Hosted by Putfile.com





allt eða ekkert?

Einn dag lenti ég á Heatrow um kvöld. Dröslaðist alein með það sem átti að vera aleigan mín næsta árið eða jafnvel lengur út í dimmt og heitt kvöld og fann leigubíl. Maður á miðjum aldri sem var sveittur en velmeinandi kallaði mig luve í öðru hverju orði. Yes luve, but ofcorse luve, where´ryou´eddin luve. Einsog æfður í að vera breskur fyrir túrista. Sætu strákarnir á hostelinu af pakistönskum uppruna brostu út að eyrum, komu dótinu mínu upp og lofuðu að vekja mig eldsnemma. Það er ótrúlega skýr minning um þetta kvöld, naut þess að liggja fáklædd á stóra rúminu með sígarettu og horfa á svarta himininn útum gluggann og breskt sjónvarp í gangi. Ég var með fiðring í maganum yfir því hversu frjáls, eða týnd ég væri í heiminum, prógrammið sem myndi hefjast daginn eftir í rútum og flugvélum á leið til ítalíu og þar vissi ég hvorki hvar ég ætti að búa né hvernig skólabatteríið yrði sem byrjaði ekki fyrr en eftir meira en mánuð. Enginn vissi hvar ég var á þessari stundu. Það hvarflaði að mér að ég gæti hætt við, tekið hafurtaskið mitt daginn eftir, kvatt sætu lobbístrákana og tekið lest inn í london. Fundið mér húsnæði, vinnu og nýtt líf. Jafnvel gæti ég bara hreinlega horfið án þess að neinn tæki eftir því alveg strax.

Það eru svo mörg og merkilega þessi augnablik sem maður getur hugsað til og veit að þau höfðu áhrif á hvar maður endaði, eða hver maður verður eða hvernig lífið þróast á þeirri stundu. Fæst þessara augnablika innihalda ákvarðanir í líkingu við að hverfa en væri maður öðruvísi ef maður hefði ekki ákveðna reynslu? Hvað ef maður hefði tekið aðra ákvörðun á einhverjum tíma, hefði allt manns líf breyst? Og sömuleiðis ef maður gerir ekki neitt, þá er það alveg jafn mikið val. Fyrst það er á manns eigin ábyrgð hvar maður endar, þá er stundum svekkjandi að maður skuli ekki vita betur hversvegna eitt en ekki annað var valið? Er það kostur eða galli að það sé tilviljunum háð.

Hvað er meira glamúrus en diskókeila á laugardagskvöldi? Já hemmi minn, það er black light og allt. Vinnan planaði ferð og þar sem ég er enginn félagsskítur þá mættum við galvaskar og sötruðum öl og felldum keilur. Ekki mikið stundað athæfi í mínum bókum svo ég óttaðist skítatap. Andi nýfundinna hugmynda endurspeglaðist í stigunum mínum þar sem það var allt eða ekkert í boði. Get sagt mér til hróss vera sú eina sem fékk þrjár fellur. Fékk oftast til skiptis fullkomnar fellur eða beint útaf. Í síðari leiknum kárnaði gamanið samt þar sem ég undirstrikaði núverandi stöðu mína í hugmyndafræðinni með því að hitta meira bara ekkert en eitthvað. Þó hrósaði ég happi að vera ekki nærri því í síðasta sæti.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com