Hosted by Putfile.com





Freknusöfnunin er hafin. Öðrum orðum er komið sumar hérna hjá okkur, undanfarna daga hefur verið milli 22-28 stiga hiti og sól sem er yndisleg tilbreyting frá grámanum. Reyndar er það alveg feikinóg fyrir mig, get varla imyndað mér tíu til fimmtán stig í viðbót og raka svona þegar maður er í tímum í skólanum og að reyna að læra. Því miður er ekki einsog maður liggi á sundlaugarbakka eða á ströndinni...... inni í miðri steinsteyptri borg. Fórum á laugardaginn í stóra garðinn sem er dáldin spotta heiman frá okkur og lágum þar á teppi og reyndum að læra. Yndislegt, og versnaði ekki þegar Maurizio kom með bjór og við spiluðum og borðuðum ís. Ég vann alltaf í Asna, enda passar ágætlega við mig að vera heppin í spilum og óheppin í ástum. Góður dagur þótt ég yrði engu nær um menningarlegu mannfræðina sem ég er að fara í próf í á föstudaginn, samt er ég númer 184 á listanum yfir munnlega prófið svo ekki ólíklegt að ég fái helgina til að lesa betur en ekki hægt að treysta á það.

Um kvöldið elduðum við mexikanskan mat með Mirante, vini hans frá flórens og Danielu sem býr með okkur. Jah, við köllum þetta allavega mexikanskan mat en vinurinn var nú ekki á því enda búið í Mexico og leist ekkert á þetta hráefni. Loksins loksins fékk ég ítalskt gítarpartý því tvær vinkonur okkar komu líka og mættu með gítarinn og var sungið hástöfum. Því miður kunni hún ekki Bubba né Jet Black Joe en aftur á móti var hún hörkuklár í meðal annars Pink floyd, radiohead og smashing pumpins svo henni var allt fyrirgefið. Gauluðum jafnvel með ítölskum slögurum sem voru alls ekki fjarri bubba góða í lagasmíð og textainnihaldi.

Tókum smá sveiflu á kúbönskum stað og seinna á mexikönskum stað með frosinni margarítu og öllu tilheyrandi. Eftir allt rauðvínið og kokteilanna var ég ekki beint í þörf fyrir tequila en þar sem dómgreind var horfin með vitinu þá dettur manni ekki í hug að sleppa því að drekka. Þar að auki var skylda að kaupa drykk á mann sem inngangseyrir.... Skemmti mér þó vel þrátt fyrir að hafa flækt mig fastar í eitthvað rugl sem betra hefði verið að sleppa, alltaf betra að vera vitur eftirá. Þó kom ég mér líka út úr öðru rugli þetta sama kvöld svo kannski kem ég út á sléttu núna.

Mér er vel við; garða með grasi, trjám og fólki sem spilar á trommur, gítara og gerir allt annað en það ÞYRFTI að gera, torg fyrir framan kirkjur með sól og gítarspili og bjór, mat sem er búin til úr öðru en hveiti, gott fólk, próf sem eru yfirstaðin, djamm án hausverk andlegt eða líkamlegt, bækur á mínu eigin máli þótt ég hafi ekki lesið slíka í marga marga mánuði, fá pakka að heiman með mynd af kærum vini, bréfi og siríussúkkulaði, að geta auðveldað mér lífið og gera ekki stórmál þótt ég skilji ekki afhverju fólk segir eða gerir þetta eða hitt. Mér er illa við; fólk sem á kærustur/kærasta sem þó blandar mér inní án þess að ég viti hvaða hlutverk það er, menn sem nota pikkup línuna – Hæ stelpur finnst ykkur bumba falleg og flettir skirtunni uppá höku og þenur út bumbuna, próf sem nálgast óðfluga án þess að ég kunni námsefnið, bækur á hástemmdu máli á ítölsku sem krefst gríðarlegrar einbeitingar að lesa, augnablikið þar sem nál er stungið í gegnum nasavæng og pinna skellt í sárið, rispað augu eftir að sofa með linsur svo ég var í nokkra daga með eina linsu og þurfi því að loka einu auga til að sjá það sem var langt í burtu, föt sem skreppa saman í fataskápnum vegna raka...., að eiga ekki peninga til að gera það sem mig langar. Að ítalskir menn á djamminu haldi að vegna þess að maður er ljósari á húð eða hörund sé maður líka fáviti og þeir geti leyft sér allt. Kannski hefur það að gera með að ég skil almennilega hvað þeir segja, kannski því ég skil líka kaldhæðnina, kannski því ég skil líka að þeir myndu aldrei leyfa sér að haga sér svona gagnvart ítölskum stelpum, kannski því mér finnst að eftir þennan tíma í landi ætti eitthvað að breytast,

Öðrum orðum, gengur lífið upp og niður og heildarsumman er góð.




Páfinn er rokkstjarna!!!

Ég er ennþá að hlæja að lýsingum Gunnars hins norska á því þegar hann og hans betri helmingur Jóhanna urðu fyrir þeirri ótrúlegu lukku að hitta á ræðu páfans í Róm helgina fyrir páska. Þar tóku þau nokkra daga ekta túristaferð með viðkomu á öllum helstu stöðum sem maður þarf að sjá þar, einsog flestir var þetta lýjandi ferð þar sem skósólar slitnuðu og harðsperrur urðu til en andinn upplífgaðist við að upplifa þessa hápunkta rómverskar menningar og lista. Rétt eftir hádegið komu þau á risatorg eitt þar sem var búið að koma fyrir gígantískum hátölurum um allt og mannmúgur var þar sem klappaði og stappaði og fullt ofsafenginni gleði yfir hinni ný yfirstaðinni ræðu páfans sjálfs. Þau ætluðu sér að kíkja í turn einn sem var á kirkjunni frægu en mannmergðin var fyrir, jóhanna fer til löggu sem var á staðnum til að stilla múginn ef illa færi og spyr hvort páfinn muni tala aftur og fær þá vitneskju að hann muni stíga á stokk aftur á hverri stundu. Þau ákveða að hinkra við í nokkra stund, enda með endemum svalt fólk og ekki verra að kveikja sér í einni sígó og fá svo jafnvel blessun páfans sjálfs eftirá. Gunnar furðar sig á að fólk um allt veifar greinum af miklum móð og varpar þeirri spurningu til Jóhönnu hvort henni detti í hug hvað þetta eigi að þýða, nokkra stund velta þau þessu fyrir sér þangað til hún gerir sér skyndilega grein fyrir að auðvitað eru þetta pálmagreinar..... já alveg rétt það er pálmasunnudagur....páskar í grennd. Augljóslega ekki strangtrúað fólk þar á ferð en jæja blessun páfans er þó holl fyrir hvern sem er eða hvað? Í litlum glugga í fjarlægð sem er á stærð við sígarettupakka bærast rauð gluggatjöld og múgurinn tvíeflist, ungt fólk með trommur lemur taktinn og fólk klappar páfann upp af krafti. Klappstýrur dansa um og hrópa FORZA PAPÁ..... FORZA PAPÁ... eða áfram pápi áfram pápi sem vekur mikla kátínu hjá parinu. Loks titra gluggatjöldin meira og fram stígur hinn næstum níræði maður sem er holdgerving hins eina sanna guðs á jörðu og hefur upp raust sína. Aumingja maðurinn getur varla staðið hjálparlaust og þaðan af síður með kröftuga rödd og muldrið skilst engum. Hvæsir og másar blessunina yfir múginn þar sem allt ætlar um koll að keyra af æstu fólki sem finnur kannski andan koma yfir sig hver veit. Nema parið sem skildi ekkert og þótt svo hefði verið hefði það sennilega ekki breytt neinu, en hafði þó komist að þeirri augljósu niðurstöðu að pápi stendur hverri rokkstjörnu á sporði, hafði múginn gjörsamlega í höndum sér og gaf blessun sem rokkaði feitt. Á lokasprettinum hækkar hann róminn og endar í kröftugu hvæs hrafli sem bergmálaði á öllu torginu og hverfur bakvið rauðu tjöldin, múgurinn skilinn eftir agndofa og orðlaus og brýst út í trylltu lófataki og öskrum og trommuslætti þar sem ómar forza papá í gegnum kliðinn.

Hann gunnar er svo mikill snillings sögumaður að við höfum setið og veinað yfir honum á börum bæjarins og þetta er ein sú besta saga sem hann hefur skemmt okkur með. Nema hvað að ég missti andlitið þegar kom uppúr kafinu að hún er varla neitt skreytt þessi saga, þar sem ég er vön skreytistíl hans og kaldhæðni þá hvarflaði ekki að mér að klappstýrurnar og trommuleikurinn og hátalarakerfið rosalega hefði verið í raunveruleikanum, en jú. Það voru klappstýrur að góla Forza Papá.

Fórum að sjá La passion di cristo um daginn. Var búin að heyra þó nokkuð af lýsingum á ofbeldi og ofsafengni myndarinnar og þrátt fyrir að vera enginn aðdáandi pyntinga né mannvonsku og viti vel hvernig sagan endar ákvað ég að þetta væri mynd til að sjá. Hinn mikli spámaður og frelsari trúarinnar sem ég er fermd í og jafnframt ennþá skráð í söfnuð hjá átti það kannski inni hjá mér að ég sæi þetta. Átti einhvernvegin von á að fá kannski einhverja nýja punkta um líf jesú, sanna eða hollívúddaða, upprifjun á gildi trúarinnar og einfaldlega hvað var ástríða krists í myndrænu formi með tónlist undir. Svo fátt gat búið mig undir að sjá eins hrokafulla mynd sem sýndi tvo og hálfan tíma af barsmíðum, pyntingum og vel gerðum brellum þar sem jesú er eitt svöðusár og fossar blóð og dettur í slow motion aftur og aftur meðan blind fullir rómverjar eru svo fáránlega heimskir að það er skammarlegt og fatta ekki að hann er hvort eð er á leið í dauðann og ef þeir berja hann niður þá kemst hann ekki í það. Eyðileggur alveg að gera þá svona heimska en ekki bara vonda menn, eða jafnvel ekki vonda menn sem gerðu það sem þeir væri sagt. Það sem mér fannst svo enn verra er að augljóslega er gert ráð fyrir að fólk sem sjái þessa mynd viti allt um jesú, hans líf og dæmisögur því ekki er haft fyrir því að segja neitt frá því heldur bara vísað í frægustu atriðin eða setningar. Reyndar held ég að það séu bara sömu setningar og í söngleiknum nema á frummálinu sem er ein af fáum góðum punktum myndarinnar. Það var kannski vegna þess að leikararnir töluðu ekki eigið mál að talmál var takmarkað og takmarkað sannfærandi. Við sem fórum í kristinfræðitíma hérna í denn og erum þar að auki fermd könnumst svo sem við vísanirnar en er ekki eitthvað hrokafullt við að gera ráð fyrir að allir í heiminum geri það? Allavega fyndist mér jafnáhugavert að sjá myndum múhammeð, spámenn eða guði annarra trúarbragða sem ég veit lítið um upprunann og myndi þá ætlast til að sjá einhvern boðskap.

Mitt point er að það vantar boðskapinn í myndina, það sem ætti að skipta máli er það sem gerðist áður og það sem gerðist eftir á ekki eingöngu – hann náðist var pyntaður og dó og reis upp- Jæja, allavega ef ég hélt að ég yrði einhverju nær um þessa trú sem á að heita mín þá var það misskilningur. Nema kannski að það séu einhver þau hrokafyllstu trúarbrögð sem til eru. Að minnsta kosti umgjörðin og kirkjan án þess að fara út í að véfengja einhvern grundvallarboðskap fyrir allar mistúlkanir, oftúlkanir og rangtúlkanir.

Það er kannski til of mikils ætlast af honum Mel greyinu að boða trú til þeirra sem ekki þekkja hana eða endurvekja trú hjá þeim sem hafa stórfelldar efasemdir, en þegar þú velur þér efni af þessu tagi þá bara hefði ég krafist meira en brellna og vondra drykkfelldra manna. Þótt mér finnist tónlistin á köflum mjög kröftug og ógnvekjandi þá er ég sammála jóhönnu vinkonu sem var ergileg yfir því að þeir hefðu reynt að láta tónlistina impressa meira en myndin hefði gert annars. Tónlistin túlkar fyrir mann allar aðstæður, svo maður hefði alveg getað lokað augunum og ímyndað sér og fundið jafnmikið. Nú er ég nú samt þannig gerð að myndin hafði áhrif á mig og mér fanst þetta agalegt og vorkenndi mömmunni og stúlkunni óskaplega og var reið yfir óréttlætinu en þó náði það ekkert dýpra en það. Persónusköpunin var svo litil að maður tengir ekkert við það að þetta væri frelsari mannkyns sem bæri syndir okkar og væri að þjást fyrir okkur svo við mættum öðlast eilíft líf. Þetta var bara aumingjans maður með skegg sem smíðaði borð og átti ekki skilið að deyja ( hvað var með borðið? Hvenær var jesú þekktur fyrir að smíða fyrsta stóra borðið sem átti að sitja við í stól? Var hann líka uppfinningamaður?)




Það rennur enn blóð í þessum æðum, þótt það mætti halda að því hafi verið skipt út fyrir bjór eða brennivín þessa síðustu tvær vikur. Góði parturinn er að ég er hætt að vera þunn, fyrir vana þá er þetta einsog svona hringur. Og einnig tími til að loka þessum hring. Afsökunin er þó sú að það hefur verið gestagangur hjá okkur, og maður getur nú ekki annað en verið gestgjafi og farið með sitt fólk á rétta staði. Svo ég er búin að vera í fríi í Bologna, sem þýðir út að borða og dýrt bardjamm og ferð og flug alla daga til að skemmta sjálfum sér og öðrum. Svo komu náttla móment með dvd og pizzu inná milli einsog óhjákvæmilegt er.....

Öðrum orðum búin að hafa það ótrúlega gott og kláraði fjárráðin fyrir þennan og næsta mánuð snarlega. Bjarni sigguhubby var hin besta skemmtun og stóð undir öllum sínu orðspori af djammi þrátt fyrir að vera í rómantískri turtildúfuferð. Þau sýndu það og sönnuðu að það er vel hægt að gera bæði í einu enda einróma samþykki að bæði betra sé málið í þeim efnum. Allavega svona í viku..... Hann mætti klifjaður rúmum þremur kílóum af Londonlambi frá mömmu hennar siggu, ásamt páskaeggjum og örugglega þrjátíu sósupökkum. Mamman er nefnilega ennþá traumatized eftir dvöl sína hérna þar sem ekki er hægt að finna neinar sósur, knorr er bara rétt að stíga fæti sínum hingað og bara súpur og teningar enda er ítalir ekkert brjálaðir í sósur á kjöt yfirhöfuð. Ég hafði ekkert heyrt í foreldrum mínum í nokkrar vikur og vissi líka að þau hefðu hlegið að mér ef ég hefði heimtað páskaegg svo ég keypti mér bara mitt eigin ítalska páskaegg og græddi svona líka fínt dót sem er einsog pínkulítil súpervifta. Mjög kröftug og kemur sér vel í prófalestri í hitabylgju og svitakasti.

Bjarni lét nú ekki vanta Brennsann og harðfist og marga poka af söli handa langþyrstum valkyrjum í pastalandi. Þó ég hafi viðurkennt á íslensku svo engin af hinum heyrði að ég hafði bara aldrei svo ég muni gerst svo fræg að smakka brennivín fyrr en hérna. Rann bara ljúft niður og best með harðfiskinum. Líka gaman að skella staupi í ítalina sem tóku því nú bara rólega og sögðu það smakkast vel, enda grappa hérna jafnvel meiri viðbjóður en brennsi. Ja, mar ætti ekki að vanmeta litlu greyin. Sem maður skyndilega sá betur að voru litlir þegar við vorum með bjarna og gunnari hinum norska. Menn báðir á tvo metra og þó nokkuð axlabreiðir, ljósir yfirlitum og bláeygðir með langar lappir miðað við þá sem rétt slefa í 175. Vorum ekkert að leiðrétta þann misskilning að ekki allir menn á íslandi væru um eða yfir tvo metrana.

Ómögulegt að segja frá öllu sem á daga okkar hefur drifið, enda búnar að vera duglegar í öllu saman. Allt frá bjór á Irish og fótboltaglápi (by the way real madrid er úr keppni, og milan skíttapaði um daginn) Dagsferð til Feneyja í helli helli dembu þar sem allir voru rennandi blautir og brosandi með safnferð á galleria d´arte contemporanea þar sem ég fyrsta skipti á ævinni sá original Klimt, Kandinsky, Miró, Vedova, Afro, og marga marga marga aðra. Útað borða með rauðvín og strætóferð með fljótabátnum eftir stóra kanalnum með útsýni yfir húsin og torgin og kirkjur og dómur í kvöldlýsingunni. Ólýsanlegt. Út að borða meira og djamm hér og þar og allstaðar. Páskamáltið, risa londonlamb með öllu, forréttur gratíneraðar kartöflur, ferskt salat, fersk jarðaber með marssósu og vanilluís, rauðvín, bjór, brennsi, róm í kók, norska parið sem er æði gæði, belgisk vínkona, þýskir strákar sem voru litlir í anda og stærð. Próf sem ég á að taka, en mun ekki gera því ég hef ekkert lært. Guði sé lof að maður hefur mörg tækifæri.... annað munnlegt í maí...... Bjórsamsæti á stúdentatorginu í sólskini og alltaf einhver með gítar að syngja...Augnsýking eftir ofnotkun á linsum, gat ekki opnað augun og sá ekkert fyrir táraflóði hélt ég yrði blind en það lagaðist þó sem betur fer. Í gær videokvöld hjá norska parinu, sem endaði á að vid gleymdum videoinu en borðuðum frábæra fiskisúpu og kirsuberja ís og því meira af brandy og rom í eftirmat.

Í stuttu, lífið er búið að fljúga framhjá seinustu tvær vikur og fallega og skemmtilega. Nú verður þó meira um hrísgrjón með súputening í matinn og laugardagskvöld yfir bókum. En það var alveg þess virði að hafa það svona gott í “fríinu” okkar.




FÓLK UM LÖND OG STRÖND!! NEIBB þetta er ekki aprílgabb, þetta er pjúra hamingja.

Það hafðist!!! ég er búin með fyrsta munnlega prófið mitt á ítalíu loksins eftir of margra mánaða kvíðakast. Gekk vel miðað við aðstæður og er ég mjög sátt. Mætti á svæðið klukkan hálf tíu þar sem kennarinn las upp alla á blaðinu sem hafði hangið uppá vegg í mánuð. Þeir sem ekki svöruðu nafnakalli fengu ss. ekki að taka prófið þann dag. Ég var auðvitað á seinustu stundu því ég vissi ekki hvar prófið væri og var búin að ráfa um nokkra ganga og örvænta að ég fyndi ekki rétta staðinn, þegar ég storma að er hann akkúrat að lesa upp eftirnöfn með G, ég svitnaði og vonaði að hann væri ekki búin að lesa mig upp; heyri hann svo stama einhverju út í líkingu við Gulfiannorir ....auste og ég sem stóð aftast í þvögunni hoppaði um og veifaði höndum Sono qui!! Sono qui!! af gleði að ég skyldi hafa náð uppkallinu svo fattaði ég skyndilega að ég væri einsog skopparakringla með sólheimaglott og veifandi hendur innan um hina og snögglega endurheimti kúlið mitt. Held ég.

Ég var númer 13 á listanum og átti því ekki von á of mikilli bið, kæmist allavega að fyrir hádegi. Sitja með bók í hendinni og hnút í maganum í marga klukkutíma og bíða eftir að fá að tjá sig um hástemmd málefni er ekki skemmtilegt. eftir tvo tíma var ég farin að vafra í kringum stofuna ásamt öðrum og allir álíka hamingjusamir, einsog að bíða eftir að aftökusveitin kalli þig inn. Farin að örvænta um eitt leitið og þegar komið var að strák sem var númer 17. Halló!!! Hvað með mig!!? Það voru tveir í vinnu við yfirheyrslunar, prófessorinn sjálfur og aðstoðarkona hans og ég þurfti að bíða eftir prófessornum. Það var talað um mig sem æi já erasmusinn, látum hann bíða aðeins, ok erasmus kondu þá núna. Þannig að ég komst að rétt fyrir tvö eftir tæpra fimm tíma bið fyrir utan. Setti mig í stellingar og reyndi að stilla litla hjartað sem hoppaði um og næstum útum eyrun á mér. Koma svo sjarmi, koma svo gáfur, nú skal ég heilla manninn uppúr skónum með ummælum um gagnrýna fyrirbærafræði og skilgreiningu listanna og fleira á minni góðu ítölsku. Hann var nú samt góður við mig, og spjallaði fyrst um venjulega hluti. Þegar hann fór að spyrja mig útúr, tókst mér nokkuð vel að svara þótt kæmi dálítið stam hér og þar. En þótt ég gæti alveg spjallað smá þá er meira en að segja það að halda einhverjar einræður og stoppaði ég yfirleitt eftir nokkrar setningar. Svitnaði einu sinni all svakalega þegar hann krafðist skýringar á einhverjum hugtökum sem ég skyldi ekki einu sinni og kannaðist ekkert við að hafa lesið um, og á endanum lak uppúr mér að ég vissi það ekki. Hann byrsti sig bara og sagði ; víst veistu það þú fattar bara ekki hvað ég er að biðja um.... koma svo... og á endanum tókst mér að segja eitthvað sem var víst rétt. Jæja, góður kall með glott í augunum og brosviprur þrátt fyrir alvarleikann og hafði held ég lúmskt gaman að þessum litla rauðhærða útlending sem rembist af öllum lífs og sálar kröftum við eitthvað sem var augljóslega ekki í orðaforðanum. Eftir um hálftíma yfirheyrslu þegar ég var alveg bara búin, þá sagði hann jæja góða mín, ég gef þér einkunn sem í raun er hærri en þú átt skilið miðað við það sem þú sagðir mér en ég tel mig finna að þú hefðir getað sagt miklu meira ef þú hefðir orðin eða tjáðir þig á þínu máli, ég hef séð að þú hefur mætt í tíma og augljóslega lært nokkuð vel svo þú færði 28/30. Sem var satt því ég var búin að læra hellings helling fyrir þetta próf þótt ég kæmi ekki öllu útúr mér. Gat ekki hamið hamingjuna og lá við að ég faðmaði hann í klessu en staðreyndin að hann var hinu megin við borðið og fullt af fólki að horfa á stoppaði mig. Valhoppaði út og krakkarnir fyrir framan hálf hlógu að þessari augljósu gleði sem heltekið hafði útlendinginn sem áður var nokkuð niðurlútur. Í smá móment vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja upphátt eða bara gráta af gleði, langaði mest að stökkva á næsta mann og kreista hann og hoppa í hringi.

Allavega, versta prófinu í bili lokið og með hærri einkunn en ég hefði nokkurn tíma þorað að ímynda mér. Kom heim og þurfti náttla strax að byrja að læra fyrir næsta próf. Þar sem ég keypti aldrei bókina fyrir það þá er ég að lesa greinar á netinu á ensku um þessa málvisinda heimspekinga og reyna að fá einhverja hugmynd um hvað þetta snýst fyrir prófið í fyrramálið. Þar sem það er skriflegt þá hef ég ekkert svo miklar áhyggjur, allt annar pakki að mæta og rembast við blaðið heldur en að rembast upphátt framan í prófessorinn með áhorfendur.

Gleði gleði gleði og meiri gleði

Svo er líka fyrsti apríl í dag. Verð að finna einhvern til að plata. Passar engan vegin við ánægjuna að sitja ein heima meðan sólin skín og lesa um kenningar quine og davidson um merkingu tungumáls, sannleikann og reynslu. Vildi að ég gæti platað kennarann minn til að halda að ég vissi rosalega mikið um þetta.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com