myrkrið
Þegar maður vaknar í myrkri og næst þegar maður fer út úr húsi er aftur komið myrkur þá er einsog tíminn sé styttri eða ósýnilegri en venjulega. Þegar klukkan er fjögur og orðið næstum dimmt og maður labbar heim innan um jólaljósin á skólavörðustígnum og finnst einsog það sé að minnsta kosti kvöldmatartími þá verður maður hálf ringlaður.
Í öðrum ringluðum fréttum þá skil ég ekki að það sé desember á morgun. Ég skil ekki hvert haustið fór. Ég er í rússíbana niðurlúppu í barnasköpun eftir upplifunina að standa fyrir framan hið gríðarlega skjalasafn listasafn íslands og átta mig á umfangi þess efnis sem ég ætlaði snarlega að kreista út frumrannsóknir á. Það er eitthvað ósegjanlega týpískt við það að ég ætli á næsta mánuði að læra heimildaröflun, komast yfir allt þetta efni og segja eitthvað vitrænt og djúpt um það fyrir ritgerðina, í staðinn fyrir að hafa skrifað bara um eitthvað einfalt sem ég þekki (fyrir utan að inní þennan mánuð blandast próf, aðrar ritgerðir og síðan þetta með jólin, áramótin, gesti og jólaboð). En ég reyni að horfa á björtu hliðarnar að það hljóti að gagnast mér á endanum einhverstaðar í lífinu að fara ekki auðveldu leiðina að neinu.
Góða hliðin er að ég hef lúmskt gaman af því að hafa mikið að gera og leysa vandamál. Og í öllum þessum hlaða er ógrynni af annarra manna spennandi hugmyndum sem krydda manns eigins og í staðinn fyrir að taka upp plássið þeirra þá springa hinar sem voru fyrir og þær sem bætast við út.
Ég gerði mér skyndilega grein fyrir dálitlu um daginn. Það er misskilingur sem ég hélt fram um daginn að maður ætti upplifanir einn. Stundum á maður þær ekki nema að hluta til einn. Þegar það er búið að deila einhverju þá er það ekki lengur einkaeign. Meira segja þegar kemur að eigin hugsunum eða hugmyndum. Eins fáránlega einfalt og það er, þá var það mér samt tilefni til að staldra aðeins og endurraða í hausnum á mér.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home