heim i heidardalinn
Föstudagurinn ekki síðri. Heimkoma og heilmikil gleði í lítilli íbúð við norðubrún. Brakaði ekstra mikið í nýsópuðu gólfinu af ánægju og ískrandi hlátur allt frá því að leigubíllinn renndi í hlaðið og fram til kvölds þegar stefnt var í súsjí og síðar gegnum mótmælandi mannþvögu yfir í öl á salonen með góðu fólki. Prakkaragleðin klappaði saman lófunum og svaraði símanum í hávaða úti á svölum til að lygin um að ég væri bara á leið í skólann og mætti ekki vera að því að vera heima að taka á móti gesti (sem ekki er lengur gestur), væri trúverðug. Lygin var fyrirgefin, enda með endemum hvít. Falleg hugsun vinnur alltaf og sérstaklega studd af óvæntum uppákomum. Með öllum tilheyrandi velkomspropsum. Löns og rómantík barasta. Hann kann bæði að elda spænska eggjaköku og tekst nokkuð örugglega að feta í fótspor gerðar og síðar bjarkar&sigrúnar í að vera vel að sér í sjónvarpsefni ásamt öðru svo ég er í góðum höndum. Good times.
Ég byrjaði að skrifa um óeirðirnar um helgina, en hálf gafst upp. Þetta er flókið, þetta er bilun, þetta er ódanskt en samt gæti þetta kannski hvergi gerst nema hérna. Súrrealískt að horfa á bíla í ljósum logum og hryðjuverka og sérsveitir bruna um allar götur og hlaupa um í hópum við að verjast unglingum á götuhornum sem maður er vanur að ganga um. Þetta er örugglega blásið upp að einhverju leiti í fréttunum og hefur í raun ekki truflað líf mitt mikið meira en að strætó gangi ekki, hópar af fólki hér og þar og þyrlur fljúga yfir húsinu okkar eða vörubílar með möl úr húsinu keyra götuna okkar varnir af sérsveitarbílum með sírenur. Eftir daginn er húsið ekki til lengur, og fólk grét á götum úti í dag yfir yfirgangi stjórnarinnar. Hvað gerist svo veit enginn, en allir hafa skoðun á því. Ég veit ekki hvort ég á að vera miður mín yfir bilun ungdómsins eða að einhverju leiti stolt að fólk sé tilbúið að berjast fyrir því sem það trúir á, þó ég sé ekki sammála múrsteinakasti og eldsprengjum á götum úti. Mér finnst þetta þó hljóti að vera verðugri málstaður en klámþingið. Ætli íslendingar nenni að berjast fyrir öðru en klámstoppi og kókútsölum?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home