Hosted by Putfile.com





lokadagur og geim

Glimmer og flugeldar. Vinir og vandamenn. Það er svo auðvelt að vera meir og mjúkur á svona dögum sem er sá seinasti en verður svo sá fyrsti. Ætla fara eftir eigin ráðum og gera ekki of mikið úr tímamótum en það einsog stjórnuspáin mín orðaði það þá; ef ég vil það sjálf þá verður næsta ár betra. Það er langt frá því að síðasta ár hafi verið sérlega slæmt en samt er jákvætt að allt fari batnandi.

Það er þokkalega ON 2006. Í öllum skilningi.

Hefst á því að Eiríksgatan er on í kvöld einsog ljóst er orðið. Upphitunargeim fyrir miðbæinn og yndælis sardínudósastemming með bjórívafi fram til þrjú eða svo. Þröngt mega sáttir sitja og vonandi taka allir tillit til plássleysis og stólaleysis.... Hlakka til að sjá alla með tölu.

Þeim sem ég hitti ekki í kvöld eða jafnvel þekki ekki óska ég líka gleði og glaums á nýju ári. Vonandi taka öll hjörtu aukaslag í ljósa og bombubrjálæðinu á miðnætti og muna eftir góðu hlutunum sem skipta meira máli en hinir verri. Kossar á línuna.




myglaður lokahnykkur

Fólk er galið. Ég veit að það er næstsíðasti dagurinn á árinu og allt það en að fólk sé mætt út klukkan níu á föstudagsmorgni til að prófa sprengjur er bara of skrítið. Alvarlega þurfti ég að velta fyrir mér hvort klukkan sé ekki örugglega hálf tíu að morgni en ekki kvöld, allt er í hring hvorteðer svo ég gæti alveg hafa misskilið eitthvað upphaf og endi.

Einsog hendi væri veifað er mér skotið upp einsog af slöngubyssu lengst uppí hugtakalegar himinhæðir og nú sveifla ég þar öllum öngum í tilraun til að grípa í eitthvað haldbært, lítið ský eða grein eða bara eitthvað sem heldur mér á skriði í fleiri daga. Án viðvaranna þá er einsog ég hafi fundið logsuðutæki og hamast á ritstíflunni einsog óð og þegar hún losnaði er vonandi væntanlegt flóð af orðum sem flæðir yfir wordforritið mitt. Ég geri mig nú ekki út fyrir að vera hvorki rithöfundur né skáld en núverandi hlutverk er þó í ætti við þeirra störf þar sem ég á að raða saman orðum og helst með sem mestri merkingu auk leiðindabagga einsog fræðilegs ívafs og akademískra vinnubragða.

Ég var farin að örvænta að fyrirfram fæðingarþunglyndi hefði lagst á mig þar mér var bókstaflega illa við eigið BArn og langaði bara að losna við það úr minni umsjá. Auk þess fullviss um að ég verði ömurleg MAmma og veit ekki einu sinni hvernig MA mma ég vil vera eða hvers lensk. Gebba minnti mig á það að þetta er bara tímabundið ástand og eftir fæðinguna þá elskar hver MAmma afkvæmi sitt enda þykir hverjum sinn fugl fagur.

Bjartsýni þótt það sé myrkur enda árið að líða í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka sem er öllu fyrir bestu. Eina sem ég þarf að gera í viðbót áður en það líður er að skila helv. skuldbreytingarvottorðinu til LÍN einsog einn og annar illa skipulagður en margviðvaraður námsmaður. Ég er þó í sérflokki þar sem ég rauk upp til handa of fóta við fyrstu tilkynningu og náði mér í eyðublað og lét rétta aðila skrifa undir. Hver vill missa af tækifæri til að borga minna í einu? Þó er staðan sú að það eru sjö klukkutímar eftir af skilafresti, en ég hef í höndunum undirskrifað vottorð dagsett í byrjun júní sem ég sullaði á og týndi síðan svo það er með mygluð horn. Geri aðrir betur.




seinni tíma u-beygjur sko

Verð nú að hryggja þá sem glöddust yfir hugsanlegri brottför minni en hinir sem hafa verið í paniki yfir því að hafa mig ei nærri geta glaðst á ný. Vegna þó nokkurra fyrirspurna skal ég upplýsa að ég er ekki búin að kaupa miða til indlands eftir helgi. Ætli ég haldi ekki að minnsta kosti einni tá í jarðtengingu og klári að útskrifast fyrst ég á bara tvo þriðju af ritgerð eftir. Fróðir og vellesnir vita líka að ég hef talað um indland í hverri einustu prófatörn í háskólanum. Þó hef ég uppi háar vonir að fyrst þetta sé sú síðasta hætti ég að tala og fari að gera bráðum. Búin að sitja með fínu bókina sem Auður gaf mér í jólagjöf með myndum frá Indlandi og strjúka þeim. Svo þetta er uppkomandi u-beygja en ekki handbremsubeygja.

Tengist því líka að ég þverneita að kolfalla í gryfju velmegunarsjúkdóma og sjálfsvorkunnar yfir eins miklum lúxusvandræðum og steðja að mér. Buhuu mig langar ekki að vinna nema eitthvað skemmtilegt, gáfulegt og vel borgað. Buhuu mig langar ekki að geta valið úr öllu námi í veröldinni því það er svo mikil ábyrgð og skuldbindingarkröfur. Buhuu af hverju er ég nógu mikið snobb til að andvarpa yfir rangri beygingu í deittilboðum, buhuu af hverju er ekki allt nákvæmlega einsog ég vil hafa það en bara næstum því allt? Buhuu ég á ekki einu sinni kötinn sem býr með mér, Buhuu ég er að falla út á tíma að gera allt sem til er. Það sér það hver með viti að þetta er ekkert nema sprenghlægilegt eða stórkostlega sorglegt ef ekki væri bæði í einu og einmitt þessvegna er mér alvara með því að ég og margir fleiri hefðum gott af því að upplifa það í fjarlægum kimum heimsins að það sé lúxus að vera á lífi og maður komist vel af þótt maður viti ekkert hver maður sé, hvert maður sé að fara né með hverjum.




u-beygjur

Ég er stundum álíka útreiknanleg og fullkomin stærðfræðijafna. Eða ein af þessum sannanlegum reglum sem sýna má frammá hvernig virkar á mjög einfaldann máta. Að minnsta kosti kem ég sjaldan sjálfri mér á óvart með óstabílli hegðun því það er mjög systemæsaður óstabíleiki.

Allavega. Systemið bregst sjaldan, í morgun hellti ég mér í skrifin. Fjórar línur bættust við ritgerðina, en aftur á móti er ég búin að sækja um sjálfboðaliðaprógramm á netinu í mars til indlands og malasíu. Fullt að gera þar meira segja fyrir fólk með óhagnýta menntun einsog mig. Góður ásetningur gildir mun betur þar en hérna. Og án efa fullt af alvöru börnum sem þurfa meira á einhverjum að halda en BArnið. Hellist yfir mig efinn um hvurn fjárann heimurinn hefur að gera við skrif um sjálfsleit í ljósmyndum. Hvað hefur heimurinn að gera yfirhöfuð við orð?




its on 2006

Það er alveg á hreinu að fólk veit að mér finnst heitir drykkir góðir. Jólagjafirnar mínar sýna það alveg svart á hvítu. Bæði teketill, kaffikanna, skærgrænn hitabrúsi, expressóbolli, tyrkneskt eplate og cappocinogræjur. Snilld.

Reyndar fékk ég ofsalega fínar jólagjafir þessi jól. Systir mín var eiginlega fúl þegar hun var að lesa á pakkana og fannst ég eiga alltof margar gjafir miðað við hvað ég væri ógeðslega gömul. Án nokkur vafa er fyndnasta gjöfin samt útivistargallinn frá mömmu og pabba. útivist? Þeir sem þekkja mig vita að ég er kannski oft mikið klædd en útivist kemur því ekkert við. En núna á ég ekki bara lopapeysuna fínu heldur regnheldann rauðan golfgalla, ofurþunnan fínan ullarbol og göngusokka. Pabbi vill meina að ég ætli með í sex daga fjallgöngu í sumar. Hver veit, kannski hætti ég allri óhollustu, reyki aldrei og drekk aldrei, sef á nóttunni og gerist bara A manneskja sem vaknar á morgnanna, klárar verkefnin sín og er með báðar fæturnar á jörðinni í einu.

Guði sé lof fyrir að þetta ár er að verða búið. Það eru bara fáir dagar eftir og síðan er ný byrjun. Lok og upphaf í einu bæði á dagatalinu, skólalega og í mér. Frelsi og taugaáfall þess að hafa allt valið í heiminum. Its on 2006.

BArnið getur beðið áfram. Kasólétt en grindargliðnun og allur fjandinn. Þarf að klára árið áður en ég get klárað ritgerðina. Glápa á uppáhaldsmyndina hennar auðar garden state. Einsog hún sagði þá er einsog þetta fólk skilji mann stundum þótt heimurinn geri það ekki. Frábær mynd.




Já og finnst þér eitthvað? Hvað finnst þér? svona í alvöru hverju myndirðu svara ef þú yrðir að svara sannleikanum samkvæmt og værir engum skyldum samfélagsins háður?

Ég er ekki viss um að manni finnist alltaf það sem manni dettur í hug þegar maður er fullur. Ég held samt að stundum detti sannleikur sem manni annars kannski hefði kannski ekki dottið uppúrmanni, geri það eftir bjór. Hvort þessi littli sannleikur er síðan gæfu eða ógæfumál er önnur ræða. Enda hef ég fyrir löngu búin að sjá að satt eða ósatt hefur ekkert með það að gera hvort hlutir gangi upp eða ekki...

Hvað vill maður? Ég veit alveg hvað ég vill. En maður fær aldrei það sem maður vill. Eða vill maður aldrei það sem maður fær?

Hvað sem efasemdum um það viðkemur þá fæ ég samt taugaáfall yfir því að aldrei muni neinn vilja mig á sama tíma og ég vill þá og þessvegna endi heimurinn á að vera stundum grár. Jesús sem ég trúi engan veginn á, en veit að akkúrat núna finnst mér rokið og leiðindin sérlega sannfærandi.

Ok rúmið er líka mjög sannfærandi.




Jólaglaður kaktus

Eflaust mörg heimili sem eru á síðustu stundu með allt saman. Veit ekki hvort margir fara samt í það uppúr tíu á þorláksmessukvöld að setja saman nýjar hillur, rífa allt niður úr gömlu stofunni og fylla neðri hæðina af meira dóti sem á engan samastað. Best af öllu samt þegar foreldrarnir urðu að kíkja í afmæli en ég neitaði að koma með þar sem einhver yrði að taka til svo það gætu komið jól. Ein á kafi í flóði af bókum, geisladiskum og hvaðveitmaður hækkaði ég bara í heimabíóinu og hló að þessu. Það tilheyrir bara að milli þrjú og fjögur um nótt sé að komast mynd á húsið og við mamma að klára að pakka inn öllum gjöfum. Ég var komin með hundleið á jólalögum svo söngleikjaþema var til að stytta stundir og gólað af hjartans lyst með jesuskristursúperstjarna,hárinu og evítu.

Jólaboðskapurinn leynist víða, dæmisagan um kaktusinn hennar mömmu er lýsandi fyrir það; Ég velti fyrir mér hvort það væri staðreynd að deyjandi kaktusar blómstruðu, mamma taldi að blómagreyið (eru kaktusar blóm eða sértegund?) þyrftu að upplifa árstíðaskipti til að breyta til, deyja eða blómstra. Til dæmis ef maður geymir blóm/kaktus í myrkri og kulda inní bílskúr til dæmis og færir það síðan út í glugga þar sem hann fær sól og hlýju þá blómstrar hann af gleði sinni að vera á lífi og hafa lifað af... Svo bætti hún við að það væri alveg eins með fólk, ef það væri aðeins í myrkri og leiðindum yrði það svo ógeðslega glatt þegar birti að það blómstraði.

Jólaboðskapur ársins, að það eru allir einhverntímann í kuldanum í geymslunni og eru á endanum settir útí glugga og fá birtuna og keppast við að blómstra. Ég er að spá í að verða glaður kaktus á næsta ári.




jólastressgeðveikinni þröngvað uppá mann

Verslunarmiðstöðvar með kaupkvetjandi tónlist, flúorljós og mannmergð hafa undarleg áhrif. Ég tel mig vera sæmilega yfirvegaða manneskju, kíkti með Sigrúnu í smáralind í gærkvöldi milli níu og tíu rétt til að sjá hvort það væru einhver falleg föt sem vantaði heimili. Smám saman æstist kapphlaupið við tímann og allar búðirnar og ókeypta hluti, mér hitnaði í kinnunum og hreinlega svitnaði af stressi. Þegar ómaði í hátölurunum "Kæru gestir vinsamlegast athugið að nú eru fimmtán mínútur í lokun" fékk ég kaldan svita niður bakið og krampa í magann því ég væri að missa af einhverju. Hefði sennilega keypt kápuna, rándýru peysuna og margt fleira ef sigrún hefði ekki potað í mig og minnt á að ég gæti keypt í matinn í mánuð fyrir þessar upphæðir og atli minn kann henni án efa góðar þakkir því nóg hefur hann verið straujaður í mánuðinum.

Ég keypti þó eitthvað og sérlega ódýrt og í grænu þema einsog stundum áður. En ég furða mig ennþá á því hvað ég get verið áhrifagjörn og var smá stund að komast niður af adrealínrushinu. Einsog það væru himin og haf að farast ef ég færi í jólaköttinn.

Í tilefni þess vil ég minna á að hvað sem jólin eiga að þýða ætti maður að nýta þau í að njóta litlu augnablikanna og fólksins sem gerir lífið að því sem það er. Stress getur beðið janúarmánaðar.

ps. Það snjóar og snóar. Hvít jól eftir?




enginn tími

Gníst. Það er nítjándi desember. Virðast vera jól eftir augnablik. Tíminn að renna frá mér í skrifum. Annar fundur með leiðbeinanda sem leit uppúr efnisgrindinni minni og horfði á mig mjög alvarleg. Sagði síðan; þetta er yfirdrifið verkefni í doktorsrannsókn. Ég er ekkert að grínast. Þú VERÐUR að hætta að leyfa hugmyndum að fljóta útum víðan völl.

Hún reyndi þó að peppa mig upp að þetta væri svo sem ágætt og ég gæti séð mína sæng út breidda og reynt að klára þetta verkefni bara það sem eftir er af fræðimannsferli mínum. Benti mér góðfúslega á frægan kall sem byrjaði á litlu verkefni en vann því næstu sextíu árin. En plís, reyndu að líta á þetta BArn sem "sýnishorn" á vinnubrögðum en ekki breakthrough í íslenskum listfræðirannsóknum.

Svo sagði hún mér bara að skrifa. Hætta þessum vandræðagangi og einbeita mér að því að semja samfelldan texta. Já bara kærulaus, ekki halda aftur af þér með of mikilli sjálfsgagnrýni, síðan sagði hún mér sögur af góðvini sínum sem alltaf fékk tíu í háskólanum og þakkaði það rauðvínsdúnki og því að skrifa meðan hann var léttur. Það væri stundum sniðugt. Já það er léttleikinn sem blívar. Best að fara í ríkið og eiga nóg af rauðvíni þá bobblar þetta út úr mér einsog ekkert sé!!




Grúsker

Shit. Klúðraði online quizinu hennar hlífar allsvakalega. Djö, en samt var allavega í fjögur skipti sem ég ætlaði sko að klikka á rétt en breytti síðan um. Telst ásetningur með í stigafjölda?

Því miður er það einsog með lífið, sumt telst varla með nema það gefi formleg stig eða skilgreiningarheiti í formi titla, starfsheita eða gráður. Misskilningur sérhæfingarþjóðfélagsins. Are jú sombodí?

Grúsk. Orð vikunnar. Grúska í möppum og skjölum og sýningarskrám og blaðaúrklippum sem er algjörlega sundurlaust, fyrir utan að vera flokkað eftir listamönnum í möppur. Úr þessu samansafni af slitróttum upplýsingum mun síðan vaxa skilningur minn á listrænni ljósmyndun á tíunda áratugnum. (Sem ég er enn í vandræðum með að samþykkja í huganum að sé sko nítíuogeitthvað. Þetta með að núna sé fyrsti áratugur annarar aldar er stundum bara svo öfugt) Mér til happs er líka að íslenskir listamenn eru sérdeilis netvæddir og flestir með heimasíður sem hjálpar.

Fólk getur verið óheppið með allskonar hluti í lífinu en það að vera með hræðilega rödd finnst mér eitt það versta í heimi. Svona rödd sem sker allt og hlátur sem nístir bein og minnir bara á hýenur. Sat í netheimildarleit á kaffihúsi og hliðiná mér skrækti þessi líka skelfilegi hæperhýenuýluofsagerfihlátur í krampaköstum á nokkra mínútna millibili því allt virtist vera nógu fyndið sem viðmælendur hennar sögðu. Úff.

Jólainnkaup. Afneita strauun, jólaskreytingum og hreingerningum. Langar samt að kaupa jólagjafir svo ég rölti laugarveginn í stað þingholtanna heim. Eina sem ég hafði uppúr því er lush kanilbombufreyðibað handa sjálfri mér. Það sér hver maður nauðsyn þess að fara í slíkt jólakanilbað. En sólin skein bakvið perluna og lýsti upp fjöllin fyrir aftan þarna, hvaðsemþauheita. Bláfjöll og allt í kring. Sterkgulblá birta í gegnum grá ský og dáldið kalt en samt ekkert svo. Datt bara í hug frumkvöðlarnir í landslagsmálun og slagorð einsog blámi íslands og hátt til lofts og vítt til veggja. Rómantíkin maður.

Hvernig bætir maður sundurlausa hugsun? Hvernig setur maður samhengi í sjálfan sig, verkefni, skipulag og lífið? Ég finn heilann á mér rymja af áreynslu við að koma öllum brotakenndum hugmyndum saman, allt sem ég veit en get ekki sett saman í vitrænt samhengi. Ég get ekki einu sinni skipulagt fólderana í mæ dokjúments á tölvunni hvað þá svona óhlutbundnar hugmyndir í hausnum. Shjæse.




´Róttæk leiðindi

Stundum er athyglisvert að ég skuli lifa í hæstastigi. Það er sjaldan neitt miðstig og það á við um lærdóm á móti lærdómsleysi í rosalegum törnum, djamm eða djammleysi rétt einsmikið og persónlegt drama. Að sjálfsögðu er ég græn í framan að rembast við að ná að lesa glósurnar rétt fyrir morgunsárið og prófið þar sem dagurinn fór í svefn eftir geysilega athyglisvert djamm.

Enn og aftur sannaðist kenningin um skort á millistigi. Fór af ofurfína samsætinu á hótel sögu þar sem drukknir voru ránrándýrir kokteilar á barnum frekar hæfandi oliubarón en fátækum námsmönnum yfir í rosalega danssveiflu á nellys sem er án efa einn sveittasti staður borgarinnar, nema ef vera skyldi boomkikkers þar sem kvöldið endaði. Vel krumpaður og yndæll gamall barþjónn sagði mér að hann væri hræddur við kvenfólk, en líkaði samt ágætlega við mig. Flest mikilvægt fólk væri konur en þær væru bara svo klárar og ákveðnar og vissu allt betur en karlmenn. Jah hann hefði getað verað að reyna við mig ef hann hefði ekki verið mjög greinilega í hinu liðinu. Ég hef nú líka verið sérlega elskuð í hlutverki mínu sem hommahækja í gegnu tíðina. Hvað er það sem ég hef? Já hemmi minn snemma heim?

Get ekki stillt mig um að minnast á að nú virðist caveman sindrómið vera í hámarki og nú hvarflar ekki að neinum að leggja á sig miklar viðreynslur eða eltingarleiki. Furðulega oft síðustu útstáelsi er einhver karlkyns sem eftir rétt svo halló, kemur með línuna, jæja eigum við að drífa okkur heim til þín eða mín. Hvort þetta virkar venjulega hjá þeim veit ég ekki, en þó fannst mér best þegar ég tók dramakastið á einn um mikilvægi hluta í tilverunni, og eftir litla ræðu deildi hann því með mér að honum fyndist nú fullsnemmt hjá mér að láta einsog geðvond kærasta sem æsti sig yfir því hvort honum væri bara alveg sama.

En þar sannaðist að sjálfsögðu að öllum aðilum var alveg sama og fanst mér jafnóviðeigandi að hann léti einsog hann gæti dregið mig heim á hárinu bara því kaffibarinn er sveittur. Mikið ofsalega er mikil viðbjóðsleg leið á að fólki sé alveg sama.

Námið mitt er stundum alger snilld. Beint quote úr glósum frá kennaranum; Kracauer lýsir þessari unaðslegu tilfinningu að hangsa og finna til einhverskonar innri leiðinda og ókyrrðar en hafa ekkert fyrir stafni. Að kjósa leiðindin er andóf, með því staðfestum við að við höfum enn vald yfir okkar eigin tilveru, höfnum ríki afþreyingariðnaðarins. Þar hafðiði það, nú getur maður sko látið sér leiðast og haft með því róttæka og menningaralegar fyrirætlanir. Segiði svo að ég sé að læra tilgangslausa hluti. Lífið.




julefrokost tak

Ok. Þegar mann er farið að dreyma spjall á nóttunni, í formi msn glugga sem poppa upp í staðinn fyrir að dreyma samræðurnar...eða bara að hitta fólk í persónu, þá er hlýtur nú nóg komið í tölvulífinu.

Næturdýrið segir til sín, ég vaki alltaf á nóttunni, þrátt fyrir að það sé yfirleitt alltaf myrkur og lítill munur á því hvort klukkan er fimm að degi eða nóttu, að minnsta kosti ekki þaðan sem ég horfi yfir heiminn útum gluggann yfir skrifborðinu.

Gríp tækifærið fegins hendi að vera boðið á ókeypis jólahlaðborð með vinnunni sem ég vinn ekki í lengur og ætla rífa mig frá stólnum, tölvuskjánum og heimafötunum sem eru á leið með að gróa við mig og njóta þess að klikk klakka í kjól þangað í góðan jólafrokost. Namminamm




vitleysa í kaffialsnægtum

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk fer að því að vera svo stressað í prófum að það grennist. Vildi óska að ég væri nógu stressuð yfirhöfuð svo ég færi yfirum að lærdóm einsog ég þarf núna. En ég hef aldrei eins mikinn tíma til að borða og taka kaffipásur með kandískálinni einsog í prófatíð.

Þar sem ég held uppá bjartsýni og tel það góðan eiginleika þá hefur "þetta reddast á endanum" hugsunin alltaf verið gild. Eitt besta dæmi um bjartsýni dagsins í dag, er fólkið á neðstu hæðinni í næstu blokk sem hengdi út heila snúru af þvotti í morgun. Dagurinn í dag var einhver sá gráasti og dimmasti ársins með grenjandi rigningu og öllu tilheyrandi. En það má vona að það stytti upp....

Þessvegna sit ég í svitabaði sökum ofkaffidrykkju með súkkulaðislef útá kinnar rétt búin að klára eina míní tíubls ritgerð og horfi á það ólýsanlega magn af ólesnum greinum og fræðum sem ég þarf að kunna skil á fyrir næsta mánudag og þykist samt fullviss um að ég hljóti að rúlla þessu upp...... og blogga í staðinn fyrir að læra.

Little pleasures. Keyrði um áðan í smá reddingum og rúðupissið kláraðist. Með drulluga vegi þá myndaðist svona himna yfir framrúðunni svo öll ljós frá bílum og ljósastaurum urðu svona teygð og toguð og mynduðu stjörnur þvílíkt fallegt. Soldið einsog þegar maður er gleraugna/linsulaus í heiminum, aumingja fólkið sem hefur aldrei upplifað það.

Með aukinni umferð var það orðið ansi óþægilegt að sjá óskýrt út en en ég elti bara næstu ljós og hugsaði með mér hversu oft maður hefur ekki keyrt í brjáluðum snjóbyl þar sem ekki sést neitt, miðað við það er nú bara smámál að keyra með drulluröndótta rúðu.

Ó mig auma. Af hverju fæ ég ekki pásu og djamm í kvöld eftir ritgerðarskilin? Af hverju þarf ég að læra stanslaust þangað til um miðjan janúar? Þó lítur allt betur út núna eftir að ég fékk sendar glósur úr öllum tímum sem ég mætti ekki í þennan vetur.... sem er slatti. Gott að eiga góða vini. Sem mæta betur en þú.




fölnandi rómantík

Má ekki vera að því að nota orðin mín í annað en ritgerðarsmíðar í litlum og stórum útgáfum og lesa fyrir próf.

Þó hvarflaði að mér sú skemmtilega hugdetta að það sé einhver stærsti misskilningur lífs míns að maður sé að leita eftir einhverjum sem er einsog maður sjálfur. (Er maður ekki að ætlast til að vera skilinn og svo framvegis og ætlast til að karlmenn fatti þankaganginn fullkomlega) Kannski er málið einmitt að finna einhvern sem borðar konfektmolana sem þér finnst vondir, er það ekki fullkomið? Báðir aðilar lukkunnar pamfílar og telja sig hafa fengið allt sem þeir vildu, og fengu allt sem þeir vildu.

Rómantíkin er að fölna á Eiríksgötunni. Ég hika ekki í augnablik við að pissa með opna hurð meðan einn tannburstar sig og tala við annan sem er að elda í eldhúsinu en kötturinn drekkur vatn í baðinu og rétt sleppur frá bununni frá þvottavélinni sem hamast milli baðkarsins og klósettsins og dælir út af sér í baðið.

Þegar ég lýsti yfir áhyggjum mínum við gerði að nú væri grár hversdagsleikinn tekinn við minnti hún mig á að það sem við höfum nú er jafnvel betra. Innileiki og nánd sem tekur við af rómantíkinni. Auk þess að svo heppilega vill til að allir meðlimir kommúnunnar eru í mjög opnu sambandi svo ekkert kemur í veg fyrir að finna sér rómatík utan veggja heimilisins.




lúppur og lærdómsleysi

Þórir á stúdentakjallaranum varð ofan á fyrir föstudagskvöldið þrátt fyrir svo ólýsanlegar harðsperrur að ég bara veit ekki hvaðan allir þessir vöðvar fela sig á líkamanum sem mig gat verkjað í. Þó lét ég það ekki stöðva mig í að fara út á hælastígvélunum enda getur smartleikinn verið dýrkeyptur. Hin besta skemmtun og flótti frá því að vera lærdómspési og tek hundsið á lúppuna sem ég er búin að koma hugarfluginu í, það að auki lít ég þannig á að það sé heilög skylda námsmanna að fá sér ódýrann bjór öðru hverju.

Uppgvötaði að eitt besta þreytu og þynnkumeðal eru jólatónleikar með módettukórnum í hallgrímskirkju með saxafónleikara og ofurlitlum ellefu ára dreng sem söng einsog engill án þess að blása úr nös af stressi. Allavega ekki sjáanlega, greinilega stáltaugar þar á ferð auk hæfileika.

Fór með mömmu í jólaeinhverskonar leiðangur og við komumst að þeirri staðreynd að það er ekki hægt að versla mikið fyrir tólf á sunnudögum. En ég hafði það þó af að kaupa fleiri kerti og einhverskonar seríur. Athyglisvert í ljósi þess að einmitt það fyrsta sem ég keypti þegar ég flutti að heiman var sería...og ef ég á eitthvað þá eru það kerti í hinum ýmsu litum og lyktum en getur maður ekki alltaf ljósum á sig bætt.

Próf eru leiðinleg. Á meðan meðvitundin skipuleggur lærdómsmaraþonið er undirmeðvitundin bara að skipuleggja jóladjamm og jólahuggulegheit.

Hin stórmerkilega kona langamma mín sem á morgun verður fimm árum minna en öld að aldri, gaf mér bókastafla í morgun. Ég á stundum ekki orð yfir því hvað hún er klár, og er upp með mér að hún gefi mér þessar bækur sem eru algjörir gullmolar í hennar augum. Meðal höfunda eru tolstoj, viktor hugo, benidikt gröndal, oscar wilde og fræðibækur um íslenskar "nútíma"bókmenntir frá 1918-1948. Auk þess bók um rauða penna og sósíalistarithöfunda íslands. Ég gat ekki annað en kímt yfir einni ævisögunni en hún sagði hann merkilegan og góðan mann þótt hann hefði nú verið ansi mikill morgunblaðsmaður... öðrum orðum klár en sjálfstæðismann. Hehe hún er kostuleg.




myrkrið

Dagurinn í dag var dagurinn. Vetrardagurinn þegar maður gerir sér fyrst af alvöru grein fyrir myrkinu sem leggst yfir allt. Þegar maður býr í útlöndum gleymir maður myrkrinu ótrúlega fljótt. Líka á sumrin. Þrátt fyrir að vita alltaf að það kemur og finnast það jafnvel huggulegt þá kemur það mér alltaf á óvart.

Þegar maður vaknar í myrkri og næst þegar maður fer út úr húsi er aftur komið myrkur þá er einsog tíminn sé styttri eða ósýnilegri en venjulega. Þegar klukkan er fjögur og orðið næstum dimmt og maður labbar heim innan um jólaljósin á skólavörðustígnum og finnst einsog það sé að minnsta kosti kvöldmatartími þá verður maður hálf ringlaður.

Í öðrum ringluðum fréttum þá skil ég ekki að það sé desember á morgun. Ég skil ekki hvert haustið fór. Ég er í rússíbana niðurlúppu í barnasköpun eftir upplifunina að standa fyrir framan hið gríðarlega skjalasafn listasafn íslands og átta mig á umfangi þess efnis sem ég ætlaði snarlega að kreista út frumrannsóknir á. Það er eitthvað ósegjanlega týpískt við það að ég ætli á næsta mánuði að læra heimildaröflun, komast yfir allt þetta efni og segja eitthvað vitrænt og djúpt um það fyrir ritgerðina, í staðinn fyrir að hafa skrifað bara um eitthvað einfalt sem ég þekki (fyrir utan að inní þennan mánuð blandast próf, aðrar ritgerðir og síðan þetta með jólin, áramótin, gesti og jólaboð). En ég reyni að horfa á björtu hliðarnar að það hljóti að gagnast mér á endanum einhverstaðar í lífinu að fara ekki auðveldu leiðina að neinu.

Góða hliðin er að ég hef lúmskt gaman af því að hafa mikið að gera og leysa vandamál. Og í öllum þessum hlaða er ógrynni af annarra manna spennandi hugmyndum sem krydda manns eigins og í staðinn fyrir að taka upp plássið þeirra þá springa hinar sem voru fyrir og þær sem bætast við út.

Ég gerði mér skyndilega grein fyrir dálitlu um daginn. Það er misskilingur sem ég hélt fram um daginn að maður ætti upplifanir einn. Stundum á maður þær ekki nema að hluta til einn. Þegar það er búið að deila einhverju þá er það ekki lengur einkaeign. Meira segja þegar kemur að eigin hugsunum eða hugmyndum. Eins fáránlega einfalt og það er, þá var það mér samt tilefni til að staldra aðeins og endurraða í hausnum á mér.








Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com


Hosted by Putfile.com