Hosted by Putfile.com





maður vaknar á endanum af draumum

Það er búið. Gnístan tanna en þó ekki verra en svo að njóta fjölskyldufaðma og kunna vel við hvað fólk hefur almennt áhuga á því að ég sé komin heim. Það er öðruvísi lykt í herberginu mínu en mig minnti. Ekki vond lykt, en næstum svona einsog heima hjá öðrum sem maður finnur að er ekki eigin heimalykt. Strax á morgun verður eflaust farið að anga af ástu sem ég vona að sé jákvætt..

Mig langaði að kyssa gelluna í tékkinninu í dag þegar ég sá að hún gaf mér gluggasæti þó ég væri mætt ansi seint miðað við kastrup standarda eftir fíaskóið með reiða reykjandi leigubílstjórann sem tók ekki íslensk kort af neinu tagi og hundskammaði mig en elti mig inní flugstöðina í leit að hraðbanka. Að sjálfsögðu flæktist ég inn í að versla smá þegar fluginu seinkaði um tæpa tvo tíma, nauðsynjarhluti einsog langvarandi varalit og mjólkurfreyðikönnu. Hvert fer heilinn á svona stundum. Og meiköplistann fyrir gerði sambó sem lofaði að sækja mig á flugvöllinn gegn innkaupum, bjór, fílakarmellum og kremi. Hef mér til málsbóta að ég var illa sofin eftir mánudagskareokekvöld á samsbar og örugglega með stækkaða lifur eða fitulifur eftir mánuðinn. (Erfitt að búa með læknanemum sem vita of mikið hvað gerist inní líkamanum hehe)

Svekkjandi að upplifa komu sumartímans ( tapaður klukkutími sem ég fékk þó til baka með vöxtum við heimkomuna) Það sem meira er að upplifa vott af vori þar sem frostið var farið í köben og komin snertur af hitalykt í loftið eftir þokusenuna. Fékk reyndar ekkert þrumuveður en hins vegar rigndi eldi og brennistein meðan við töltum að næturlagi yfir á sams, ég úti með tvenn hælastígvél í fanginu sem íslendingurinn vildi eeendilega gefa mér áður en ég færi heim. Já það var ekki leiðinlegt að taka við þeim. Eftir þó nokkra umhugsun sá ég að fyrst hann vildi enn gefa mér þessa skó eftir mánuðinn sem hann hefði alveg getað gleymt því, því ekki minnti ég hann á það, þá gæti ég ekki fyrir hönd allra stúlkna sem líkar ógurlega vel við skó, verið þekkt fyrir að neita slíku boði.

Hápunktur kareokestemmingarinnar þegar við fórum frá nettri feimni yfir í að slást um míkrafóninn og taka hvert hallærislega lagið á fætur öðru. Söng meðal annars robbie williams af óþægilega mikilli innlifun og björk brilleraði í im just a gigalo en hallur tók ironic með alanis af stakri snilld. Áttum alveg gólfið fyrir utan nokkrar sænskar smápíur sem voru meira fyrir 50 cent of fleira af sama tagi.

Ást mín á innritunargellunni minnkaði fyrst þegar ég sá að eyrað sem ég ætlaði að sofa á mínu græna var eiginlega þétt upp við hreyfilinn. Taldi ég svefn ólíklegan. Mínútu síðar koma nágrannar mínir í sætum og reyndust vera um það bil fimmtán stórir og stæðilegir karlar af austurevrópskum uppruna í góðu stuði og spjölluðu hástöfum á slavnesku máli og slógu hvern annan í öxlina. Fannst ég skyndilega ansi lítil og þakkaði mínum sæla fyrir mp3 spilarann. Greyin sváfu hins vegar einsog lítil þæg börn flesta leiðina einsog ég sem hef aldrei vitað styttri flugferð. (Enda græddi ég þarna tvo tíma, leggja af stað kl þrjú og lenda síðan fyrir fjögur...)

Alnánd raunveruleikans verður ekki flúin lengur. Bókuð í helgarvinnu, moggapróf, hittinga og víst djamm líka. Var farin að plana næsta flótta meðan hreyfillinn ruggaði mér í svefn. Pabbi er greinilega búin að sætta sig við hvernig ég er og að kyrrðin sé fjarlæg mínum beinum og benti mér á að sækja um auglýst starf í malaví og sri lanka.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com