Hosted by Putfile.com





þversagnir

Ég varð alveg bálreið í strætó í dag þegar ég fletti einu af fríkeypis blöðunum og sá flennistóra rauða auglýsingu fyrir þjóðernissinnað félag sem finnst stjórnmálamenn ekki sinna þörfum danmerkur og vilja að borgarar taki til sinna ráða í að mótmæla innflytjendum sem séu klárlega rót alls hins illa í dönsku samfélagi. Smáborgaraháttur og röng afstaða sem er í ótrúlegri mótsögn við þá staðreynd að fyrir stuttu var það tilkynnt með stolti í fréttum að danmörk hefði síðustu tíu ár verið mjög ofarlega á listum um "alþjóðlegustu löndin". Þetta er sitthvor hópurinn sem talar. Annar vill halda í blekkingarnostalgíu þess að til sé einstakur danskháttur með fríkadellum og smörrebrod sem sé í bráðri hættu við framboð á falafel og fólki með hreim. Hinn vill sjá samfélag í tenglsum við umheiminn þar sem fjölbreytileiki bætir, hressir og kætir.

Mér sortnar fyrir augum við tilhugsunina um að fara út í umræður um íslenskt viðhorf, en þar eru sömu hópar. Þröngsýni lifir allstaðar. Hræðsla við blöndun og missi á ektaháttum liggur djúpt. Einsog íslendingar séu ekki upphaflega þjófahyski frá noregi og danir afkomendur hollenskra kartöflubænda. Mér finnst þetta fyndið. Þó á sama tíma grátbroslegt.

Það var því sérlega ergjandi í dag að koma heim og horfa á nafnið á dyrabjöllunni minni. Einhverra hluta vegna var límmiðinn með nöfnunum okkar og þeirra í næstu íbúð pillað af svo nú stendur bara nafn leigusalans. P. Kjærsgaard. Rétt einsog óvinsælasta stjórnmálakona Danmerkur. Hún er í mörgum tilvikum margfalt grófari en frjálslyndaflokksofstopalýðurinn. Þeir vildu þó gjarnan leyfa frændum okkar dönum að vera á fagra fróni. Bara ekki teppalýð og múhameðsáhangendur.

Þetta er þó stórmerkileg árátta Íslendinga að dásama frændur okkar dani... þar sem þeir eru frændur okkar og félagar, en við erum hinsvegar ekkert skyld þeim héðan frá séð. Þeir virðast stundum varla vissir um að ísland teljist til norðurlandanna. En við höfum þó mikinn sjarma sem undarlegt lið, flippað, eyðslusamt og ligeglad sem ekki fjarri því jákvæður kostur á danskan mælikvarða. Ég rak mig á það síðast núna þegar ég á fjalla um tvær stórar samsýningar sem haldnar voru árið 2000 og 2005 undir formerkjum nýrrar norrænnar listar í Malmö og Kaupmannahöfn. Í greinum er dásamaður hinn skapandi andi listamanna á norðurlöndunum og lífssýn og meira segja leitt inn með vísun í Björk. "I thought I could organize freedom - How scandinavian of me"

Mér þótti því ákaflega áhugavert að á lista yfir þá listamenn sem tóku þátt var engan Íslending að finna. Nema auðvitað Ólaf Elíasson sem enginn dani myndi samþykkja að væri íslenskur þó hann beri íslenskt nafn. Ég á eftir að komast að því hvort engum var boðið að taka þátt eða hvort það orsakast af styrkjaleysi eða þvíumlíku, en þetta hlýtur að vera merkilegur þverskurður af norrænni list í dag þar sem íslendingar eru hvergi með.

En það er sól og ég á afgang af graskerssúpunni og jafnvel gulrótarspeltbollu með í hádegismat. Og ég græddi heila viku í gær þegar það rann upp fyrir mér að páskarnir eru ekki næstu helgi, né er ég að fara í íslandsheimsókn eftir viku heldur tvær. Mætti halda að ég sé eitthvað viðutan, ég sem stunda meira segja kalendernotkun reglulega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com