Hosted by Putfile.com





FLÓRENSDVÖL

Heim í heiðardalinn.

Gott að koma heim þótt ég muni sakna frísins og fjörsins í Flórens. Þetta var viðburðarríkt og sæmilega dýrt spaug, enda ennþá dýrara þar en í Bologna. Þá sérstaklega að borða og drekka sem var mest sem við gerðum með stuttu stoppi í búðum. Þegar maður sér indverska appelsínugula skó með perlusaumi í gulli þá verður maður að kaupa þá. Svo eru þeir svo praktískir.....

Get ekki annað en hlegið að seinustu færslu, enda oft fyndið hvað kemur uppúr manni þegar maður bloggar á nóttunni vel í glasi. Þvílík jákvæðni á móti neikvæðnni sem er dálítil mótsögn. Maður er svo mjúkur í sér að tala um hvað fólk sé gott í sér, tek það ekki til baka að krakkarnir í múm voru virkilega yndæl en fyndið að segja hvað þau séu óskaplega góð í sér.... dáldið ýkt staðhæfing eftir tónleika og spjall eina stutta kvöldstund. Ekki var minna dramatísk staðhæfing um þriðja hjólið, sérstaklega í ljósi þess að ég var ekkert ein með þeim og þau ekkert að skilja mig útundan, heldur mig bara farið að svima eftir ofstækisfulla rauðvíndrykkju og nennti ekki að reyna að tala við fólk lengra frá mér í hávaðanum. Pínkulítill staður með lifandi írskri tónlist með fiðlum, söng og trommuspili og flautum held ég líka, einn af þeim fáu sem geta haft opið lengur en 2 í flórens og auðvitað pakkaður af öllum þeim sem þekkja til hans. Þó sátt við mig, allavega nóg vit í hausnum til að ákveða að ég væri búin að fá nóg og fara heim áður en í óefni færi. Fékk alla fimm lyklana sem þarf til að komast inn í íbúðina hennar Júdithar, ekki lítið mál það að finna rétta lykla fyrir hverja hurð og járngrind og meira segja lyftuna líka. Allt hefst með þolinmæði..... eftir að hafa svo plantað mér við tölvuna og létt af mér mismjúkum hugleiðingum þá reyndar komu allir heim og fengum við smá gítarpartý og pasta og fleira með strákunum sem búa þarna og einhverjum vinum.

Veðrið tók sumarkipp þessa daga og tókum við góðan túristaleik í flórens með ísáti, kirkuskoði og út að borða. Fórum á Piazza Michaelangelo sem er á hæð fyrir ofan með stórkostlegu útsýni keypti meira segja póstkort einsog góðum túrista sæmir. Fyndið hvað það er ólíkur andi þar en hérna heima, ameríkanar og þjóðverjar á hverju horni og þjónarnir tala meira segja ensku. Jafnvel þótt ég þrjóskist við og tali bara ítölsku þá svara þeir manni á misgóðri ensku. Góðir dagar, og núna komnar heim í “gráan raunveruleikann” með prófi á miðvikudaginn og mánudaginn og lestri. Fríið búið.

Júdith stóð sig með endemum vel að sýna okkur allt frá búðum að torgum, og skemmtilegum stöðum, tónleikum allt frá múm, og vivaldi að rokki. Seinasta kvöldið fórum við svo á stað með ítölskum vinum hennar og rákumst þar af algjörri tilviljun á íslending. Honum brá hálfvegis að hitta okkur þrjár saman á þessum pínkulitla stað en okkur brá ennþá meira að heyra að hann var með SJÖ öðrum íslendingum sem búa í flórens eða þar í kring. Þau höfðu meira segja setið uppi næstum því hliðina á okkur. Ellefu íslendingar af þeim þrjátíu sem sátu þarna. Bilun. Fórum með nokkrum þeirra á annan stað og tókst því miður að móðga ítalana allsvakalega að svíkja lit og fara með hinum, við í okkar íslenska fíling að á djamminu fer maður bara þangað sem manni henntar en þeir tóku það sem mógðun að við færum með öðrum strákum. Mér fannst það mjög leitt enda engin ætlun að móðga einn eða neinn, en þar sem við hittum aldrei íslendinga fannst okkur virkilega gaman að spjalla við þá. Alltíeinu fólk með sama húmor og svipaða reynslu af dvöl hérna. Buðum þeim auðvitað að koma til okkar sem fyrst til að skoða Bologna.

Útilokað annað en að segja frá týpunum sem hún Júdith Amalía býr með, tveir af þeim sérstaklega sem skemmtu okkur. Þeir eru hressir og almennilegir, fyrsta reynsla okkar var af einum sem hristi sér próteinsjeik meðan við sötruðum bjór. Hann er í lyftingarprógrammi og borðar bara eggjahvítur í morgunmat. Hinn er alltaf ber að ofan, helst bara í stuttbuxum eða bara á brókunum. Mjög heimilisleg stemming, var að fá sér tattú yfir allt bakið þar sem stendur Hedonism eða Nautnarseggur (nautnahyggja)í lauslegri þýðingu. Þeir eru saman í ræktinni og heilsuprógrammi og ná vel saman, dunda sér oft saman á baðinu einn að raka sig og hinn að laga hárið. Sló öllu við þegar þeir komu heim frá að lyfta með próteindrykki en við með sígó og sjöundu rauðvínsflöskuna, tattúið að elda sér mat og hinn vindur sér að honum með nivea kremið og hefst handa við að smyrja á honum bakið. Ljúfur vinskapur þar. Tattúið mikið í diskótekunum og við áttum erfitt með að glotta ekki þegar hann mætti í hvítu þröngu buxunum, gelið á sínum stað, támjóir skór úr slönguskinni og níþröngum bol með reimum. Sást þó ekki í bringuhárin þar sem hann rakar þau af. Til að fullkomna þetta þá er hann að læra sjúkraþjálfun og vinnur með fötluðum eða misþroska börnum og er ótrúlega yndæll. Minnir mann á að dæma ekki af fötum þar sem ég veit að þessi múdering hefði haft vægast sagt fráhrindandi áhrif undir öðrum kringumstæðum. Vinur hennar Júdithar er mikill tónlistargúrú og spilar á allt sem hann finnur. Sáum hann á tónleikum þar sem hann var á útopnu með bongótrommur og svo tók hann gítarpartý í hvert skipti sem við sátum heima í eldhúsi. Vakti mikla lukku hjá okkur og strákunum heima sem sungu af hjartans list. Allir frá suðurítalíu og ávallt í skapi til að spjalla við hvern sem er, velti mikið fyrir mér þessum hæfileika að tala við alla og skiptast á ævisögum á nokkrum mínútum og vinda sér í vandamálin og ræða bara allt við alla. Hressandi hæfileiki. Jæja, verð að fara að opna bókina sem ég á að kunna fyrir miðvikudaginn eða hita kaffi handa sambýliskonu minni þar sem við munum sitja yfir bókunum fram á morgun.....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com