hápunkta rómverskar menningar og lista. Rétt eftir hádegið komu þau á risatorg eitt þar sem var búið að koma fyrir gígantískum hátölurum um allt og mannmúgur var þar sem klappaði og stappaði og fullt ofsafenginni gleði yfir hinni ný yfirstaðinni ræðu páfans sjálfs. Þau ætluðu sér að kíkja í turn einn sem var á kirkjunni frægu en mannmergðin var fyrir, jóhanna fer til löggu sem var á staðnum til að stilla múginn ef illa færi og spyr hvort páfinn muni tala aftur og fær þá vitneskju að hann muni stíga á stokk aftur á hverri stundu. Þau ákveða að hinkra við í nokkra stund, enda með endemum svalt fólk og ekki verra að kveikja sér í einni sígó og fá svo jafnvel blessun páfans sjálfs eftirá. Gunnar furðar sig á að fólk um allt veifar greinum af miklum móð og varpar þeirri spurningu til Jóhönnu hvort henni detti í hug hvað þetta eigi að þýða, nokkra stund velta þau þessu fyrir sér þangað til hún gerir sér skyndilega grein fyrir að auðvitað eru þetta pálmagreinar..... já alveg rétt það er pálmasunnudagur....páskar í grennd. Augljóslega ekki strangtrúað fólk þar á ferð en jæja blessun páfans er þó holl fyrir hvern sem er eða hvað? Í litlum glugga í fjarlægð sem er á stærð við sígarettupakka bærast rauð gluggatjöld og múgurinn tvíeflist, ungt fólk með trommur lemur taktinn og fólk klappar páfann upp af krafti. Klappstýrur dansa um og hrópa FORZA PAPÁ..... FORZA PAPÁ... eða áfram pápi áfram pápi sem vekur mikla kátínu hjá parinu. Loks titra gluggatjöldin meira og fram stígur hinn næstum níræði maður sem er holdgerving hins eina sanna guðs á jörðu og hefur upp raust sína. Aumingja maðurinn getur varla staðið hjálparlaust og þaðan af síður með kröftuga rödd og muldrið skilst engum. Hvæsir og másar blessunina yfir múginn þar sem allt ætlar um koll að keyra af æstu fólki sem finnur kannski andan koma yfir sig hver veit. Nema parið sem skildi ekkert og þótt svo hefði verið hefði það sennilega ekki breytt neinu, en hafði þó komist að þeirri augljósu niðurstöðu að pápi stendur hverri rokkstjörnu á sporði, hafði múginn gjörsamlega í höndum sér og gaf blessun sem rokkaði feitt. Á lokasprettinum hækkar hann róminn og endar í kröftugu hvæs hrafli sem bergmálaði á öllu torginu og hverfur bakvið rauðu tjöldin, múgurinn skilinn eftir agndofa og orðlaus og brýst út í trylltu lófataki og öskrum og trommuslætti þar sem ómar forza papá í gegnum kliðinn.

Hann gunnar er svo mikill snillings sögumaður að við höfum setið og veinað yfir honum á börum bæjarins og þetta er ein sú besta saga sem hann hefur skemmt okkur með. Nema hvað að ég missti andlitið þegar kom uppúr kafinu að hún er varla neitt skreytt þessi saga, þar sem ég er vön skreytistíl hans og kaldhæðni þá hvarflaði ekki að mér að klappstýrurnar og trommuleikurinn og hátalarakerfið rosalega hefði verið í raunveruleikanum, en jú. Það voru klappstýrur að góla Forza Papá.

Fórum að sjá La passion di cristo um daginn. Var búin að heyra þó nokkuð af lýsingum á ofbeldi og ofsafengni myndarinnar og þrátt fyrir að vera enginn aðdáandi pyntinga né mannvonsku og viti vel hvernig sagan endar ákvað ég að þetta væri mynd til að sjá. Hinn mikli spámaður og frelsari trúarinnar sem ég er fermd í og jafnframt ennþá skráð í söfnuð hjá átti það kannski inni hjá mér að ég sæi þetta. Átti einhvernvegin von á að fá kannski einhverja nýja punkta um líf jesú, sanna eða hollívúddaða, upprifjun á gildi trúarinnar og einfaldlega hvað var ástríða krists í myndrænu formi með tónlist undir. Svo fátt gat búið mig undir að sjá eins hrokafulla mynd sem sýndi tvo og hálfan tíma af barsmíðum, pyntingum og vel gerðum brellum þar sem jesú er eitt svöðusár og fossar blóð og dettur í slow motion aftur og aftur meðan blind fullir rómverjar eru svo fáránlega heimskir að það er skammarlegt og fatta ekki að hann er hvort eð er á leið í dauðann og ef þeir berja hann niður þá kemst hann ekki í það. Eyðileggur alveg að gera þá svona heimska en ekki bara vonda menn, eða jafnvel ekki vonda menn sem gerðu það sem þeir væri sagt. Það sem mér fannst svo enn verra er að augljóslega er gert ráð fyrir að fólk sem sjái þessa mynd viti allt um jesú, hans líf og dæmisögur því ekki er haft fyrir því að segja neitt frá því heldur bara vísað í frægustu atriðin eða setningar. Reyndar held ég að það séu bara sömu setningar og í söngleiknum nema á frummálinu sem er ein af fáum góðum punktum myndarinnar. Það var kannski vegna þess að leikararnir töluðu ekki eigið mál að talmál var takmarkað og takmarkað sannfærandi. Við sem fórum í kristinfræðitíma hérna í denn og erum þar að auki fermd könnumst svo sem við vísanirnar en er ekki eitthvað hrokafullt við að gera ráð fyrir að allir í heiminum geri það? Allavega fyndist mér jafnáhugavert að sjá myndum múhammeð, spámenn eða guði annarra trúarbragða sem ég veit lítið um upprunann og myndi þá ætlast til að sjá einhvern boðskap.

Mitt point er að það vantar boðskapinn í myndina, það sem ætti að skipta máli er það sem gerðist áður og það sem gerðist eftir á ekki eingöngu – hann náðist var pyntaður og dó og reis upp- Jæja, allavega ef ég hélt að ég yrði einhverju nær um þessa trú sem á að heita mín þá var það misskilningur. Nema kannski að það séu einhver þau hrokafyllstu trúarbrögð sem til eru. Að minnsta kosti umgjörðin og kirkjan án þess að fara út í að véfengja einhvern grundvallarboðskap fyrir allar mistúlkanir, oftúlkanir og rangtúlkanir.

Það er kannski til of mikils ætlast af honum Mel greyinu að boða trú til þeirra sem ekki þekkja hana eða endurvekja trú hjá þeim sem hafa stórfelldar efasemdir, en þegar þú velur þér efni af þessu tagi þá bara hefði ég krafist meira en brellna og vondra drykkfelldra manna. Þótt mér finnist tónlistin á köflum mjög kröftug og ógnvekjandi þá er ég sammála jóhönnu vinkonu sem var ergileg yfir því að þeir hefðu reynt að láta tónlistina impressa meira en myndin hefði gert annars. Tónlistin túlkar fyrir mann allar aðstæður, svo maður hefði alveg getað lokað augunum og ímyndað sér og fundið jafnmikið. Nú er ég nú samt þannig gerð að myndin hafði áhrif á mig og mér fanst þetta agalegt og vorkenndi mömmunni og stúlkunni óskaplega og var reið yfir óréttlætinu en þó náði það ekkert dýpra en það. Persónusköpunin var svo litil að maður tengir ekkert við það að þetta væri frelsari mannkyns sem bæri syndir okkar og væri að þjást fyrir okkur svo við mættum öðlast eilíft líf. Þetta var bara aumingjans maður með skegg sem smíðaði borð og átti ekki skilið að deyja ( hvað var með borðið? Hvenær var jesú þekktur fyrir að smíða fyrsta stóra borðið sem átti að sitja við í stól? Var hann líka uppfinningamaður?)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com