Hosted by Putfile.com





wirelessvikings

Lengi hef ég kvartað og kveinað við sjálfa mig og aðra yfir því að danskan mín sé ekki nægileg góð. Hún er allavega ekki best en þó betri en einhverntímann. Nema auðvitað að ég talaði reiprennandi og skrollandi dönsku þarna fram að skólaaldri og tókst svo með yfirnáttúrulegum hætti að gleyma henni algjörlega milli sex ára og ellefu ára aldurs. Merkilegt fyrirbæri þetta minni.

Hvað um það, loksins fann ég upplýsingar um passlegann dönskuskóla sem kennir sérstaklega þeim útlendingum sem hafa stundið skólanám í lágmark 12 ár og þegar lært ensku og önnur tungumál sem aukamál. Við mættum því galvösk í prufu, í þeim tilgangi að finna hæfilegt námsstig. Skrifaður var smá stíll og svo spjallað við kennarann sem mat það sem út úr manni kom. Mér til mikilla vonbrigða sagðist hún ekki geta boðið mér uppá marga kúrsa núna sem ég fengi mikið út úr, þar sem ég virtist þegar tala flydende og villur í skrift væru ekki þaað skelfilegar. Helst vildi hún skella mér í lokakúrs sem þau kenna bara frá ágúst, og lýkur með dönsku studieprove sem er það próf sem háskólinn krefst af útlendingum. Öðrum en norðurlandabúum það er að segja. Nokkuð kaldhæðnislegt í ljósi þess að ég er hvort eð er þar... en með fullkomnunaráráttu má alltaf bæta. Það mun koma gæðakippur um leið og ég fer að vinna og hætti þessum heimalestri.

Kennarinn taldi strax að Hallur væri líka íslendingur. Allavega spurði hún hvort hann væri ekki þaðan, því henni dytti strax í hug forn víkingur. Sá síðan eftir orðavalinu og leiðrétti að hann liti sko ekki út fyrir að vera gamall heldur bara gamaldags víkingur. Og hann fékk líka námskeið. Hún minntist reyndar hinsvegar ekkert á að ég væri örugglega afkomandi írskra þræla sem sömu víkingar hefðu haft með sér til íslands.

Sigrún hitti líka naglann á höfuðið þegar hún sagði bara vanta að maður gæti leigt sér dana til afnota. Einhvern sem knýr mann til að tala og leiðréttir eða kemur með ábendingar um orðaval...Hinsvegar sá ég auglýsingu frá nörrebro bókasafninu um nýjung hjá þeim. Nú getur maður víst leigt sér manneskju innan ákveðinnar starfsgreinar til að heyra beint frá markaðnum um vinnu, nám og fleira. Allt er til.

Það er tími til að skála. Bara fyrir vorinu og vorþrifum og reikningum sem náðist að borga og ódýra speglinum sem við vorum að spreyja gulann og lasagna matarboðinu m öl í kvöld. Og páskafríinu sem er að hefjast á dagatalinu, þó páskarnir hafi verið síðstu helgi hjá okkur, Blómunum sem ég keypti í dag til að hafa heima og airportexpress sem er snilldaruppgötvun. Þráðlaust er gott.




pumpkins

Ég bara einsog mögnuð húsmóðir í dag, nýting á hráefnum jaðrar við sláturgerð á góðu heimili þar sem hvert snifsi er nothæft. Ekki bara var hent í þvottavélar og keypt í matinn heldur fullnýtti ég graskerið úr súpunni í fyrradag (sem var bytheway agalega góð) og plokkaði allt gumsið af fræjunum og ristaði í ofni með sjávarsalti. Nammmmm. Grasker eru bæði bragðgóð og ótrúlega falleg á litin sérstaklega innaní (reyndar ekki ósvipuð sófanum...) og ógeðslega holl.

Það sem ég finn mér til dundurs á sólardegi annað en að læra.




þversagnir

Ég varð alveg bálreið í strætó í dag þegar ég fletti einu af fríkeypis blöðunum og sá flennistóra rauða auglýsingu fyrir þjóðernissinnað félag sem finnst stjórnmálamenn ekki sinna þörfum danmerkur og vilja að borgarar taki til sinna ráða í að mótmæla innflytjendum sem séu klárlega rót alls hins illa í dönsku samfélagi. Smáborgaraháttur og röng afstaða sem er í ótrúlegri mótsögn við þá staðreynd að fyrir stuttu var það tilkynnt með stolti í fréttum að danmörk hefði síðustu tíu ár verið mjög ofarlega á listum um "alþjóðlegustu löndin". Þetta er sitthvor hópurinn sem talar. Annar vill halda í blekkingarnostalgíu þess að til sé einstakur danskháttur með fríkadellum og smörrebrod sem sé í bráðri hættu við framboð á falafel og fólki með hreim. Hinn vill sjá samfélag í tenglsum við umheiminn þar sem fjölbreytileiki bætir, hressir og kætir.

Mér sortnar fyrir augum við tilhugsunina um að fara út í umræður um íslenskt viðhorf, en þar eru sömu hópar. Þröngsýni lifir allstaðar. Hræðsla við blöndun og missi á ektaháttum liggur djúpt. Einsog íslendingar séu ekki upphaflega þjófahyski frá noregi og danir afkomendur hollenskra kartöflubænda. Mér finnst þetta fyndið. Þó á sama tíma grátbroslegt.

Það var því sérlega ergjandi í dag að koma heim og horfa á nafnið á dyrabjöllunni minni. Einhverra hluta vegna var límmiðinn með nöfnunum okkar og þeirra í næstu íbúð pillað af svo nú stendur bara nafn leigusalans. P. Kjærsgaard. Rétt einsog óvinsælasta stjórnmálakona Danmerkur. Hún er í mörgum tilvikum margfalt grófari en frjálslyndaflokksofstopalýðurinn. Þeir vildu þó gjarnan leyfa frændum okkar dönum að vera á fagra fróni. Bara ekki teppalýð og múhameðsáhangendur.

Þetta er þó stórmerkileg árátta Íslendinga að dásama frændur okkar dani... þar sem þeir eru frændur okkar og félagar, en við erum hinsvegar ekkert skyld þeim héðan frá séð. Þeir virðast stundum varla vissir um að ísland teljist til norðurlandanna. En við höfum þó mikinn sjarma sem undarlegt lið, flippað, eyðslusamt og ligeglad sem ekki fjarri því jákvæður kostur á danskan mælikvarða. Ég rak mig á það síðast núna þegar ég á fjalla um tvær stórar samsýningar sem haldnar voru árið 2000 og 2005 undir formerkjum nýrrar norrænnar listar í Malmö og Kaupmannahöfn. Í greinum er dásamaður hinn skapandi andi listamanna á norðurlöndunum og lífssýn og meira segja leitt inn með vísun í Björk. "I thought I could organize freedom - How scandinavian of me"

Mér þótti því ákaflega áhugavert að á lista yfir þá listamenn sem tóku þátt var engan Íslending að finna. Nema auðvitað Ólaf Elíasson sem enginn dani myndi samþykkja að væri íslenskur þó hann beri íslenskt nafn. Ég á eftir að komast að því hvort engum var boðið að taka þátt eða hvort það orsakast af styrkjaleysi eða þvíumlíku, en þetta hlýtur að vera merkilegur þverskurður af norrænni list í dag þar sem íslendingar eru hvergi með.

En það er sól og ég á afgang af graskerssúpunni og jafnvel gulrótarspeltbollu með í hádegismat. Og ég græddi heila viku í gær þegar það rann upp fyrir mér að páskarnir eru ekki næstu helgi, né er ég að fara í íslandsheimsókn eftir viku heldur tvær. Mætti halda að ég sé eitthvað viðutan, ég sem stunda meira segja kalendernotkun reglulega.




bibb is all we know

Fuglarnir í garðsvæðinu á húsinu okkar eru orðnir svo æstir að þeir virka einsog vekjaraklukka á morgnanna. Hamagangur í öskjunni og bíbbbidíbíbb kvak flautilflaut bíbbedí dirrendí. Margar tegundir jafnvel. Meira segja ugla. Rosaleg sýnimennska þarna. Og ákaflega vorlegt.

Ég hlakka alveg stórmerkilega mikið til að smakka glæsilega toblerone ísinn sem við hrærðum í fyrir matarboðið í kvöld.




forpaskar og kranaredd

Stundum getur verið feikinóg gleðiefni og hamingjumeðal að sigra í baráttunni við stírur og lokuð augu og það brjálæðislega segulafl sem hlý sæng getur haft og komast í skólann nógu snemma til að geta skroppið í kantínuna og náð sér í kaffi fyrir allar aldir. Það dempar ekki hið minnsta eldmóðinn að við séum þrjár í tímanum sem ég er búin að kjósa að taka próf í enda er kennarinn hress og sprækur og dælir í okkur hugmyndaflóði og sýnidæmum um list og nýja miðla. Sólin skin líka þótt íslenskulegt rok blási í takt.

Það brestur á með letiskúrum og orkuskini með lestri og playstation. Ég er farin að raula eighties lög með sjálfri mér eftir overexposure af GTA Vice í bakgrunninum. Þó ég hafi horft á heilan þátt á animal planet um ljón og hegðun þeirra um miðjan dag þá fórum við líka í leiðangra og redduðum eldhúskrana sem sprakk um daginn og frussaði vatni um allt. Ég hafði reynt að útskýra fyrir leigusalanum hvað væri að, en endaði á að kveikja á frussinu og smella mynd sem ég sendi honum. Hann hló mikið og ætlaði að koma við tækifæri en var svo bissí í vinnunni að við enduðum á kaupa bara sjálf nyja græju. Reyndist hið einfaldasta mál....

Páskarnir eru svo á morgun. Við flýttum þeim bara snarlega um viku enda tími yfirhöfuð afstæður og engin ástæða til að fylgja dagatalinu. Félagar okkar hérna eru nefnilega að fara í ógurlega spennandi ferð til suður afríku um hefðbundna páskadaga. Planaður er margra rétta glæsilegur kvöldverður í góðum hópi stúlkna og drengja svo í kvöld verður skipulagt og bakað og mallað. Mmmmmm




sofagledi

Hákarlar í sjónvarpinu. Þessar verur líta bara út fyrir að vera illar.

Hinsvegar hlýnar mér um hjartarætur að sitja loksins í sófa en ekki á dýnu í stofunni minni. Ekki skemmir það hlýleikann að neinu leiti að ég sit í dökkgulum fínum sófa sem við gátum ekki sleppt því að kaupa á loppemarkaði í dag. Hann er ógurlega fínnnn. Maðurinn sem seldi okkur hann var líka svo ógurlega indæll, eldri maður og konan hans sem síðan skutluðu sófanum og hræódýrri kommóðu sem ég ætla mála í fínum lit til okkar eftir að bella center lokaði. Heima er meira heimilislegt en nokkru sinni áður. Fengum hjálp frá Björk og Greg að drösla honum upp stigann og inn þröngan gang og í staðinn græddu þau indverskstemmdan kjúklingarétt með hnetutjillíkókosmjólksósuoggrænmeti. Sú saga fylgdi fagra sófanum að hann átti að kosta formúgu af péningum en var seldur á temmilegu íkeaverði. Ástæðan að hann var keyptur upp úr dánarbúi. Maður keypti sér nefnilega sófa í nýja íbúð og lést svo rúmri viku síðar. Þar af leiðandi ætla ég að njóta hans fimmfalt, líka fyrir þann sem ekki náði að njóta hans mikið.

Vorið er að sigla inn. Þrátt fyrir smá rokrassgat í dag sem minnti óneitanlega á ísland, þá eru blóm farin að kreista sér upp úr moldinni á ólíklegustu stöðum. Sólin farin að skína og hlýja manni í framan og loftið blæs frjókornaanda yfir borgina. Stórir treflar fara alveg að missa vægi sitt og þykkar peysur eru úti nema sviti sé á stefnuskránni. Skólinn fer að stressa þegar skylda um skráningar og vesen fer að hella sér yfir allt einkalærdómsprógrammið og óttinn við þrjátíu skrifaðar danskar rigerðarblaðsíður er oll over. Allt kemur með sólinni samt. Léttir á öllum mögulegum tilfinningum.

Síðasta vika hvarf í skóla, bröns og allskonar skemmtilegheit með síðustu gestunum Gumma vini Halls sem var að útskrifast úr mediaskólanum í Viborg og dönsku kærustunni hans Sally sem meðal annarra kosta talar bestu íslensku sem ég hef nokkru sinni heyrt manneskju sem ekki er fædd á landinu og uppalin, tala. Þau rétt náðu að búa hérna meðan dýnan var ennþá sófalíki og engin gluggatjöld voru í stofunni en þó held ég í ágætis yfirlæti. Sérdeilis huggulegt og ofan á allt saman gáfu þau mér Ljónas, sem er mjúk viðbót í ljónasafnið. Kemur mynd af honum við tækifæri.

Mac vill oft ekki eiga neitt saman að sælda með msn svo ég er sjaldan þar. Mæli ennfremur með emailum og bréfum eða símasamskiptum.




Tanti auguri!!

Fékk skilaboð áðan á msn frá fornum ítölskum samleigjanda, eða einum af Marcounum. Fyrir þremur árum komst ég að því að áttundi mars er festa delle donne eða hátíð kvennanna og þann dag voru seld gul mimosublóm á hverju götuhorni. Það var líka dagur þar sem stúlkur fóru út á stelpukvöld að djamma, fengu sér í hægri tánna og settu á sig gloss. Sömuleiðis gríðarlega vinsæll dagur hjá karlpeningnum því annars var langt því frá sjálfsagt að dömurnar ferðuðust um í hópum karlmannslausar og vildu endilega fá kokteila eða blóm.

Við kynntumst svo sem lítið þeim anga ítalíu, þar sem bæði fórum við mikið út sjálfar og sér og í félagsskap einhverra af samleigjendum eða félögum. En ein ítölsk vinkona okkar í næsta bæ átti agalega bágt því hún bjó með fjórum stelpum sem allar áttu kærasta. Ekki svo að skilja að kærastarnir tækju upp tíma þeirra með einhverjum hætti þar sem þeir bjuggu í órafjarlægð, heldur þykir það ekki viðeigandi að fara út ef þú átt slíkan í heimabænum. Þeir geta orðið svo ansi afbrýðisamir sjáiði til. Svo þær voru bara heima að læra í staðinn....

Mér finnst Ítalía ekki vera forn að öllu leyti í hugsun, en mörg eftirlifandi karlrembuelement get ég alls ekki skilið. Né nær það nokkurri átt í mínum huga að það sé ekki hægt að eiga í emailsamskiptum við gamla félaga, því emailin þeirra renna alltaf út sökum lítillar notkunnar og bara einn og einn er með tölvu eða net heima hjá sér. Og umræddir drengir eru allir í verkfræði. Hér jaðrar við vandamál á bænum því netið hefur bara eina innstungu svo það þarf mjög dipló anda og demókratískann að skiptast á einsog góðum börnum sæmir. Airport extreme er efst á óskalistanum. Ekki fólki bjóðandi að hafa ekki þráðlaust net.....




annarra mannarra prof

Pésinn er með mikla samúðarverki með heimspekiheimaprófum annarra í íbúðinni og flettir því í eigin bókum jafnvel meira en venjulega. Annars er ég komin með hreint og beint ógeð á pappírsbleðlum og skjölum, danskur skriffinskuheimur er mér algjör frumskógur og enginn slaki þar á. Ég er þó augljóslega komin vel inn í kerfið hérna og inn um bréfalúguna rignir ólíklegustu rukkunum og reikningum einsog aldrei fyrr. Ég hata þetta kerfi með auðkennislykla því ég á eftir að týna þeim oftar en símum og pin númerum svo það gæti endað í eintómum útgjöldum. En ég er að vinna í persónulegri bókhaldsmöppu, eða að minnsta kosti skúffu fyrir skjöl og drasl. Hér er enginn pabbi að sortera fyrir mig skjölin og redda skattaskýrslum á síðustu stundu...

Þó ég sé ýmsu vön í raðamenningunni missti ég eiginlega andlitið þegar ég kom inn á pósthúsið að sækja pakka sem þar beið mín og á undan mér voru sextíu manns í röð. Þolinmæðin þrautir vinnur allar en ég skelli þó skuldinni á staðreyndina að þetta horn í borginni hefur ekki beint verið vinsæll viðkomustaður síðstu daga sökum óeirðanna....

Í lærdómspásum er fint verkefni að henda inn nokkrum myndum svo hér má sjá nokkrar dívu og djammmyndir frá gautaborg ásamt ryðblett og smá túrisma. Ekki nógu dugleg við ferðalaga myndatökur samt. myndaseriur




heim i heidardalinn

Við erum ekki horfin þrátt fyrir áframhaldandi bál og brand í hverfinu og allri borginni reyndar. Skruppum í staðinn upp til gautaborgar í öfugri umferði við svíana sem stormuðu hingað til að sýna hinum ungu stuðning í baráttunni. Í Gautaborg fundum við ást og hlýlegheit í afmælispartýinu hjá Ella. Tapas og Tram, mangókokteilar og respecktdjamm á staðnum sem einmitt var í design bókinni sem ég gaf ella í fyrra. Bátsferð með vindi og sól á sunnudegi eftir víkingaþynnkupitsubát með hvítlaukssósu og kebabkjöti. Glæný sækalelik blússa í mismunandi fallegum blágrænum tónum, kápa og seventíssólgleraugu í stíl við nýjar styttur og topp. Glænýr gamall leðurjakki í enn einni umferð af endurnýtingu og klæddi kærastann agalega vel. Gestgjafinn leysti gestina lika út með gjöfum. Yndislegt skrepp þrátt fyrir auman rúturass. Mikið er sniðugt að eiga lapptopp sem þarf ekki að vera í sambandi og getur sinnt hlutverki einkabíós. Leigubíll heim því strætóarnir enn í lamasessi sökum brenndra bíla og afskerminga á götum.

Föstudagurinn ekki síðri. Heimkoma og heilmikil gleði í lítilli íbúð við norðubrún. Brakaði ekstra mikið í nýsópuðu gólfinu af ánægju og ískrandi hlátur allt frá því að leigubíllinn renndi í hlaðið og fram til kvölds þegar stefnt var í súsjí og síðar gegnum mótmælandi mannþvögu yfir í öl á salonen með góðu fólki. Prakkaragleðin klappaði saman lófunum og svaraði símanum í hávaða úti á svölum til að lygin um að ég væri bara á leið í skólann og mætti ekki vera að því að vera heima að taka á móti gesti (sem ekki er lengur gestur), væri trúverðug. Lygin var fyrirgefin, enda með endemum hvít. Falleg hugsun vinnur alltaf og sérstaklega studd af óvæntum uppákomum. Með öllum tilheyrandi velkomspropsum. Löns og rómantík barasta. Hann kann bæði að elda spænska eggjaköku og tekst nokkuð örugglega að feta í fótspor gerðar og síðar bjarkar&sigrúnar í að vera vel að sér í sjónvarpsefni ásamt öðru svo ég er í góðum höndum. Good times.

Ég byrjaði að skrifa um óeirðirnar um helgina, en hálf gafst upp. Þetta er flókið, þetta er bilun, þetta er ódanskt en samt gæti þetta kannski hvergi gerst nema hérna. Súrrealískt að horfa á bíla í ljósum logum og hryðjuverka og sérsveitir bruna um allar götur og hlaupa um í hópum við að verjast unglingum á götuhornum sem maður er vanur að ganga um. Þetta er örugglega blásið upp að einhverju leiti í fréttunum og hefur í raun ekki truflað líf mitt mikið meira en að strætó gangi ekki, hópar af fólki hér og þar og þyrlur fljúga yfir húsinu okkar eða vörubílar með möl úr húsinu keyra götuna okkar varnir af sérsveitarbílum með sírenur. Eftir daginn er húsið ekki til lengur, og fólk grét á götum úti í dag yfir yfirgangi stjórnarinnar. Hvað gerist svo veit enginn, en allir hafa skoðun á því. Ég veit ekki hvort ég á að vera miður mín yfir bilun ungdómsins eða að einhverju leiti stolt að fólk sé tilbúið að berjast fyrir því sem það trúir á, þó ég sé ekki sammála múrsteinakasti og eldsprengjum á götum úti. Mér finnst þetta þó hljóti að vera verðugri málstaður en klámþingið. Ætli íslendingar nenni að berjast fyrir öðru en klámstoppi og kókútsölum?




kreisi

Það var ansi almennilegt af lögreglunni að ráðast inn í ungdomshuset eina daginn sem ég var ekki í troðning í 5A um morgun á leið í skólann. Ég fékk skilaboð frá Björk um morguninn um að það væri í gangi en hafði ekki miklar áhyggjur af því. Planið var að hendast í föt og á pósthús að sækja fína amazon pakkann mín sem þar bíður mín, en ákvað á síðustu stundu að henda í þvottavél fyrst.

Það þurfti síðan símtal frá íslandi til að segja mér að götur í kring væru lokaðar og að það væri ekki góð hugmynd að fara á pósthúsið að jagtvej 64. Helst vegna þess að á rundelen var allt vitlaust og hamagangur í kringum ungdomshuset sem ég var að uppgötva að er einmitt á jagtvej 69.... Horfdi dolfallin á dramað á TV News sem sýndu allt sem hafði gerst í morgun og beint frá staðnum sem er reyndar bara í fimm mín fjarlægð. Áttaði mig á þyrluhljóðinu.... frá frétta eða lögregluþyrlum..

Jæja ég fer þá bara krókaleið niður í bæ. Ómögulegt að missa af klippingunni en hugsa að ég sleppi amazonbókunum eins mikið og ég hlakkaði til að fá þær. Skilst að það eigi að vera einhver rosamótmæli klukkan fimm, veit samt ekki hvar. Fréttamenn virðast órólegir þar sem enginn af unga fólkinu vissi að þetta myndi gerast í morgun, svo enginn var viðbúinn með mótmæli eða strategíu en áður hafa verið gríðarlegar yfirlýsingar. Það væri alveg eftir mér að eina sem ég sjái til dramans á næsta götuhorni sé í sjónvarpinu. En ég lofa að vera ekki að vappa í átökunum bara til að vera þar...

Búðir og leikskólar eru lokaðir á svæðinu. Fjórar kirkjur hafa opnað sérstaklega fyrir fólk sem vill flýja átökin. Er þetta svona mikið?








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com