blautt eða blautara
Rigningin og rokið reif í alla lausa og úfna lokka og slengdi treflinum mínum sem er farinn að líkjast slöngu meira en sjali eftir ofnotkun síðstu daga, beint í andlitið á mér. Ég var regnhlífarlaus en það hefði hvort eð er ekkert hjálpað í rokinu. Þó hún sé fallega marglit er hún ekki sérlega voldug enda kaus ég litla stærð fram yfir krafta. Það hímdu allir samtaka á nörreport og hugsuðu að þó þetta væri ógurlega blautt og dökkt kvöld þá er maður allavega neðanjarðar þar og þegar allir líta út einsog hundar af sundi dregnir og ilma einsog blaut ull, blautur öskubakki eða blautt gerviefni þá verður bara til samkennd.
Lestarkortið mitt er að renna út sem þýðir að ég sé á leið aftur til eins af heimilunum mínum. Ég stefni jafnvel á að reyna að pakka niður stærstum hluta af þessu heimili, meðan ég skrepp síðan heim, til að ég geti flutt í einum grænum í janúar þegar ég kem heim, á nýtt heimili. En það hangir allt á bláþræði frá milanoelskanda sem ætlar að ákveða sig um helgina en svaraði meilinu mínu að hann héldi að við værum gott fólk og við værum ofarlega á listanum hans. Svona beisiklí. Ég held örugglega að Milano hafi komist áfram í championsleague um daginn svo vonandi er hann í góðu skapi...
Jólagjafir? Annarsvegar langar mig á brjálað og tryllt shoppingspree í magasín eða illum eða öðrum rándýrum stöðum eða perla platta eða mála myndir. Hvorugt hef ég þó tíma fyrir né fjárráð frekar en næsti maður. Mér finnst einsog ég sé á leið í yndislega afslöppun heima, en þó vofir grátt ský yfir höfðinu á mér sem reynir sitt besta að senda eldingar öðru hverju og minna á raunverulega lærdómsstöðu og biturleika janúarprófa. En frestunarsýkin hefur bara gaman af þessu og sendir djöfullegt glott áleiðis og hvískrar útum annað munnvikið, blessuð þetta reddast einsog venjulega.
Jólalegar blautbúningskveðjur. Metroexpress segir að það munir rigna að minnsta kosti næstu fimm daga. Hvar fást almennilegar regnkápur? (almennilegar = fínar, ekki svartir stuttir jakkar heldur alvöru regnkápur)
1 Comments:
Mér heyrist að það sem sama sagan í Danmörku og hér í Noregi. Aldrei á ævinni hef ég séð annað eins magn af vatni streyma frá himnum ofan og síðust 2 vikur. Skv blöðunum er vatnið svo mikið að rotturnar hafa flúið holræsin..... Það er sko ekkert jólalegt í 7-15 stiga hita og rigningu dauðans
Skrifa ummæli
<< Home