Hosted by Putfile.com





hausthamskipti 2005

Ok búin að fylla nokkra kassa og það sér ekki högg á vatni. Hvað á ég eiginlega? Fann samt mozart requiem diskinn, afmæliskort síðan ég var tólf, ársbyrgðir af pennum og notuðum batteríum ásamt ótrúlega magni af skrítnum hlutum sem ég skil ekki hvernig hafa flust með mér fram og til baka. Þangað til ég ætlaði að henda gömlum ramma með spreyuðu laufi sem sigrún gerði þegar við vorum þrettán og krukku með skrúfum og steinum, stökum sokk með flúgandi svínum, styttu sem er eldri en ég, brotnum kertastjaka og alls konar snúrum sem ég hef ekki hugmynd af hverju eru, en einhvernvegin rataði þetta bara ofan í annan kassa. Gæti átt við vandamál að stríða í að henda gömlu dóti. Þetta er víst mjög heilsusamleg andleg æfing að fleygja svo ég ætla gera aðra tilraun í að sleppa við að flytja með allt sem ég þarf ekki að eiga. Gleraugnaboxið sem er fullt af allskonar litum steinum með munstri ætla ég samt að eiga. Ég þarf að sanna fyrir eddu ásgerði að það sé víst notagildi í steinum. Sömuleiðis grjótahrúgunum úr stofunni sem eru frábærir kertastjakar. Hvað er betra en drynjanda kóradrama við tiltekt. Kannski var ég óheilbrigður únglingur en þetta hefur blívað í gegnum fjölda ára. Ég er komin í hamskipti. Skeilfilegt bara hvað hljóðgæðin í tölvunni hafa lítið að bjóða og kem litlu í verk með hlunkaheyrnatólin á mér.

Af hverju er kassinn utan af nýju fínu siemens 1800W ryksugunni minni svona kómískur þegar hann er fullur af penslum og ónotaðri málningu? Sem minnir á það. Þarf að frelsa atla frænda úr viðjum bankans og skrá mig á námskeið í málun. Fer að bryðja græntte töflur á kvöldin til að viðhalda þessu maníukasti sem gengur á.




bobblandi

Það fylgir því ósegjanleg ánægja að mæta á fund með kennara og vísa fram öllum pappírum skráðum og stimpluðum og finnast að viðkomandi hafi fulla trú á að maður viti hvað maður er að fara. Ég er búin að hlægja innra með mér undanfarið að eftir þriggja ára nám komi ekki í ljós fyrr en rétt fyrir lokin úr hverju ég ætlaði að útskrifast. Því meira sem ég hugsa um það þá held ég samt að ég hafi vitað hvað ég vildi læra, en bara búin að vera vitlaust skráð í gegnum tíðina. Enda var ekki byrjað að kenna það sem ég vildi spá í svo ég gat ekki valið það.

Hlakka fáránlega til að grúska og skrifa. Fór beint á bóksöluna eftir fundinn og keypti mér bækur um orð og mynd, on dialouge og about heart and mind. Veit ekkert hvað ég ætla skrifa um en í bili dugir mér að hafa tilfinningu fyrir í hvað átt. Það er einsog það hafi opnast svona gátt í hausnum á mér, kveiknaði á ljósaperu. Auðvitað skrifa ég eitthvað það sem ég er alltaf að tala um; það er að segja vandamálið um hugsun og orð, bilið milli þess að skynja og segja, stóru spurningu í listtúlkun yfirhöfuð um hvernig sé hægt að skrifa um það sem fæst við eitthvað ósegjanlegt og hvernig margir listamenn vinna markvisst með það. Veit samt að þetta á eftir að gera mig gráhærða (sem ég verð hvort eð er snemma samkvæmt pabba og ættinni) Las þrjár blaðsíður og rifjaðist upp fyrir mér hugmyndir um verk sem ég ætlaði alltaf að gera. Bobblandi sisslandi.

Ég veit ekki hversu söluhvetjandi ég er með nefið ofaní riti hugvísindastofnunnar og er strax farin að hafa áhyggjur að ég ætti frekar að vinna í næturvinnu eða einhverstaðar þar sem ég má lesa.




hlátur og gleymska

OK. Tókst að ljúka flestum pappírsverkefnum í dag og fá kvittanir og staðfestingar þannig að fyrir lok vikunnar þarf ég ekki að hugsa meira um eyðublöð. Hver hannar eyðublöðin? Tók eftir að á hagstofunni eru til eyðublöð yfir ótrúlegustu hluti. Síðan fylltist ég næstum mótþróa þegar efst á mínu eyðublaði - Tilkynning um flutning innan reykjavíkur - Stóð feitletrað -FLUTNINGUR TILKYNNIST INNAN SJÖ DAGA- Og hvað gerist ef maður hlýðir því ekki? Fær maður ekki að flytja? Djöfulsins stjórnunaræði er í þjóðfélaginu að skylda mann til að fylla út eyðublað bara því maður skiptir um húsnæði. En þar sem ég vil gjarnan fá húsaleigubætur þýðir ekki að rífast við skipulagsnefndina.

Til að fullkomna þetta fór ég og keypti fullan poka af skærlitum plastmöppum. Nú ætla ég að taka sjálfa mig og lífið í nösina og raða öllu í rétta röð. Þótt ég geti ekki haft stjórn á heiminum eða öðrum hlýt ég að geta haft stjórn á því.

Athyglisverð skilgreining á frelsi í myndinni sem ég horfði á með öðru auganu í gær. Frelsi er bara annað orð yfir að hafa engu fleira að tapa. Vill maður hafa engu að tapa? Ef maður ætlar alltaf að hafa engu að tapa, endar maður þá ekki einmitt með ekkert. Ég hef kannski ekkert, en ég hef samt pappírana og ritgerðaflóðið flokkað í möppur í uppáhaldslitunum mínum. Það er jákvætt við daginn. Og ég keypti bókina um hlátur og gleymsku eftir Kundera á hundraðkall. Ég gat ekki annað en hlegið yfir titlinum. Hún gargaði á mig úr hillunni. Lykilorð vikunnar að gleyma leiðindum og hlæja.




kæri þig til samskiptaráðuneytisins....

tryggingavíxill.húsaleigusamningur.matsmenn.skorarformenn.kúrsar.vaktaplan.þínglýsing og beinverkir.leit að pappakössum. Magic numbers.nenniggi að elda.þvottur. Ónægilegt viðskiptavit mitt hefur þær afleiðingar að ég skynja ekki þá ábyrgð sem felst í því að nafnið mitt sé skráð á víxil sem greiðandi. Eina sem það þýðir fyrir mér er að íbúðin er okkar og ég flyt í næstu viku. Það er skjalfest. Pappírsflóðið í tilverunni er gríðarlegt, þótt ég hafi ekki jafn mikla fóbíu fyrir skjölum og sambýlingurinn þá er ég alveg að fá nóg af undirskriftum, umsóknum og fleira sem fylgir því að flytja, vesenast við að láta meta allt skiptinámið mitt sem listfræði en ekki ítölsku og svo framvegis. Í leiðindum heima með hálsbólgu fór ég að fletta í gömlum ritgerðum og skemmti mér við að lesa það sem ég skrifaði í fyrra. Minnið mitt er greinilega lélegt því þetta eru oft fréttir fyrir mér.... hmmm og ég samdi þetta sjálf. Sem vekur spurningar um hvað ég viti yfirhöfuð um það sem ég er búin að læra. Mun betra er að glugga í gamlar dagbækur, þá fyrst fer maður að efast um bæði að maður sé maður sjálfur alltaf og til skipist þykist hafa þróast eitthvað eða bara alls ekki. Það er að minnsta kosti rannsóknar efni fyrir mig hvernig ég kem mér í áþekkar aðstöður endalaust. Ætti að leggjat yfir þær og reyna að greina merkileg tímamót í lífinu. Er nefnilega fullviss um að þau gerast oftar en á sjö ára fresti einsog einhver kenning vill meina. Eru tímamót núna?

Which way to happy?

Annars vorum við ása að velta því fyrir okkur af hverju ekki sé löngu búið að stofna samskiptaráðuneytið í þessum skjalaheimi sem við lifum í. Þar væri hægt að leggja inn umsókn fyrir nánari samskiptum, ef hún er síðan samþykkt væri sambandi formlega þinglýst. Síðan væri auðvitað siðanefnd og eftirlit sem sæi um að fólk væri ekki að þvælast með ósamþykktum aðilum. hahaha fáránleg tilhugsun. Reyndar við nánari umhugsun er þetta reyndar til. Heitir bara gifting. Hinir hafa samt frelsi til að dandalast með hvaða ósamþykkta aðila sem er. Þökkum fyrir það.




skrefleysur?

Mánudagur. Oft búin að halda því fram að það séu hálfir dagar. Í dag er hann hálffullur af hálsbólgu eftir rigninguna og einhverjum óljósum óþægindum sem samt hafa enga góða ástæðu.

Fyrst það er svona lítið að gera í vinnunni hef ég of mikinn tíma til að velta hlutum fyrir mér. Auðvitað gæti ég þurrkað af eða eitthvað en sökum sjálfsvorkunnar í kjölfar hálseymsla finnst mér mikilvægara að dusta af rykinu af mínum hugsunum. Það skal viðurkennt að hugsanaflóðið fær almennt ekki mikinn séns á að safna ryki. Eiginlega hlakka ég til að hafa allt of mikið að gera í haust.

Voðalega högum við okkur stundum einkennilega. Af hverju fær fólk panik á alla kanta yfir samskiptum. Hvaðan kemur þessi fáránlega hræðsla við eitthvað en ekkert? Þarf þetta að vera svona erfitt? Enginn vill það sama, en samt eitthvað og helst meira en það sem það hefur. Samt á allt að vera hægt, allt er laust og allir möguleikar í stöðunni. Hvernig í ósköpunum er hægt að þverfóta sig innan um þessar kröfur og panikin sem á endanum þjóna engum tilgangi öðrum en flækja málin. Hvar á að vera pláss til að kynnast fólki ef við verðum helteknin af varnarkerfi eða skilgreiningum. Rauð flögg uppi um að fara ekki yfir mörkin. Hver veit hvar mörkin liggja?

Kann einhver að slökkva á þjófavörninni sem er innbyggð í fólk? Ég er að verða heyrnalaus af pípinu. Svo ef ekki pípir í mér þá er gulltryggt að ærast af öðrum. Kannski er lausnin að treysta á að engu verði stolið.

Einu sinni virtist vera nóg að fá fiðrildi í magann. Þá veit maður. Í dag er búið að bæta við hundrað öðrum atriðum sem þurfa að virka áður en eitthvað virkar. Einsog svona völundarhús þar sem maður eltir vísbendingar, heldur kannski að maður sé komin eitthvað áleiðis en þá er maður í blindgötu. Auðvitað heldur maður áfram í leiknum, en vonbrigðin að hafa miskilið alla leiðarvísa eru samt þarna. Frasi úr einni af uppáhaldsbókinni minni var eitthvað á þá leið að lífið væri svona einsog æfing fyrir leikrit sem aldrei var skrifað. Manni er hennt á svið án handrits né söguþráðs og þarf bara að spinna úr aðstæðum. Er það skrítið að maður lendi í vandræðum með að vita hvað er rétta skrefið.

Kýs að taka þá bara skrefleysur. Fyrst línuleg þróun er ómöguleg þá er bara hægt að snúa sér á tánni og horfa upp en ekki áfram. Þetta fer allt einhvernveginn á endanum.




stefnumótaþjónusta raftækjaverslanna

Segiði svo að raftæki séu ekki sexy. Hvað er betri vettvangur fyrir að kynnast fólki en heimilistækjadeildir í raftækjaverslunum. Gæti litið út fyrir að stúlkurnar þar séu færar í flestan sjó þegar kemur að heimilisverkum. Annars veit ég ekki hvað vakti fyrir guðfræðing á fimmtugsaldri sem ég seldi næstum því ískáp fyrir mánuði, en kom aftur í dag til að spjalla og vildi síðan endilega bjóða mér út. Kannski hefðu rauð flögg átt að koma upp þegar ég tók frá ískápinn og hann spurði bara um hvað ég væri að gera í lífinu en ekki virkni skápsins. Átti samt frekar von á dauða mínum en þessu. Laug því að sjálfsögðu að ég væri í langtímasambandi og hæstánægð með núverandi maka, enda er ég ekki komin á það stig að sötra rauðvín með latínukennara á aldur við föður minn.

Missjon okkar auðar að daðra bara við viðskiptavinina hefur greinilega borið einhvern árangur, jafnvel þótt ég hafi ekki stundað klívitsþemað. Verst að hann keypti ekki einu sinni neitt...

Endurtek að mér líst vel á veturinn. Hvað með það þótt ég sé að sjá betur að þótt ég sé með næstum 100 Einingar í háskólanum þá passi það ekki saman í BA próf. Hvað með það að ég sé ekki fram á að takast að vinna lítið og græða mikið. Ég er búin að fá frábæra íbúð á Eiríksgötunni, þrefalt sambýli í risinu með kisulóru hljómar æðislega. Rauðvín og kaffidrykkja, samlæring og kerti. Hef ekki þolinmæði langar að flytja strax strax.




Allt að gerast bara

Bókasöfn og vídjóleigur bæjarins hafa lifibrauð sitt á mér. Af hverju ég hef ekki lært á margra ára bókaleiguæfingu að það á að taka fáar í einu til þess að fá ekki háar sektir og að maður les ekki endilega tíu bækur á mánuði er ótrúlegt. Það grípur mig bara æði þegar ég flakka um gangana og fylli fangið af bókum sem ég get týnt mér í. Ok, partur af nýju líferni verður að hætta að styrkja bókasöfn að óþörfu. Til þess eru þau, eiga að vera ókeypis sko.

Í öðrum óspurðum fréttum er að ég fékk langþráð símtal í kvöld. Ungur maður hringdi til baka með jákvæð svör. JEI JEI. Lítur allt út fyrir að nýr kofi sé fundinn. Ekki að súpa kálið fyrr en í ausuna er komið eða hvernig sem þessi asnalegi málsháttur er, en honum leist vel á okkur (hvernig er annað hægt við erum svo sjarmó) og þráir ekkert heitar en að við búum í íbúðinni hans meðan hann skoðar önnur lönd. Nú þarf bara að fara í pappírsflóðið sem skiptingum fylgir og pakka búslóðinni og gera allt klárt. Fúff það er reyndar meira en að segja það, djísús.

Þar sem ég ljóstra engu upp fyrr en fyrrnefnt kál er komið í ausuna þá ætla ég ekki að vera með yfirlýsingar, en þetta er hugguleg risíbúð og yndælisklukkuturnar hallgríms munu spila morgunvísuna.

Það er allt að gerast, ég vissi að eitthvað færi að ganga upp einhverstaðar, finn á mér að þetta verður gott ár.




jei - nei

Jákvætt: Kjúklingur með alioli á cúltúra. Að ofninn í stofunni hætti að kynda svona ofsafengið skyndilega, svo svita og strippi í stofunni er lokið í bili. Græna kápan sem elli gaf mér í afmælisgjöf frá myrarna í svíþjóð. Milan Kundera í strætó. ennþá blonde redhead. afmæliskveðjur frá gömlum vinum í útlöndum sem maður hefur ekki séð í hundrað ár. semja ljóð til væntanlegra leigusala. blómalykt á miklatúni á hlaupum eftir strætó. óvæntar uppákomur. afleysingastrákurinn sem keyrir strætó og er afspyrnu hress. pabbi fyrir að bjarga mér þegar ég veit ekki hvað danfosskerfi er. Fólk sem kaupir sýningareintökin. Frelsi til að gera eiginlega allt innan skynsamlegra marka. kerti og rómantískir skóladraumar sem munu auðvitað gufa upp um leið og hann byrjar. Gott fólk sem lætur vita af sér. hlusta á tónlist í baði. Með hausinn ofaní vatninu. rauðvínsglösin frá stelpunum sem eru merkt -love- og -luva-. þegar ég er nógu snemma á ferð til að kaupa mér kaffi á leiðinni í vinnuna.

Neikvætt: Kveðja vini sem fara eða bara yfirhöfuð að aðrir fari en ég. Hlaupa niður á hlemm þótt það sé blómalykt á leiðinni. Finna ekki mp3 spilarann og vera tónlistarlaus úti í lífinu. Finna enga íbúð. Þjást af valkvíða, strútasyndrómi, flótta og draumórum en ætlast til að fá allt sem ég vil. eiga ekki 44 desibela siemens uppþvottavél né bíl. kalt kaffi. hælsæri svo ég get ekki verið í fallegu skónum mínum. vill eiga siemens WTXL1220 þvottavél og þurrkara í einu og einhvern sem brýtur saman svo ég hætti að eyðileggja fötin mín með þvi að gleyma þeim í vélinni í viku. ofpælingar, ofdrykkja, ofát eða allt með forskeytinu of. Marblettir. langvarandi þynnkubömmer og óljósar minningar um samtöl sem maður stendur fyrir en man engan vegin hvorugan endann á. endurteknir þættir á cirkus. Geta ekki byrjað á ba ritgerð á ítölsku þar sem maður man varla ítölskuna né hefur hugmynd um hvað maður ætti að skrifa um. pólitík af flestu tagi.




Hvernig þeim tókst að drösla mér uppá grindverk, yfir húsþak og hoppa niður af því auk þess að klöngrast upp brunastiga í pilsi nælonsokkum og fínni kápu gjörsamlega hauslaus eftir bjórþamb, kampavín og vodkaskot án þess að hljóta alvarlegri áverka en fjölda marbletta og rispur á fætur og læri auk þess að tína einsog einum skó á leiðinni er ótrúlegt. Reyndar fær hann prik fyrir að fara aðra ferð og finna skóinn. Bæti þessu við í reynslubankann. Greinilega er ég ekki í nógu góðu formi því auk þess að uppskera gríðarlega þynnku þá er ég alveg frá af harðsperrum. Nú hlýtur heilsa 2005 átakið að fara að hefjast.

Frábærlega ánægð með afmælið, þrátt fyrir svik að veðrið sveik mig svo garðpartýið varð bara innipartý. Litla systir bolaði sér stærri og eldri mönnum úr gítarspilinu og spilaði undir fjöldasöng meðan þeir glömruðu úti í bílskúr fyrir reykingarpésana. Afmælisvodkahlaupið klikkaði ekki og fastir liðir einsog fabíóleikfimi var á sínum stað. Fékk ótrúlega fínar afmælisgjafir líka, stelpurnar eru farnar að leita allra ráða til að koma mér út og fjárfestu í fávitafælu úr nornabúðinni sem er gerð fyrir fólk sem verður ástfangið af tilfinningalegum fávitum. Kemur örugglega að góðum notum í framtíðinni, nema kannski vandinn liggi ekki þar heldur að ég sé sjálf tilfinningalegur fáviti sem er alltaf möguleiki. Jæja nógur tími til að vinna í því, varabatteríin er búin og ég verð að fara að sofa. Shit hvað þetta var erfiður dagur.




Til hammara með ammara

AMMLI Í DAG. Mér finnst hrikalega gaman að eiga afmæli. Mér finnst hrikalega gaman að fólk muni eftir því. Takktakk þeir sem mundu það eða eiga eftir að muna það í dag. Hlakka þvílíkt til kvöldsins held það verði vel heppnað.

Gærkvöldið fór í ofurþrif á grafarvogshöllinni, þegar ég sagðist að sjálfsögðu mundi taka til bæði fyrir og eftir afmælið gerði ég mér ekki grein fyrir hvað biði mín. Útilegugræjur frá öllu sumrinu og flóð útifatnaðar og flispeysa og almennt drasl þakti neðri hæðina. Hvað um það tiltekt, þvottur og bakstur og allt er ready. Amæliskakan er dáldið glær en verður hressandi þó.

Sjáumst í kvöld!!!




grænmeti & raftæki bara bæði betra

Vááá hvað ég er úr æfingu að standa í lappirnar í fjórtán tíma. Í mínum heimi er þjónustulund og hamingja frá tíu til hálf tólf bara ógeðslega mikið. Kannski bjargaði því að ég fékk að skipta um umhverfi klukkan sjö og fara úr raftækjum yfir í útlendingabrjálæðið á grænmetisveitingastaðnum. Hljóp á milli með garnagaul og þreytu og mér mætir röð út á götu og troðinn salur, sveitt starfsfólk og brosandi túristar. Alltaf gott andrúmsloft þarna samt en ég mundi samt af hverju mig langaði ekki að vinna í matarbissnessnum tvetíforseven í bili. Stærstu mistök dagsins voru samt klikk klakk skórnir mínir nýju sem eru meira fallegir en þægilegir. Þegar ég var loksins búin að skúra einsog brjálæðingur og drösla hundrað kílóum af rusli út í tunnu klikk klakkaði ég niðrá brennslu til að redda mér fari með stúlkukindunum sem þar sátu í kjaftagangi og huggulegheitum og beint heim í uppvaskið. Hehe enginn friður, nú er greinilega ný törn að hefjast og enginn friður fyrir æstum íbúðaskoðendum sem eru mjög ergilegir yfir að ég skuli vinna á daginn og yfirhöfuð eiga mér líf.

Talandi um líf, þá er bara komin tími á eitt stykki partý. Glaumur og gleði á afmælisdaginn í gamla grabbanum sem er mun betur til þess fallinn að hýsa grill og gítars í garðinum en litla eskihlíðin. Ég treysti því að sjá allt mitt fólk þar ;)

Ekki dugir að drolla á netinu enda á ég að mæta aftur í vinnu eftir nokkra klukkutíma....








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com