Hosted by Putfile.com





uppsveifla

Dagurinn var uppfullur af litlum hugljómunum. Ekki neinir stórir sannleikar heldur einmitt svo litlir að það var yndislegt. Nýr kaffidrykkur. Andinn við bakka soerne í sól. Breytt afstaða til námsins. Ég held að heimurinn framkallist í annarri upplausn þegar maður er ástfanginn. Pixlunum fjölgar milljónfalt.

Meðan ég lá á bakinu í stórum garði með myntuískaffi mér við hlið, þar sem allstaðar var fólk, að lesa, hlaupa, hjóla, leika við börnin sín eða bara sitja og horfa var ég að lesa námsbók sem fékk mig til að vera meira sammála eigin vali á námi þegar fram og tilbaka var vísað í hina ýmsu höfunda sem ég sjálf valdi að troða inní BAritgerðina mína því mér fannst þeir áhugaverðir. Í þessu tilviki Lacan og pshycoanalysis kenningar notaðar til að móta hugmyndir um hvernig við sköpum okkur sjálfsmynd.

Mér var heitt í framan því sólin skein svo sterkt á hægri hliðina og framkallaði freknur svo ég lagði frá mér bókina og horfði lengi uppí skærgræn lauf á stóra trénu fyrir ofan mig þar sem sólin blikkaði mig í gegnum skrúðið sem var á stöðugri hreyfingu í hlýjum vindi. Ég hló að litlum fugli með rautt nef sem bankaði í trjágreinina með fyndnu hljóði og fattaði að ég hef aldrei séð spætu í akjsón. Og það var einsog að sjá heiminn frá öðru sjónarhorni því sama hversu mikið ég beygði höfuðið aftur þá sá ég bara trjáskrúð allan sjóndeildarhringinn af sama trénu sem þakti himinn fyrir ofan mig. Við það rifjaðist upp álíka tilfinning við að láta sig fljóta í sjónum fyrir utan pescara, sólin skín á andlitið og setja eyrun ofan í vatnið svo öll hljóð dempast og breytast og reyna svo að horfa eins langt aftur fyrir sig og hægt er þangað til upp og niður er horfið og óljóst hvort er sjór og hvort er himinn. Þá er bara augnablik þar sem maður er engin sérstakur annar en maður sjálfur og það er gott. Það er svona augnablik þar sem maður veit hvað það er sem skiptir mann máli í heiminum.

Ég virðist líka hafa innri radar á fólk. Til dæmis þá inn rölti ég um daginn lengri leið úr strætó til að koma við í sjoppu og kaupa hvítvín fyrir matarboð. Þegar ég var að fara yfir götu er skyndilega kallað á mig með nafni, af mjög hissa röddu. Þegar ég lít upp er það vinkona mín sem lengi hefur búið hérna úti en ég hafði ekki enn komið í verk að finna nýja símanúmerið hjá. Hún var furðu lostin að mæta mér á götu í útjaðri österbro, en ennþá meira hissa þegar kom í ljós að ég flutti í næstu götu við hana, en ég vissi ekki betur en að hún byggi úti á amager. Svo nú erum við nágrannar. Já tilviljanirnar.

Ég skil samt ekki hvernig er hægt að vera úti heilan dag í buxum en með berar hendur og bringu og koma heim með mýbit ofarlega á öðru lærinu. Sneaky little bastards. Þær hafa þann mannlega eiginleika að vilja það sem þeim er ekki ætlað að fá.

2 Comments:

Blogger Regnhlif said...

Skemmtileg færsla:)

9:55 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ Ástfangna
viltu senda mér tölvupóst á hrefnabj@mmedia.is ég þarf að fá smá upplýsingar hjá þér. mér finnst gaman að fylgjast með þér á blogginu ! kveðja frænka

6:49 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com