Hosted by Putfile.com





ballett og borðhald

Ástarþríhyrningur. Ást, græðgi, svik, afbrýðisemi, dauði, brothel, maddömmur, sjóferðir, dónamenn og fagrir riddalegir menn, glysgyrni og flótti og sjúkdómar og morð. Ballettinn Manon í konunglega leikhúsinu við kongens nytorv var ekkert smá dramatískur og um leið fyndinn og skemmtilegur. Átti eiginlega ekki von á balletthúmor en þetta var alveg frábær sýning í barrokkstíluðum salnum með gulli og skreytingum á bæði mögulegum og ómögulegum stöðum. Duttum inn á miða á hálfvirði á fyrstu sölum fyrir miðju sem var algjör snilld.

Það skemmti mér mjög hvað aðaldansarinn var með rosalega mikinn kúlurass og í þunnum sokkabuxum svo hann leit eiginlega meira út einsog anatomíumódel en manneskja. Yrði eitthvað undarlegt að sjá þetta í návígi, held að í stað fyrir að þetta sé kynþokkafullt þá færi ég meira að hugsa með mér.... já þarna tengist vöðvinn niður að hnjáliðnum og svona á ofurlærvöðvi í stöðugri notkun við að stökkva að líta út. En glæsilegir voru þeir því er ekki að neita. Annar var lítill og fíngerður (eða virkaði þannig hliðina á anatomíumódelinu með buns of steal) en svo lipur að hann stökk um allt og sveiflaði fótunum einsog það væri engin mótstaða í aðdráttaraflinu.

Þetta var mögnuð upplifun að sjá sveiflurnar og stökkin og allt svo smooth og fljótandi að enginn svitnaði einu sinni. Ljósasjó og búningarnir og reykurinn og hópdansar. Algjör glamúr. Stakk aðeins í stúf reyndar senan þar sem vondi gaurinn var að vera vondur við prima ballerínuna nema bara að senan var fullgrafísk og ef maður myndi taka að sér að tala yfir ballettinn til skýringar hefði hann sagt "komdu þarna gæran þín og sjúgðann á mér" sem okkur fannst óvenjulega dónó og mikið ekki í takt við blúndurnar og pífurnar. Líka sprenghlæjilegt atriði af brotheli þar sem fingerði gaurinn hafði fengið sér aðeins of marga neðaníðí og dansaði samt sveiflur einsog hann væri á eyrunum, næstum að missa stúlkuna sem hann sveiflaði um allt og náði ekki að grípa hana eða datt um sjálfan sig eða gleymdi sér í að strjúka löppina á henni í staðinn fyrir að snúa henni.

Fyrir ballettinn ákváðum við að undirbúa okkur í sama glæsistílnum og fórum á veitingarstað við sama torg og konunglega leikhúsið sem er voða fansí og flottur og góður matur. Pantað borð hálf sjö og fanst það nú nægur tími til að slafra í sig súpu eða svo. Reyndist vera enn fínni og dýrari á kvöldmatseðli en andrúmsloftið huggulegt, þjónarnir sætir og við á hælaskóm svo við ákáðum bara að slá til og pantaði túnfisksteik og hvítvín og Björk einhvern fínan fisk dagsins. Nema hvað, ekki löngu síðar kemur einn af öllum karlþjónunum svífandi með forréttartúnfisk með sinnepsblabla og lauk og salati. Við horfum tómar á hver aðra og síðan hann og bendum svo á þá staðreynd að við ætluðum alls ekkert að fá forrétt. Hann sveiflast eitthvað en kemur svo og segir að einhver smá misskilningur hafi orðið og við eigum bara að njóta réttarins þangað til okkar kemur. Ehh hálf óþægileg tilfinning fanst mér benda til að ég hlyti að hafa pantað eitthvað vitlaust enda fljótt að kenna dönskunni um allt sem miður fer.

Þjónninn okkar vildi hins vegar ekkert við það kannast og kom bara og fyllti glösin þrefalt meira en áður af hvítvíni og baðst afsökunar á mistökunum. Maður á aldrei að segja nei við ókeypis mat frekar en ókeypis skóm svo við bara nutum. Við lækkuðum meðalaldurinn þarna inni líka um slatta og vorum örugglega litríkari en flest spariklædda fólkið svo kannski vildu þeir bara halda okkur lengur.

Verra var að nú leið og beið og klukkan tifaði þótt þjónarnir brostu blítt og mætingin í ballettinn var orðin frekar krjúsjal þegar björk hnippir í einn og spyr hvort það sé nokkuð langt í matinn, sko bara því við eigum að mæta í leikhús eftir tuttugu mínútur. Maturinn mætir, við rífum í okkur á mettíma með réttum namminamm og svona og vinsötri (ég hafði sko aldrei smakkað ALVÖRU túnfisk ódollaðann en nota bene fékk ég léttsteiktann túnfisk í forrétt og grillaðan túnfisk í aðallrétt... ætli það hafi verið til eftirmatur með túnfisk? Já og ekki gleyma brauð með túnfisk í morgunmat, og kryddsíld og laxinn sem við elduðum og úthafsþorskurinn sem ég pantaði um daginn og sushi, fer að breytast í fisk bráðum. Hugsa sér allar ómega 3 og 6 sýrurnar, jeremías þetta er svo hollt) Ég er enn að narta í matinn og gríp bita milli reiknings, kvittunnar og fara í kápuna. Enduðum á að borga ekki einu sinni fullt verð fyrir upphaflega matinn og hvítvínið fyrir utan allt sem við fengum í "sárabætur" fyrir það eitt að fá gefins mat. Kvaddar með brosi og kveðju frá öllum þjónunum og klikklökkuðum á skokkinu yfir torgið upp stigann í sætið á fyrstu svölunum og þá dimmdu ljósin. Fullkomin tímasetning fyrir buns of steal sjóið.

Annars komst ég líka að því að ef ég væri málverk þá vildi ég sennilega vera barrokk málverk. Ekki ítölsk drama og væmnis eða trúarbarrokk né fullkomlega yfirveguð og nákvæm hollenskt barrokk heldur svona rembrant málverk. Djúp og dimm á litinn, oft í brúnsvörtum eða brúnrauðum litum og hann var voða hrifinn af miklum konströstum og snillingur í áferðum einsog á klæðum, hári og gulli. Skrautlegar en alvarlegar og ótrúlega falleg birta sem er einsog það lýsi kröftugt út úr myndinni. Hef nú prófað að klína lit á blað sjálf og get ekki skilið hvernig hann býr til ljós úr málningunni.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hrein og tær snilld. Ég sé köbenlífið mitt skyndilega í nýju, áhugaverðara og skemmtilegra ljósi. Þarftu nokkuð að yfirgefa sófann okkar?

10:06 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

ég er græn af öfund...
-The Green-Eyed Monster

12:21 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com