heima
Nú er ég komin heim eftir að hafa skroppið heim. Það er alltaf ósköp notalegt að koma heim. Á báða staðina sko. Heima var hektískt frí og velheppnað, náði að hitta stórfjölskylduna, elda mat fyrir hundrað í hópi öflugra frænka og foreldra, skemmta mér yfir að báðir bræður mínir eru orðnir miklu stærri en ég en mér til mikillar ánægju verður litla systir ennþá minni en ég. Eyða slatta af stundum með fuglabjarginu mínu, bæði í bjór á rósenberg við mikið blaður, kaffihús og meira segja yfir kalkún og látum í fermingarveislunni miklu á sunnudaginn. Ég er líka orðin gömul því mér finnst bara gaman að sjá í andlitið á skyldmönnum, líka sem ég man ekki alveg hvað heita og kyssi og faðma alla sem ég kemst í og gleðst mikið yfir forvitni um mig. Náði að hitta langömmuna sem var spræk að vanda og sækja frægu ryksuguna í pössun upp í mosó.
1800 watta siemens ryksugu skellt í kassa og tékkuð inn á leið til köben. Kastrup er kunnulegur staður. Ég var næstum jafn glöð að ryksuga langtímaryk uppúr djúpum og breiðum glufum á gamla parketinu hérna einsog að sjá að sólin skín einsog henni væri borgað fyrir það og blómin sprungu út yfir helgina. Ljósbleik kirsuberjablóm, fjólubláar fjólur á víð og dreif og sólgul blóm að springa út á öðrum trjám. Þó hitabylgjan hafi minnkað um leið og ég kom þá er gott að vita að það fer bara hlýnandi...
Bæði sjoppukarlinn og pítsuahmet brostu sýnu blíðasta þegar við röltum framhjá og ég hoppaði næstum hæð mína af gleði þegar listakonan sem ég ætla skrifa um á heimasíðu þar sem hún er sjálf búin að taka saman öll skrif um eigin verk. Netbókasöfn þar sem maður getur bara fengið lánaðar bækur með að dánlóda eru líka stórkostleg uppfinning. Ef einhverjum detta í hug skrif um texta sem list eða hótel í feneyjum endilega hafa samband.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home