leiðindaleiðindi
Ólýsanleg leiðindi. Ég held án gríns að mér hafi aldrei á ævinni leiðst eins mikið og í vinnunni í dag. Stappandi niður fótum, hangandi á grillstaflabrettinu, spila rommí eða lesa birtu/sirkus/leiðbeiningabæklinga í miðri heimilistækjadeild og kvarta. Það er algjörlega mannskemmandi að láta mann gera ekki baun í svona marga klukkutíma inni í raftækjaverslun meðan glittir í sól og hita og mbl.is monntar sig yfir einum heitasta degi ársins. Einu hræðurnar sem sáust voru brúnar og í sandölum, hamingjusamlega þarna af fúsum og frjálsum vilja og heimtuðu greinargóða skýrslu um eitt og annað sem manni fanst þá bara frekja af þeirra frjálsu hálfu. Nú voru leiðindin komin á slíkt stig að ég varð svo glöð þegar einn maður sýndi mikinn áhuga og virtist bera traust til þess sem úrílla ómálaða og reytta starfsstúlkan hafði að segja að ég tvíefldist öll og tókst að lokum að selja honum sýningareintak af sænskri gæðaþvottavél. Hún var sko í uppáhaldi hjá mér og ég búin að dæma margan kúnnan eftir viðbrögðum við henni. Svei mér þá ef ég mun ekki sakna Asko.
Sjáiði á hvaða stig ég er komin? Ég þarf nauðsynlega að fara að gera eitthvað annað. Raftækin fá nafn og persónuleika og fleiri eiginleika og ég dæmi fólk eftir hvað þeim finnst um vini mína. Treysti ekki hverjum sem er fyrir þeim. Samt er siðferðið komið í rockbottom þegar ég er farin að leyfa fólki að kaupa lélegri kaffivélina án þess að mótmæla. Já ég hef tekið mestu ástfóstri við þvottavélar og kaffivélar. Sálgreini það hver sem vill.
1 Comments:
snyrtileg og syfjuð. eða bara búinn að vera dugleg við að selja svoleiðis?
Skrifa ummæli
<< Home