Hosted by Putfile.com





Skortur á skipulagðri óreiðu

Það virkar alltaf að lokum að segja að í hinu stóra samhengi heimsins þá skiptir þetta ekki svo miklu máli. Og meira að segja pollyönnuaðferðin er líka gulltryggð á góðum degi, ég meina það getur alltaf verið verra ekki satt? Ég held að undanfarna mánuði hafi ég uppgvötað nýja hæfileika í skipulagningu sem ég vissi ekki að ég hefði. Svona er þetta skrítið, maður vanmetur sig stundum. Til dæmis var ég líka ágæt í stærðfræði þegar ég tók mig til og lærði hana og ég er bara ágætis kokkur þó ég hafi lengi haldið því fram að ég gæti alls ekki eldað. Ég er nefnilega með sjúklega falda fullkomnunaráráttu þegar mig raunverulega langar að gera eitthvað og legg mig fram. Þá er líka erfitt að vera ánægð því maður getur nefnilega alltaf gert betur.

Kannski er þetta nýtilkomna skipulag að brjótast út í óþekktri vanafestu sem ég veit ekki hvort ég fíla nógu vel; mánudagskaffihús, matur hjá mömmu, vinna þennan dag, kaffihús á milli tíma með þessum, og að ég get ekki sofnað á þriðjudögum fyrr en undir morgun þegar eini tíminn minn snemma er á miðvikudögum. Skrítin þessi hegðun. Og vikurnar fljúga í stöðluðu munstri og ég hitti aldrei suma vini og kunningja mína því það passar aldrei á réttum tíma inní mitt prógramm og þeirra. Skrítið.

Einsog ég elska skemmtilegar tilviljanir og undarlegar uppákomur þá virðist ekkert slíkt gerast hjá mér þessa dagana. Þunnur þrettándi í þeim málefnum, og þessvegna skil ég ekkert í því að ég skuli ekki bara framkvæma sjálf þessar skrítnu uppákomur. Hverjir aðrir ætti að standa í því?

Í minningunni var alltaf eitthvað fyndið og skrítið að gerast í Bologna. Eflaust er minningin fallegri svona í fjarlægð en þar var samt daglega lífið fullt af skrítnum uppákomum og huggulegri stemmingu einsog að þekkja betlarann með nafni sem ég labbaði framhjá á hverjum degi og kvaddi hann með faðmlagi þegar við fórum frá Ítalíu, maður kom og rétti mér laufblað um haustið og sagði að ég væri eins litinn og það og hefði komið inní lífið á jafnóvæntan hátt. Laufblaðið fauk framan í hann þar sem hann var að hljóla og ég hefði rekist á hann á götunni. Kannski var maðurinn snarbilaður, en ég bara læt fara í taugarnar á mér þær íslensku menningarreglur að ef fólk talar við ókunnuga hljóti það að vera bilað, desperat eða betlarar. Af hverju má ekki segja það sem manni datt í hug, eða bara yfir höfuð tjá sig við aðra. Enn stærri spurning, fyrst ég kvarta yfir þessu af hverju fer ég ekki og gef mig á tal við fólk og reyni að skapa einstakar uppákomur sem ég hef svo gaman af? Er það yfir höfuð hægt á íslandi?

1 Comments:

Blogger Regnhlif said...

Skásta, líf þitt er skipulögð óreiða, eða óskipulögð reiða.

Þú veist, það er enginn sem segir að maður neyðist til að vera eins og þessi ímyndaða uppskrift af íslendingi er. Það er alveg fólk inn á milli sem skapar svona óvæntar uppákomur eins og þú ert að tala um. Mamma mín er svolítið svoleiðis til dæmis. Ég neita að trúa á hömlur samfélagsins, vissulega eru íslendingar "kaldari" en margir aðrir, á Spáni til dæmis kippir maður sér ekkert upp við það að ókunnugt fólk spjalli við mann um heima og geima og kalli mann "sætu" en hér er það óalgengara. Ef ykkur langar til þess að gera eitthvað óvænt, geriði það þá. Það er enginn sem bannar ykkur það nema þið sjálfar. Og ekki vera hræddar við að fólk haldi að þið séuð skrítnar ef þið gerið það, kannski heldur fólk það, kannski ekki.

10:15 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com