Nýjir tímar nýr staður
Ég gat ekki sofið. Það útskýrir af hverju ég þurfti nauðsynlega að prófa mig áfram með nýja síðu með sama nafni nema bara hjá wordpress. Hún er hér.
laugardagur til þvotta
Ég óska þeim sem keypti fallega fallega græna hjólið mitt á uppboði lögreglunnar til hamingju. Ég sakna þess mikið hérna og vona allavega að nýji eigandinn fari vel með það. Nema sá sem stal því fyrir utan eskihlíðina sé ennþá brunandi á því um göturnar. Vonandi dettur hann á nefið.
Það var ekki hægt að hafa áhyggjur meðan ég sat á bekknum að læra úti í garðportinu að lesa í stuttbuxum og í skínandi sól að bíða eftir þvottinum í vaskekællerenn. Blómafræ fjúka útum allt svo það er hálfósýnilegir hnoðrar fljótandi í loftinu, trjálaufin hvískra í vindinum og háværi fuglinn var í stuði og kvakaði. Hann er ólíkt skemmtilegri svona á daginn. Svo er alltaf óneitanlega skaplyftandi að ná að þvo fatahrúgur og lenda ekki í nærbuxnaskorti og sjá eldhúsið skínandi bjart. Og þó hnoðrarnir sem fjúka í loftinu úr trjánum séu sjarmerandi eru rykhnoðrar inni það ekki. Af hverju er ekki sumarfatastyrkur innifalinn í námslánum námsmanna erlendis? Ég lendi alltaf í vandræðum með að eiga bara milliföt og endalaust af vetrarkápum og fínum treflum en engin sumarpils og boli sem hæfa heitu veðri. (hóst hóst lúxusvandamál...) squeek
Innblástur ætti að vera seldur í neytendavænum umbúðum.
Tíminn ætti að vera afstillanlegur, með hraðspólun og pásutökkum. Fuglinn sem vakti mig í dag klukkan fimm hljómaði einsog remixaður talandi páfagaukur á sýru. Þekkir einhver hvaða tegund hljómar þannig? Kosningar smosningar. Hvar er slagorðið "lottó fyrir alla?" Það er ekki hollt að sitja of lengi fyrir framan tölvuskjá og velta fyrir sér áhyggjum tímunum saman. Úrvalið af áhyggjum er fjölbreytt en allt jafn þreytandi. Einn bjórsopi úti gæti bjargað geðheilsunni. Síðan ætla ég að þvo. geitungagleði i kotinu
Það var undarleg tilfinning að standa í biðröðinni hjá icelandexpress innan um aðra íslendinga sem flestir klæddust stuttum buxum og sandölum með rjóðar kinnar eða brúnnku eftir yndislega fríviku í kóngsins köben í sólinni. Ég hef rétt fengið þrjár freknur í viðbót við að labba milli staða eða sitja með lappirnar upp í glugga og bók í fanginu í þann stutta tíma sem sólin skín inn til mín á morgnanna. En ég er róleg þar sem ég veit að sólin er ekki alveg eins hverful hér og mun bara fara vaxandi og freknusöfnunin líka. Það er bara eitthvað svo vonlaust að fara út í garð í sólbað með fartölvu... En maður fær víst ekki útborguð námslán fyrir að safna lit. Merkilegt nokk.
Ég og geitungurinn í glasinu úti á svölum erum tvö saman eftir í kotinu meðan hinn sambýlingurinn skreppur yfir í íslensk próf. Geitungurinn og glasið verða bara kjurr þarna úti meðan ég vona að hann sé ekki búin að kalla á liðstyrk sem muni plaga mig næstu vikur. Kannski lærum við bara að lifa saman, það myndi allavega auðvelda mér lífið í sumar... Mér skilst að maður verði bara að face your fears en ég er betri í að hlaupa þegar kemur að vespuskröttum. ( Nota bene sá ég brot úr þætti á animal planet þar sem vespa veiðir kónguló í eyðimörk, og þær eru sko víst ILLAR því þær þefa uppi kóngulærnar og grafa þær upp úr sandinum áður en þær stinga þær og éta!) Innan um heimspekibækur og listfræðibækur í hrúgum, reikningaflóð, hlátur og uppvask er önnin á góðri leið með að klárast. Spýta í lófana næstu tvo mánuði og sanna að ég er víst sæmilega klár á fleiri tungumálum en íslensku. Fullkomin pása frá þessu öllu saman var Trópíkal afmælispartý síðustu helgi með martinique-frönsku afmælisbarni og veitingum, stórkostlegum skreytingum og búningum og miklu stuði. Fullt af góðu fólki samankomið til að fagna þrem tugum og vináttu. Maður lifir lengi á svona veislum. Hér eru myndir frá Björk úr partýinu. Allar skreytingar í stúdíóinu voru hreint út sagt frábærar en hrósið verður að fara til innflutta pálmatrésins frá íslandi sem faðir bjarkar kom með. Það vantar sko ekki hugmyndaflugið á þeim bænum. Né þemagleðina... ;) |