Það eina sem er betra en fríhelgi, er óvænt fríhelgi. Öllum að óvörum mætti samstarfsmaður úr fríi og tók helgina sem ég hefði annars þurft að vinna. Jei. Og meira segja fékk ég að fara fyrr úr vinnunni í fyrsta skipti. Og það var sól rétt meðan ég losnaði. Allt gerir heimurinn stundum til að gleðja mann. Einstaka sinnum tekur hann sig til og reynir að sanna fyrir manni að hann sé nú frekar góður staður að vera til í. Flæktist með í útitónleika sem stóðu aldeilis fyrir sínu. Þrátt fyrir misskilning hjá mér að það væri sól og sumar á íslandi og klædd eftir því þegar vindurinn og rokið reif í strauaða hárið og úðinn bjó til lopaáferð þá var graslykt í lofti og hópsöngur með stál og hnífur það næsta sem ég hef komist útihátið undanfarið. Þegar rokið æstist upp tóku paparnir stemminguna í sínar hendur og við stelpuskjáturnar létum ekki standa á hringdönsum og hamagangi við poppineyejoe og fleiri góða slagara. Heimurinn sýndi svo aftur að ljósamaðurinn kann sitt fag þegar skyndilega lægði og afbrygði að sólarlagi í skýjunum tók til þegar hjálmar hófu sitt spil.
Kuldabolinn var þó að bera okkur ofliði svo við flúðum inn á næsta kaffihús sem því miður var litli andarunginn og tosuðum við þar meðalaldurinn niður um marga tugi yfir einum svissmokka sem var afgreiddur með mestu fýlu sem sögur fara af. Verandi manneskja sem hefur eytt mestum sínum tíma á vinnumarkaði í að brosa og afgreiða fólk með allavega sæmilegum áhuga og jafnvel ganga svo langt að vera almennileg þá fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér þegar hreitt er í mann leiðindum og maður þarf að borga fyrir það peninga. Fuss og svei.
Plan á morgun. Gleðin magnaðist þegar Guddinn tók sig til og heldur afmælis/grill veislu í stað útilegunnar. Innipúkinn í mér er glaður þótt lopapeysan verði ekki dregin fram. Þótt erfitt verði að toppa kindina dollý sem hann fékk í afmælisgjöf um árið þá mun allt verða gert til að finna hressandi glaðning. Ár og öld síðan stefnt hefur verið til alvöru fiesta í þessum hóp og ber ég miklar væntingar til stemmingar með grill og bjór. Sólin er hér með boðið líka.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home